12.05.1972
Sameinað þing: 67. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í D-deild Alþingistíðinda. (3672)

197. mál, radarsvari við Grindavík

Frsm. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur haft þessa till. til athugunar og sent hana til umsagnar vitamálastjóra. Í umsögn hans segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Staðhættir við Grindavík eru þannig, að telja má, að radarsvaraviti mundi hafa verulega þýðingu í þá átt að bæta öryggi við staðsetningu. Strönd sunnanverðs Reykjanesskaga er mest öll sæbrött og með fáum einkennum, er segja á radar myndum nákvæma stöðu skipa í stefnu austur — vestur, þegar komið er nálægt landi. Er það því mitt álit, að möguleikar á nákvæmri staðsetningu innsiglingarinnar á Grindavíkurhöfn mundi batna mjög, ef radarsvari væri settur í Hópsnesvita.“

Og síðar í umsögninni segir vitamálastjóri:

„Þar sem rafmagn með varastöð er fyrir hendi í Hópsnesvitanum, mun ekki verða mjög kostnaðarsamt að koma radarsvaranum upp.“

Nefndin mælir með því, að till. verði samþ. óbreytt.