12.05.1972
Sameinað þing: 67. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í D-deild Alþingistíðinda. (3618)

158. mál, verðgildi íslenskrar krónu

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég vil nú þakka n. fyrir afgreiðslu á þessu máli. Ég skal játa það, að þetta er ekki búið að framkvæma, þó að þessi ályktun sé samþykkt, ef hún verður þá samþykkt, og það er alveg rétt hjá hv. 1. þm. Sunnl., að það þarf að gera fleiri ráðstafanir, ef þetta á að koma að fullum notum.

Fyrir mér vakti með flutningi þessarar till., sem var nú ákaflega vægt orðuð, að þetta mál yrði athugað, og mér fannst nú satt að segja allir geta sætt sig við það. En Seðlabankinn virtist ekki láta sér það skiljast, og hann skýrði frá því, að athugun hefði farið fram á þessu 1962. Þá var krónan rúmlega helmingi verðmeiri en hún er nú. Þá lagði Seðlabankinn til, að þetta yrði framkvæmt. Og það var þáv. fjmrh., Gunnar Thoroddsen, sem óskaði eftir, að þessi athugun færi fram hjá bankanum, en það er sagt í grg. bankans, að þáv. ríkisstj. hafi ekki viljað fallast á, að verðgildi krónunnar yrði tífaldað. Nú er krónan verðminni, og nú vill Seðlabankinn ekki, að þetta sé framkvæmt. Niðurstaða bankans er sú, að það sé allt í lagi, að þm. og menn almennt tali um málið, en þeir mega ekki einu sinni samþykkja ályktun, sem hefur það eina í för með sér, að málið sé athugað. Mér datt nú í hug Lúðvík 14. á yfirlætisárum sínum, þegar hann sagði: „Ríkið, það er ég.“ Það er í raun og veru það, sem bankinn segir við þingið. Þið megið tala um hlutina, en ekki ákveða þá viðvíkjandi þessu máli. Nú, þetta er í sjálfu sér ósköp eðlilegt. Fyrrv. ríkisstj. afhenti bankanum þetta vald, valdið til að ákveða alla vexti hjá öllum sjóðum, við megum ekki gera það, valdið til að ákveða gengisskráningu, við megum ekki gera það. (Gripið fram í.) Þetta er samkvæmt bankalögum. Þar er þetta svona. Jú, það er einmitt það, sem ríkisstj. á að gera. Við héldum því alltaf fram, að það ætti ekki að afhenda bankanum þetta mál. Þetta er bara ólýðræðislegt. Það er ekki nokkur einasta trygging fyrir því, þó að bankinn og meiri hl. ríkisstj. séu sammála um að breyta gengisskráningu eða breyta vöxtum, að það sé meiri hl. fyrir því í þinginu. Við erum hreinlega búnir að afhenda bankanum þetta mikla vald. Þegar gengi er breytt, þá vitum við það allir, að það er tekið af eignum fólks og það er tekið af kaupi fólks. Til þess er gengisbreyting. Og þetta eiga þessir herrar uppi í banka að gera. Fólkið nær ekki til þeirra. Það getur látið óánægju sína bitna á okkur, en ekki þeim. Þetta er vald, sem ég álit, að Alþ. eigi að hafa, og ég vona, að ríkisstj., núv. ríkisstj., hafi manndóm til þess að gera breytingu á þessu.

Það er ósköp eðlilegt, að mennirnir segi þetta: Þið getið masað um þetta, en þið megið ekkert álykta um þetta, hvað þá heldur ákveða það. Friðrik mikli Prússakóngur sagði líka: „Þegnar mínir mega tala, en ég framkvæmi það, sem ég vil.“ Þetta er sami hugsunarhátturinn.

Fyrir mér vakti það að auka traust á verðgildi íslenzkra peninga utanlands og innan og draga úr því eyðsluæði, sem af því leiðir, að flestir reyna að koma lausafé sínu í fasta fjármuni til þess að forðast tjón af verðrýrnun peninga eftir endurteknar gengislækkanir. Einnig að losa fólk við óþægindi af því, að hafa veski og vasa hálffulla af verðlitlum peningum, sem það fer ógætilega með, vegna þess að það veit, að verðgildi þeirra er lítið. Sem dæmi upp á þetta get ég sagt ykkur það, að það gekk einhver frómur maður hérna fram hjá Tjarnarskólanum, nýja stúdentaskólanum, skilst mér, að sé. Ég held, að það sé gamli barnaskólinn þarna. Nú, það var ausið yfir hann bunka af smápeningum og krónumynt og svona drasli, og hann tíndi þetta upp, og þetta voru 70 kr. Hann fór með þetta og lagði þetta inn í banka, tók kvittun fyrir og ætlaði svo að afhenda skólastjóranum það. Þessi saga var mér sögð í dag, og hún sýnir, hve mikla lítilsvirðingu menn eru farnir að hafa á þessum aurum. Þessi hugsunarháttur mætti gjarnan breytast. Og ef einhver á 100 þús. kr., þó að það sé ekki meira, þá fer hann annaðhvort að reyna að kaupa bíl eða að leggja þetta í íbúð, einhvern veginn að reyna að eyða peningunum. Þetta er stórhættulegt ástand.

Þriðja atriðið, sem vakti fyrir mér, var að spara Seðlabankanum kostnað af gjaldeyriseyðslu, sem af því leiðir að láta búa til verðlitla mynt og seðla. Það kom út skýrsla frá Seðlabanka Íslands í vetur, síðasta skýrslan held ég. Þar er þetta birt, hvað mikið er af hverri tegund myntar. Það óx mikið, þegar 50 kr. peningarnir komu. Það eru 30 millj. í 50 kr. peningum, 37 millj. í 10 kr. peningum, 14 millj. í 5 kr. peningum, 6 millj. í 1 kr. peningum, 2.2 millj. í 50 aura peningum og 1.6 millj. í 10 aura peningum, og það kostar um 29 millj. að búa þessa mynt til. Ef verðgildið væri tífalt, þá kostar eðlilega jafnmikið að búa til peningana, og þar að auki þarf miklu minna magn af þeim, þannig að ef bankinn þyrfti að endurnýja alla þessa mynt, þá mundi hann græða 9/10 hluta af þessum 29 millj. Hann mundi græða svo skipti tugum millj. á því. Það er þess vegna enginn aukakostnaður fyrir bankann að auka verðgildi myntarinnar, heldur er það stórkostlegur gróði.

Að búa til þá seðla, sem nú eru í umferð, kostar eftir því sem ég hefi komizt næst, eitthvað á fjórðu millj. kr., og þeir telja, að minni seðlarnir endist ekki nema í eitt ár, en stærri seðlarnir lengur. Nú mundi sparast einhver endurnýjun, ef þeir yrðu allir prentaðir upp, en í framtíðinni yrðu seðlarnir kostnaðarminni, ef verðgildið yrði aukið, það yrði minna magn af þeim.

Seðlabankinn er að tala um það, að þetta sé svo hagkvæm og skemmtileg mynt, sem er í umferð. Mér þykir ekkert varið í að vera með þessa hlunka í vösunum. Það verða allir vasar götóttir á þessu, þannig að ég sé ekki annað en að þetta sé frekar plága.

Árið 1968 voru í umferð 9 millj. kr. í mynt, en nú eru í umferð l01 millj. Upphæðin hefur því meira en tífaldazt á þessum þrem eða fjórum árum. Þar veldur mestu um, að farið er að búa til 50 kr. peningana og auk þess hirðir fólk illa um myntina, þegar hún er verðlítil. Afleiðingin af verðleysi myntarinnar er því, að það þarf margfalt meira magn. Tíeyringarnir, sem í umferð eru, kosta 4 millj. 160 þús. kr. meira en nemur verðgildi þeirra, og fimmtíu eyringarnir kosta 1 millj. 232 þús. meira en nemur verðgildi þeirra. Sé verðgildi krónunnar tífaldað, væri 6,4 aura hagnaður fyrir bankann, —og á ég þá við aura, sem eru verðmeiri en núna,—að láta búa til hvern tíeyring, en núna er 26 aura tap á því að búa til hvern tíeyring, 28 aura tap fyrir bankann að láta búa til hvern fimmtíueyring, en væri 42 aura gróði, ef verðgildið væri tífaldað. 50 kr. myntinni yrði sennilega breytt í seðla og e.t.v. 10 kr. myntinni einnig. Kostnaður við að búa til hvern pening er sá sami, þó að verðgildið aukist. Verulegur hluti þeirrar myntar, sem nú er í umferð, kæmi eigi til skila við myntbreytingu. Seðlabankinn mundi af þeirri ástæðu græða margar milljónir, og margar milljónir mundu sparast í gjaldeyri á næstu árum við það, að magn það, sem í umferð er af sleginni mynt, minnkar, en verðgildi peninganna eykst. Í bili yrði eðlilega nokkur gjaldeyriseyðsla við myntbreytingu, en ástæða er til að ætla, að verulega megi minnka þann kostnað með því að nota núgildandi mynt í nýja myntsláttu. Ég á við það, að það kostar vitanlega dálítinn erlendan gjaldeyri að láta slá upp myntina að nýju, en það vinnur Seðlabankinn mörgum sinnum upp sem slíkur.

Nú, svo er það náttúrlega aðalatriðið, hvað hægt er að gera til þess að auka traust á verðgildi peninganna, og þá álít ég, að nauðsynlegt sé að breyta um fjármálastefnu, a.m.k. í bili og helzt varanlega. Ríkið þarf að græða svona 3—4 milljarða, helzt á einu ári, a.m.k. á tveimur, og ef ríkið gerði það, þá gæti það keypt gull fyrir sem svaraði seðlaveltunni og gulltryggt seðlana. Auk þess, ef það græddi nú svona 4 milljarða, þá gæti það borgað Seðlabankanum þessi yfirdráttarlán, sem það fær, þannig að Jóhannes Nordal þyrfti ekki að vera að veifa neinum víxlum; ríkisvíxlum upp á 11% vexti eða eitthvað slíkt og fá viðskiptabankana til að kaupa þá tíma úr árinu. Og það er raunar óþolandi fyrir ríkisvaldið og alveg óþarfi að þurfa að vera á nokkurn hátt háð Seðlabankanum með slíka lánastarfsemi.

Hvernig á þá að fara að því að láta ríkissjóðinn græða? Ég skal benda ykkur á eina hugmynd, sem mér hefur dottið í hug, og hún er enn framkvæmanleg, og það verður náttúrlega að fara öfugt að því miðað við það sem verið hefur, því að yfirleitt hefur verið hrúgað á ríkissjóðinn öllum mögulegum útgjöldum og eiginlega verið lagt höfuðkapp á að hækka ríkisútgjöldin í stað þess að stilla þeim í hóf. Það er gert ráð fyrir núna að verja til lífeyristrygginga rúmum 3 milljörðum fyrir utan það, sem ætlað er sjúkrasamlögunum, því að alls fer hálfur sjötti milljarður í það. Ef við bara gerðum tryggingakerfið einfalt og tækjum upp svipað tryggingakerfi og Norðmenn, þó að það væri ekki nema eitt eða tvö ár, létum einstaklingana borga 4%, atvinnurekendurna rúm 8% gagnvart því, sem fólkið leggur fram, og létum svo þá, sem reka atvinnu eins og bændur, einkaatvinnu, borga 7.8% eins og Norðmenn gera, þá gætum við sparað allt þetta fé, yfir 3 milljarða, á einu ári. og útgjöld einstaklinganna mundu ekki aukast mjög mikið, ef þeir mundu ekki leggja í þessa furðulegu lífeyrissjóði, sem nú eru, nema mjög lítið. Auk þess væri hægt að spara á ýmsum liðum á fjárlögum, vafalaust upp undir milljarð, ef rétt væri tekið á því, m.a. 230 millj. til atvinnuleysistrygginga og að styrkja menn til náms, sem þjóðin hefur enga þörf fyrir. Þannig eru margir liðir, sem ég ætla ekki að eyða tíma í að telja upp, en ég er sannfærður um, að ef rétt væri á þessu tekið, þá væri hægt að láta ríkissjóðinn hagnast um 4 milljarða á einu ári. Og ef þetta væri rétt notað, þá væri bæði hægt að borga skuldina í Seðlabankanum, þannig að ríkisvaldið þyrfti ekki að vera háð Seðlabankanum, og auk þess að gulltryggja seðlana. Það þarf vitanlega að hafa kjark til að taka á hlutunum, til að gera þetta. Og ég álit, að viturlegasta fjármálastefnan væri nú sú að skapa traust á myntinni og verðgildi peninganna og ríkið væri ekki í neinum lausaskuldum. Svo væri hægt, þegar búið væri að styrkja fjármálakerfið, að fara að gera meira. Þetta er ekkert nema það, sem hyggnir atvinnurekendur gera, ef þeir hafa möguleika til þess.

Ég vildi drepa á þetta atriði, því að þetta er ekkert aukaatriði. Og ef við gætum haft traust gengi, þá mundi enginn peningaskortur vera hér í landi. En sannleikurinn er sá með bankakerfið í dag, að það er lítt skiptandi við það, því að ef einhver biður um lán í banka, það er nærri sama, hve lítil fjárhæð það er, þá er eins og þetta sé gert af einhverri náð. Ég hef farið með víxla hér í banka, og mér er sagt, ég skal bara gera þetta fyrir þig, þó að þetta sé ekki nema smáupphæð. Ef þetta væru eðlileg bankaviðskipti, þá er það vitanlega jafnmikil þökk fyrir bankana að lána áreiðanlegum viðskiptamanni eins og það er fyrir viðskiptamanninn að taka lánið. Það ætti að vera alveg gagnkvæmt. En það er ekki því að heilsa, því að allir keppast við að eyða hverjum eyri, sem þeir eignast. Og þannig mun það verða, meðan traustið vex ekki á peningunum. Hér er því um stórmál að ræða, og ég játa það, að það er ekki nema örlítið atriði, það er ekki nema liður í því, sem breyta þarf, þó að gengi krónunnar væri tífaldað. En það er bara einn liður í kerfinu. Hitt var ekki að öllu leyti rétt hjá hv. 1. þm. Sunnl., þegar hann var að halda því fram, að þetta hefði ekki haft áhrif, t.d. í Frakklandi. Það bara gerbreyttist hugsunarháttur hjá Frökkunum. Þeir voru farnir að meta frankann einskis, þegar De Gaulle tók við. Þetta gerbreyttist. Allt peningakerfið gerbreyttist til bóta.

Viðvíkjandi þessum fallegu 5 þús. kr. seðlum, sem Nordal er að tala um í grg. sinni, sem hann sendi, þá er það náttúrulega broslegt að búa til fallega seðla og lítils virði. Það er ekkert atriði. Þetta hefði ekki þurft að vera nema 500 kr., ef við hefðum haft krónuna dálítið verðmeiri. Nú er það svo, að miðað við gullgildi er krónan 40 sinnum verðminni en hún var, meðan miðað var við þetta forna gullgildi hennar. Það væru 2.480 kr. í gullkrónu. Ef við færum að hundraðfalda, og það er eiginlega ekki hægt annað en að fara aðra hvora leiðina, það verður eiginlega að taka núll aftan af upp á bókhald og aðrar breytingar, sem leiðir af sér, ef verðgildið er margfaldað, eða þá að taka tvö núll. En ef við tækjum tvö núll, þá yrði krónan tvisvar og hálfu sinni meira virði gagnvart gulli en hún var upphaflega. Mér finnst það satt að segja dálítið oflátungslegt. Ég held, að við yrðum þá að taka upp nýtt nafn á myntinni. Náttúrlega gæti það vel verið athugandi, en tíföldum við gengið, þá verður ekki meiri munur á krónu Norðurlandanna en svo, að 100 kr. danskar verða eins og 125 íslenzkar, en eins og 132 norskar. Það munar ekki neinu verulegu, þannig að við þurfum ekki að bera kinnroða út af því, ef á að halda svipuðu myntkerfi og nágrannaþjóðir okkar, sem mér fyndist nú skemmtilegast og eðlilegast.

En aðalatriðið er þetta. Það þarf að fara öðrum höndum um fjármálastjórnina en verið hefur og treysta verðgildi krónunnar og víkja ekki frá því. Reyna að halda genginu óbreyttu og skapa traust á genginu. Vitanlega tekur nokkur ár að vinna upp það traust, sem tapazt hefur. En það er vel hægt. Þið kannske brosið að því, að ég held því fram, að það sé hægt að snúa þessu við á einu ári, en ég get bara fullvissað ykkur um það, að ef ríkisstj. snýr sér til fólksins og biður það um að hjálpa til að gera þetta, eyða sem allra minnstu af erlendum gjaldeyri, draga úr bílakaupum, draga úr húsbyggingum og öðru slíku í eitt ár í þeim tilgangi að treysta verðgildi krónunnar, að styrkja gengið, þá er ég sannfærður um, að fólkið hjálpar þeirri ríkisstj. Og ég er líka sannfærður um, að sú ríkisstj. mun fá traust fólksins við næstu kosningar, því að fólkið er orðið dauðþreytt á þessu. Og það mun ekki standa á fólkinu að hjálpa til að gera svona hluti, ef ekki stendur á forráðamönnunum að framkvæma þá. Og við getum minnzt þess, hvað gerðist 1969, hvað þjóðin komst af með lítið.

Það er alveg rétt, sem kemur fram hjá Jóhannesi Nordal í skýrslu hans frá Seðlabankanum í vetur, að þetta verkar eftir á. Ef eitthvað á að spara, þá getur það ekki komið fram á fyrsta ári, þegar um samdrátt er að ræða eins og árin 1968 og 1967. Það kom fram á árinu 1969, þannig að það kemur á árinu á eftir. Og við getum bara séð, hvað fólkið gat komizt af með lítið þá. Það er vel hægt fyrir íslenzku þjóðina að græða svo að skiptir milljörðum á ári, ef hún bara er samhent um að spara. En hún verður það ekki nema hún trúi því, að það sé einhver tilgangur með því að leggja þær fórnir á sig, því að vitanlega verður einhver maður að neita sér um eitthvað. Nú er það þannig, að ef einhver á pening, þá er fyrsta hugsunin annaðhvort að reyna að kaupa íbúð, þó að það sé svo að segja allt í skuld, eða bíl eða eitthvað annað að gera en að eiga peningana. Það hafa margir sagt þetta við mig: Ég vil ekki eiga peninga, þeir eru gerðir verðlausir. Þetta skapar óeðlilega eyðslu. Þess vegna ætti þessi ríkisstj. að athuga það að breyta þessu kerfi, breyta þessum hugsunarhætti og breyta þessari stefnu. Og þó að hún gerði fátt annað, þá væri það þarfaverk, ef henni tækist það.