14.03.1972
Sameinað þing: 48. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í D-deild Alþingistíðinda. (3528)

172. mál, framkvæmdaáætlun fyrir Norðurlandskjördæmi vestra

Flm. (Pétur Pétursson):

Herra forseti. Till. til þál. á þskj. 331 gerir ráð fyrir, að ríkisstj. feli Framkvæmdastofnun ríkisins að gera framkvæmdaáætlun eða landshlutaáætlun sérstaklega fyrir Norðurlandskjördæmi vestra.

Á undanförnum árum hefur oft verið samþykkt hér á hv. Alþ. að gerðar skuli sérstakar landshlutaáætlanir, oftast fyrir einstök kjördæmi. Hefur atvinnuástand landshluta þá gjarnan verið forsenda fyrir samþykktum, og svo er einnig í þessu tilfelli, eins og alþjóð veit. Með flutningi þessarar till. er ekki með neinum hætti verið að draga úr starfsemi Fjórðungssambands Norðlendinga. Mörg verkefni eru þess eðlis, að sjálfsagt er fyrir bæði Norðurlandskjördæmin að vinna að þeim saman, enda hefur það verið gert. Meginástæðan fyrir flutningi þessarar till. er, að gerðar séu heildaráætlanir fyrir allt kjördæmið með það takmark fyrir augum, að útrýmt sé hinu mikla og stöðuga atvinnuleysi í þessum landshluta, en eins og allir vita, hefur atvinnuleysi hvergi verið alvarlegri vágestur á s.l. 10 árum eða svo en einmitt þarna. Þetta hefur gerzt, þó að oft hafi annars verið ágætt árferði í landinu og víða eftirspurn eftir vinnuafli. Ég fullyrði, að ástæðan er ekki ódugnaður þess fólks, sem býr í þessum landshluta. Það er ekki heldur um áhugaleysi fólksins að ræða umfram aðra. Að mínu mati eru verkefnaleysi og lítil uppbygging atvinnufyrirtækja í landshlutanum meginástæðurnar fyrir þessu stöðuga atvinnuleysi. Auk þess hefur auðvitað samdráttur stórs ríkisfyrirtækis haft veruleg áhrif á atvinnuástandið á vissum stöðum.

Það er sjálfsagt að viðurkenna, að bæði fyrrv. og núv. hæstv. ríkisstj. hafa hlutazt til um margs konar aðstoð við ýmsa staði og fyrirtæki í kjördæminu með það fyrir augum að vinna bug á atvinnuleysinu. Það hefur þó sýnt sig, að þessar aðgerðir hafa reynzt ónógar, þegar á heildina er litið. Það hafa verið eins konar smáskammtalækningar, þar sem reynt hefur verið að „redda“ þessu eða hinu fyrirtækinu, án þess að um skipulegar heildaráætlanir væri að ræða.

Ég álit, að það þurfi mjög að efla þau fyrirtæki, sem eru í landshlutanum, en einnig hlutast til um stofnun nýrra. Grundvöllur þessarar uppbyggingar tel ég, að eigi að vera efling sjávarútvegsins og úrvinnsla sjávarafurða. Að þessum þætti er nú verið að vinna, þó að áætlanir hafi ekki verið gerðar til langs tíma, eftir því sem ég bezt veit, enda ekkert verið gert fyrir sum kauptúnin. Hér þarf að gera langtímaáætlanir. En þessu til viðbótar þarf að gera áætlanir um uppbyggingu iðnaðar í þessum landshluta, bæði fiskvinnsluiðnaðar eða niðursuðuiðnaðar og annars iðnaðar, þar sem innlend eða erlend hráefni gætu komið til. Mætti t.d. nefna bátasmíðaiðnað, skinnaiðnað, járnsmíðaiðnað, fiskiræktun, og margt fleira kemur til greina. Hér þarf einnig að gera langtímaáætlanir. Mætti þá e.t.v. hugsa sér, að gerð væri fimm ára áætlun um uppbyggingu atvinnulífsins í landshlutanum, og tel ég eðlilegast, að Framkvæmdastofnun ríkisins annist þessa áætlunargerð í samvinnu við aðila heima í héraði. Ég álit, að hér sé um stórt og mikilsvert verkefni að ræða og raunar undirstöðuatriði varðandi uppbyggingu atvinnulífsins í landshlutanum.

Í þessu sambandi má ekki gleyma því, að sum sveitarfélögin, svo sem Siglufjörður og Sauðárkrókur, eiga í miklum fjárhagslegum erfiðleikum. Hlýtur það að verða hluti af væntanlegum áætlunum að gera till. um, hvernig hægt sé að leysa fjárhagsörðugleika þessara bæja og annarra sveitarfélaga, ef á þarf að halda. Aðalatriðið er, að gerðar séu áætlanir til langs tíma, sem miði að því, að landlægu atvinnuleysi sé algerlega útrýmt á þessu landsvæði. Þarf að koma til bæði framtak og dugnaður heimamanna og opinber aðstoð. Hið fyrsta, sem verður að gera, er að gerð sé áætlun hér að lútandi. Þess vegna er þessi till. flutt.

Enn er sú ástæða fyrir flutningi þessarar till., að samkv. nýjum lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins er gert ráð fyrir, að héraðssamtök hafi nokkur völd og fjárráð varðandi framkvæmdir tiltekinna áætlana. Tel ég alveg sjálfsagt, að heimamenn hafi nokkuð um það að segja, hvernig framkvæmdum skuli hagað og hvaða atriði skuli tekin inn og í hvaða röð. En 29. gr. laga um Framkvæmdastofnun ríkisins hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hlutverk Byggðasjóðs er að stuðla að jafnvægi í byggð landsins með því að veita fjárhagslegan stuðning til framkvæmda og eflingar atvinnulífs með hliðsjón af landshlutaáætlunum, sbr. 8. gr., og til að bæta aðstöðu til búsetu í einstökum byggðarlögum og koma í veg fyrir, að lífvænlegar byggðir fari í eyði.“

Í 31. gr. segir:

„Stjórn Byggðasjóðs er heimilt að greiða landshlutasamtökum sveitarfélaga af fé sjóðsins sem svarar 3/4 hlutum af árslaunum starfsmanns, að því tilskildu, að hann vinni að undirbúningi og gerð áætlana fyrir viðkomandi landshluta í samvinnu við áætlanadeild.“

Og enn segir í 32. gr.:

„Framkvæmdaráð gerir árlegar áætlanir um heildarútlán Byggðasjóðs á komandi ári og gerir frv. að slíkri áætlun á grundvelli landshlutaáætlana og leggur fyrir stjórnina. Þá tekur stjórnin einnig ákvörðun um einstakar lánveitingar og kveður á um tryggingu fyrir láni, vexti og afborgunarskilmála hverju sinni. Stjórn Byggðasjóðs skal hafa samráð við viðkomandi landshlutasamtök sveitarfélaga við ráðstöfun fjár úr sjóðnum, eftir því sem við verður komið.“

Hér er kveðið mjög fast og ákveðið á um, að þessar framkvæmdir skuli gerðar í sambandi við landshlutaáætlanir og í samráði við heimamenn hverju sinni. Af því, sem hér hefur verið vitnað til, er augljóst, að ætlazt er til, að heimamenn hafi verulega íhlutun um, hvernig að þessum verkefnum skuli unnið. Tel ég það rétta stefnu, og m.a. þess vegna flyt ég þessa till.

Ég vil að lokum leggja áherzlu á, að hér er um að ræða landshluta, sem á síðasta áratug eða lengur hefur orðið á eftir öðrum landshlutum varðandi uppbyggingu atvinnufyrirtækja og flutning fjármagns inn í landshlutann. Það getur því ekki talizt óeðlilegt, sízt í því góðæri, sem almennt er í landinu, þó að vakin sé athygli á þessum vandamálum, sem hér hafa verið gerð að umræðuefni, og ég þykist mega treysta því, að hæstv. ríkisstj. og hv. þm. séu á svipaðri skoðun.

Herra forseti. Ég legg til, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. allshn.