28.04.1972
Sameinað þing: 62. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í D-deild Alþingistíðinda. (3531)

172. mál, framkvæmdaáætlun fyrir Norðurlandskjördæmi vestra

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. allshn. fyrir jákvæða afgreiðslu á þessu máli, og ég get vel fallizt á þá breytingu, sem n. leggur til, að sé gerð á orðalagi. Aðalatriðið fyrir mér er, að Framkvæmdastofnun ríkisins taki þetta mál, atvinnumálefni Norðurl. v., til sérstakrar áætlunargerðar vegna hins stöðuga og ég vil segja að mörgu leyti óvenjulega ástands, sem ríkir í atvinnumálum kjördæmisins. Ég fagna því, að n. er sammála um afgreiðslu þessa máls á þennan máta og vonast nú aðeins til, að sú merka stofnun Framkvæmdastofnun ríkisins muni hefjast snögglega handa og vinna að verkinu.