20.01.1972
Sameinað þing: 29. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í D-deild Alþingistíðinda. (3545)

48. mál, umboðsmaður Alþingis

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Fyrirmynd að þessu starfi umboðsmanns þings er fyrst og fremst í Svíþjóð, þar sem um mjög langan aldur hefur verið embætti, sem heitir þar „justitieombudsman“ Þegar Danir endurskoðuðu stjórnarskrá sína 1953, tóku þeir upp eftir þessari sænsku fyrirmynd embætti umboðsmanns þjóðþingsins. Danir voru svo heppnir að fá til þessa starfs einn allra fremsta og frægasta lögfræðing Dana. Stephan Hurwitz prófessor. Honum tókst með framsýni, festu og réttsýni að byggja upp þetta starf með þeim hætti, að almenna viðurkenningu og aðdáun hefur hlotið, ekki aðeins í Danmörku, heldur í mörgum löndum. Ýmis fleiri lönd hafa tekið þetta upp, fyrst og fremst eftir hinni dönsku fyrirmynd. M.a. hefur það orðið sums staðar í hinum enskumælandi heimi, og svo þekkt er þetta danska kerfi, að það er komið inn í enska tunguorðið.,ombudsmand“, tekið úr dönsku eftir þessari fyrirmynd.

Það er enginn efi á því, að flest ef ekki öll þau lönd, sem tekið hafa upp þessa skipan, telja hana hafa orðið mjög til bóta. En aðaltilgangur þessa starfs er sá, að einstaklingar og samtök þeirra geti leitað til þessa umboðsmanns þingsins, ef þeir eða þau telja sig órétti beitta eða ekki ná lögum. Nú má að vísu segja, að í flestum slíkum málum sé sá möguleiki að leita til dómstóla, en á því eru margir erfiðleikar og vankantar. Stundum er það þannig, að einstaklingar veigra sér við því að stefna ríkinu eða opinberum stjórnvöldum. Í annan stað tekur það oft langan tíma, kannske nokkur ár, að fá endanlegan dóm í slíkum málum, þegar mál eru búin að ganga í gegnum dómsstigin. Í þriðja lagi er oft mikill kostnaður við slíkt, sem mönnum hrýs hugur við.

Ef einhver telur rétti sínum hallað, þá getur hann leitað til þessa umboðsmanns, og venjan er sú, að umboðsmaðurinn og starfsmenn hans kanna málið tiltölulega fljótlega og gefa út álitsgerð um það. Álitsgerðir eða niðurstöður umboðsmannsins hafa ekki þá þýðingu, að hægt sé að framfylgja þeim með valdi eða aðför að lögum, eins og dómum. En ég þekki það í Danmörku, að úrskurður eða álitsgerð umboðsmanns þjóðþingsins hefur þar slíkt áhrifavald, getum við sagt, að engum dettur annað í hug en að fara eftir þeim úrskurði. Þessir úrskurðir hafa oft falið í sér yfirlýsingu um það, að einhver stjórnvöld hafi ekki farið að lögum, eða ávítur til einstakra stjórnvalda. T.d. minnist ég þess, að fyrir nokkrum árum fékk einn af ráðherrunum í Danmörku vítur frá umboðsmanninum út af vissri framkvæmd eða aðgerð.

Ég er sannfærður um, að það væri heppilegt og æskilegt fyrir okkur Íslendinga að koma upp slíkri starfsemi. Og ég held, að við þurfum ekki annað en hugleiða ýmis þau ágreiningsefni, sem risið hafa hér á undanförnum árum, til þess að sjá, að sum þeirra hefðu væntanlega orðið leyst snemma, ef þetta starf eða slíkur starfsmaður hefði verið til. Ég skal nefna eitt mál sem nú að undanförnu hefur vakið ákaflega miklar og heitar deilur. Það er Laxármálið, Laxárdeilan. Nú hefur hún að nokkru leyti frá upphafi snúizt um það, hvort farið hafi verið að öllu leyti að lögum í því efni. Ég geri ráð fyrir því, að ef embætti umboðsmanns hefði verið til hér, þá hefði annar aðili eða kannske báðir skjótlega leitað til þessa starfsmanns og fengið álit hans um það, og mjög er líklegt, að slík álitsgerð, rækileg könnun á málinu strax af hlutlausum aðila, hefði getað orðið til þess að leysa það vandamál strax á fyrsta stigi. Þannig mætti vafalaust lengi telja, þó að vitaskuld sé aldrei hægt að fullyrða um það fyrir fram, hvort eitt eða annað mál kynni að leysast með þeim hætti.

Ég hef frá því að fyrst kom til orða að endurskoða stjórnarskrá okkar Íslendinga, sem var í sambandi við lýðveldisstofnunina, verið þeirrar skoðunar, að við ættum að lögfesta hjá okkur þetta starf, og helzt þyrfti það að vera ákveðið í stjórnarskránni til þess að veita því þá festu, sem þyrfti. Varðandi heiti á þessu starfi hafa tvö orð verið nefnd, lögsögumaður og umboðsmaður Alþingis. Ég tel, að annmarkar séu á þeim báðum, og tel að ef í þetta verður ráðizt, þá væri þriðja heitið æskilegast, og það er ármaður, ármaður Alþingis eða ármaður ríkisins. Orðið ármaður hefur þá fornu merkingu að vera eftirlitsmaður ríkisvaldsins, svo að, að því er það atriði snertir tel ég, að hér væri í rauninni aðeins tekið upp orð með að vissu leyti svipaðri merkingu eins og það hafði áður fyrr.

Ég vil lýsa stuðningi mínum við þessa till. um leið og ég tek fram, að ég tel æskilegt, að á sínum tíma yrði ákvæði um þetta starf tekið inn í sjálfa stjórnarskrána.