25.01.1972
Sameinað þing: 30. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í D-deild Alþingistíðinda. (3515)

78. mál, rekstrarlán iðnfyrirtækja

Jón Snorri Þorleifsson:

Herra forseti. Þegar rætt er um aðstoð við íslenzkan iðnað, þá hef ég veitt því athygli, ekki bara hér innan þingsala, heldur víðar, að menn staðnæmast gjarnan og nær eingöngu við rekstrarfjárörðugleika iðnaðarins, og það liggur við, að maður fái það á tilfinninguna stundum, þegar maður heyrir talað um erfiðleika íslenzks iðnaðar, að það væri í raun og veru hægt að leysa alla hans erfiðleika bara með því að auka rekstrarfjármagn til hans. Ekki skal ég draga úr því, að íslenzkur iðnaður á við mikla erfiðleika að etja hvað varðar rekstrarfé, og þar þarf vissuleg úr að bæta. En að það leysi allan vanda, fer víðs fjarri. Við, sem höfum starfað í iðnaðinum og kynnzt honum all náið, vitum mæta vel um marga vankanta á fyrirkomulagi íslenzks iðnaðar í dag, sem þarf að bæta úr, og úrbætur á þeim sviðum eru raunar forsenda þess, að íslenzkur iðnaður fái staðizt í tæknivæddu þjóðfélagi.

Iðnaður okkar er yfirleitt smár. Fyrirtækin eru lítil og vanþróuð, undantekningalítið. Það er fjöldi fyrirtækja, lítilla fyrirtækja, að gutla í sömu iðngreininni, fást við sömu hlutina með sams konar tækjum, án þess að um nokkurt samstarf þeirra á milli sé að ræða. En einu hafa þessi iðnfyrirtæki þó yfirleitt yfir að ráða öfugt við það, sem hér var lýst varðandi Slippstöðina á Akureyri. Það vill svo til, að mikill fjöldi af okkar iðnfyrirtækjum er feikna vel búinn að vélum og tækjum, það vel búin sum þeirra, að ef þær vélar í einu litlu fyrirtæki væru í gangi allan sólarhringinn, gætu þær annað að fullu þeirri þörf, sem hér er á markaðinum. Má í því sambandi nefna t.d. sumar teppaverksmiðjur okkar, sem hver fyrir sig hefur kannske nægan vélakost til þess að framleiða teppi á öll gólf Íslendinga á 1—2 árum.

Mörg þessi iðnfyrirtæki hafa, án þess að hafa eigið fjármagn, lagt í stórkostlegar byggingarframkvæmdir, og ekki skal ég öfundast yfir því, þó að þau hafi farið í byggingarframkvæmdir, en það, sem er yfirleitt slæmt við flestar þessar byggingarframkvæmdir, er það, að það hefur ekki verið byggt með hagkvæmni sjónarmið fyrir augum miðað við uppbyggingu fyrirtækisins sem slíks, heldur fyrst og fremst af þeirri ástæðu, að fjárfesting í byggingum hefur verið einhver arðbærasta fjárfestingin hér á landi til skamms tíma. Þar af leiðandi býr fjöldi af þessum fyrirtækjum í mjög óhentugu húsnæði, húsnæði, sem gerir framleiðsluna að öllu leyti erfiðari og dýrari. Það eru yfirleitt ekki til í flestum þessum fyrirtækjum neinar framleiðsluáætlanir, og það eru kannske ekki til neinir sérfræðingar starfandi við fyrirtækin, sem eru færir um að gera slíkar framleiðslu— og fjármögnunaráætlanir. Og þeir verða það ekki að óbreyttu, því að fyrirtækin mörg eru það smá, að þau hafa ekki efni á því að hafa slíka sérfræðinga í sinni þjónustu, enda þótt við eigum marga ágætlega mennta og vel færa sérfræðinga á þessum sviðum.

Ég skal ekki gera lítið úr þeim svo kallaða stórhug og dugnaði einstaklinga, sem hafa ráðizt í það að stofnsetja hér íslenzkan iðnað oft með nær tvær hendur tómar til að byrja með. Vissulega er það mikil bjartsýni, sem hefur oft og tíðum ráðið, en það er ekki nóg í tæknivæddu þjóðfélagi að ætla sér að reisa iðnað á tómri bjartsýni. Iðnaður byggist fyrst og fremst á verkþekkingu og tæknikunnáttu. En nú er það svo hvað iðnaðarmenntun okkar snertir, að iðnfræðslukerfi okkar hefur til skamms tíma verið algerlega úrelt og er það raunar enn í dag. Við byggjum okkar iðnmenntun upp á ævagömlum aðferðum og menntum, sem tilheyra alls ekki nútímaþjóðfélagi. Hér eigum við því mikið verk óunnið, sem er alger undirstaða að því að byggja upp íslenzkan iðnað. Við eigum vissuleg orðið í dag mikið af dugmiklum og vel menntuðum tæknimönnum, tæknifræðingum á ýmsum sviðum, arkitektum og verkfræðingum. En það er sorglegt að vita til þess, að þeirra starfsvettvangur er oft og tíðum sá að sitja við teikniborðið og tússa teikningar í staðinn fyrir að vera úti í framleiðslunni sjálfri, þar sem tæknikunnátta þeirra nýtist bezt, eins og þeir hafa lært til.

Ég held, að það sé of sjaldan, sem því er gaumur gefinn, að ef við ætlum að byggja upp hér íslenzkan iðnað, sem getur verið samkeppnisfær við það, sem bezt er hjá nágrannaþjóðum okkar, þá verðum við að taka á því vandamáli, sem smæð fyrirtækjanna er, og því vandamáli, sem leiðir af því, hvað hér er mikil sundrung ríkjandi, og við verðum að endurskipuleggja okkar iðnaðarstarfsemi, ef ekki með því móti að sameina þessi fyrirtæki, þá a.m.k. með því móti, sem frændur okkar á Norðurlöndum hafa gert, t.d. í Noregi, að koma á mjög náinni skipulegri samvinnu þeirra á milli, en það var raunar forsendan fyrir iðnaðarútflutningi Norðmanna. Þetta verður að sjálfsögðu ekki gert í einu vetfangi. Það eru margir menn, sem að þessu þurfa að vinna, og það verður ekki gert nema menn sjái nauðsyn þess, að þetta verður að ske, og hafi vilja til þess að fara þær leiðir, sem færar eru. Mér er kunnugt um það, að hæstv. iðnrh. og ríkisstj. eru að hefja starf einmitt að þessum markmiðum, og raunar veit ég það líka, að samtök iðnrekenda og iðnaðarmanna eru þegar farin að starfa eftir þessum leiðum, en það gengur því miður grátlega seint, því að þeir eru ófáir, sem ekki sjá þörfina á endurskipulagningu íslenzks iðnaðar og hafa í staðinn þá trú, að það sé enn þá hægt að hokra hver í sínum bílskúr eða sinni kompu með nokkrar vélar til aðstoðar við gamalt, úrelt handverk.

Ég vildi aðeins láta þessi sjónarmið koma hér fram til þess að rökstyðja þá skoðun mína, að það séu ekki bara fjármagnserfiðleikar, sem hrjá iðnaðinn. Það er engu síður og þá kannske öllu fremur skipulagsleysi hans, eins og hann er í dag. Væntanlegar úrbætur í þeim málum verða ekki gerðar, nema skipulagsmál iðnaðarins verði tekin virkilega föstum tökum, og ég vænti þess, að núv. iðnrh. og ríkisstj. láti verða af því fyrirheiti sínu.