20.01.1972
Sameinað þing: 29. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í D-deild Alþingistíðinda. (3544)

48. mál, umboðsmaður Alþingis

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég minnist þess, að þegar þetta mál var fyrst flutt hér á Alþ., þá var fyrsta hugsun, sem greip mig, nokkur tortryggni gagnvart því á þeim forsendum, að hér væri verið að fara af stað með viðbót við báknið mikla, ríkisbáknið. Mér skildist að vísu þá strax, að till. væri í sjálfu sér góðra gjalda verð og góð hugsun stæði á bak við hana, sú að tryggja skilyrðislausan rétt þegnanna til þess, að lög og reglur þjóðfélagsins næðu jafnt til þeirra allra, væru látin ganga jafnt yfir alla. En mér var sú spurning þá mjög í huga og er það nú raunar enn, hvort sá góði tilgangur næðist, hvort ekki yrði bara úr þessu nýtt bákn til viðbótar við allt hitt, sem ekki næði sínum góða tilgangi, sem fyrir þáv. flm. og núv. flm. hefur vakað.

Nú höfum við okkar dómstóla, þar sem menn geta leitað réttar síns á mörgum sviðum og rekið mál sín eftir reglum dómsmálanna. En það er þó vafalaust alveg rétt, að ýmislegt misrétti verður ekki leiðrétt eftir þeirri leið. Í mörgum tilvikum er sú leið of þunglamaleg til þess, að það henti að fara hana til þess að ná rétti sínum. Með það í huga vil ég mæla með þessari till., mæla með því, að þetta mál verði allt rækilega skoðað, og það því fremur sem ég sé ekki betur en hætta á ýmiss konar misrétti í þjóðfélaginu hafi farið og fari vaxandi ár frá ári.

Það er kannske ekki mikið hjá miklu, svona ef litið er vítt um heimsbyggðina, en það er þó óhætt að segja það, að stjórnunar— og embættiskerfi okkar á Íslandi er orðið næsta flókið. Við viljum kannske heldur segja fullkomið, því að það er orðið svo fullkomið, að það er næstum að segja daglegur viðburður, — það þekkjum við vel hér þm., sem erum í beinni snertingu við t.d. sveitarstjórnarmenn og ýmsa forsvarsmenn úr héruðum. — það er orðinn svo til daglegur viðburður, að ýmsir slíkir frammámenn þjóðfélagsins villist í þessum frumskógi og að villan verði svo alvarleg, að þeir prísi sig sæla að komast út úr skóginum, þó að þeir hafi aldrei komizt á ákvörðunarstað. Og umkomuleysi almennings gagnvart kerfinu er í ýmsum tilvikum orðið svo til algert.

Okkar félagslega löggjöf, t.d. tryggingalöggjöfin, er í eðli sínu það margslungin, að það er kannske varla við því að búast, að allur almenningur komist í gegnum hana án leiðbeiningar. Og ég álít, að það þurfi að skipuleggja betur en gert er í sambandi við það mál eitt út af fyrir sig upplýsingaþjónustu og fyrirgreiðslu við almenning. Ég ætla ekki að nefna nein dæmi frá því sviði. En þó er auðvelt að nefna dæmi um það, þar sem einstaklingar hafa átt mjög erfitt með að ná rétti sínum, þeim rétti, sem löggjafinn ætlast til, að þeir hafi. Ég hef í huga ýmis slík mál, en ég ætla þó ekki að fara út í þau. En til þess að árétta enn frekar sumt það, sem flm. þessa máls tók hér fram, þá langar mig til þess að nefna ein tvö, þrjú dæmi, alveg ný, sem ég þekki alveg frá fyrstu hendi um reynslu manna, sem hafa staðið í því stríði að komast í gegnum frumskóginn, þ.e. til botns í stjórnunarkerfinu varðandi þau mál, sem þeir hafa haft þá með höndum.

Fyrsta dæmið, sem ég vil nefna, er á þá leið, að forsvarsmaður 10 sveitarfélaga úti á landi er hér staddur í bænum í nóvembermánuði s.l. Hann þarf að fá ákvörðun tekna, um það, hversu innrétta skuli byggingu, sem er í smíðum á vegum þessara 10 sveitarfélaga, m.ö.o. opinbera byggingu, sem sveitarfélögin og ríkið standa að. Honum er ráðlagt að leita fyrst til framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar, eða hvað hún heitir þessi nýja deild okkar þar. Hann gerir það. Honum er þá bent á, að réttara muni að tala um þetta mál í fyrstu lotu við viðkomandi rn. Hann gerir það, og gekk þó seint að finna réttan aðila, því að það var mikið að gera á þessum árstíma. Já, hann fór í rn., en þar var honum bent á, að þetta ætti hann fyrst að bera upp í hagsýslustofnuninni. Þessir þrír aðilar hefðu með sér samstarfsnefnd, og það væri eðlilegast, að hann færi þangað, því að þeim þar bæri að kalla nefndina saman. Þá var þrotinn tími hans í bænum, og hann fól mér framhald málsins. Ég náði svo í hagsýslustjórann, og hann sagði, að þar sem þetta mál heyrði undir ákveðið rn. og það væri því fyrsti aðili í málinu, þá væri eðlilegt, að það hefði frumkvæði að því, að nefndin kæmi saman út af þessu máli. Nú var, eins og ég tók fram áðan, mjög mikið að gera í rn. á þessum tíma, og kannske hefur Alþ. átt einhvern þátt í því að skapa það annríki. En hvernig sem því var nú háttað, þá náði ég tali af, ja, ekki að vísu ráðuneytisstjóra, en samt manni í rn., sem þekkti málið. Hann viðurkenndi þeirra aðild að þessu, en sagði, að fyrst og fremst væri þetta þó, eins og nú væri komið, mál þeirra í Innkaupastofnuninni. Þá var þetta komið aftur til baka til upphafsins. Í þetta mun hafa farið allt að því mánuður, svo að ég ýki nú ekki neitt. Ég held, að forsvarsmaður sveitarfélaganna hafi alveg einbeitt sér að þessu, en komst þó ekki lengra á viku en á milli tveggja stofnana, en ég verð að játa það, að ég var í ýmsu öðru, svo að þetta var tómstundaverk hjá mér að fara það, sem hann átti eftir af slóðinni.

Nú er framhald af þessari sögu, og henni er sjálfsagt ekki lokið enn. Ég veit ekki til þess, að búið sé að taka ákvörðun enn um tilhögun á innréttingu í þessari byggingu. Það er örstutt síðan ég frétti af málinu, þegar ég kom að austan fyrir viku síðan. Þá var ekki komin ákvörðun um þetta, og þá var tapaður sá tími, sem þeir heima töldu hentugastan til þess að framkvæma þetta verk, allt haustið og það, sem af er þessu ári. Fjárveiting var nóg fyrir hendi, en það vantaði ákvörðun um þetta, vegna þess að til greina kom, að þarna yrði eitthvað breytt tilhögun frá því, sem í fyrstu var ákveðið.

Það vill nú svo til, að ég hafði áður kynnzt því, hvernig það gekk í fyrstu að fá ákvarðanir varðandi þessa stofnun. Það var, þegar byrjað var á byggingunni. Þá var veitt fé á venjulegan hátt til hennar, bæði af heimaaðilum og hér á hv. Alþ., en eftir var að ákveða vissa hluti, hvernig með skyldi fara og hvenær ætti að hefja framkvæmdina. Ég veit nú ekki nákvæmlega, hver var ákvörðunaraðili, nema það dróst á langinn að fá ákvarðanir teknar og gerðar nauðsynlegar teikningar, þannig að það var ekki hægt að byrja á steypunni fyrr en undir haust. Og mér er það minnisstætt, þegar ég í morgunsárið eftir frostnótt var á ferð þarna í þessu kauptúni og kom þar að, sem verkamenn við þessa byggingu stóðu með rauða hvarma og svartir af sóti í reyknum frá olíueldunum, sem þeir höfðu kynt alla nóttina til þess að verja frosti grunninn að þessari byggingu, sem þeir voru þá nýbúnir að steypa upp. Og ég fullyrði, að þetta dróst svona fram á haustið eingöngu út af því, að það dróst að taka ákvarðanir hjá viðkomandi stjórnarvöldum um það, hvenær hægt væri að byrja á þessari byggingu.

Ég ætlaði að nefna annað dæmi. Það var líka á s.l. ári, trúi ég, sem það skeði, að oddviti einn utan af landi kom hingað suður til þess að fá úrslit í máli varðandi opinbera framkvæmd. Fjárhæðin var ekki stór, hún hljóp á 300—400 þús., en það hafði ekki fengizt afgreitt, hversu með málið skyldi fara. Hann var búinn að vera hér eitthvað í viku, án þess að koma nokkru til vegar í því og var vísað frá Heródesi til Pílatusar, eins og stundum er sagt. Nú var þessi oddviti eins og fjöldamargir aðrir sveitarstjórnarmenn úti á landi ekki oddviti að aðalstarfi, heldur er hann fiskimaður, og þegar leið á vikuna, frétti hann af aflahrotu á heimaslóðum og fór að ókyrrast. Ég hitti hann snemma morguns hérna úti í Pósthússtræti, og var þá mjög af honum dregið, enda hart að komast ekki í aflann, og vissi nú ekki, hvern upp skyldi taka. Ég tók hann með mér inn í Þórshamar og ræddi við hann um málið og vísaði honum til vegar, ekki bara út úr frumskóginum, heldur á leiðarenda. Ég rakst út á flugvöll seinna þennan dag. Þá var hann þar ferðbúinn, og málið var leyst. Ég get látið það fylgja með, á hvern hátt ég vísaði honum til vegar. Ég vísaði honum á ungan mann í viðkomandi rn., sem ég hafði nýlega kynnzt, og sagði við hann: Farðu til þessa manns og vittu, hvort hann vill ekki leiðbeina þér. Hann sagði mér þarna úti á flugvelli, að hann hefði hitt manninn og mér hafði orðið að trú minni, að hann leiðbeindi honum, og málið var leyst á hálftíma. Um aflabrögð, þegar heim kom, vissi ég nú ekki, enda er það önnur saga.

Og ég skal bæta enn einni sögu við, hún er stutt. Hún er líka um sveitarstjórnarmann, oddvita utan af landi. Hann varð of seinn að skila reikningum varðandi endurgreiðslu á framlögum ríkissjóðs til viss fyrirtækis og skilaði þessum reikningi í sept. 1970. Reikningurinn var fyrir árið 1969 og varðaði endurgreiðslu kostnaðar frá því ári. Þessi endurgreiðsla er ekki komin fram enn. Ég þekki þennan oddvita langbezt af þessum, sem ég hef nefnt. Hann hefur dvalið langdvölum hér í bænum á þessu tímabili og minnt kurteislega á þetta mál í hvert sinn; sem hann hefur haft samband við viðkomandi opinbera stofnun, sem hefur verið nokkuð oft. En það hefur ekki enn þá unnizt tími til að afgreiða þetta mál. Þar er þó ekki heldur um háa fjárhæð að ræða. Hún mun nema 20—25 þús. kr.

Svona dæmi er hægt að rekja alveg endalaust, og ef við lítum á annan flöt málsins, pappírshaugana, sem hlaðið er upp hjá því opinbera, þá er ekki betra uppi á teningnum. Þessir pappírshaugar geta verið ágætir til að vinna úr fyrir þá menn, sem hafa það að fullu starfi og eru til þess lærðir. En það gerir skakka í málinu, þegar annars vegar eru slíkir að verki og hins vegar sveitarstjórnarmenn, sem hafa pappírsvinnuna í hjáverkum, eins og t.d. maðurinn, sem ég nefndi áðan, og fleiri og fleiri. Þá er það bara tilfellið, að mörgum manninum fellur allur ketill í eld, þegar hann meðtekur hauginn.

Ég skal nefna tvö dæmi um þetta, hvernig búið er að hlaða upp þessum pappírum. Um tíma voru reikningar yfir kostnað við skólahald á næsta furðulegum eyðublöðum. Þá var það fundið upp, að allir reikningar yfir opinber eða hálfopinber fyrirtæki skyldu vera með sömu textum, með sama formi. Og þá voru t.d. reikningseyðublöð fyrir húsmæðraskólana þannig, að í textum þeirra voru liðir eins og salt, smurolíur, beita, ís, áburður, fóðurbætir o.s.frv. Þessu hefur nú verið hætt og af einhverjum ástæðum. Það hafa kannske komið nýjar vélar. En þá hefur komið annað þess í stað. Það eru eyðublöð undir áætlanir um kostnað fyrir þessa skóla. Ég vitna nú í þá, af því að ég hef haft með höndum málefni eins slíks skóla sem formaður skólanefndar. Mér barst nýlega í hendur gömul gerðabók og bréfabók frá þessari stofnun frá því að hún varð til fyrir 40 árum síðan, og rakst ég þar á áætlun, sem hafði verið send hér suður í rn. og látin nægja þá. Hún var á 8 línum. Þetta var rétt í þann mund, sem ég fékk í hendur eyðublöðin undir þá áætlun, sem ég átti að gera fyrir næsta ár. Og nú láta menn sér ekki nægja 8 línur eða eitthvað svoleiðis, heldur eru það 8 prentaðar bls. undir áætlun um kostnað við þennan sama skóla. Það er t.d. búið að taka viðhaldskostnaðinn niður á þrjú eða fjögur sérstök eyðublöð, eitt undir lóð, eitt fyrir húsgögn, eitt fyrir kennslutæki og eitt fyrir skólahúsið, til þess að —ja, ég veit ekki til hvers. Það er bezt að láta því ósvarað hér. En þetta er bara fyrir þann lið í rekstrinum, sem nefndur er viðhald. Svo eru náttúrlega sérstakir liðir fyrir annan rekstrarkostnað. Ég nefni þetta bara sem dæmi, af því að ég þekki þetta persónulega, þessa tegund pappíra. En svona er þetta á ótal, ótal mörgum sviðum.

Um leið og ég lýsi stuðningi mínum við þessa till. og við það, að athugað verði mjög vandlega, hvort ekki sé hægt að koma til liðs við menn á þann hátt, sem þar greinir, þá vil ég auðvitað undirstrika það, að við verðum að vinna að því að draga úr þessum ósköpum og lagfæra á annan hátt. En það tekur sinn tíma. Það er ekki þægilegt að færa klukkuna til baka, og það tekur sinn tíma að breyta kerfinu. Ég held þess vegna, að við eigum að skoða þetta mál mjög vandlega og gera það alveg upp, hvort ekki er ástæða til að koma upp slíku embætti, sem hér er um rætt, samhliða því, sem við vinnum að því öll í senn að draga úr þessum og þvílíkum vanköntum á okkar ágæta íslenzka þjóðfélagi.