29.02.1972
Sameinað þing: 43. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í D-deild Alþingistíðinda. (3610)

158. mál, verðgildi íslenskrar krónu

Flm. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér till. til þál. á þskj. 303 um athugun á auknu verðgildi íslenzkrar krónu. Till. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta athuga, hvort eigi sé hagkvæmt að auka verðgildi íslenzkrar krónu, þannig að 10 kr. verði að einni og einn Bandaríkjadollar jafngildi kr. 8.80. Verðbreyting krónunnar verði þannig framkvæmd, að innstæður, sjóðir, vöruverð, vinnulaun og skattar lækki tífalt í krónutölu og skuldir einstaklinga og fyrirtækja hliðstætt.“

Eins og öllum hv. þm. er kunnugt, þá hefur verðgildi íslenzkrar krónu hvað eftir annað verið lækkað. Þetta hefur ýmsar afleiðingar í för með sér. Ég skal ekki á þessu stigi málsins fara að gera það að miklu umtalsefni, hvort þurft hefði að fella íslenzku krónuna jafn oft og mikið og gert hefur verið á undanförnum áratugum. Ég hef áður rætt það mál og hef haldið því fram, að það hefði verið hægt að lækka hana sjaldnar og minna en gert hefur verið. Lækkun peninga er fyrst og fremst eignatilfærsla. Það er tekið af eignum vissra aðila, t.d. sparifjáreigenda, tekinn hluti af eignum þeirra, en þeir, sem skulda, græða aftur á því. Þetta hefur þau áhrif, að fólkið hættir að vilja eiga fjármuni. Verðgildi sparifjárins minnkar, og það myndar rekstrarfjárskort hjá bönkunum. Þeir hafa ekki nægilegt fjármagn til þess að lána atvinnuvegunum. Það verður sífelldur rekstrarfjárskortur, þar sem alltaf er verið að lækka gengi krónunnar. Fólk vill ekki safna peningum. Það hefur reynsla okkar sýnt. Það reyna allir að koma fjármunum sínum í eitthvað annað, sem er öruggara heldur en að eiga peningana. Þessu fylgja einnig háir vextir, sem hafa lamandi áhrif á atvinnuvegina að því leyti til. Vegna þess að innlent sparifé er ekki nægilegt til, þá verður að leita að öðrum leiðum til að geta fullnægt þörf atvinnuveganna eftir lánsfé, og ef einhverjar framkvæmdir á að gera, þá eru fengin erlend lán að meira eða minna leyti. Ef verðgildi peninganna er hins vegar stöðugt, þá er fólkið fúsara að safna sparifjárinnstæðum og hægt er að lána meira af innlendu fé til framkvæmda og til atvinnuveganna. Þetta hefur sýnt sig glöggt hjá okkur. Bankarnir hafa sífellt verið í vandræðum við að fullnægja eftirspurn atvinnuvega og einstaklinga eftir fjármagni, og þá hafa verið farnar tvær leiðir til að bæta úr þessu. Það er að skattleggja atvinnuvegina til einhverra sjóða, sem hafa svo orðið að standa undir fjárfestingunni að meira eða minna leyti, og að leita eftir lánum erlendis frá. Hvort tveggja hefur skeð hjá okkur. Sjávarútvegurinn t.d. borgar til allmargra sjóða, og í heild eru skattar á sjávarútveginum, alls konar aukaskattar og sjóðatillög, 30 að tölu. Í iðnaðinum eru skattarnir lítið eitt færri. Þetta er fyrst og fremst afleiðingin af því að vera alltaf að lækka krónuna fyrir utan óréttlætið, að það er í raun og veru um eignarán að ræða.

Hin leiðin er að hafa gengið stöðugt og örva þannig fólkið til sparifjársöfnunar. Það kemur af sjálfu sér, ef það getur treyst því, að verðgildi peninganna haldist óbreytt, þá vill það gjarnan eiga peninga. Það er ekki von, að menn vilji eiga peninga, ef þeir búast alltaf við, að þeir verði verðfelldir. Og inn á þá leið hafa yfirleitt flestar þjóðir farið, sem hafa haft fjármál sín í góðu lagi, að reyna að hafa sem stöðugast gengi.

Vitanlega er ekki þægilegra að eiga aðrar eignir en peninga. Ef menn geta treyst því, að verðgildi þeirra haldist, þá er það fyrirhafnar lítið. Það er miklu þægilegra en að eiga húseign og leigja hana út og eltast við innheimtu á húsaleigu og aðra erfiðleika, sem því fylgja. Það hefur einnig þá þýðingu, að verðgildi peninga sé stöðugt, að þá verður fólk sparsamara. Það treystir á verðgildi peninganna og vill gjarnan eiga þá. Á þann hátt er hægt að hafa lægri vexti, og eins og ég tók fram áðan, þá er einnig hægt að gera meira fyrir eigið fé en ef allir keppast við að eyða því lausafé, sem þeir eiga eða hafa ráð á.

Þá er einnig hægt að komast hjá því að skattleggja atvinnuvegina, eins og við höfum neyðzt til þess að gera. Þessu breytilega verðgildi peninganna fylgja einnig kaupdeilur. Önnur hlið málsins eða gengislækkananna er það, að sparifjáreigendur eru rændir. Hin hliðin er sú, að það er tekið af kaupi launþeganna og styrkþeganna. Það hefur komið fram hvað eftir annað og það hjá þeim, sem hafa staðið að þessum gengislækkunum. Þeir hafa lýst því yfir, a.m.k. í samtölum við mig, að þetta kæmi ekki að gagni, ef kauphækkun fylgdi í kjölfarið. Og reynslan hefur verið sú, að það hefur tekið 2—3 ár að koma þeim breytingum fram, sem hefur leitt af gengislækkununum. Þannig hefur það verið nú, að í fyrra og í ár eru gengislækkanirnar að koma fram frá 1967 og 1968.

Ég held því, að það sé mikils virði fyrir öll þjóðfélög, sem vilja hafa fjárhag sinn traustan, að geta haft stöðugt gengi. Nú hefur það orðið þannig hjá okkur, að krónan er orðin ákaflega lítils virði. Fyrst þegar ég man eftir, var dollarinn eitthvað í kringum 6 kr„ fyrst þegar ég fór að fylgjast með fjármálum. Nú er hann orðinn 88 kr. Nágrannaþjóðir okkar hafa fellt gengið minna. Þó að verðgildi peninga hafi einnig minnkað hjá þeim, þá hefur það ekki verið í eins stórum stíl og hjá okkur. Afleiðingin af þessu er sú, að menn fara heldur óvarlegar með fjármuni, auk þess sem þeir leggja allt kapp á að eyða þeim peningum, sem þeir eiga, í stað þess að safna þeim. Við vitum það með alla hluti, sem mönnum er annt um, að þeir fara betur með þá, ef þeir álíta þá mikils virði. Við getum tekið góða bók og vel bundna. Menn fara betur með hana en einhverja ómerkilega skræðu. Ef maður á hest t.d., fer hann betur með gæðinginn heldur en einhvern hest, sem hann lætur sér ekki annt um og telur lítils virði. Og við getum tekið föt, sem einstaklingarnir ganga í. Þeir fara betur með vönduð og góð föt en lélega garma. Sama má segja um húsgögnin, sem við höfum í húsunum okkar. Ef þau eru vönduð og vel hirt, þá förum við gætilegar með þau en einhverja óvandaða hluti. Sama er að segja um góðar íbúðir. Menn reyna að ganga betur um þær en lélegar íbúðir. Þetta eru sálræn áhrif. Ef peningarnir eru lítils virði, fara menn óvarlegar með þá og meta þá lítils. Og þannig er það með önnur þjóðfélög. Þau líta heldur smáum augum fjármálavit þeirra þjóða, sem hafa lítið verðgildi í peningum og eru sí og æ að fella gengið, ætla að þar sé ótraust fjármálastjórn.

Við höfum ekki gert mikið af því að hækka peninga okkar í verði. Það skeði einu sinni, þegar Jón Þorláksson var fjmrh. Hann hækkaði einhliða gengi krónunnar, án þess að láta verðgildi skulda og launa breytast. Þetta kom ákaflega hart niður á atvinnuvegunum, sérstaklega sjávarútveginum, og ég held, að eins og sakir standa hjá okkur nú, þá sé það óframkvæmanlegt. Það er búið að taka þessa fjármuni af sparifjáreigendum, og það er ekki hægt að skila þeim aftur. Þess vegna er eina leiðin til þess að auka verðgildi peninganna hjá okkur og fá fólkið til þess að fara betur með þá að taka núll aftan af og láta skuldir og vinnulaun og vöruverð lækka alveg hliðstætt í krónutölu eins og verðgildi krónunnar eykst. Ýmsar þjóðir hafa reynt þetta, t.d. Þjóðverjar, Frakkar, Finnar og fleiri. Og alls staðar hefur þetta gefizt vel. Þetta hefur aukið traust á peningunum, og þetta hefur gert fjármál þessara þjóða miklu heilbrigðari, og ég er sannfærður um, að þessar þjóðir fara ekki út í ótakmarkaðar gengislækkanir óneyddar aftur. Þær hafa fengið nóg af því. Við vissum um ástandið í Þýzkalandi eftir stríðið, þegar verðgildi marksins varð eiginlega ekki neitt. Þjóðverja mun ekki langa til að endurtaka það.

Eitt af fyrstu verkum De Gaulles, sem var einn af mestu stjórnendum, sem Frakkland hefur átt, var það að auka verðgildi frankans. Þar munu hafa verið tekin tvö núll aftan af frankanum, og Finnar munu einnig hafa farið inn á þá leið.

Það er ekki meiningin með þessari till. minni að segja ríkisstj. beinlínis fyrir verkum. Ég hef ekki kveðið fastara að orði en það, að þetta sé athugað. En ef þingið vill, — því að ég geri ráð fyrir, að þessi till. fari til n., - þá getur það vitanlega breytt því orðalagi, svo að það verði ákveðnara. En mér finnst hæpið, að við segjum ríkisstj. skilyrðislaust fyrir verkum í þessu efni. Stjórnin þarf vitanlega að ráðfæra sig við þá menn, sem stjórna bönkunum, og þetta þarf allt nokkurn undirbúning. Þetta ætti ekki að geta skaðað neinn. Það ætti ekki að vera um neina eignatilfærslu að ræða. Ég geri ráð fyrir, að það þurfi að skipta um peninga að einhverju eða öllu leyti, sennilega öllu leyti, en krónan okkar er nú orðin svo lítils virði eða sem svarar til svona þriggja aura áður fyrr, eitthvað svoleiðis. Sannleikurinn er sá, að það er í raun og veru ekkert nema barnaskapur að hafa ekki minnsta verðgildi peninga nú sem svarar einni krónu. Það er hliðstætt því, sem Bretar hafa og aðrar þjóðir. Þeir hafa yfirleitt ekki minni mynt en sem svarar því og einnig Bandaríkjamenn, þannig að þessi auratala hjá okkur er ekkert nema barnaskapur.

Ég held, að það sé ekki hægt að fara þá leið, sem Jón Þorláksson fór. Ef við viljum auka verðgildi peninganna, þá verðum við að fara þá leið að taka núll aftan af og láta eignir og skuldir lækka hliðstætt því, sem verðgildi krónunnar eykst. Ég er ekki í vafa um það, að þing og stjórn bera höfuðábyrgðina á verðlækkun íslenzkrar krónu og á þeirri eyðslu, sem henni hefur fylgt, því að ef menn eiga einhverja aura nú, þá er reynt að kaupa bíl, fá sér íbúð eða eitthvað að gera við þá annað en eiga peningana. Það er ekki hægt að kenna fólkinu um þetta nema að mjög litlu leyti. Það er ekki von, að fólkið sé sparsamt, ef það getur ekki treyst á verðgildi peninganna.

Ég skal ekki á þessu stigi málsins fara út í það, hvort hægt hefði verið að haga okkar fjármálum öðruvísi undanfarin ár. En hinu er ekki hægt að neita, að stjórn og þing bera höfuðábyrgðina á þessu.

Hitt er rétt að taka fram, að ef ekki er breytt um fjármálastefnu, þá nær þetta vitanlega engan veginn tilgangi sínum. Við verðum að fara varlegar í sakirnar framvegis og reyna að halda genginu stöðugu, því að þó að við aukum verðgildi krónunnar, ef við byrjum undir eins á því að endurtaka gengislækkanir, þá verður allt í sama horfinu, fólk keppist við að eyða, og við verðum í rekstrar fjárskorti, höfum háa vexti og öll þau vandkvæði, sem því fylgja. Mér hefur oft fundizt við vera of eyðslusamir. Og það er ekki sízt þing og stjórn, sem eiga þátt í þeirri eyðslu, því að eftir höfðinu dansa limirnir.

Og ég held, að ef við viljum treysta gengi, þá verðum við að fara betur með fé okkar en við höfum gert. Unglingar byrja nú gjarnan á að kaupa bíl. Rekstur bíls kostar 100 þús. kr. eða meira á ári. Ef unglingarnir gætu treyst því, að peningarnir lækkuðu ekki í verði og þeir færu að safna, meðan þeir væru ungir, þá gætu þetta orðið miklir fjármunir, þegar þeir væru orðnir fullorðnir og þeir gætu notað þá til margra nytsamlegri hluta. Ég hygg, að Íslendingar séu eyðslusamari en nágrannaþjóðir þeirra, a.m.k. er það ekkert líkt með Þjóðverja og Norðmenn, hvað þeir eru sparsamari en við og fara betur með fé sitt. Vitanlega hefur margt þurft að gera hér á landi og margt, sem kallar að. En það er ekki hægt að ætlast til þess, að hægt sé að gera allt í einu.

Ég hef viljað vekja athygli á þessu máli og vona, að sú n., sem hefur með þetta að gera, taki þetta til vinsamlegrar athugunar, og ég hygg, að ef við berum gæfu til þess að halda okkar gjaldmiðli nokkurn veginn óbreyttum í framtíðinni, sem er raunar yfirlýst stefna núv. ríkist. þá geti þetta orðið mjög jákvætt fyrir fjármál okkar þjóðar.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þetta. Málið er í sjálfu sér ósköp auðskilið, og ég veit, að það þarf ekki að vera að útskýra það ítarlega fyrir þm. Ég vil leyfa mér að leggja til, að þessari þáltill. verði vísað til allshn.