18.04.1972
Sameinað þing: 57. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í D-deild Alþingistíðinda. (3480)

12. mál, samgöngumál Vestmannaeyinga

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Hæstv. samgrh. flutti hér býsna hvassyrta árásarræðu á mig persónulega í sambandi við mína jómfrúarræðu. Ég vona, að ef hann fær af henni afrit og les hana yfir, þá skilji hann, hvað ég var að fara. Ég talaði um þessa herra í kerfinu, sem ég nefndi þessu óviðurkvæmilega nafni að hans dómi, og skal vel viðurkenna, að ég hef kannske tekið heldur hvasst til orða, og vildi þá reyna að draga úr því núna, fyrst hæstv. ráðh. Hannibal Valdimarsson er orðinn málsvari þeirra, sem vilja vera mjúkmálir, en manni hefur ekki alltaf heyrzt, að hann hafi reynt að forðast það að vera hvassyrtur sjálfur á sínum stjórnmálaferli. Ég talaði um, að þeir svöruðu ekki bréfum. Þó að hæstv. ráðh. virðist afar hörundsár varðandi orðalag minnar jómfrúræðu, finnst mér eðli málsins samkv. óhætt, að jómfrúræður séu eitthvað, sem eftir er tekið. Hvort sem þetta hefur verið ærumeiðandi eða eitthvað í þá átt, þá er staðreyndin hins vegar sú, að einhvers staðar stoppaði þetta erindi á leiðinni. Við Vestmanneyingar fengum a.m.k. ekkert svar við þessu erindi okkar.

Hann gerði býsna mikinn greinarmun á því, hvort um formlegt bréf var að ræða eða jafnvel endurrit af endurriti. Það finnst mér ekki skipta nokkru máli. Aðalatriðið er auðvitað það, hvort efni endurritsins, bréfsins eða hvað á að kalla það kemst til skila og hvort þessir herramenn hafa getað lesið það, skilið það. Aðalatriðið er ekki, hvernig formið var.

Það, að þessar ásakanir hafi verið ósannar eða tilefnislausar með öllu, eins og hann segir, er að mínum dómi ekki rétt, því að við fengum ekki svar, eins og ég var búinn að segja áðan.

Hæstv. ráðh. hélt því fram, að ég hefði með orðum mínum áðan viðurkennt, að vetrarferðir væru ekki heppilegar milli Vestmannaeyja og lands. Við Vestmanneyingar og ekki sízt þeir, sem hafa stundað sjó á þessu hafsvæði, eins og ég hef gert í fjöldamörg ár, vitum ósköp vel, að það er ekki hægt að fara þarna á hverjum degi. Því hamlar veður. En hins vegar er alls ekki loku fyrir það skotið, að það sé hægt að fara þarna fjölmarga daga yfir vetrarmánuðina.

Hæstv. ráðh. bar fyrir sig þrengsli í höfninni í Þorlákshöfn. Það er mikið rétt. Þar eru mikil þrengsli, allt of margir bátar og áríðandi, að höfnin í Þorlákshöfn verði bætt og það sem fyrst. Hv. 3. þm. Sunnl. var búinn að svara þessu atriði hjá ráðh., en ég held, að það sé alveg óhætt að fullyrða það, að það sé hægt að stilla inn tíma, hvenær Herjólfur þarf að koma til Þorlákshafnar á þessum árstíma. Menn vita það ósköp vel, að í verstöð eins og Þorlákshöfn er um netabáta að ræða í flestum tilfellum, og þeir koma ekki að fyrr en seinnipart dags og jafnvel ekki fyrr en á kvöldin. En ég er ekki eins viss um það, að Skipaútgerð ríkisins eða yfirstjórn hennar takist að stilla yfirleitt nokkurn tíma á heppilegar aðstæður.

Ég tók ekki eftir beinu svari hæstv. ráðh. við þeim tilmælum, sem ég beindi til hans áðan, enda geri ég ráð fyrir af velviljuðum tóni í ræðu hans, að hann taki málið til vinsamlegrar athugunar. Ég nenni hins vegar ekki að fara að munnhöggvast við ráðh. Ég er á móti því yfirleitt að hleypa mönnum upp í málum, sem þeir virðast vera eitthvað viðkvæmir fyrir. Aðalatriðið er hins vegar, að góð lausn fáist á samgöngumálum Vestmanneyinga, en ekki form bréfa eða rifrildi um málið.