03.02.1972
Sameinað þing: 33. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í D-deild Alþingistíðinda. (3581)

115. mál, byggingarsamþykktir fyrir sveitir og þorp

Flm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Við höfum leyft okkur að bera fram hér þáltill. um endurskoðun laga um byggingarsamþykktir fyrir sveitir og þorp. Þeir, sem flytja þessa till. með mér, eru hv. 2. þm. Sunnl., Ágúst Þorvaldsson, hv. 1. þm. Vesturl., Ásgeir Bjarnason, hv. 4. þm. Norðurl. v., Ragnar Arnalds, og hv. 7. landsk. þm.. Karvel Pálmason. Þáltill. er svona:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa nefnd til að endurskoða lög nr. 108/ 1945, um byggingarsamþykktir fyrir sveitir og þorp, sem ekki eru löggiltir verzlunarstaðir. Verði endurskoðunin við það miðuð að minnka umdæmi byggingarfulltrúa að því marki, að unnt sé að veita íbúum hvers umdæmis viðhlítandi þjónustu. Kannað verði, hvort hagkvæmt muni reynast að tengja starf byggingarfulltrúa við hina almennu leiðbeiningarþjónustu landbúnaðarins, hvort stærð umdæmanna eigi að miðast við það, að byggingarfulltrúi geri teikningar og vinnuteikningar fyrir umdæmið að einhverju eða öllu leyti, eða hvort heppilegra sé að koma upp teiknistofum fyrir stærri svæði, er sjái um þessa þjónustu, og þá á hvaða fjárhagsgrundvelli slíkt verði gert. Nefndin leiti álits og umsagnar formanna sýslunefnda og búnaðarsamhanda um æskilega skipan þessara mála á hverjum stað, en hraði þó störfum svo sem kostur er.“

Lög um byggingarsamþykktir fyrir sveitir og þorp eru frá árinu 1945 og eru því 26 ára gömul. Á þessum tíma hafa orðið miklar breytingar í þjóðfélagi okkar á flestum sviðum og þó ekki sízt í allri mannvirkjagerð. Þegar umrædd lög voru lögfest, var nánast óþekkt að gera vinnúteikningar að húsabyggingum. Nú eru gerðar aðrar og meiri kröfur um allan undirbúning og frágang slíkra framkvæmda, enda hafa margs konar mistök kennt okkur, að á því var full þörf. Þó er enn víða pottur brotinn að þessu leyti og mikið í húfi að bæta úr því, þar sem byggingar eru mjög fjárfrekar framkvæmdir, og getur orðið erfitt og kostnaðarsamt að gera breytingar eftir á eða lagfæra galla, ef mistök eiga sér stað. Leiðbeiningarþjónusta í þessum mikilvæga þætti landbúnaðarins hefur engan veginn fylgt eftir þeirri þróun, sem orðið hefur á þessu sviði síðustu árin, og er svo komið, að ekki verður við unað lengur, enda eru uppi mjög háværar raddir um að gera breytingar á skipan þessara mála. Hins vegar mun sýnast sitt hverjum. í hverju breytingarnar eigi að vera fólgnar, og því er þessi þáltill. fram borin.

Það kemur margt til, að ekki má dragast lengur að endurskoða það kerfi, sem við búum við að þessu leyti. Stofnlánadeild landbúnaðarins gerir nú þær sjálfsögðu kröfur, að teikningar fylgi með lánsumsóknum. Byggingar eru í mörgum tilvikum stærri og margbrotnari en áður var og vinnúteikningar taldar sjálfsagðar, en voru óþekktar, eins og áður segir, fyrir 26 árum. Byggingarþjónusta landbúnaðarins hefur allt of lítið starfslið til að anna þeim verkefnum, sem leysa þarf af hendi ár hvert, og vafasamt, að slík skipan sé æskileg, t.d. að vinnúteikningar séu gerðar í Reykjavik fyrir landið allt. Það sýnist eðlilegra að tengja eftirlits— og leiðbeiningarstarfið þeirri undirbúningsvinnu með einhverjum hætti, og það er ekki lítils virði fyrir landsbyggðina að fá tæknimenntaða menn inn í héruðin til ráðuneytis um fyrirkomulag og gerð bygginganna, að þeir geri allar teikningar og fylgist með framkvæmdinni, geti skýrt vafaatriði, sem upp geta komið, hjálpað til að velja framkvæmdum stað og leiðbeint þeim, sem reyna að koma upp slíkum mannvirkjum með heimafengnu vinnuafli að mestu leyti.

Samkv. gildandi lögum er heimilt að hafa byggingarfulltrúa, sjö að tölu, utan við löggilta verzlunarstaði, og hvert umdæmi er miðað við kjördæmi. Þessi heimild hefur ekki verið notuð á Vestfjörðum. og í Reykjaneskjördæmi er þessi þjónusta innt af hendi samhliða öðru starfi. Má því segja, að ekki séu nú nema fimm byggingarfulltrúar, er starfa utan við hina löggiltu verzlunarstaði. Í ljós hefur komið, að þessi umdæmi eru allt of stór og engum manni fært að komast yfir það, sem þörf er á og krafizt er, miðað við nútíma aðstæður. Verður tæpast hægt að víkja sér undan því lengur að endurskoða þetta skipulag og freista þess að marka í þessum málum framtíðarstefnu, er uppfylli betur þarfir og kröfur samtíðarinnar og stefni að því að koma í veg fyrir mistök, er gætu leitt til sóunar mikilla fjármuna.

Til að sýna hinn mikla mun, sem er á umdæmum byggingarfulltrúa, eins og þau eru afmörkuð í gildandi lögum, skal ég greina frá því, hve margar jarðir eru í byggð í hverju kjördæmi og hvernig framleiðslumagnið er í hverju þessu umdæmi út af fyrir sig.

Í Reykjaneskjördæmi eru taldar í byggð 205 jarðir, og framleiðslan þar er 3.27% af allri framleiðslunni. Í Vesturlandskjördæmi eru byggðar jarðir 796 og framleiðslan 14.54%. Í Vestfjarðakjördæmi 459 jarðir og framleiðslan 6.11%. Í Norðurl. v. 803 jarðir og framleiðslumagnið þar er 15.36%. Í Norðurl. e. 939 jarðir og framleiðslumagnið þar er 21.66%. Í Austurlandskjördæmi 647 jarðir og framleiðslumagnið þar 9.36%. Í Suðurlandskjördæmi 1.211 jarðir, en framleiðslumagnið þar er 29.67%.

Síðan þessi þáltill. var fram borin, hef ég fengið nokkur bréf utan af landi í sambandi við þetta mál og á aðalfundi Búnaðarsambands Eyjafjarðar var borin fram till., sem var samþ. í einu hljóði, og til þess að sýna betur það, hvernig menn hugsa í þessu máli, þá langar mig til þess að vitna hér bæði í þessa till. og ýmislegt fleira, sem mér hefur borizt, síðan þessi mál komu hér fyrir þingið. Till., sem samþ. var hjá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar, er á þessa leið, með leyfi forseta:

„Með skírskotun til breytinga á starfstilhögun Teiknistofu landbúnaðarins telur fundurinn brýna þörf fyrir byggingarráðunaut á sambandssvæðinu. Felur fundurinn stjórninni að kanna þetta mál bæði fjárhagslega og lagalega og skila áliti fyrir næsta aðalfund. Tekið skal fram, að í þessu felst engin gagnrýni á núverandi byggingarfulltrúa, en fundurinn telur, að starfssvið hans sé of stórt fyrir einn mann.“

Í bréfi, sem fylgir þessu, kemur fram, að menn telja yfirleitt, að það þyrfti að skipta a.m.k. þessum stóru kjördæmum. t.d. Norðurl. e. og eðlilegt væri, að Eyjafjörður annars vegar og Þingeyjarsýslurnar hins vegar hefðu sinn fulltrúa. Ég hef fengið bréf bæði frá sýslumanni Eyfirðinga og sýslumanni Suður-Þingeyjarsýslu, sem telja, að þessi skipan mundi vera eðlileg og mundi kannske koma að gagni. Það hefur líka komið fram mikil óánægja með það ástand, sem er, að það eru stór svæði, sem borga í sýslusjóðinn, — en sýslurnar borga, eins og menn vita, hluta af launum byggingarfulltrúa, — og þó að sumir, t.d. kauptúnahrepparnir, fái þarna enga þjónustu, þá verða þeir að borga byggingarfulltrúunum sinn hluta, og það er mjög mikil óánægja með þetta. Það hefur líka sýnt sig, að víða er bara engin leið að fá teikningar, t.d. vinnuteikningar, og þó að þessir byggingarfulltrúar séu færir um að gera þær, þá anna þeir því ekki í þessum stóru umdæmum. Ég tel því, að það sé mjög brýnt að athuga skipan þessara mála, og það er enginn vafi á því, að það verður að mínum dómi a.m.k. bezta lausnin, að það verði einhvern veginn tengt leiðbeiningarþjónustu landbúnaðarins. Þegar þessir menn eru á ferðalögum, — ég þekki það í mínu héraði, — þá er enginn, sem getur svarað eða tekið skilaboð til byggingarfulltrúans, og það er oft mjög miklum erfiðleikum háð að ná til hans, og hefur komið fyrir, að það hefur verið auglýst eftir honum í útvarpi, eins og frægt er orðið.

En þetta er enn þá meira aðkallandi á þessum stöðum, þar sem framkvæmdatíminn er eins stuttur og hérna hjá okkur. Þetta getur blátt áfram tafið framkvæmdirnar þannig, að það, sem þarf að ljúka fyrir veturinn, sé ekki hægt að framkvæma, vegna þess að ekki er hægt að fá leiðbeinendur, ekki hægt að fá samráð við tæknimenntaða menn að þessu leyti.

Ég vona, að þessi þáltill. fái hér jákvæðar undirtektir. Ég vona, ef hún verður samþ., að hæstv. ríkisstj. skipi þessa nefnd, sem við leggjum til að verði skipuð til þess að rannsaka þessi mál, að hún verði fljót að vinna og leggja fram till., eins og þáltill. felur í sér, í frv.–formi að könnun lokinni, vegna þess að, að mínum dómi er mjög brýnt, að mál þetta verði leyst á annan veg en nú er. Því fyrr, því betra.

Ég legg svo til, að, að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til síðari umr. og allshn.