11.04.1972
Sameinað þing: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í D-deild Alþingistíðinda. (3696)

226. mál, menntun fjölfatlaðra

Heilbr:

og trmrh. (Magnús Kjartansson): Herra forseti. Flm. þessarar till. vekja athygli á mjög brýnu og stóru vandamáli, en mér finnst, að sú till., sem þeir flytja, hitti raunverulega ekki í mark. Till. þeirra er um það, að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að láta semja frv., sem lagt verði fyrir næsta Alþ., um ráðstafanir til að bæta menntunaraðstöðu fjölfatlaðra barna og unglinga.

Eftir þessari till. að dæma, þá virðist vandinn vera sá, að það vanti löggjafarfyrirmæli í sambandi við aðstoð við afbrigðileg börn, en því er sannarlega ekki þannig varið. Í lögum um fræðslu barna nr. 34 frá 29. apríl 1946 er í II. kafla laganna, 5. gr., talað um, að börn skuli undan þegin almennri skólagöngu, ef þau skorti hæfileika til að stunda nám eða hafa eigi heilsu eða önnur líkamleg skilyrði til þess. En í 6. gr. segir, að þeim börnum, sem svo er ástatt um, skuli séð fyrir vist í skóla eða stofnun, sem veitir þeim uppeldi og fræðslu við þeirra hæfi. Þarna er sem sé lögð á sú skylda, að stofna skuli sérstakar stofnanir eða skóla til að veita slíkum börnum fræðslu.

Í lögum um gagnfræðanám frá 7. maí 1946 eru alveg hliðstæð ákvæði. Þar er í 15. gr. III. kafla talað um, að unglingar skuli vera undanþegnir almennri skólagöngu, ef þannig stendur á, að þeir geta ekki stundað hana vegna líkamlegra eða andlegra annmarka. En í 17. gr. segir, að slíkum unglingum skuli séð fyrir vist í skóla eða stofnun, sem veitir þeim uppeldi og fræðslu við þeirra hæfi.

Í lögum um verndun barna og ungmenna frá 30. apríl 1966 segir svo í 39. gr., með leyfi hæstv. forseta: „Þegar þörf krefur, skulu sveitarfélög, eitt eða fleiri saman, setja á stofn og reka eftirtalin heimili eða stofnanir:

a) Til að annast uppeldi og ef þörf krefur fræðslu þeirra barna, sem eru frá heimilum, er vanrækja svo uppeldishlutverk sitt, að varhugavert er fyrir börn að dveljast þar.

b) Til að annast uppeldi og ef þörf krefur fræðslu gáfnasljórra eða andlega vanþroska barna.

c) Til að annast uppeldi og fræðslu barna, sem að dómi skólalæknis hafa ekki heilsu eða önnur líkamleg skilyrði til að stunda venjulegt skólanám.

Ríkissjóður greiðir hluta af stofn— og rekstrarkostnaði þeirra heimila og stofnana, sem um getur í 3. mgr., eftir sömu reglum og gilda um byggingu og rekstur skóla skyldunámsstigsins.

Barnaverndarráð skal beita sér fyrir samstarfi tveggja eða fleiri sveitarfélaga um stofnun og rekstur slíkra heimila, þar sem aðstæður leyfa.“

Þessi dæmi, sem ég hef hér rakið, sýna, að það skortir ekki lagaheimildir. Það sem á hefur skort, eru hreinlega framkvæmdir. Það hefur skort, að menn hafi framfylgt þeim ákvæðum, sem standa í gildandi lögum og hafa staðið í gildandi lögum núna í aldarfjórðung. Stjórnarvöld hafa hreinlega ekki haft áhuga eða getu til að framkvæma nauðsynlegar aðgerðir á þessum sviðum. og hefði vissuleg verið mjög ánægjulegt, ef sá hv. flm., sem talaði hér áðan, hefði beitt áhrifum sínum, sem eru mikil, á flokksbræður sína, meðan þeir sátu hér í ríkisstj. í meira en áratug. En því miður minnist ég þess ekki að hafa orðið var við það frumkvæði frá þessum hv. þm.

Að því er varðar fjölfötluð börn, þá hefur verið fjallað um það vandamál núna að undanförnu, og ég vildi gjarnan rekja það örlítið nánar. Árið 1970 hafði sjálfskipuð nefnd fagmanna gert tillögur um stofnun skólaheimilis fyrir fjölfötluð börn til menntmrn. En mér er ekki kunnugt um, að nokkur viðbrögð hafi orðið hjá menntmrn. á þeim tíma. Í febrúar á síðasta ári kallaði ráðuneytisstjóri heilbrmrn., Páll Sigurðsson, saman fjölmennan fund um málefni fjölfatlaðra barna. Nefnd var sett niður til að huga að málinu. Hún skilaði bráðabirgðayfirliti um 20 börn á skólaaldri og 17 börn undir skólaskyldualdri ásamt áætlun um húsnæðisþörf, stofn— og rekstrarkostnað skólaheimilis fyrir fjölfötluð börn, og þessari skýrslu skilaði hún til heilbr.— og menntmrn. í árslok á síðasta ári, þ.e. um síðustu áramót. Í nefndinni áttu sæti Sævar Halldórsson barnalæknir, Gylfi Baldursson sálfræðingur, Eva Júlíusdóttir félagsráðgjafi, Jónína Guðmundsdóttir sjúkraþjálfi og Þorsteinn Sigurðsson sérkennslufulltrúi.

Í nóvember 1971 lagði Þorsteinn Sigurðsson sérkennslufulltrúi fram tillögu og grg. um sérkennslumiðstöð ríkisins, eins og hv. flm. vitnaði hér í áðan, en hann las alllangan kafla úr þessu áliti. Þar er gert ráð fyrir því, að málefni fjölfatlaðra barna verði ekki afgreidd sem einangrað verkefni, heldur að stofnuð verði sérkennslumiðstöð, þar sem afbrigðileg börn fái kennslu í einni og sömu stofnuninni til að nýta sem bezt þá starfskrafta, sem tiltækir eru, bæði sérfræðinga og aðra, svo og húsnæði.

Samband ísl. barnakennara hefur fjallað um þessa tillögu og sent áskorun til þeirra yfirvalda ríkis og sveitarfélaga, sem málefni afbrigðilegra barna og unglinga heyra undir, að taka tillögu þessa til gaumgæfilegrar athugunar og sameinast um að hrinda henni í framkvæmd.

Þetta mál var einnig tekið fyrir í borgarstjórn Reykjavíkur, og þar var samþykkt að óska eftir því við menntmrn. og heilbrmrn., að þau tilnefndu fulltrúa af sinni hálfu til viðræðna við fulltrúa Reykjavíkurborgar um fyrirkomulag og hugsanlega samvinnu um rekstur kennslustofnana fyrir börn, sem ekki eiga samleið með öðrum í námi. Og síðan í desember hafa fulltrúar þriggja þessara aðila haft þetta verkefni með höndum, en til þess hafa verið skipuð Þorsteinn Sigurðsson sérkennslufulltrúi frá menntmrn., Jónas B. Jónsson fræðslustjóri frá Reykjavíkurborg og Adda Bára Sigfúsdóttir aðstoðarmaður ráðh. frá heilbrmrn.

Snemma á þessu ári ræddi nefndin við Sævar Halldórsson um fjölfötluðu börnin og þarfir þeirra, og jafnframt voru hafnar viðræður við Brand Jónsson skólastjóra Heyrnleysingjaskólans um leigu á húsnæði gamla skólans í Stakkholti til kennslu og heimavistar fyrir nokkur fjölfötluð börn. Jafnframt var snemma á þessu ári skrifað bréf til Bryndísar Víglundsdóttur sérkennara, sem dvelst í Bandaríkjunum, en hún er sérfræðingur á þessu sviði, og hún var beðin að taka að sér kennslu fjölfatlaðra nemenda.

Síðan fjallaði nefndin áfram um þetta mál og 2. apríl var rætt aftur við Brand Jónsson um þetta húsnæði, sem ég minntist á áðan, húsnæði gamla skólans í Stakkholti, Heyrnleysingjaskólans, og húsnæði til bráðabirgða starfseminnar var fest. Það er gert ráð fyrir því, að Bryndís Víglundsdóttir flytjist heim í sumar, og þá mun verða haldið áfram viðræðum við hana um, að hún taki að sér forstöðu fyrir kennslustarfsemi í þágu fjölfatlaðra barna.

Nú um þessar mundir starfa þeir Sævar Halldórsson og Þorsteinn Sigurðsson að tillögugerð um nemendur og kostnaðaráætlun um starfið næsta vetur. Hins vegar vil ég leggja á það ríka áherzlu, að ég tel þessar ráðstafanir aðeins vera bráðabirgðalausn, en að hugmyndirnar um sérkennslumiðstöð ríkisins sé sú endanlega lausn, sem við eigum að stefna að. Þar er um að ræða mjög víðamikið verkefni og vafalaust dýrt verkefni einnig, og það verður að leggja á ráðin mjög vandlega um það, hvernig þeirri stofnun verði háttað. En ég tel alveg hiklaust, að við eigum að stefna að því að koma á þannig stofnun með deildum fyrir margar tegundir afbrigðilegra barna.

Það, sem torveldar framkvæmdir á þessu sviði, er ekki skortur á lagafyrirmælum, eins og ég gat um í upphafi, heldur hitt, að unnið sé að þessu á jákvæðan hátt, eins og nú er verið að gera, og síðan mun vafalaust verða leitað til Alþ. um þá fjárhagslegu fyrirgreiðslu, sem slíkri starfsemi fylgir, því að þetta verður án efa kostnaðarsamt.

Mér þótti rétt að gera grein fyrir þessu, að þetta mál hefur að undanförnu verið í athugun og undirbúningi. Í fyrsta lagi að bráðabirgðalausn í þágu fjölfatlaðra barna núna og enn fremur að þeirri stærri og víðtækari lausn, sem ég gat um.