17.12.1971
Neðri deild: 28. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í B-deild Alþingistíðinda. (349)

126. mál, almannatryggingar

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Frv., sem nú er til umr., fjallar um mjög merkilegt og mikilsvert mál, sem sannarlega þarf góðrar athugunar við. Í því eru ýmis atriði, sem allir þm. eru væntanlega efnislega sammála um og fela að mínu mati í sér ágætar réttarbætur. En ég get ekki látíð hjá líða að átelja þann hátt, sem hafður hefur verið á afgreiðslu þessa máls. Það var lagt fyrir Alþ. s.l. mánudag, tekið fyrir með afbrigðum til 1. umr. Það skal tekið fram, að a.m.k. við þm. Sjálfstfl. höfðum ekki haft tækifæri til að líta á málið, áður en það var lagt fyrir hér á mánudaginn og tekið strax fyrir til 1. umr. Þá þegar var orðið svo mikið um fundahöld hér í þinginu og síðan næstu daga vegna fjárlaga og annarra mikilvægra máía, skattalaga o.fl., sem hér hafa verið til meðferðar, að varla hefur unnizt tími til þess að skoða þetta mál nægilega rækilega. Þó hefur verið eftir föngum athugað það, sem lagt var hér fram á mánudaginn. Ég þakka hv. heilbr.- og félmn. það, að hún hefur tekið til greina ýmsar ábendingar, sem við fulltrúar Sjálfstfl. í hv. heilbr.- og félmn., hv. 11. landsk. þm. og ég, höfum sett fram þar. Ég tel, að málið batni strax við, að þær ábendingar séu teknar til greina, og vona, að hv. þd. muni fylgja þeim. Í trausti þess, að málið yrði ekki miklu flóknara en er það var lagt fram á mánudaginn, þá tjáðum við okkur fylgjandi því að greiða fyrir því, að málið fengi eins hraðan framgang og unnt er hér á hv. Alþ. Þess vegna er það, að við fulltrúar Sjálfstfl. höfum skrifað undir nál. með nokkrum aths. þó, eins og hv. þm. hafa e.t.v. lesið í nál.

En ég vil benda á, að það hefur mikil áhrif að mínum dómi á meðferð þessa máls, að skyndilega í gærdag um tvöleytið, — ég veit ekki, hvort það hefur verið tveim mínútum fyrir tvö eða tveim mínútum yfir tvö, — var lagt inn á nefndarfund í heilbr.- og félmn. plagg í ljósriti, dags. 16. des., — menn taki eftir því, dags. 16. des., um fjárhagsgrundvöll almannatrygginga. Þetta plagg er 4 síður, og farið var fram á, að við tækjum afstöðu til þess, helzt þá þegar, en fallizt var á, að nefndarfundur yrði aftur haldinn síðar um daginn, ef ske kynni, að tími gæfist til þess að lesa þetta plagg. Þannig fór fyrir mér, sem tók þátt hér í umr. í gær um annað mál og reyndi eftir föngum að fylgjast með umr. í þeim málum, sem á dagskrá voru, að mér varð á að veita mér þann munað að fá kaffitíma, eins og um hefur verið rætt hér í sambandi við önnur mál, að nauðsynlegt sé á vinnustöðum. Það varð til þess, að ég hafði 5 mínútur til þess að athuga þetta plagg um fjárhagshlið almannatrygginga, því að kl. 4 var boðaður fundur í heilbr.- og félmn., og kl. 4.30 var þingfundur um önnur mál. Fyrri fundurinn, sem heilbr.- og félmn. hélt í gær, var einnig hálftímafundur. Raunar stóð hann lengur, því að hann stóð örlítið fram á þann tíma, sem venjulegur þingfundur var einnig hafinn hér um önnur mikilvæg mál. Þetta vil ég láta koma fram, því að mér finnst slík vinnubrögð vera alveg óviðunandi.

Ég vil þó ekki láta skilja þessi orð mín svo, að ég sé á móti þeim till., sem hér voru lagðar fram í þessu máli á mánudaginn var, enda hafði ég látið orð falla um það, að þeim væri ég fylgjandi, og fyrir því vildi ég greiða, að þetta mál kæmist fram. En eins og menn sjá í nál. okkar, þá höfum við þrjú gert fyrirvara um afgreiðslu fjárhagshliðar málsins, og ég ætla að leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hann hér upp, því að ég efast um, að þm. hafi haft tíma til að lesa nál.

„Gylfi Þ. Gíslason, Ólafur G. Einarsson og Ragnhildur Helgadóttir taka fram, að þau telji óhjákvæmilegt að átelja, hversu seint þetta mikilvæga mál var lagt fyrir Alþ. og hversu lítinn tíma n. hefur þess vegna haft til athugunar á því. Einkum og sér í lagi telja þau þó ámælisvert, að n. skuli hafa verið ætlað að taka afstöðu til bráðabirgðaákvæðanna um fjáröflunina á nokkrum

klst.“ — Þær voru, þessar nokkrar klst., 21/2 fyrir þá, sem höfðu setið við allan tímann og lesið plaggið. Fyrir þá, sem voru í öðrum störfum á venjulegum þingfundartíma, gáfust þarna t.d. fyrir suma 5 mín. — „Þar er um að ræða þátt í þeirri breytingu, sem ríkisstj. hefur boðað sem stefnu sína varðandi tekjuöflun ríkis og sveitarfélaga, en heildarafstaða til þeirra mála hefur ekki verið tekin. Hins vegar er sú hækkun tryggingabóta, sem frv. sjálft gerir ráð fyrir, svo mikið nauðsynjamál, að þau telja rétt, að frv. nái fram að ganga.“

Nú vil ég geta þess, að í morgun hef ég reynt að athuga málið enn frekar og komizt að þeirri niðurstöðu, að það væri hv. Alþ. og málinu sjálfu fyrir beztu, að samþ. væri svo hljóðandi till., sem ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 225, og er nú að gera grein fyrir henni við þessa 2. umr. málsins, þó að ég ætli síðan að draga hana til baka til 3. umr. Till. hljóðar svo:

„Aftan við frv. bætist svo hljóðandi ákvæði til bráðabirgða:

Ráðh. getur ákveðið frestun á álagningu og innheimtu vegna ársins 1972 á hlut hinna tryggðu til lífeyristrygginga samkv. b-lið 20. gr., hlut sveitarsjóða samkv. c-lið 20. gr., hlut atvinnurekenda samkv. d-lið 20. gr. og iðgjöldum hinna tryggðu til sjúkratrygginga samkv. 2. mgr. 48. gr. l. Frestunin standi þó eigi lengur en til marzloka. Þann tíma skal ríkissjóður sjá fyrir rekstrarfé til lífeyris- og sjúkratrygginga.“

Þessi till. gerir ráð fyrir, að efnislega geti frv. komið til framkvæmda að öllu leyti eins og það var iagt fram s.l. mánudag. Á það var þá bent, að það vantaði skýringar á fjárhagsgrundvellinum, og það er rétt, að vítanlega verður að vera í frv. ákvæði um, hvernig á að haga þeim málum, og við sjálfstæðismenn drögum sízt úr því. Og þess vegna sýnist mér, að ákvæði sem þetta muni strax bæta málið að miklum mun.

Þegar lýst var eftir skýringum á því s.l. mánudag, hvernig hæstv. ráðh. hefði hugsað sér að fjármagna almannatryggingar, þegar framkvæmdar hefðu verið þær hugmyndir ríkisstj., sem þegar hefur verið lýst í fjölmiðlum, m.a. að afnema almannatryggingagjaldið, þá svaraði hæstv. ráðh. því, að svörin við þessum spurningum um fjármögnun almannatrygginganna lægju í þeim frv., sem þá voru á borðum þm. nýkomin og enginn hefði haft tíma til að lesa. Þetta voru frv. til l. um tekju- og eignarskatt og frv. til l. um tekjustofna sveitarfélaga. Þetta voru þær upplýsingar, sem við höfðum þá.

Í plagginu góða, sem ég nefndi og kom frá hv. fjmrn. í gær, er getið um þessi atriði. Er það í samræmi við þessar hugmyndir og að aukí bætt við atriði, sem hvergi kom fram í umr. eða skýringum við frv. á mánudaginn. Er bætt við, að árið 1972 skuli leggja á sérstakan launaskatt, er nemi 11/2%. Skattur þessi skal lagður á alla sömu aðila og lög nr. 14 frá 1965, um launaskatt, taka til, og gilda ákvæði þeirra laga að fullu um álagningu og innheimtu þessa sérstaka skatts, svo og um aðra framkvæmd hans. Eftir því, sem fram kemur í skýringum með þessum till., er hér um að ræða framlengingu á lögum, sem sett voru um verðstöðvun. Þá var þessi sérstaki launaskattur lagður á, og þeim lögum var ætlað að gilda til ársloka 1971. Við höfum ekki heyrt það hér á hv. Alþ.,ríkisstj. ætli að halda áfram verðstöðvun þeirri, sem framkvæmd var í tíð fyrri ríkisstj., og væri nauðsynlegt að upplýsa, hvort þessi till. þýði, að svo eigi að verða. Ef svo er ekki, þá þarf að athuga það mun betur, hvort það er ekki óeðlilegt, að till. um sérstakan launaskatt sé felld inn í, að ég ekki segi falin inni í, lög um almannatryggingar. Um þetta atriði hafa fjallað sérstök lög. Að mínu mati hefði verið eðlilegra að setja sérstök lög um þennan sérstaka launaskatt.

Ég hef reynt að afla mér upplýsinga um það, hvaða fjárhæð menn ætla, að þessi sérstaki launaskattut gefi. Virtist mér, að þeir, sem undirbjuggu þessar till. hlytu að hafa gert sér grein fyrir þessu. Um þetta atriði er engin tala í skýringunum frá hv. fjmrn., enda e.t.v. ekki eðlilegt, þar sem sami hraði og sömu vinnubrögð virðast hafa verið á þessum hlutum sem öðrum af hálfu hæstv. ríkisstj. þessa dagana.

Ég leyfi mér í þessu sambandi að beina fsp. til hæstv. fjmrh., — hann er ekki við. Ég vil spyrja hæstv. forseta, hvort hæstv. fjmrh. muni ekki vera í húsinu. Ég geri ráð fyrir, að það muni vera hann, sem spyrja á um þessi atriði. Frv. eins og það kom úr trmrn. fjallaði um aðra hluti, en þessar till. komu úr fjmrn. Og þm. þyrftu að fá skýringu á því, hvaða upphæð í krónutölu er um að ræða, hvaða áætlun liggur á bak við þetta og hvort búið er að reikna út, hverju launaskatturinn muni nema, þegar reiknað hefur verið með þeim hækkunum, sem urðu á launum núna nýverið. Þetta eru allt atriði, sem miklu máli skipta. Mér sýnist þetta vera allt svo óljóst, að nauðsynlegt sé að fresta þessum málum. Þó tel ég engan veginn til fyrirmyndar að þurfa að fresta þessum málum og yfirleitt því, hvernig eigi að fjármagna hlutina. En allt er þetta á eina bók lært. Við sjáum fjárlagafrv. og hvernig ætlazt er til, að staðið sé að afgreiðslu þess.

Ég hef nú satt að segja verið að vona og er enn að vona, að við sjáum raunverulega áætlun og eitthvað, sem hægt er að átta sig á, áður en fjárlagafrv. kemur til 3. umr. Ef svo verður ekki, þá virðist þetta geta fallið inn í þá heildarendurskoðun og athugun á fjáröflunarkerfi ríkisins, sem mér skildist á hæstv. ráðh. hér í gær, að ætti að fara fram nú eftir áramótin. Þess vegna sýnist mér eðlilegt, til þess að starfsemi trygginganna geti gengið með eðlilegum hætti, að samþykkja þá till. um bráðabirgðaákvæði í þessu frv., sem ég hef lagt fram á þskj. 225. Ég held, að með samþykkt þeirrar till. yrði kannske bjargað örlitlu af virðingu hv. þm., sem mér sýnist vera í talsverðri hættu við þá fjárlagaafgreiðslu, sem fyrir dyrum stendur, ef ekki gerist eitthvað óvænt næstu daga.

Ef till. þessi verður samþ., er unnt að afgreiða þennan hluta almannatryggingafrv. um leið og aðra hluta af tekjuöflunarkerfi ríkisins, um leið og skattafrv. tvö á sínum tíma, enda er þetta allt saman í eðlilegu samhengi. Sýnist mér, að það væri mun betra, og þá gæfist þm. einnig tími til að athuga hlutina örlítið, eins og þeim ber raunar skylda til að gera. Ég þykist vita, að hæstv. ráðh., sem með mál þetta fer, muni geta lagt þessu lið. Ég sé ekki, að starfsemi þessara þátta trygginganna, sem við ræðum hér um, þurfi að truflast af þeim ástæðum.

Ég bið velvirðingar á því, að ég skuli leyfa mér að eyða svo miklu af tíma þingsins í umr. um þetta mál. En ég tel miklu varða, að vandlega sé að þessu staðið og þm. gefist nægur tími til þess að athuga hlutina, við séum ekki neydd til þess að henda frá okkur hálfunnum málum og komið sé óvænt, ég vil segja aftan að okkur, með till. um allt aðra hluti inn í mál, sem við erum búin að dragast á að fylgja. Þetta sést, þegar skoðað er ofan í kjölinn það, sem í þessum fjármögnunartillögum felst.

Svo að aftur sé vikið að launaskattinum, langar mig auk þess að fá að vita, hve hárri upphæð ætlað er, að hann muni nema á árinu. Þá er nauðsynlegt að fá upplýst, hvort þetta sé ekki örugglega tilfærsla, eða hvort þetta sé enn nýr launaskattur, hvort meiningin sé e.t.v. að halda áfram launaskattinum, sem ákveðinn var í verðstöðvunarlögunum, og þetta sé enn eitt atriði eða hvort við megum reikna með, að ekki verði um fleiri launaskatta að ræða.

Ég vil þá leyfa mér að víkja að þeim ákvæðum tryggingalaga, sem fjalla um tryggingabæturnar og greiðsluna á þeim. Hv. frsm. heilbr.- og félmn. gerði hér grein fyrir, að við hefðum lagt til, að gerðar yrðu nokkrar breytingar á þessu frv.

Í fyrsta lagi er það um ákvæðið um tryggingadóm. Í frv., eins og það var lagt fyrir, var gert ráð fyrir, að í tryggingadómi yrðu þrír menn, læknir, tryggingafræðingur og lögfræðingur, og þessi tryggingadómur setti sér sjálfur starfsreglur. Þetta tel ég alveg ótækt frá réttarfarslegu sjónarmiði, enda féllst n. á við nánari athugun að leggja til, að sérstök lög yrðu sett um tryggingadóm. Ég tel það geta verið til bóta í okkar réttarfari, að til sé sérstakur tryggingadómstóll. En lögum um hann verður þá að vera þannig háttað, að hann komi að raunverulegu gagni til þess að greiða fyrir afgreiðslu mála. Til þess er nauðsynlegt að hafa hann þannig skipaðan, að hann geti kveðið upp dóma, sem geta átt heima inni í réttarkerfinu, og e.t.v. ætti að vera unnt að áfrýja úrskurðum og dómum tryggingadóms beint til Hæstaréttar. Eitthvað slíkt gæti orðið til raunverulegs flýtisauka. En eins og þetta var hugsað í upphafi í frv., þá sé ég ekki, að þarna sé um neinn dóm eða dómstól að ræða, heldur bara yfirtryggingaráð eða eitthvað slíkt, einhverja silkihúfu ofan á tryggingaráð. En allt öðru máli gegndi, ef hér væri um raunverulegan dómstól að ræða.

Það, sem ég vil sérstaklega benda á við nánari athugun þessa máls, er, að fyllilega kæmi til greina, að tryggingadómur fjallaði um fleiri atriði en aðeins þau, er almannatryggingar varðar. Ég teldi fyllilega koma til athugunar, að hann fjallaði um ágreiningsmál varðandi lífeyrissjóði og jafnvel Atvinnuleysistryggingasjóð. Ég geri ekki ákveðnar till. um þetta. Ég hef ekki haft tækifæri til að athuga málið, en mér finnst eitthvað í þessa áttina mjög koma til greina og geta verið til bóta í okkar réttarkerfi.

Þá tel ég mjög til bóta, að nú skuli skylt að greiða barnalífeyri með munaðarlausum börnum. Mér sýnist, að það þurfi að leiðrétta orðalag í 2. gr. frv. í sambandi við það atriði. Þar stendur, að séu báðir foreldrar látnir eða ófærir um að inna framfærsluskyldu sína af hendi, skuli greiddur tvöfaldur barnalífeyrir. Þarna mun aðeins vera átt við munaðarlaus börn eða þau börn, sem eiga foreldra, sem eru annaðhvort látin eða þá öryrkjar. Til annarra aðstæðna mun þessu ákvæði ekki vera ætlað að ná. Þess vegna getur þetta orðalag valdið misskilningi og þyrfti að leiðréttast, áður en frv. færi úr þessari hv. d.

Þá virðist vera mjög til bóta ákvæði um, að heimilt verði að greiða barnalífeyri með börnum manna, sem sæti gæzlu- eða refsivist.

Enn eitt atriði, sem ekki virðist stórt í sniðum, en ég veit þó nokkur dæmi til, að sé mjög nauðsynlegt, varðar börn, sem ekki hefur tekizt að feðra, þrátt fyrir að gangskör hafi verið að því gerð í barnsfaðernismálum. Tel ég sanngjarnt, að unnt sé að greiða barnalífeyri meðslík um börnum. Það geta og hafa komið upp þau tilfelli, að um sé að ræða útlendan föður, sem ógerlegt sé að hafa upp á, og í slíkum tilvikum er mjög slæmt, að barnið skuli fara á mis við það framlag, sem feðrum er annars ætlað að greiða, eða barnalífeyri, sem greiddur er með börnum, sem misst hafa föður sinn, eða ef hann er örorkulífeyrisþegi. Þetta tel ég tvímælalaust til bóta, og einnig verð ég að segja, að mér finnst skynsamlega orðað þetta ákvæði að því, er til þess tekur, hvernig að slíkum málum þarf að vera staðið, til þess að umsóknir um lífeyri með börnum, sem ekki hefur tekizt að feðra, verði teknar til greina. Það er sem sé alls ekki verið að leggja til, að barnalífeyrir sé greiddur með ófeðruðum börnum yfirleitt, enda gæti það leitt til hins mesta ófarnaðar og tæplega gerlegt frá siðferðilegu sjónarmiði að standa aðslíkri till. En í þessu formi sýnist mér það skynsamlegt.

Í sambandi við 4. gr. frv. höfum við hv. 11. landsk. þm. leyft okkur að gera sérstaka aths. í nál. Við teljum sanngjarnt og þjóðhagslega heppilegt, að tekjur ellilífeyrisþega að vissu marki verði ekki látnar valda skerðingu á rétti til tekjutryggingar samkv. 1. mgr. þessarar 4. gr. Við vitum það öll, hvernig framkvæmdin var á lögum um almannatryggingar fyrir hálfum öðrum áratug, þegar í gildi voru enn þá ákvæði um svo nefnda tekjuskerðingu á ellilífeyri. Menn fengu ekki fullan ellilífeyri, nema þeir hefðu tekjur undir vissu lágmarki. Þetta leiddi til þess, að menn létu hjá líða að vinna fyrir tekjum, sem þeim e.t.v. bauðst að gera, ef þeir gátu fengið sama fé frá Tryggingastofnuninni fyrir að gera ekki neitt, og skilyrði fyrir því, að þeir fengju þær bætur frá Tryggingastofnuninni var, að fólkið gerði ekki neitt eða hefði a.m.k. ekki þessar tekjur. Og ég geri ekki ráð fyrir, að það þýði frekar að segja fólki, sem komið er yfir 67 ára aldur, að vinna kauplaust en öðru fólki. Það er alveg sama hvötin, sem enn stendur þá, að menn vilja gjarnan hafa eitthvað upp úr sínu erfiði. Ég tel, að ákvæði, sem ganga í þá átt að rýra sjálfsbjargarviðleitni manna, dragi einnig úr því, að aldrað fólk vinni, sjálfu sér til gleði og lífsfyllingar og þjóðfélaginu til góða. Ég óttast það, að ef ellilífeyrisþegi sér, að hann getur fengið 120 þús. kr. á ári, ef hann hefur undir vissu tekjulágmarki, láti hann hjá líða að afla sér þeirra tekna, sem svipti hann þessum möguleika. Og þetta getur líka leitt til þess, að menn taki e.t.v. að hagræða skattframtölum sínum í þeim tilgangi að geta öðlazt þessa tekjutryggingu, sem þarna er fram boðin. Mér er alveg ljóst, að hugsunin að baki þessu er góð og falleg, en það, sem um er að ræða, er, að framkvæmdin á slíku ákvæði getur stundum leitt til hins öfuga við það, sem fyrirhugað er. Þess vegna hefðum við talið, að það væri æskilegt, að tekjur að vissu marki, við skulum segja 150 þús., jafnvel 200 þús., gæti ellilífeyrisþegi haft, án þess að það væri talið með í þeim upphæðum, sem um væri að ræða, þegar verið er að reikna út, hvort hann eigi rétt á tekjutryggingu eftir frv. Að tekjur ellilífeyrisþega umfram ellilífeyrinn kæmu sem sé ekki að öllu leyti til þess að valda skerðingu á þessum rétti til tekjutryggingar.

Að sjálfsögðu hefðum við getað flutt brtt. í þessa átt við frv., sem hér liggur frammi, en við erum nú einu sinni svo einkennilega samansett, stjórnarandstaðan, að okkur finnst nauðsynlegt að vita nokkurn veginn, hvaða kostnað og afleiðingar það hefur í för með sér, sem við erum að leggja til, og þess vegna vildum við ekki flytja brtt. í þessa átt núna, því að við höfum ekki nokkur tök á því að afla okkur upplýsinga um það, hvernig þetta mundi verka, á þessum litla tíma, sem ætlaður var til meðferðar þessa máls. Þess vegna bendum við á þetta í nál. okkar í þeim tilgangi, að það komi til vandlegrar athugunar í þeirri n., sem hefur tryggingamálið til frekari endurskoðunar og mér skilst, að enn sé í fullum gangi.

Þá langar mig að vekja athygli á því, að þessar reglur geta á vissan hátt valdið talsverðu misrétti kynja. Það hefur talsvert verið um það talað, að í þessu frv. fælist mikil bót á jafnréttisaðstöðu karla og kvenna í sambandi við tryggingar. En ef öldruð hjón hafa þannig tekjur, að þau missa af tekjutryggingunni, sem reiknað er með í 4. gr., þá er það ekki reiknað á þann hátt, að það séu þau hjónin, hvort um sig, sem hafi þær tekjur, heldur eru tekjur hjóna lagðar saman og sameiginlega reiknað út, hvort þau geti átt rétt á tekjutryggingunni eða ekki, þannig að ef einungis maðurinn hefur þær tekjur, að hann fari fram yfir lágmarkið, þá missa bæði hjónin af tekjutryggingunni. Þetta tel ég, að þyrfti að athuga mun betur en hér er gert. Mér reiknast til, að hjón geti fengið samtals 216 þús. með tekjutryggingunni í ellilífeyri, en ef þau fá enga tekjutryggingu, fá þau 126 þús. Ef þetta er ekki rétt, bið ég, að það sé leiðrétt.

Ég játa það, að svo mikill hraði hefur verið á að athuga þessi mál, að það kann að vera, að hér fari eitthvað milli mála. Ég hef ekki haft tíma til að afla talna úr Tryggingastofnun ríkisins um þessi mál, en mér sýnist, að í sambandi við þetta ákvæði þurfi að athuga aðstöðu í sambandi við jafnrétti karla og kvenna.

Í sambandi við ákvæðið um fjölskyldubætur vil ég taka fram, að það hefur lengi verið skoðun Sjálfstfl., að eðlilegra væri að afnema ákvæði um fjölskyldubætur úr lögum um almannatryggingar. Það er kunnugt, að fjölskyldubætur eru ekki hluti af tryggingakerfinu, heldur hefur greiðsla fjölskyldubóta verið, í því formi, sem hún núna er, meira hugsuð sem eins konar efnahagsráðstöfun. Það er þess vegna, sem svo einkennileg niðurstaða verður, að fjölskyldubætur eru greiddar með. fyrsta barni vel bjargálna fólks, og það finnst mér sannast sagna ekki vera eðlileg niðurstaða. Og í samræmi við þá yfirlýstu stefnu núv. hæstv. ríkisstj. og stefnu fyrri ríkisstj. að gera hag hinna lægst launuðu sem beztan, þá held ég, að breytt fyrirkomulag á greiðslu fjölskyldubóta gæti einmitt komið mjög til athugunar í því skyni, og ég er satt að segja dálitið undrandi yfir því, að brtt. um þetta efni skulu ekki verða lagðar fram af hæstv. ríkisstj., um leið og hún leggur fram bæði frv. til l. um tekjuskatt og eignarskatt og frv. til l. um breyt. á lögum um almannatryggingar. Þess er e.t.v. að vænta, að slíkar brtt. komi frá hæstv. ríkisstj., þegar skattalög verða hér til meðferðar síðar í vetur. En ég hef skilið hæstv. heilbr.- og trmrh. svo í ræðum hér á Alþ., að hann hefði einmitt þessa sömu skoðun á fyrirkomulagi á greiðslu fjölskyldubóta og Sjálfstfl. hefur. Og ég vil hvetja til þess, að þetta mál verði athugað enn betur af þeirri n., sem hefur mál þessi til meðferðar. Ég hygg nú, að fyrrv. ríkisstj. hafi þegar unnið þar undirbúningsstarf, og væri því e.t.v. ekki svo geysiflókið mál að fella þessa hluti saman í það form, að fjölskyldubætur verði hér eftir eða síðar greiddar í gegnum skattakerfið í stað tryggingakerfisins nú, en það fyrirkomulag mun geta leitt til þess, að þær komi mun betur til góða hinum tekjulægstu í þjóðfélaginu.

Ég mun ekki hafa þessi orð miklu fleiri, en ég get ekki varizt því, áður en ég lýk máli mínu, að harma það, að ég heyrði í umr. hér í gær, að hæstv. forsrh. allt að því átaldi okkur stjórnarandstæðinga fyrir að fylgja þessu máli, sem lagt er þó fram af hans hálfu. (Gripið fram í.) Er það mikill misskilningur? Það gleður mig mjög, og þá mun ég ekki hafa fleiri orð um það atriði.