03.02.1972
Sameinað þing: 33. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í D-deild Alþingistíðinda. (3584)

115. mál, byggingarsamþykktir fyrir sveitir og þorp

Flm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Ég vil nú þakka fyrir þær góðu undirtektir, sem hafa komið fram hjá þeim tveimur ræðumönnum, sem hafa tekið hér til máls um till. Og ég vil fagna ábendingu hv. 1. þm. Vestf. um það, að efni, sem væri notað í byggingar yfirleitt eða víða a.m.k. úti á landsbyggðinni, væri ekki nógu gott. Við vitum það allir, að þannig er það, og þetta er mjög þörf ábending. En það verður að athugast vel hvernig hægt er að hafa eftirlit með slíku eða hvort hægt er að gera það að skilyrði fyrir t.d. lánveitingu, að efnið sé rannsakað. Nú er ekki hægt að skylda menn, sem eru langt frá þessum aðalstöðvum, að nota efni þaðan. Það væri of kostnaðarsamt. En það þyrfti sennilega að koma á einhverri skyldu til þess að rannsaka það efni, sem hver og einn kynni að nota. Við höfum séð það allvíða, að t.d. steinsteyptir veggir vilja molna niður, og það þarf auðvitað að koma í veg fyrir slík slys, ef hægt er með einhverjum hætti.

Báðir hv. ræðumenn viku að því, að það gæti verið vafasamt, að byggingarfulltrúinn annaðist teikningar, teikningar sem hann ætti svo að hafa eftirlit með sjálfur. Þessu er nú ekki slegið föstu í till., en ég vil bara benda hv. ræðumönnum á, að þetta er það, sem t.d. verkfræðingarnir gera. Þeir gera teikningar, t.d. járnateikningar og teikningar á sínu sviði, og hafa eftirlit með, hvernig verkið er framkvæmt, og bera ábyrgð á því. Og ég sé nú satt að segja ekki mikinn mun á því og ef t.d. byggingarfulltrúi, sem ynni slíkar vinnuteikningar, hefði eftirlit með því, að verkið væri unnið á þann hátt, sem ætlazt er til. Ég held nefnilega, að það, sem kannske aðallega er að í þessum málum, sé það, að byggingarfulltrúarnir, af því að þeir eru svona fáir og hafa svona stór svæði, þeir hafi ekki tíma til þess að fylgjast nógu vel með, koma nógu oft og fylgjast vel með, hvernig framkvæmdinni er háttað. Það held ég, að sé kannske alvarlegast í þessu máli.

Í sambandi við það, að rétt sé að leita álits annarra en t.d. formanna búnaðarsambanda og sýslunefnda, þá er ég alveg samþykkur því, þó að það felist ekki í till. og mundi telja það heppilegt, að haft yrði samráð eða a.m.k. leitað álits þeirra aðila, sem hafa þekkingu á þessu sviði. Og væri gott, ef nefndin, sem fær þetta mál, mundi athuga, hverjir það ættu að vera, og jafnvel að leita umsagnar þeirra um það, hvernig þessi athugun ætti að fara fram.