02.11.1971
Sameinað þing: 9. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í D-deild Alþingistíðinda. (3472)

12. mál, samgöngumál Vestmannaeyinga

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætla nú aðeins að segja nokkur orð til þess að tefja ekki þessar umr. of lengi. Hæstv. samgrh. talaði um það, að þetta væri ekki þingmál, vegna þess að þarna væri um að ræða að segja ríkisútgerðinni fyrir um skipaferðir á einstakar hafnir. Þetta fellur ekki undir það að mínum dómi, því að Herjólfur er aðeins rúta milli Eyja og lands, milli Eyja og Reykjavíkur, skipið er skráð heimilisfast í Vestmannaeyjum. en liggur í Reykjavík. Hann bar einnig saman ræðu mína og hv. 3. þm. Sunnl., Guðlaugs Gíslasonar. Um þetta mál vil ég segja það, að þar sagði ég, að skipið, loftpúðaskipið, dygði trúlega yfir alla sumarmánuðina og fram á haust, en endanlega, örugga lausn í samgöngum milli Eyja og lands álít ég vera nýtt skip, eins og ég lýsti hér áðan.

Þá kom hæstv. ráðh. enn að því, að þessi fyrsti liður væri ekki þingmál. Ég er á annarri skoðun. Þetta atriði þáltill., fyrsti liðurinn, er þingmál, vegna þess að raunverulega silkihúfan, menn Skipaútgerðarinnar, gerðu ekki neitt. Hins vegar vann hin nefndin og mátti því vinna áfram, vegna þess að hún skilaði árangri og hefði sjálfsagt komið með nýjar till., hagkvæmar og studdar gildum rökum um áframhaldandi samgöngur milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar. Hins vegar vil ég þakka hæstv. ráðh. fyrir að segja það, að Vestmanneyingar hefðu sérstöðu í þessu máli og vegna þessarar sérstöðu þyrfti að bæta úr þessum vandræðum okkar í samgöngumálum. Og þakka ég honum aftur fyrir góðar undirtektir við málið í heild, og ég treysti því, að málið fái skjótan og góðan framgang.