25.01.1972
Sameinað þing: 30. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í D-deild Alþingistíðinda. (3516)

78. mál, rekstrarlán iðnfyrirtækja

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. síðasta ræðumanni, að allur vandi iðnaðarins yrði ekki leystur, þó að honum yrðu tryggð hæfileg rekstrarlán. Það er alveg rétt, að vandamál hans eru miklu fleiri, og þarf að hyggja að þeim. En ég hygg, að það sé þó óhætt að fullyrða, að ef tækist að koma rekstrarlánamálum iðnaðarins á sæmilegan grundvöll, þá væri þó a.m.k. einu vandamálinu færra í þessum efnum og það vandamálið leyst, sem er mest aðkallandi að leysa, vegna þess að ef ekki er sæmilega séð um þennan þátt rekstrarins, þá er ekki hægt að halda honum uppi með eðlilegum hætti. Þess vegna held ég, að af mörgum vandamálum iðnaðarins sé það, sem er einna mest aðkallandi að leysa, að koma rekstrarmálum hans í eðlilegt horf.

Ég er alveg sammála hv. 2. landsk. þm. um það, að þessi till., sem hér liggur fyrir, bætir hvergi nærri nægilega úr lánsfjárþörf iðnaðarins, og ég vil í þeim efnum árétta það m.a. með því að lesa upp niðurlagsorðin í grg. sem fylgdi till. En þar segir á þessa leið:

„Í samræmi við þetta skal það tekið fram af hálfu flm., að litið yrði á þessa till. sem hreina bráðabirgðalausn og koma þurfi þessum málum í miklu fullkomnara horf í framtíðinni.“

Og ég get tekið undir það með hv. 2. landsk. þm., að það væri miklu eðlilegra form og heppilegra, ef hægt væri að tryggja iðnaðinum rekstrarlán sem afurðalán líkt og útflutningsframleiðslan hefur búið við að undanförnu. Og þetta var líka einu sinni skoðun hv. Alþ. Á Alþ. 1958 var samþ. hér till. með atkv. allra þm. á þá leið, að unnið skyldi að því, að iðnaðurinn nyti afurðalána líkt og sjávarútvegur og landbúnaður. Þetta var samþ. á þinginu 1958. En svo gerðist það rúmlega ári síðar, að tímabil hinnar svokölluðu viðreisnarstjórnar hófst, og það var eitt af fyrstu verkum viðreisnarstjórnarinnar að stinga þessari till. undir stól.

Ég endurflutti þessa till. á sex eða sjö þingum, án þess að hún næði fram að ganga, og ég verð að játa það, að ég entist ekki til þess að flytja hana öllu lengur og gafst upp. Og þá var það, að atvinnumálanefnd Reykjavíkur tók málið til sérstakrar athugunar á haustinu 1968 og athugaði þetta gaumgæfilega. Í þeirri nefnd áttu sæti fulltrúar allra flokka, m.a. Alþfl., og þeir komust að þeirri niðurstöðu, að það gæti verið bráðabirgðalausn fyrir iðnaðinn, að hann fengi rekstrarlán í samræmi við það, sem felst í þessari till. Þeir fulltrúar, sem áttu sæti í þessari nefnd, töldu sig hafa athugað málið mjög gaumgæfilega, og þó að þeir hafi áreiðanlega ekki litið á þetta sem fulla úrlausn, þær ábendingar, sem felast í till., þá hafa þeir komizt að þeirri niðurstöðu, að hér væri um að ræða lágmarkslausn, sem gæti verið til bóta og tryggingar fyrir iðnfyrirtækin. En í samræmi við það, sem gerzt hefur hér á Alþ. á undanförnum þingum, og þá stefnu, sem ég hef fylgt, þá er ég tilbúinn til þess að ganga miklu lengra í þessum efnum og styðja alveg till., sem samþ. var hér á þingi 1958 af öllum flokkum, um það, að iðnaðinum væru tryggð afurðalán í samræmi við það, sem landbúnaðurinn og sjávarútvegurinn fær. Það álít ég, að væri sú eðlilega og heilbrigða lausn á þessu máli. Þessi till. gengur vissuleg miklu skemmra, en þrátt fyrir það, ef hún næði fram að ganga eða eitthvað svipað henni, þá yrði þar um mikla endurbót að ræða frá því, sem nú er.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að orðlengja meira um þetta. Ég vænti þess, að þessi till. fái jákvæðar undirtektir í hv. allshn. og að þingið láti frá sér fara einhverja þá ályktun, sem treysti aðstöðu iðnaðarins í þessum efnum, þannig að hún verði betri en sú, sem hann hefur átt við að búa. Ég þykist líka geta fullyrt það af viðtali mínu við hæstv. iðnrh., að hann hafi fullan áhuga á því að vinna að lausn þessa máls, og þess vegna vænti ég þess og styrkir það mína von um það, að Alþ. afgreiði þessa till. á jákvæðan hátt.