11.04.1972
Sameinað þing: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í D-deild Alþingistíðinda. (3695)

226. mál, menntun fjölfatlaðra

Flm. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 1l. landsk. þm. lagt fram á þskj. 475 till. til þál., sem er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta semja frv., sem lagt verði fyrir næsta Alþingi, um ráðstafanir til að bæta menntunaraðstöðu fjölfatlaðra barna og unglinga.“

Fjöldi þeirra barna og unglinga, sem ekki eiga samleið með öðrum í námi og skólagöngu, fer vafalítið vaxandi hér eins og víða annars staðar, og það er talið, að þeir, sem þurfa séraðstöðu gagnvart námi og skólagöngu, séu a.m.k. um 400 á skólaaldri hér. Þar er um að ræða börn með meiri háttar líkamságalla, oft samfara greindarskerðingu á ýmsu stigi. Oft eiga þessi börn við hvort tveggja að stríða, líkamlega örorku og truflun á einu eða fleiri sviðum skynjunar og tjáningar, svo sem sjóntruflun, heyrnartruflun, taltruflun og truflun á myndun hugmyndar og skilnings. Þessi börn þurfa að sjálfsögðu bæði séraðstöðu hvað húsnæði snertir og sérmenntaða kennara. Mörg þeirra þurfa heimavist, meðan á námi stendur, og enn fremur er nauðsyn, að aðstaða sé til líkamlegrar þjálfunar fyrir mörg þeirra á þeim stað, þar sem námið fer fram.

Kennsluaðstaða hefur verið fyrir vissan hóp þessara barna. Þannig rekur ríkið sérstakan skóla fyrir heyrnarlaus börn. Blindrafélagið sér um kennslu blindra barna. Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra rekur skóla fyrir fötluð börn í Reykjadal í Mosfellssveit, og Höfðaskólinn í Reykjavík sinnir þörfum vangefinna barna. Höfðaskólinn er sérskóli fyrir vanvita með greindartöluna fyrir neðan 70. Hann tók til starfa árið 1961, og markmið skólans er að veita börnum á aldrinum 7—16 ára, sem eiga ekki sakir greindarskorts samleið með öðrum í námi, kennslu og uppeldi við þeirra hæfi. Sálfræðideild skóla hefur frá upphafi annazt rannsókn barna, sem til greina koma með skólavist, og ekkert innritað barn fer í skólann nema eftir tilvísun deildarinnar. Foreldrar eiga síðan frjálst val um það, hvort þeir senda börn sín í skólann eða ekki, og síðustu árin hafa verið um 110 nemendur í þessum skóla. En það vantar viðbótaraðstöðu, vantar viðbót, og það vantar stórbætta aðstöðu á mörgum sviðum.

Nú mun nefnd vera starfandi að þessum málum, og þá er helzt haft í huga að sameina hina ýmsu hópa innan einnar stofnunar. Á síðastliðnu ári birtist mjög athyglisverð grg. frá sérkennslufulltrúa, Þorsteini Sigurðssyni, þar sem hann leggur til, að stofnuð verði sérkennslumiðstöð ríkisins, og þar sem tillagan er mjög athyglisverð og málið aðkallandi, þá vil ég leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér hluta af tillögu Þorsteins. Hann segir:

„Það er nú orðið mjög aðkallandi fyrir yfirvöld mennta— og heilbrigðismála að taka ákvörðun um heildarskipulag og framtíðaruppbyggingu uppeldisstofnana fyrir þá hópa afbrigðilegra nemenda, sem ekki verður með árangri sinnt í almennum skólum eða sjúkrahúsum. Þeir hópar, sem hér um ræðir, eru heyrnleysingjar, blindir, vanvitar, hreyfihamlaðir, málhamlaðir og fjölfatlaðir. Fjöldi nefndra einstaklinga er ekki meiri en svo á Íslandi, að fyrir engan hópanna er unnt að koma upp fullkominni þjónustu, ef reynt er að leysa vanda hvers hóps út af fyrir sig, nema með geipilegum tilkostnaði. Verði á hinn bóginn valinn sá kostur að koma á fót samvirkri en deildaskiptri sérkennslumiðstöð, mætti fullnýta húsnæði, sérhæft starfslið og dýran tækjabúnað og veita þannig beztu hugsanlega þjónustu með hóflegum tilkostnaði. Málin standa þannig í dag, að á síðastliðnu skólaári var tekið í notkun nýtt skólahús heyrnleysingjaskóla, og bygging heimavistarhúsnæðis er þar í undirbúningi. Hafinn er undirbúningur að því að reisa skólahús fyrir vanvitaskólann, sem Reykjavíkurborg hefur rekið undanfarin ár í leiguhúsnæði. Blindraskólinn, sem rekinn er af Blindrafélaginu, er nýfluttur í bráðabirgðahúsnæði í einu skólahúsnæði Reykjavíkurborgar. Hreyfihamlaðraskólinn, sem Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra hefur komið á laggirnar, er til bráðabirgða til húsa að Reykjadal í Mosfellssveit, en þjálfunarstöð sama félags er staðsett í Reykjavík. Engum stofnunum hefur enn verið komið upp fyrir málhamlaða eða fjölfatlaða, en ekki mun öllu lengur verða undan því vikizt að hefja rekstur slíkra stofnana, eins aðkallandi og þörfin er orðin. Spurningin er aðeins um það, hvort ríkisvaldið eða einhver líknarfélög taki hér frumkvæðið.

Af framansögðu er ljóst, að nú er tækifærið til að koma á skynsamlegu heildarskipulagi og leggja heilbrigðan grundvöll að framtíðaruppbyggingu ríkisreknu sérkennsluþjónustunnar, þegar hafizt er handa. Fyrir því leyfir undirritaður sér að setja fram eftirfarandi tillögu:

Ákveðið verði svo fljótt sem auðið er að koma á fót í Reykjavík sérkennslumiðstöð, sem þjóni öllu landinu. Jafnframt verði leitað til borgaryfirvalda Reykjavíkur um að úthluta í þessu skyni nægilegu landrými í grennd við Heyrnleysingjaskólann í öskjuhlíð. Sérkennslumiðstöðin sé samsett af eftirtöldum stofnunum: Vanvitaskóla, heyrnleysingjaskóla, blindraskóla, hreyfihamlaðraskóla, skólaheimili fjölfatlaðra, talkennslustöð, skóla fyrir málhömluð börn, framhaldsskóla starfsnáms, athugunardeild og heyrnarstöð.“

Og í grg. segir: „Skólaheimili fjölfatlaðra er e.t.v. brýnasta úrlausnarefnið í dag. Í sérkennslumiðstöð er þjónusta við fjölfatlaða nemendur, sem þurfa á ýmiss konar sérhæfðri kennslu og meðferð að halda, auðveld. Þess vegna getur vistun fjölfatlaðs nemanda á einhverri hinna stærri stofnana, t.d. vanvita— eða hreyfihamlaðraskóla, verið hagkvæmari en vistun á sérstakri stofnun fyrir fjölfatlaða.

Með því að byggja upp sérkennslumiðstöð er því minni þörf á skólaheimili fyrir fjölfatlaða en ella mundi. Í tillögunni hér að framan er því aðeins gert ráð fyrir 15 nemendum. þótt vitað sé um 30—40 nemendur, sem hvergi er hægt að búa sómasamlega uppeldisaðstöðu eins og málum háttar í dag.“

Aðgerðir í þessum málum eru mjög aðkallandi. Þetta eru öryrkjar framtíðarinnar og hvernig tekst að búa þá undir lífið, byggist að verulegu leyti á því, hvort aðstaða skapast til að sinna menntun þeirra og uppeldi. Vegna fámennis okkar er líklegt, að tillaga Þorsteins um sérkennslumiðstöð sé hagkvæm. Og ég vil leggja áherzlu á það, að lausn þessa máls hefur mikil áhrif á alla endurhæfingu í landinu og þessi tillaga er fram komin vegna knýjandi nauðsynjar á, að eitthvað verði gert sem allra fyrst til að bæta aðstöðu þessara barna. Það er ánægjulegt til þess að vita, að nefnd er nú starfandi að þessum málum, og vonandi, að sem fyrst geti framkvæmdir fylgt á eftir.

Ég vil svo leggja til að, að umr. loknum verði málinu frestað og till. fari til allshn.