02.11.1971
Sameinað þing: 9. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í D-deild Alþingistíðinda. (3473)

12. mál, samgöngumál Vestmannaeyinga

Flm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Ég var nú búinn að tala tvisvar og hef ekki aðstöðu til að gera nema stutta aths., enda þarf ég ekki annars með.

Ég vil leiðrétta það, sem hæstv. samgrh. sagði hér áðan, að ekki væri komin reynsla á svifskip. Á svifskip er komin mjög mikil reynsla. Þessi gerð, sem hingað kom til landsins, hefur siglt víða um heim, kannske ekki við aðstæður eins og eru milli Vestmannaeyja og Landeyjasands, en víða um heim. Aftur er komin nokkurra ára reynsla á farartæki af sömu gerð, sem siglt hefur yfir Ermarsund á undanförnum árum. Það er bara það stórskip, að við höfum aldrei látið okkur dreyma um, að til mála kæmi, að við keyptum slíkt skip til ferða á milli Eyja og Landeyjasands. En reynslan á farartækin er þegar komin, bæði við aðstæður eins og eru við Eyjar, þar á ég við skipið yfir Ermarsund, og eins á hin smærri skip, þar sem þau eru talin henta. En hitt er rétt, að á millistærð, sem nú á að fara að byggja, er ekki komin reynsla, vegna þess að það er fyrsta skipið, sem ég veit um, að er í byggingu. Það er einmitt þetta, sem ég legg áherzlu á, og hæstv. ráðh. hefur tekið mjög vel undir að láta athuga þetta, og ég þakka honum fyrir það að vilja láta athuga, hvort sú tegund, sem nú er í byggingu vestur í Kanada, hentar okkur ekki og leysir þann vanda, sem þarna er um að ræða.

Ég vil ekki fara að pexa hér um þá nefnd, sem hæstv. ráðh. upphóf með bréfi eða lagði niður með bréfi til okkar. Að hann hafi gert það vegna þess, að hún hafi verið búin að ljúka störfum, er mjög mikill misskilningur. Við höfðum á réttum tíma og með nægum fyrirvara gert sumaráætlun fyrir hin skipin. Við vorum setztir niður og farnir að tala um að gera haust— og vetraráætlun fyrir skipið, þegar okkur barst þetta bréf í hendur, og ég segi, að því miður vorum við ekki búnir að skila því verkefni, enda ekki áliðið og ástæða til að ætla, að það væri búið að því. En okkar till. hefði án efa verið eins og fram kemur í fyrsta lið till., sem hér er til umr., þannig að það þurfti ekki að leggja nefndina niður vegna verkefnaskorts. Það lá beint fyrir að gera áætlun yfir haust— og vetrarmánuðina, eins og við vorum þegar farnir að ræða um.