20.01.1972
Sameinað þing: 29. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í D-deild Alþingistíðinda. (3543)

48. mál, umboðsmaður Alþingis

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Sú till., sem hér liggur fyrir til umr., er þess efnis, að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að láta undirbúa löggjöf um stofnun embættis umboðsmanns Alþingis. Á að hafa hliðsjón af sambærilegri löggjöf annarra þjóðþinga á Norðurlöndum og enn fremur, að frv. þessa efnis skuli lagt fyrir næsta reglulegt Alþingi.

Þetta er ekki nýtt mál hér í sölum Alþingis, því að þáltill. þessa efnis var flutt nokkrum sinnum af Kristjáni Thorlacius, þegar hann sat á þingi sem varaþm. Framsfl. Till. hans var þó frábrugðin minni í tveim atriðum. Hann vildi sérstaka nefndarskipun til undirbúnings slíkri löggjöf, og hann vildi, að hliðstæður embættismaður íslenzkur við „ombuds“-mennina á Norðurlöndum bæri hið forna heiti lögsögumaður.

Í umr. þeim, sem urðu hér á hv. Alþ. um till. Kristjáns, kom m.a. fram gagnrýni á heiti þetta í þessu sambandi. Á það var bent af þáv. hv. þm. Einari Olgeirssyni, að lögsögumannsheitið hefði verið tignarheiti á æðsta manni þjóðveldisins og meðan áhrif hans voru sterk fyrstu tvær aldir okkar þjóðveldis, áhrif, sem ekki voru byggð á valdi, átti þjóðveldið það sameiginlegt með öllum slíkum frjálsum bændasamfélögum og ættarsamfélögum, að hann var æðsti maður í frjálsu samfélagi, sem í raun þekkti ekki til ríkisvalds. Hann var fulltrúi almennings, eins og þessi hv. þm. orðaði það. Sú skoðun kom enn fremur fram, að lögsögumannsheitið ætti að varðveitast í sögu okkar eins og það var og ekki eiga á hættu að rýra það í meðferð nútímaþjóðfélags. Á þessa skoðun hef ég fallizt og því kosið að velja í þessari þáltill. minni sambærilegt embættisheiti og notað er á Norðurlöndum.

Varðandi sérstaka nefndarskipun til undirbúnings slíkri löggjöf, ef till. verður samþ., þá tel ég slíkt óþarft, því að, að sjálfsögðu verða til þess valdir menn úr hópi okkar fróðustu lagasmiða, t.d. bæði núv. og fyrrv. prófessorar við lagadeild Háskólans. Ég treysti fyllilega núv. hæstv. dómsmrh. til þess að velja menn til slíks, því að eins og ég get um í grg. með till. minni, þá hefur hann einmitt flutt mjög merkilegt erindi um umboðsmenn þjóðþinga á Norðurlöndum á fundi í félagi laganema í apríl 1966, og þetta erindi hans birtist einmitt í tímariti þeirra, Úlfljóti, skömmu síðar. Það hefur meira komið fram opinberlega um þetta mál hér á landi. Má t.d. benda á athyglisverða grein um sama efni í tímaritinu Stefni vorið 1965 eftir Hörð Einarsson lögmann, og hef ég leitað mér fróðleiks í báðar þessar greinar og reyndar í þær umr., sem urðu um þetta mál á sínum tíma, þegar Kristján Thorlacius flutti það.

Eins og kemur fram í þáltill. sjálfri, hefur verið komið á fót á hinum Norðurlöndunum embætti umboðsmanns viðkomandi þjóðþinga. Honum er ætlað það hlutverk af þingsins hálfu að hafa eftirlit með lagaframkvæmd, embættissýslu, annarri stjórngæzlu og í sumum tilfellum dómstólum, eftir því sem nánar er á kveðið í viðkomandi löggjöf. En fyrst og fremst er hlutverk þessara sérstöku trúnaðarmanna þjóðþinganna að styrkja og tryggja réttarstöðu einstaklinganna gagnvart stjórnvöldum. Í þessum löndum öllum, einnig á Nýja-Sjálandi og í Vestur-Þýzkalandi, sem búa einnig við skylda eða svipaða löggjöf, er umboðsmaðurinn kosinn af viðkomandi þjóðþingi. Hann er trúnaðarmaður þingsins og tekur umboð sitt frá því. Þingið setur honum starfsreglur og getur vikið honum frá, en hann tekur ekki við neinum fyrirmælum frá því og er því alveg óháður í starfi. Hann stendur ofar hinu almenna embættiskerfi, og hann er óháður handhöfum framkvæmdavaldsins, svo sem ráðherrum. Á Norðurlöndum er kjörtími umboðsmannsins alls staðar fjögur ár eða sá sami og kjörtímabil viðkomandi þings. Það eru engar skorður settar við endurkjöri hans, en hins vegar má umboðsmaður ekki vera þm.

Nú hlýtur sú spurning að vakna, hvort þörf sé á slíkum embættismanni hér, hvort hinn íslenzki einstaklingur þurfi frekari málsvara en hann hefur til að tryggja réttarstöðu sína gagnvart stjórnvöldum. Persónulega er ég þeirrar skoðunar, og þess vegna hef ég flutt þessa þáltill., sem er hér til umr. Forsendur þess, að embætti þetta verði sett á stofn hér, eru svipaðar og hinar sömu og hjá nágrannaþjóðum okkar. Hér á landi sem annars staðar hefur þróunin orðið sú, að afskipti opinberra aðila hafa aukizt í öllum málum, sem snerta hinn einstaka þjóðfélagsþegn. Ríki og sveitarfélög eru stærstu vinnuveitendurnir í okkar þjóðfélagi. Stærstu bankarnir og flestar aðrar lánastofnanir utan sparisjóða eru ríkiseign, og má þar t.d. benda á húsnæðismálastjórn, Fiskveiðasjóð og fleiri slíkar lánastofnanir. Algengast er, að sveitarfélögin eigi stærsta hluta allra byggingarlóða og úthluti þeim bæði til íbúða og atvinnurekstrar. Margs konar leyfi til atvinnurekstrar eru háð úthlutun hins opinbera. Enn fremur má nefna úthlutun styrkja og ýmiss konar hlunninda, embættisveitingar og veitingu annarra opinberra starfa. Þá má líka benda á, að opinberir aðilar taka eða hafna tilboðum, þegar opinberar stofnanir gera almennt útboð, og enn er ótalin, eins og áður hefur verið bent hér á, á hv. Alþ., framkvæmd skatta— og tollalöggjafar og kannske síðast en ekki sízt framkvæmd réttarfarslöggjafar. Þetta er að sjálfsögðu ekki tæmandi upptalning, en af henni má þó vera ljóst, að einstaklingarnir, sem þjóðfélag okkar byggja, eiga ekki svo lítið undir því valdi, sem opinberum afskiptum fylgir, að því sé réttlátlega skipt og því sé réttlátlega beitt.

Ég er með þessum orðum mínum ekki að draga úr því öryggi, sem einstaklingurinn í þjóðfélagi okkar býr nú við, og bendi þar bæði á dómstóla og svo hina æðri handhafa framkvæmdavaldsins, þar á meðal ráðherra, en þangað er auðvitað hægt að vísa margs konar málum. Og mín skoðun er sú, að í flestum tilvikum leysi starfs— og embættismenn hins opinbera, æðri sem lægri, störf sín af hendi eftir beztu getu og samkv. reglum, sem þeir eigi að fara eftir. En hættan er fyrir hendi, og hana er verið að undirstrika. Bæði viljandi og óviljandi yfirsjónir geta komið til greina í okkar stjórnkerfi, og geta þær komið um leið hart niður á einstaklingunum í þjóðfélaginu.

Ég flutti þessa till. fyrst í stjórnartíð hæstv. fyrrv. ríkisstj. Það er því ekki vegna þess, að ég telst nú til stjórnarandstöðunnar, að mál þetta er flutt nú. Þó verð ég að drepa á þá staðreynd, að sú yfirlýsta stefna hæstv. ríkisstj. um enn frekari samþjöppun hins opinbera valds, framkvæmdavaldsins, er nú að koma til framkvæmda. Í ljósi þess tel ég enn frekari ástæðu til þess, að því embætti, sem þáltill. fjallar um, verði komið á fót.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til, þegar mál þetta hefur verið rætt, að umr. um það verði frestað og því vísað til hv. allshn.