11.04.1972
Sameinað þing: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í D-deild Alþingistíðinda. (3687)

205. mál, vinnuauglýsingar hins opinbera

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég veit ekki, hvort hv. þm. hafa haft tíma til að hlusta á erindi í útvarpinu í gærkvöld um daginn og veginn, sem flutt var af rithöfundinum Einari Braga. Ég ætla nú ekki að fara að gera það að umtalsefni að öðru leyti en því, að þessi ágæti rithöfundur fór nokkrum orðum um það, að mikill fjöldi nýrra þm. hefði kvatt sér hljóðs á þessu þingi og það hefði orðið mjög veruleg endurnýjun á þingliðinu. Hann fór nokkrum orðum um það, að venja væri, þegar ungir menn og nýir kæmu inn á þing, að þá gustaði af þeim og þeir hygðust breyta þjóðfélaginu og stokka heldur betur upp. Hins vegar hélt rithöfundurinn því fram, að bið hefði orðið á þessu nú á þessu þingi, því að ekki hefði heyrzt nægilega mikið frá hinum nýju þm. og væri sannarlega kominn tími til að þeir létu í sér heyra. Ég er nú þeirrar skoðunar, að Einar Bragi rithöfundur hafi ekki kynnt sér þingskjöl nægilega vel, því að á undanförnum vikum hafa verið lögð fram mál, einkum af hálfu tveggja hv. þm., þeirra Bjarna Guðnasonar og Ingu Birnu Jónsdóttur, og þær till. eru flestar þess eðlis, að það er ekki verið að tala þar um breytingar á lögum um opinberar framkvæmdir eða fasteignamatið eða eitthvað álíka ómerkilegt, heldur á þar að gera úttekt á ráðuneytum, ríkisstofnunum og embættismannakerfi og stokka það allt upp eins og það leggur sig. Það á að endurskoða bankakerfið allt saman og svo síðast, en ekki sízt, þá á að gera algera uppstokkun á vinnuauglýsingum hins opinbera. Þessu til viðbótar hafa þessir ágætu hv. þm. látið ýmislegt annað til sín heyra og þ.á.m. haft áhyggjur af öllum mögulegum og ómögulegum málum og er ekkert annað en gott um það að segja, þ.á.m., eins og heyra mátti á máli síðasta ræðumanns, hafði hann þungar áhyggjur af misrétti kynjanna.

Ég efast ekki um, að þessar till., sem hér hafa verið lagðar fram, geti valdið straumhvörfum og því meiri líkur á því, að þær fáist framkvæmdar, þar sem þær eru fluttar af hv. stuðningsmönnum ríkisstj. Að vísu er nú ekki getið um þessi mál í Ólafskveri beinlínis, en ég tel alla möguleika á því, að þeim verði fylgt eftir með stuðningi stjórnarsinna og að þessar endurskoðanir og þessar úttektir geti farið fram, þannig að við lifum í betra og réttlátara þjóðfélagi. Ekki fór á milli mála, að síðasta ræðumanni var mjög niðri fyrir, og hann var vissuleg að fylgja sínu máli eftir af fyllstu alvöru, og vegna þess að þetta mál er, eins og hin málin, mikið tímamótamál, þá vildi ég leyfa mér að vitna hér í enn eitt atriði í þessu máli, sem um getur í grg., sem er ekki síður tímamótamál, en þar segir,, með leyfi forseta, í þriðja lið grg.:

„Í auglýsingum bólar mjög á misrétti milli kynjanna. Það er segin saga, að til flestra láglaunastarfa, svo sem vélritunar, símavörzlu o.fl., er beðið um stúlkur, en til flestra hálaunastarfa er óskað eftir karlmönnum. Þetta vitnar um úreltan hugsunarhátt og er ekki verjandi“, og síðan kemur: „banna á að heimta ákveðið kynferði af umsækjendum“.

Það liggur alveg á hreinu, að hér er komin lausn á þessu vandamáli, misrétti milli kynjanna og allt hvað eina og fulltrúar rauðsokka ættu sannarlega að taka þetta til athugunar. Hér á að bylta hormónastarfseminni og náttúrulögmálunum, og ég legg eindregið til, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, grandskoði einmitt þetta sérstaka ákvæði.