29.02.1972
Sameinað þing: 43. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í D-deild Alþingistíðinda. (3612)

158. mál, verðgildi íslenskrar krónu

Flm. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykv. hefur haldið hér ágæta ræðu, og við erum að mestu leyti sammála. Það er alveg rétt hjá hv. þm., að 1970 var hægt að hækka gengi íslenzkrar krónu, en það var bara ekki gert nógu fljótt. Vinnudeilurnar voru komnar af stað og hækkunarkröfur, áður en gengið var hækkað. Það má vera, að ef Seðlabankinn og ríkisstj. hefðu verið nógu hröð að hækka gengið, hefði viðhorf verkalýðshreyfingarinnar orðið allt annað. En það þurfti að gera það, áður en kaupkröfurnar voru settar fram og deilur byrjuðu.

Ég er líka sannfærður um, að það þurfti ekki að lækka gengið 1968. Ég skrifaði þá grein í Vísi um það mál, benti á ýmis atriði, sem var hægt að gera til þess að fella ekki gengið. Og ég sagði, að það væri eitt, sem við ættum að stefna alveg markvisst að, og það væri að fella ekki gengið. Við vorum í öldudal með verðlag á okkar sjávarafurðum, en það er ómögulegt að hlaupa eftir því, þó að vara lækki í verði. Það verður þá að gera einhverjar aðrar ráðstafanir, því að svo hækkar þetta aftur, eins og kom á daginn. Verðið er líklega allt að tvöfalt hærra á sjávarafurðum okkar nú en það var þá. En á þessum tveimur árum, 1967 og 1968, var gengi íslenzkrar krónu lækkað um helming, l04%.

Hv. 5. þm. Reykv. talaði um, að hann hefði látið gera athugun 1962. Ég man eftir því, þegar hv. þm. ræddi um þetta mál hér í þinginu. Ég efast ekki um, að þessi athugun hafi verið gerð. Þá var bara krónan tvisvar sinnum meira virði en hún er nú miðað við erlendan gjaldeyri. Ég legg til, að það sé aðeins tekið eitt núll aftan af. Það er einfaldlega af því, að t.d. norska krónan og danska er eitthvað í kringum 13 kr. nú. Ef það væru tekin tvö núll, væri okkar króna orðin mörgum sinnum verðmeiri. Ég held, að það sé dálitið yfirlæti af okkur að gera hana mörgum sinnum verðmeiri en dönsku og norsku krónuna. Ég hef talað um 10, af því að það er svo auðvelt að breyta tölunum á þann hátt. Það verður annaðhvort að gera það með 10 eða 100. Það verður annaðhvort að taka eitt eða tvö núll aftan af, því að það verður allt að breytast, eignir, kaup og vöruverð og allt saman í landinu.

Það er líka rétt, sem hv. 5. þm. Reykv. talaði um, að myntsláttan er allt of dýr eins og verðgildið er nú. Mér er sagt, að það kosti 38 aura að búa til tíeyringinn. Ég skal ekki ábyrgjast, hvort það er rétt, en mér hefur verið sagt þetta, þannig að það er miklu dýrara að búa peningana til en nemur því verðgildi, sem í þeim er. Þetta breyttist, ef verðgildi krónunnar yrði tífaldað.

Þá vék hv. þm. að því, að við tækjum upp annað nafn á okkar gjaldmiðli en nú er, færum að hafa mörk í staðinn fyrir krónu. Þetta er nú orðið dálitið samgróið okkar þjóðfélagi. Það voru dalir hér áður. Það er rétt, að mörk var notuð á söguöld og alin, og þá var líka talað um eyri. Eyririnn var notaður í fornöld. Krónan er aftur nýrra mál. En ég er nú í vafa um, að við fáum betra nafn á okkar gjaldmiðil heldur en krónuna. Við erum orðnir vanir þessu, og ef við getum haldið henni í því verðgildi, að hún sé einhvers virt, þá ætti nafnið út af fyrir sig ekki að vera neitt aðalatriði.

Ef við ætlum að taka tvö núll aftan af, þá er krónan orðin meira virði en dollarinn, og það hefur hún aldrei verið, og það finnst mér óþarflega langt gengið. Álít réttara að stíga skrefið styttra og reyna þá að detta ekki, reyna þá að halda þessu verðmæti, sem við komum krónunni í, ef við tíföldum hana. Annars er þetta ekki neitt höfuðatriði fyrir mér. Aðalatriðið er, að við aukum verðgildi peninganna. Það hefur sálræna þýðingu, þannig að við förum að fara betur með okkar fjármuni og reynum að stjórna fjármálunum þannig, að þurfa ekki alltaf að vera að lækka gengið, því að það er alger neyðarráðstöfun. Það hefur svo margþætta erfiðleika í för með sér fyrir utan ranglætið, sem því fylgir, því að gengislækkun er, eins og ég sagði áðan, það mesta eignarán, sem hægt er að gera í einu þjóðfélagi. Það er verið að taka smáþjófa, sem læðast inn og ná í nokkra sígarettupakka, og stinga þeim í tugthúsið. En þegar ríkisvaldið sjálft tekur á einum degi helming af sparifjáreign landsmanna, þá getur enginn sagt neitt. Það er alvarlegur hlutur, og það er þetta, sem búið er að hvekkja fólkið á, svo að allir keppast við að eyða.