17.12.1971
Efri deild: 32. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í B-deild Alþingistíðinda. (364)

126. mál, almannatryggingar

Auður Auðuns:

Herra forseti. Ég ætla, að því hafi þegar verið lýst yfir af hálfu beggja stjórnarandstöðuflokkanna, að þeir mundu fyrir sitt leyti stuðla að því, að þetta frv. nái fram að ganga fyrir þinghlé.

Á frv. hafa verið gerðar breytingar í meðförum þess í Nd., sem ég tel tvímælalaust til bóta. Þar hafa aftur komið inn ný ákvæði, sem við satt að segja hér í þessari hv. þd. höfum ekki haft neinn tíma til þess að kynna okkur til hlítar, og það verður tæpast hægt, því að ef málið á að afgreiðast fyrir þinghlé, þá verður tími sáralítill og naumur til ítarlegrar könnunar eða athugunar á því, hvað þá heldur að kveðja til aðila, sem geti gefið ítarlegri upplýsingar.

Ég vil aðeins nefna það, sem reyndar kom fram í ræðu hæstv. trmrh. og viðurkennt var af honum, að það er eiginlega ákaflega óeðlilegt, að ákvæði um framlengingu launaskatts séu tekin inn í frv. sem þetta. Um það þýðir ekki að fást, en það hefði vissulega, ef eitthvað fyrr hefði verið að hugað, mátt koma því fyrir með eðlilegri hætti.

Ég skal ekki á þessu stigi, vegna þess að ég á nú sæti í þeirri þn., sem væntanlega mun fá frv. til meðferðar, fjölyrða frekar um það á þessu stigi, en ítreka það, að minn flokkur mun stuðla að því fyrir sitt leyti, að frv. fái svo skjóta afgreiðslu sem unnt er.