18.04.1972
Sameinað þing: 57. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í D-deild Alþingistíðinda. (3481)

12. mál, samgöngumál Vestmannaeyinga

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Mér þótti það einsýnt, að hv. 5. þm. Sunnl. ætti erindi í ræðustól eftir það, sem ég hafði sagt, en mér fannst erindið alveg sjálfgefið, að það hlyti að verða eitt og aðeins eitt, nefnilega það að biðjast afsökunar á því, sem hann hafði ofmælt í garð fjarstadds fólks. En það gerði hann ekki. Það erindi hefði hann átt.

Bæði hv. 5. þm. Sunnl. og hv. 3. þm. Sunnl. hafa borið á móti því, að þrengsli í Þorlákshöfn stæðu nokkuð í vegi fyrir því að vetrinum, að Herjólfur gæti fengið þar góða afgreiðslu. Þeim ber ekki saman um þetta við hafnarstjórann í Þorlákshöfn, og hygg ég, að hann þekki þó allt eins vel til þessara mála og þessir hv. þm. Það má vera, að það sé hægt fyrir áætlunarskip að koma þar í höfnina, þegar bátar eru á sjó, eins og þessir hv. þm. segja. En ég efa það, að hægt sé að stemma þetta svo saman, að Herjólfur komi þá aðeins að landi í Þorlákshöfn, þegar bátar eru á sjó. En þetta er þeirra kenning, og þeir um hana. (Gripið fram í.) Auk þess hafa þessir hv. þm. viðurkennt, og ég er þeim sammála um það, að oftlega eru veður þannig að vetrinum þarna, að það yrði ákaflega stopult, sem hægt yrði að afgreiða Herjólf þar í höfninni. Ég held því fram, að það sé þess vegna bæði vegna veðra og þrengsla í höfninni að vetri til mjög torvelt að verða við óskum um það, að Herjólfur sigli þangað. Hitt skal ég taka fram. að ég tel vel hafa tekizt til um tilraunina með Þorlákshafnarferðir Herjólfs að sumrinu, og skal nú taka það skýrt fram, að ég mun stuðla að því, að Þorlákshafnarferðir Herjólfs verði teknar upp með vori og yfir sumarið. En það er vissulega eitt af þeim atriðum, sem falla undir verksvið þeirrar nefndar, sem nú verður sett í málið, og efast ég ekkert um, að fulltrúar Vestmanneyinga í nefndinni muni halda þeirri skoðun fram.

Að því hefur verið vikið af hv. 3. þm. Sunnl., Guðlaugi Gíslasyni, að það hafi orðið hagstæð útkoma af Þorlákshafnarferðum Herjólfs. Þessi staðhæfing kemur ekki heim og saman við niðurstöður bókhaldsins hjá Skipaútgerð ríkisins. Skipaútgerð ríkisins segir, að það hafi verið tap á rekstri Herjólfs og það hafi einnig verið tap á þessum sumarferðum hans. Vildi ég þó helzt, að þeir hefðu haft rétt fyrir sér í þessu og að það hefði verið gróði á þessum ferðum. En samt sem áður, ef það er ekki meiri halli á þeim en þegar skipið siglir til Reykjavíkur og meira hagræði fyrir fólkið í Vestmannaeyjum með því að haga ferðunum þannig að sumrinu, þá ber auðvitað að halda þeim ferðum áfram.

Varðandi það, sem ég sagði um árás hv. 5. þm. Sunnl. á starfsmenn samgrn„ sem ég taldi mér skylt að víta, þá var þetta nú svona. Nú sagði hv. þm.: Einhvers staðar hefur endurritið af fundargerðinni tafizt. En hann hafði ákveðið fólk fyrir sökum, sem ekki hafði valdið neinum töfum, auk þess sem það er augljóst mál, að samgrn. getur ekki talið það bréf til sín, þótt þangað sé kastað inn fyrir dyr endurrit,. ljósriti af endurriti úr fundargerð Vestmannaeyjakaupstaðar. Og ekkert rn. mundi telja það vera bréf til sín. Samt sem áður var þessu sinnt og Skipaútgerð ríkisins beðin um umsögn um málið.

Að svo mæltu læt ég máli mínu lokið um þetta, en bíð þess, hvort hv. þm. hefur manndóm til þess að biðja afsökunar á því, sem hann hefur kastað að fjarstöddu fólki.