07.12.1971
Sameinað þing: 21. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í D-deild Alþingistíðinda. (3558)

87. mál, sjálfvirk radíódufl í skipum

Flm. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Allir landsmenn eru vafalaust sammála um, að tryggja beri öryggi sjómanna okkar við þeirra hættulegu störf svo sem frekast er kostur. Þessi till. til þál., sem ég hef ásamt Bjarnfríði Leósdóttur borið fram, er þáttur í þeirri viðleitni að auka öryggi sjómanna.

Mörg dæmi eru þess, að sjómenn hafa lent í löngum og of löngum hrakningum, vegna þess að þeir hafa ekki fundizt nægilega fljótt, ef alvarlegt slys hefur borið að höndum. Með tilkomu sterkra sendistöðva í dufli sem þessu, sem segir frá í grg. væri öryggi hvað þetta varðar orðið miklu meira en nú er. Í bátunum eru nú neyðartalstöðvar, sem að vísu geta gert talsvert gagn, ef til þeirra næst í bráðum hættu tilfellum, en sá galli er á þeim, að þær hafa fremur lítið sendiafi, en umrætt radíódufl mikið, svo mikið, að það er tiltölulega auðvelt að miða það og staðsetja með allmikilli nákvæmni, þótt langt sé í það. Samkv. upplýsingum frá Slysavarnafélagi Íslands reyndist duflið ljómandi vel og heyrðist um allt land, þegar það var reynt á Gísla Johnsen hér í Faxaflóa. Japanskir fiskimenn hafa notað þetta dufl árum saman og reyndar einnig fiskimenn annarra þjóða, og hefur notkun þess orðið til þess að bjarga fjölmörgum fiskimönnum Japana. Skrifstofustjóri Slysavarnafélagsins upplýsti mig um það, að þetta dufl hefði þegar bjargað miklum fjölda sjómanna, jafnvel svo þúsundum skipti. Þessi þjóð, Japanir, er komin lengst í gerð slíkra radíódufla að áliti margra þeirra, sem hafa kynnt sér þetta mál rækilega, en margir aðrir aðilar framleiða nú svipuð tæki. Það gæti jafnvel komið til mála, að framleiðsla slíkra radíódufla færi fram hérlendis til þess að spara gjaldeyri og skapa vinnu, svo að eitthvað sé nefnt, en þau kosta hingað komin anzi mikla peninga, allt frá 20 þús. og upp í 80—90 þús. kr., svo að nefndar séu þær upplýsingar, sem ég hef fengið síðast. Og þetta verð fer vissulega mjög mikið eftir því, hve mikil gæði þessi dufl hafa til að bera.

En ég hef því miður ekki fengið enn í hendur staðfestar allar þær upplýsingar, sem ég hef leitað eftir, en gæti hugsanlega lagt þær fyrir þá nefnd, sem fengi málið til meðferðar. Sjálfsagt er að leita upplýsinga og álits frá fleiri aðilum, sem reynt hafa slík tæki, og svo að sjálfsögðu, að Skipaskoðun ríkisins fái þetta til athugunar og umsagnar og ekki sízt þær endurbætur, sem framleiðendur hafa gert á þessum duflum. Þær endurbætur eru fyrst og fremst fólgnar í því, að það er hægt að prófa það hvenær sem er, hvort nægilegt rafmagn sé fyrir hendi, sem senditæki duflsins eru tengd við, aðeins með því að ýta á einn takka, sem sýnir, hvort nægilega mikið rafmagn sé í duflinu. Þótt dufl þessi yrðu keypt frá útlöndum, þá yrði hér heima að stilla inn á hvert dufl kallmerki viðkomandi báts, sem fær þetta dufl.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta miklu frekar, en ég hef heyrt marga sjómenn mæla með því, að slík dufl kæmu í íslenzk skip, og ég vil geta þess að á nýafstöðnu þingi Farmanna— og fiskimannasambandsins var lýst yfir meðmælum með þessari till.

Ég skora á hv. þm. að veita þessari till. brautargengi og legg til, að, að loknum umr. verði málinu frestað og síðan vísað til hv. allshn.