28.04.1972
Sameinað þing: 62. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í D-deild Alþingistíðinda. (3504)

163. mál, námsbækur framhaldsskólanemenda

Frsm. (Stefán Gunnlaugsson):

Herra forseti. Allshn. hefur haft til meðferðar till. til þál. á þskj. 310, um námsbækur framhaldsskólanemenda. Till. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að hlutast til um, að nauðsynlegar kennslubækur, innlendar og erlendar, sem notaðar eru á hverjum tíma vegna náms í framhaldsskólum, séu jafnan á boðstólum í verzlunum, en talsvert skortir á, að svo hafi verið, svo að fullnægjandi geti talizt. Enn fremur verði athugað, hvort unnt sé að auka útgáfu íslenzkra kennslubóka og á þann hátt draga úr notkun erlendra bóka, einkum í menntaskólum og Háskóla Íslands. Í þessu sambandi kemur til álita, hvort nauðsynlegt sé að fela Ríkisútgáfu námsbóka forgöngu í þessum efnum. Þá verði kannað, hvernig háttað er verðlagningu erlendra kennslubóka í verzlunum með það fyrir augum að tryggja, að þær séu á boðstólum á hóflegu verði.“

Þannig hljóðar þessi till. Allshn. leitaði umsagnar ýmissa aðila, sem þetta mál snertir, svo sem nemendasambands framhaldsskóla, rektora menntaskólanna og Háskóla Íslands og Innkaupasambands bóksala. Þessar umsagnir, sem n. bárust frá nefndum aðilum, voru yfirleitt jákvæðar varðandi tillöguna. M.a. með hliðsjón af þessum umsögnum leggur n. til, að þessi till. verði samþykkt.