13.12.1971
Neðri deild: 26. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í B-deild Alþingistíðinda. (344)

126. mál, almannatryggingar

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Þm. hafa ekki séð þetta frv. fyrr en nú í dag. Engu að síður taldi ég sjálfsagt að verða við ósk um það, að það mætti koma þegar í stað til umr. Og ég er þess fullvíss, að minn flokkur, Alþfl., mun stuðla að því, að þessi d. geti afgreitt frv. svo tímanlega, að það geti komizt til hv. Ed. svo löngu fyrir hátíðir, að unnt verði að afgreiða frv. sem lög á þessu ári, þannig að það geti tekið gildi 1. jan. n.k. Við lauslegan yfirlestur á frv. er mér óhætt að fullyrða, að Alþfl. mun samþykkja meginatriði frv. og stuðla þannig að framgangi þess nú þegar fyrir hátíðir. Ég vona, að það sé talið eðlilegt, að ég hlýt fyrir flokksins hönd að áskilja honum rétt til þess að athuga einstakar greinar nánar en eðlilega hefur unnizt tími til. Er þá sjálfsagt, að n. geri það og flytji eða fylgi brtt. við einstakar greinar, ef slík athugun á einstökum atriðum leiðir í ljós, að það er talið eðlilegt.

Í því sambandi vildi ég t.d. nefna 11. gr., þar sem sú breyting er gerð á gildandi skipan, að afnumin er sú lagaskylda, sem nú er í gildi, að fjölskyldubætur skuli hækka sjálfkrafa í samræmi við breytingar á almennu kaupgjaldi. Þetta er atriði, sem sjálfsagt er að ræða nánar og athuga nánar í n., en ég nefni þetta aðeins sem dæmi þess, að það kann að vera, að einstök ákvæði í frv. þurfi sérstakrar athugunar við og ýmsum kunni að þykja ástæða til þess að gera breytingar þar á, a.m.k. meðan ekki hafa enn borizt fyllri skýringar á rökum fyrir þessu, en komu fram í ræðu hæstv. ráðh., þó að ég raunar ætlist engan veginn til þess, að einstakar greinar séu skýrðar við 1. umr. málsins, og er þetta því ekki aðfinnsla af minni hálfu.

Ég hlýt auðvitað að harma það, að jafn mikilvægt mál og hér um ræðir skuli ekki berast Alþ. fyrr en raun ber vitni um, en um það er ekki að sakast. Hér er mái. sem tvímælalaust á að hafa forgang, auk fjárlaga, í starfi þingsins fram að hátíðum, og flokkur minn mun stuðla að því, að það fái þann forgang.

En eins verð ég að láta getið. Hæstv. ráðh. upplýsti það í ræðu sinni, að kostnaðarauki af þessu frv. mundi nema 550 millj. kr. Hins vegar veitti ráðh. engar upplýsingar um það, hvernig ætlunin væri að afla tekna til þess að greiða þennan mikla kostnað, 550 millj. kr. Að sjálfsögðu skiptir það meginmáli í sambandi við öll frv., sem valda útgjaldaauka, og ekki síður þau, þar sem útgjaldaaukinn gengur til hinna beztu nota, hinna mestu þarfa, hver á að borga kostnaðaraukann. Það er hugsanlegt, að þegar að því er komið að ákveða, hver greiða skuli, þá sé að verulegu leyti tekið til baka með annarri hendinni það, sem búið var að veita með hinni.

Ég fékk þær upplýsingar í morgun, að enn lægi ekki fyrir áætlun hæstv. ríkisstj. um tekjuhlið fjárlaga, og er þó 2. umr. fjárlaga ákveðin þegar á morgun. Ég minnist þess ekki í 25 ára þingsögu minni, að 13. des., þ.e. þegar aðeins rúm vika er eftir af venjulegum starfstíma þingsins, liggi ekki fyrir nákvæmar upplýsingar um það, hvernig hæstv. ríkisstj. hugsar sér að afla fjár til þess mikla útgjaldaauka, sem þegar er komið fram af hálfu hv. fjvn., að um verður að ræða. Þetta ber að harma. Ég efast ekki um, að upplýsingar um það muni koma á morgun, þegar 2. umr. fjárlaga hefst, en ég vek athygli á því, að það er algerlega óvenjulegt, og að því er ég bezt veit, einsdæmi í starfssögu þingsins, að tekjuáætlun ríkisstj. sé jafn síðbúin og nú á sér stað, ekki hvað sízt þegar það er haft í huga, að fjárlagafrv. sjálft hækkaði um nál. 3000 millj. kr. frá gildandi fjárlögum, og vitað er, að í meðförum þingsins muni fjárlagafrv. enn hækka, að því er sagt er milli þm., einhvers staðar á milli 1000–2000 millj. kr. M.ö.o., þegar það virðist liggja fyrir, að væntanleg fjárlög fyrir árið 1972 muni verða einhvers staðar á milli 4000–5000 millj. hærri en gildandi fjárlög, þá skuli þingheimur ekki fá vitneskju um það, hvernig þessum útgjaldaauka eigi að mæta, fyrr en rúmri viku áður en fjárlög eru afgreidd. En ég skal ekki blanda umr. um þetta inn í þetta mál, en um þetta gefst eflaust nægilegt tilefni til þess að ræða í sambandi við fjárlögin sjálf.

Erindi mitt í ræðustól að þessu sinni var það eitt að lýsa því yfir fyrir hönd flokks míns, að hann mun stuðla að því, að þetta frv. geti orðið að lögum, áður en Alþ. fer í jólaleyfi, auðvitað að áskildum venjulegum fyrirvörum um það, að við kunnum að óska eftir að breyta einstökum greinum þess, en í heild munum við fylgja frv.