18.12.1971
Efri deild: 34. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í B-deild Alþingistíðinda. (369)

126. mál, almannatryggingar

Auður Auðuns:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir nál. á þskj. 242 með fyrirvara. Ég mun, eins og reyndar þegar kom fram við 1. umr. málsins, stuðla að framgangi frv., að það megi verða að lögum fyrir þinghlé og mun greiða atkv. með frvgr. öðrum en bráðabirgðaákvæðunum.

Frv. hefur tekið nokkrum breytingum í meðferð hv. Nd. Þar hafa m.a. verið numin burt ákvæðin um tryggingadómstólinn og sömuleiðis ákvæði í 2. gr. frv., en eins og frv. var upphaflega lagt fram, var smuga fyrir sveitarfélögin til að velta miklu af þunga framfærslubyrðarinnar yfir á Tryggingastofnunina og ríkissjóð.

Ég hef ásamt öðrum í heilbr.- og félmn. látið gera bókanir, sem fram koma í nál. og er þar þá fyrst að nefna bókun varðandi þá skerðingu tekjutryggingarinnar, sem í frv. felst, eins og það nú liggur fyrir. Þegar skerðingarreglurnar voru á sínum tíma afnumdar, mig minnir snemma á valdatíma víðreisnarstjórnarinnar, þá þótti þar vera um mikla framför að ræða. Hér eru óneitanlega komnar skerðingarreglur á ný í almannatryggingalög. Við vitum það, að fjöldi ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega stundar ýmis létt störf, sem aldur og heilsa leyfa, og það eru störf, sem eru tæpast þó svo lítið launuð, að þau valdi ekki því, að þetta fólk missir alveg af tekjutryggingunni. Það er sá megingalli á þessu, að þetta dregur úr viðleitni fólks til að stunda vinnu, eftir að það hefur náð ellilífeyrisaldri eða hefur verið úrskurðað á örorkulífeyri. Þetta er þjóðhagslega óæskilegt, og þó er kannske eitt, sem segja má að vegi þyngra: Hvaða þýðingu hefur þetta fyrir einstaklinginn, alveg burtséð frá þeim krónum, sem þarna er um að ræða? Ég tel að þetta sé mikill galli á löggjöfinni, eins og hún nú væntanlega verður. En nú eru almannatryggingalögin öll í heildarendurskoðun, og vonandi er, að þetta atriði verði tekið sérstaklega til athugunar.

Einnig vildi ég minnast aðeins á félaga í lífeyrissjóðum, sem hafa keypt sér réttindi, kannske um áratugi, og þurft að verja til þess ákveðnum hluta af sínum tekjum. Þegar þeir svo komast á lífeyrisaldur, sem yfirleitt er sá sami og hjá almannatryggingum, þá verða þessi eftirlaun, sem þeir hljóta, til þess, að þeir fá ekki tekjutrygginguna. Ég gæti trúað, að það yrðu margir þessara aðila býsna sárir og þeim þyki þetta ekki vera sanngjarnt. Þessu fólki, sem kemst á lífeyri hjá sjóðunum, mun ugglaust fjölga mjög á komandi árum, því að enn þá eru margir þessir sjóðir svo nýir, að það eru fáir farnir að njóta bóta úr þeim.

Þá eru það bráðabirgðaákvæðin, sem skellt var inn á síðustu stundu, og það hefur ekki verið nein aðstaða til að skoða þau sem skyldi. Ég held það hafi ekki verið fyrr en í gær, sem útbýtt var þskj. með frv. eftir 3. umr. í Nd. Hér sátum við á fundi samfellt í allan gærdag, með matarhléi aðeins, og fundur í heilbr.- og félmn. var haldinn þegar að loknum deildarfundi. Ég og aðrir nm. vorum ákveðin í því að stuðla að því, að frv. fengi svo skjóta afgreiðslu sem unnt væri, og það var satt að segja tómt mál um að tala að fá nánari skýringar á ýmsu því, sem í bráðabirgðaákvæðunum felst. Svo skeður sá, ég vil segja, fáránlegi hlutur, að þarna er inni í almannatryggingalögum verið að framlengja launaskatt. Ég segi, fáránlegur hlutur, og ég held, að allir séu sammála um, bæði stjórnarandstaða og stjórnarliðar, að það sé ákaflega óeðlilegt að framlengja launaskatt í almannatryggingalögum. Og maður satt að segja undrast, hvers vegna hæstv. ríkisstj., sem hlýtur að vera búin fyrir löngu að gera sér grein fyrir, að hún ætlaði að framlengja launaskattinn, gerði það ekki með eðlilegum hætti.

Ég veit ekki, hvort nokkur svör fást við því, og ég býst varla við, að hæstv. trmrh. geti gefið mér þau, — þessi bráðabirgðaákvæði eru satt að segja mál hæstv. fjmrh., — hvað ætlað sé, að launaskatturinn gefi, þetta 11/2%. Mér skilst, að svör muni ekki hafa fengizt við því í hv. Nd., enda mun nú fjmrh. ekki einu sinni hafa verið við, þegar þessi bráðabirgðaákvæði voru rædd þar.

Svo er annað, sem ég vildi spyrja um líka, sem er nú kannske reyndar fyrir fram gefið. Nú þarf auðvitað að reikna hækkanir á allar bætur í samræmi við ákvæði laganna. Og ég geri ráð fyrir, að þá verði hækkun reiknuð einnig á þessar hækkanir, sem lagðar eru til hér í þessu frv., þótt frv. sé reyndar fram komið, eftir að samningar hafa tekizt og vitað er um kauphækkanir.

Í bráðabirgðaákvæðunum er eitt atriði, sem vakin var athygli á við 1. umr. málsins. Það er í I, B, vegna sjúkratrygginga, þar sem ákveðið er, að sveitarfélögin eigi að greiða sjúkrasamlaginu með jöfnum greiðslum á árinu 2125 kr. fyrir hvern samlagsmann gegn uppgjöri að árinu loknu, eins og þar segir. Það er af ýmsum talið; ég hef ekki haft neina aðstöðu til að kynna mér það; að þetta sé langt umfram það, sem eðlilegt sé í ýmsum sveitarfélögum og þá sérstaklega í þeim smærri. Við, eins og ég sagði, afgreiddum málið í n. í gærkvöld og vildum flýta fyrir afgreiðslu þess, og það væri e.t.v. ástæða til þess, að þetta eina atriði yrði þá athugað í n. milli 2. og 3. umr.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um frv. á þessu stigi, en endurtek það, að ég mun greiða atkv. með greinum þess öðrum en bráðabirgðaákvæðunum, en mun sitja hjá við atkvgr. um þau.