07.12.1971
Sameinað þing: 21. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í D-deild Alþingistíðinda. (3649)

42. mál, opinberar framkvæmdir í Suðurlandskjördæmi

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Allir þm. Suðurlandskjördæmis hafa flutt till. á þskj. 43, en till. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta undirbúa áætlun til langs tíma um opinberar framkvæmdir fyrir Suðurlandskjördæmi. Verk þetta verði unnið í náinni samvinnu við Samtök sveitarfélaga í Suðurlandskjördæmi.“

Suðurlandskjördæmi er víðfeðmt og hefur mikla atvinnumöguleika, enda hefur fólki fjölgað þar í seinni tíð. Það er samfelldasta undirlendi Íslands, og framleiðsla búvöru þar er mjög mikil. Þar eru framleidd 67% af kartöfluuppskerunni, þar eru 36% alls nautpenings í landinu, 22% sauðfjár og 34% allra hrossa. Veiði er í ám og vötnum og miklir möguleikar til vaxandi fiskiræktar. Er og unnið að því. Gróðurhús eru hvergi jafn almenn og á Suðurlandi, enda jarðvarmi mikill, en nauðsyn ber til að nýta hann meira en orðið er. Ræktun hefur hvergi verið meiri en í Suðurlandskjördæmi. Árið 1959 voru 19.055 ha túna í kjördæminu, en 1971 er áætluð túnastærð orðin 36 þús. ha. Ekki liggja skýrslur fyrir um það, en með því að reikna ræktunina svipaða á því ári og undanfarið, þá verður aukningin þetta á l2 árum, þ.e. 17 þús. ha, eða um 90%. Framleiðsla hefur aukizt og fer batnandi. Fallþungi dilka var 12.77 kg 1959, en 14.11 kg haustið 1971. Kýrnyt var 1959 aðeins 2.418 lítrar, en 1970 2.910 lítrar.

Vel má vera, að sumum hv. alþm. finnist óþarfi að vera að telja þetta upp í sambandi við þessa till., en ég tel að þetta megi koma fram, m.a. vegna þess, að sunnlenzkum bændum hefur verið borið það á brýn upp á síðkastið, að þeir stundi takmarkalausa rányrkju og svelti búfénað sinn, en þær tölur, sem hér hafa verið raktar, afsanna það.

Það er stóraukinn sjávarútvegur í Suðurlandskjördæmi, sérstaklega á suðurströndinni, og á síðustu 10 árum hefur útgerð frá ströndinni aukizt um helming. Um Vestmannaeyjar þarf ekki að ræða í þessu sambandi, svo kunnugt sem það er, að það er stærsta og þrótt mesta útgerðarstöð landsins. Þrátt fyrir þetta er sjálfsagt að auka útgerð frá suðurströndinni og einnig frá Vestmannaeyjum, en til þess að það sé unnt, þarf að gera ýmsar hafnarframkvæmdir í auknum mæli. Á síðustu árum hefur verið unnið mjög að hafnarbótum bæði á Stokkseyri og Eyrarbakka, og lokið var fyrsta áfanga Þorlákshafnar. Verið er að gera áætlun um það, hvað kostar að stækka Þorlákshöfn um helming. Þess gerist mikil þörf, þar sem þetta er landshöfn og margir bátar af Faxaflóasvæðinu leggja þar upp á vetrarvertíð til þess að spara sér tíma. Í þessari áætlun, sem gert er ráð fyrir, að gerð verði, þarf vitanlega að taka þessi atriði nákvæmlega til athugunar. Þá ber vitanlega að ljúka rannsókn á hafnarstæði við Dyrhólaey og taka afstöðu til hafnargerðar þar, eftir að sú rannsókn hefur farið fram. Það ber einnig að ljúka rannsókn á hafnarstæði í Þjórsárósi og/eða Þykkvabæ og taka afstöðu til framkvæmda þar, eftir að þeim rannsóknum er lokið.

Um samgöngumál mætti ýmislegt segja. Vestmannaeyjar eru ekki áfastar við landið, eins og kunnugt er, og hafa samgöngur milli lands og Eyja því oft verið erfiðar. Þó verður að viðurkenna, að samgöngur milli lands og Eyja hafa batnað mjög í seinni tíð, eftir að flugvöllurinn var stækkaður og endurbættur og þverbrautin kom til sögunnar. Árið 1968 voru flugdagar 276 í Vestmannaeyjum, þar af á þverbrautina 48 dagar eða 17.3%. Árið 1969 voru flugdagar 286, þar af á þverbrautina 66 dagar eða 21.9%. Árið 1970 voru flugdagar 283, þar af á þverbrautina 77 dagar eða 25%. Það er auðvitað, að hversu góður sem flugvöllurinn verður gerður í Vestmannaeyjum, þá koma alltaf tímar, sem ekki er unnt að fljúga vegna storma og dimmviðris.

Samgöngur á sjó milli Vestmannaeyja og lands hafa einnig batnað, sérstaklega á s.l. sumri, þegar tekin var upp sú regla að láta Herjólf fara fimm ferðir í viku á milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja. Kvartað er undan því, að Herjólfur sé ekki það skip, sem fullnægi þörfum og kröfum manna eins og þær nú eru, og þess vegna þurfi að fá nýtt skip, sem gengur á milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar. Vitanlega kemur inn í áætlunina athugun á því, hvernig það skuli leysa.

Um vegamálin er það að segja, að þar er vitanlega margt ógert, enda þótt mikið hafi áunnizt í seinni tíð. Nú er verið að ljúka rannsókn á brúarstæði í Ölfusárósi, og er ekki vitað um það enn, hversu hagkvæmt muni vera að gera þar brú, en vitað er, að ef brú kæmi þar, þá tengdi það mjög saman kauptúnin í Árnessýslu og gæti orðið vísir að því að gera leið austur með ströndinni, austur í Rangárvallasýslu, eins og ýmsir hafa komið auga á og telja mjög hagkvæmt. Hraðbraut frá Reykjavík austur að Selfossi verður lokið, eins og kunnugt er, á næsta ári. Það verk hefur allt verið boðið út og fjármagn útvegað til þeirra framkvæmda, en það hefur aldrei verið meiningin að stöðva hraðbrautargerðina við Selfoss, heldur halda áfram austur, og þegar hringvegurinn kemur, kallar það enn meira eftir því, að Suðurlandsvegurinn verði allur gerður varanlegur og traustur. Veit ég, að menn verða sammála um að flýta því að gera varanlegan veg austur um Rangárvallasýslu, a.m.k. næstu árin, hvað lengra sem verður farið á skömmum tíma.

Það er, eins og kunnugt er, náttúrlega ýmislegt ógert í sambandi við vegamál innan sýslnanna. Sérstaklega er nauðsynlegt að leggja áherzlu á bætt vegasamband vegna mjólkurflutninga, sem daglega fara fram, og vegna flutninga á skólabörnum, sem nú eru yfirleitt flutt á bílum í skólana á morgnana og heim á kvöldin. Og þá er það ekki heldur sízt vegna ferðamála, sem nauðsynlegt er að hafa góða vegi um þetta hérað, sem hefur svo margt að bjóða ferðamönnum til þess að skoða. Hvergi er meira um sögustaði eða náttúrufegurð en á þessu svæði, og þess vegna þarf að skipuleggja ferðamannaþjónustuna. Það þarf að skipuleggja hótel og aðra aðstöðu fyrir ferðamenn. Það þarf að koma inn í þessa áætlun, því að það verður ekki síður þýðingarmikill þáttur í atvinnulífinu í þessu kjördæmi en annars staðar, þ.e. þjónustustörfin við ferðamenn og þá ekki sízt útlendinga, sem sækja mjög hingað í seinni tíð.

Um sjúkrahúsmálin þarf einnig að gera sérstaka athugun, enda þótt nú sé ákveðið að byggja sjúkrahús á Selfossi. Hefur verið veitt fé til þess undanfarið á fjárlögum og verður væntanlega gert áfram, enda meiningin að byrja á því húsi á næstkomandi vori. En til athugunar þarf að vera, hvað gera þarf meira í því sambandi og á hvern hátt læknaþjónustan getur verið hagkvæmust. Sjúkrahús í Vestmannaeyjum hefur lengi verið í smíðum, og er það nú komið nokkuð vel á veg, og yrði á næsta ári, ef fjárveiting væri allmyndarleg, sennilega langt komið.

Um skólamál er vitanlega margt að segja. Það hefur verið byggt mikið af skólum í kjördæminu, eins og öðrum kjördæmum, undanfarin ár. Eigi að síður er mikið ógert í þessu efni. Það þarf að fá menntaskóla á Selfossi, enda er kominn vísir að honum þar. Það eru tveir bekkir, sem kenna sömu fög og eru í byrjun menntaskóla, og ef menntaskóli væri á Selfossi, mætti með bættu vegasambandi flytja nemendur frá Þorlákshöfn og Ölfusi, Hveragerði, Flóa, nærliggjandi sveitum og austan úr Rangárvallasýslu í þennan skóla á morgnana og heim á kvöldin, ekki sízt eftir að vegasambandið hefur batnað.

Það þarf að byggja bændaskóla í Odda, eins og ákveðið hefur verið. Fjárveitingu þarf að fá á næstu fjárlögum og fjárlögum ársins 1973 til undirbúnings og hefja síðan framkvæmdir að myndarlegum bændaskóla í Odda á árinu 1974 og minnast þannig fyrsta skóla, fyrsta menntaseturs á Íslandi, en það var í Odda.

Ýmsa aðra skóla þarf vitanlega að byggja. Fiskiðnskólinn þarf að koma í Vestmannaeyjum, eins og heimilt er og það sem allra fyrst, og voru það vonbrigði okkar þm. Sunnl., að hæstv. menntmrh. hafði ekki hugsað sér að bregðast fljótt við í því efni.

Iðnað þarf að efla í kjördæminu, ekki sízt fiskiðnaðinn og vinnslu úr landbúnaðarvörum, og einnig þarf að efla iðnað úr að fluttum hráefnum, auk þess sem jarðhitanotkun er aukin.

Í Suðurlandskjördæmi hefur fólkinu fjölgað nokkuð í seinni tíð, og þróun íbúafjölgunar hefur verið þannig, að 1960—1970 var hlutfallstalan 13.3% yfir allt landið, en í Suðurlandskjördæmi ekki þó nema 13.6%, og telst það gott, ef miðað er við mörg önnur kjördæmi. En á árunum 1965—1970 var hlutfallsleg fjölgun yfir allt landið 5.42%, en í Suðurlandskjördæmi 6.2%, þannig að fjölgunin 1965—70 var meiri í Suðurlandskjördæmi á þeim árum en hlutfallstalan var yfir landið, og er það í fyrsta sinn í marga, marga áratugi, og verðum við að fagna þeirri þróun, að fólksfjölgun í Suðurlandskjördæmi hefur verið meiri síðustu sex árin en hlutfallslega hefur verið yfir landið allt.

Gerð hefur verið spá um íbúafjölda í Suðurlandskjördæmi á næstu árum. Eins og kemur fram hér í grg. þál., þá eru 1970 18.052 menn í Suðurlandskjördæmi, en 1980 er áætlað, að íbúatalan verði 21.800, 1990 26.500 og árið 2000 32.000. Náttúrlega má segja, að svona spár geti ekki verið ábyggilegar. En þessi spá byggist á þeim miklu möguleikum, sem í Suðurlandskjördæmi eru, og þessi fólksfjölgun miðast við það, að árleg aukning verði 1.9%, en árleg aukning yfir landið allt verði ekki nema 1.5%. Reynslan sker vitanlega úr því, hvort þessi spá stenzt. Við vitum ekki, hversu mörg við lifum að sjá það. En sjálfsagt er að gera sér nokkra grein fyrir því, hversu líklegt það er, að fólkinu fjölgi og hversu mikið, vegna þess að með því móti er hægt að gera áætlun um atvinnuuppbyggingu og nauðsynlegar þjónustustofnanir. Það þarf vitanlega að auka þjónustustofnanirnar í hlutfalli við fólksfjölgunina, og það þarf einnig að auka atvinnureksturinn í samræmi við fólksfjölgunina.

Við höfum verið það heppin í Suðurlandskjördæmi að hafa ekki neitt umtalsvert atvinnuleysi, og það er vitanlega áhugamál að þannig geti orðið áfram. Við viljum gera okkur grein fyrir því, hvað þarf að gera í framtíðinni. Við viljum vitanlega, að einstaklingar og félög geri sem mest af öllum framkvæmdunum, en ef þeir hafa ekki kraft eða möguleika til þess að fullnægja atvinnuþörfinni, þá er eðlilegt, að sveitarfélög eða hið opinbera komi þar að einhverju leyti til móts við aðra.

Sveitarstjórnasamband Suðurlands var stofnað fyrir þremur árum. Á fyrstu árunum voru það ekki nærri öll félögin, sem gengu í sambandið, en nú munu þau flest eða jafnvel öll komin í það. Miðstöð sambandsins mun verða á Selfossi, og framkvæmdastjóri hefur verið ráðinn frá næstu áramótum. Það er fyrst núna, sem sveitarstjórnasambandið tekur til starfa, og má segja, að það hefði mátt vera fyrr, en einhvern veginn var það nú svo, að það var ekki rekið meira á eftir en svo, að það er fyrst núna, sem flest eða öll sveitarfélögin eru komin í sambandið, og það er fyrst núna, sem það tekur til starfa.

Það má vel vera, að vegna þess að ekki var atvinnuleysi í kjördæminu, hafi ekki verið rekið á eftir því eins og annars hefði orðið. En vegna þess að á undanförnum árum hafa verið miklar framkvæmdir og uppbygging í héraðinu, þá getum við ekki sagt, að það sé nokkur skaði skeður, þótt þetta hafi ekki gerzt fyrr.

Ég talaði við Efnahagsstofnunina snemma á þessu ári og óskaði eftir því, að hún gerði framkvæmdaáætlun fyrir Suðurlandskjördæmi. Svarið var, að þeir vildu gera þetta, en hefðu ekki mannskap til þess, þeir þyrftu að fá aukinn mannafla, og það hefði kostnað í för með sér, en þeir væru allir af vilja gerðir til að taka að sér þetta verk. Þess vegna er nauðsynlegt, ef þessi till., sem hér er flutt, verður samþ., að ríkisstj. taki þetta mál að sér og láti Efnahagsstofnuninni í té þann mannafla, sem hún þarf, og það fjármagn, sem það krefst. Og sveitarstjórnasambandið þarf vitanlega að fá nokkurt fjármagn, styrk, til síns rekstrar, til skrifstofuhaldsins og til fólkshaldsins. Reikna ég með, að þessari till. okkar þingmanna Sunnlendinga verði vel tekið og að hún verði samþykkt á þessu þingi og fái góða afgreiðslu.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri að sinni, en legg til, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. fjvn.