03.02.1972
Sameinað þing: 33. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í D-deild Alþingistíðinda. (3582)

115. mál, byggingarsamþykktir fyrir sveitir og þorp

Jón Snorri Þorleifsson:

Herra forseti. Það er vissuleg mikil þörf á því að endurbæta gildandi lög um byggingarsamþykktir í dreifbýlinu og fylgja betur eftir eftirliti með byggingum úti á landsbyggðinni heldur en gert hefur verið til skamms tíma, og raunar þarf að taka öll þessi mál til endurskoðunar allt frá grunni, allt frá því að byrjað er að hugsa fyrir byggingunni og teikna hana og til enda, til þess að hún er máluð eða veggfóðruð. Sannleikurinn er sá, að fjöldamörg hús, ekki bara gömul heldur all nýbyggð einnig, liggja undir skemmdum og eru allt að því hálfónýt, vegna þess að þar hefur vantað alla þekkingu á meðhöndlun efnis og aðferðum, sem nauðsynlegar eru til þess, að hús fái staðizt íslenzka veðráttu. Það er því full þörf á þessari þáltill., sem hér er til umr., og get ég út af fyrir sig verið samþykkur henni í megindráttum, en þó vil ég aðeins nefna hér tvö atriði, sem ég tel orka tvímælis í henni, og vildi vísa því til þeirrar n., sem tekur málið til meðferðar á milli umr., að huga betur að þeim atriðum.

Í till. segir, að byggingarfulltrúi geri teikningar og vinnúteikningar fyrir umdæmi að einhverju eða öllu leyti. Þá yrði m.a. verkefni hans að athuga, hvort verkið væri framkvæmanlegt. Í fyrsta lagi teldi ég það mjög óeðlilegt, að byggingarfulltrúi, sá aðili, sem á að fjalla um teikningar, sem byggja á eftir, og líta síðan eftir framkvæmd þeirra bygginga, sem byggðar yrðu samkv. þeim teikningum, fengi þar með vald til þess að líta eftir sínum eigin verkum. Það held ég, að væri í alla staði mjög óeðlilegt og óhyggilegt. Það þarf að sjálfsögðu að líta eftir verkum arkitektsins eins og öðru í sambandi við byggingarstarfsemina, og þess vegna ætti það að mínu viti frekar að vera óheimilt, að eftirlitsmaðurinn gerði þær teikningar, sem hann ætti að líta eftir framkvæmd á.

Í öðrum stað segir hér, að nefndin, þ.e. sú nefnd, sem skipuð yrði, leiti álits og umsagnar formanna sýslunefnda og búnaðarsambanda um æskilega skipun þessara mála á hverjum stað, en hraði þó störfum svo sem kostur er. Þessu er ég út af fyrir sig sammála. En ég tel nauðsynlegt, að þessi nefnd láti ekki staðar numið við það að leita einungis umsagnar formanna sýslunefnda og héraðasambanda. Með fullri virðingu fyrir þeirra starfsvettvangi og hæfni þeirra, þá tel ég alveg bráðnauðsynlegt, að einnig sé leitað álits samtaka tæknimanna, arkitekta, verkfræðinga, tæknifræðinga og iðnaðarmanna. Og enda þótt lögin, sem sett yrðu, yrðu einungis sá rammi, sem utan um þessa starfsemi yrði, og nánar yrði kveðið á um í reglugerðum, þá gæti sá rammi, sem lögin setja, haft inni að halda ýmsa þá vankanta, sem óæskilegir væru, en sem koma mætti í veg fyrir, að á þeim yrðu strax í upphafi, ef álits yrði leitað hjá þeim mönnum, sem hafa sérþekkingu á sviði byggingarmála.

Þetta vildi ég, að kæmi hér fram sem ábending til þeirrar þingnefndar, sem um málið fjallar milli umr., og bið hana að athuga, hvort ekki væri rétt að bæta þessu við það, sem segir í þáltill.