09.02.1972
Neðri deild: 39. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í D-deild Alþingistíðinda. (3707)

146. mál, lágmarksmöskvastærð þorskfiskneta

Flm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér á þskj. 270 till. til þál. um lágmarksmöskvastærð þorskaneta og bann gegn bolfiskveiðum í nót. Hljóðar till. svo, með leyfi forseta:

„Neðri deild Alþingis ályktar að skora á ríkisstj. að ákveða með reglugerð, að lágmarksmöskvastærð þorskaneta skuli frá og með 1. jan. 1973 eigi minni vera en sjö þumlungar, og enn fremur, að bannaðar skuli vera bolfiskveiðar í nót, enda verði eigendum þorsknóta bættar þær eftir mati.“

Í grg. með till. er bent á, að aðalfundur Landssambands ísl. útvegsmanna, sem haldinn var s.l. haust, hafi samþykkt einróma ályktun þess efnis að skora á hæstv. sjútvrh„ að sett yrðu skýr ákvæði um 7 þumlunga lágmarksmöskvastærð þorskaneta.

Eins og kunnugt er, hafa veiðar í þorskanet verið stundaðar hér við land um áratugaskeið eða allt síðan um síðustu aldamót eða lengur. Þrátt fyrir þetta hafa aldrei, að því er ég bezt veit, verið settar nokkrar reglur um möskvastærð í sambandi við þessar veiðar. Hins vegar hafa lengi verið í gildi ákveðnar reglur um möskvastærð í sambandi við togveiðar í dragnót og einnig veiðar í þorsk— og ufsanætur.

Ástæðan fyrir því, að ekki hafa verið settar sambærilegar reglur varðandi þorskanetaveiðarnar, mun vera sú, að allt fram undir hin síðustu ár var það talið sjálfsagt og eðlilegt af þeim, sem þessar veiðar stunduðu, að nota ekki minni möskva en 7—8 þumlunga að stærð. Algengasta stærðin mun hafa verið 71/4 og 71/2 þumlungur. Var þessi möskvastærð talin eðlileg af sjómönnum og nokkur trygging fyrir því, að í net veiddist ekki smáfiskur eða ókynþroska fiskur og því ekki um rányrkju að ræða með þorskanetaveiðunum hvað þetta atriði snerti. Meðan svo var, má segja, að ekki hafi verið ástæða til neinna sérstakra ráðstafana í þessu sambandi, enda gáfu netin á þessum tíma góða raun hvað aflamagn snerti, þó að um slíka möskvastærð hafi verið að ræða sem ég hef hér bent á.

En eftir að fiskur fór að tregðast á miðunum á vetrarvertíð, var nokkur og segja má veruleg breyting í sambandi við netaveiðarnar. Í fyrsta lagi var farið inn á það í vaxandi mæli, að bátar legðu meira af netum í sjó en áður var talið eðlilegt og því miður í mörgum tilfellum svo, að enginn möguleiki var á að draga netin aftur í einni sjóferð. Hafa lögin um takmörkun netafjölda á bát eftir stærð og tölu skipa komið að sáralitlu gagni í þessu sambandi. Hefur þetta að sjálfsögðu orðið til þess að auka aflamagn bátanna að tonnatölu til en ekki verðmæti að sama skapi, þar sem mun lakari og verðminni afli fæst í netin, ef þau eru ekki dregin daglega, því að fiskur skemmist mjög fljótt í netunum, ef þau liggja lengur en eina nótt óhreyfð. Aukið aflamagn eftir þessari leið verður því að teljast mjög hæpið fjárhagslega séð hvort heldur er fyrir sjómenn eða útgerðarmenn og gerir fiskvinnslunni ókleift að skila jafngóðri útflutningsvöru og æskilegt verður að telja.

Í öðru lagi hefur það farið mjög í vöxt hin síðari ár, að farið er að nota þorskanet úr fínna garni en áður var. Byggist þetta á þeirri reynslu sjómanna, að net úr fínna garni hafa reynzt mun fisknari en net úr sverara garni. Ekki getur talizt, að hér sé um neina óeðlilega þróun að ræða. Net úr fínna eða veikara garni er að sjálfsögðu miklu endingarverra og því aðeins mat útgerðarmanns, hvort þetta borgar sig eða ekki.

En í þriðja lagi hefur hin síðari ár einnig verið farið inn á það í vaxandi mæli að nota þorskanet með mun smærri möskva en áður var. Verður að telja, að hér sé um allháskalega þróun að ræða, og því eðlilegt, að ákveðnar reglur séu settar um lágmarksmöskvastærð þorskaneta, eins og þau veiðarfæri önnur, sem hér hefur verið minnzt á. Þegar talað er um háskalega þróun í þessu sambandi, byggist það á því, að alveg liggur ljóst fyrir, að ef engar reglur eða lagaákvæði verða sett um þetta, munu menn freistast til þess að reyna að auka aflamagnið með sýnu minni möskvastærð og verða fyrr en varir komnir inn á að veiða smáfisk og ókynþroska fisk í net, sem augljóslega mundi þýða óæskilega og hættulega rányrkju með þessu veiðarfæri. Og er það þróun, sem ég vona, að allir séu sammála um, að okkur beri að forðast.

Þetta atriði, lágmarksmöskvastærð þorskaneta, var allítarlega rætt á aðalfundi Landssambands ísl. útvegsmanna á síðasta hausti, eins og áður hefur verið vitnað til, og voru menn þar mjög á einu máli um, að nauðsyn bæri til að ákveðnar reglur yrðu settar hvað þetta atriði snertir, og urðu menn sammála um 7 þumlunga lágmarksstærðina. Hins vegar hlýtur einnig að koma til álits fiskifræðinga, þegar til ákvörðunar kemur í þessu sambandi.

Í sambandi við netaveiðarnar almennt vil ég segja það, að við verðum að reikna með, að þessar veiðar verði á næsta ári stundaðar á svipaðan hátt og verið hefur, þar sem sú staðreynd liggur fyrir, að sá afli, sem í netin fæst, er uppistaðan í afla okkar hér við Suður- og Suðvesturland á vetrarvertíð. Hins vegar hlýtur það að vera skylda okkar að forðast, eins og frekast er unnt, að stunda rányrkju í sambandi við netin, þetta stórvirkasta og afkastamesta veiðarfæri okkar. Ég tel, að óþarft sé, að slíkt hendi okkur, og tel reyndar, að slíkt megi ekki henda okkur. Af þeirri ástæðu og í samræmi við þetta sjónarmið hef ég leyft mér að flytja þá till., sem hér er til umr., þar sem lagt er til að settar verði skýrar og ákveðnar reglur um lágmarksmöskvastærð þorskaneta frá og með 1. jan. 1973. En þetta tímatakmark er sett vegna þess, að ákveða þarf netakaup fyrir bátaflotann með alllöngum fyrirvara og án efa almennt búið að festa kaup á netum fyrir þá vertíð, sem nú fer í hönd.

Ég vil í sambandi við netaveiðarnar víkja aðeins að þeirri hugmynd, sem stundum hefur komið fram, að banna bæri með öllu þorskveiðar í net. Ég tel, að þessi hugmynd fái engan veginn staðizt, a.m.k. meðan ekki kemur fram á sjónarsviðið annað veiðarfæri, sem skilar álíka aflamagni og netin gera nú í dag. Ef litið er í skýrslu Fiskifélags Íslands, kemur í ljós, að netaveiðarnar eru langstærsti þátturinn í aflamagni bátaflotans. Skipting aflans eftir veiðarfærum er t.d. árið 1970 þannig: Í net hafa veiðzt samtals 162 þús. tonn, á línu 68 þús. tonn og í öll veiðarfæri önnur samtals 167 þús. tonn, þar af í botnvörpu 113 þús. tonn, en heildarafli bátaflotans var þetta ár, 1970, samtals 397 þús. tonn.

Sýnir þessi skýrsla Fiskifélags Íslands greinilega, að netaveiðarnar og togveiðarnar skila megin hluta af þeim afla, sem bátaflotinn leggur á land, og er því alveg útilokað að banna þessar veiðar, þó að hins vegar verði að teljast alveg sjálfsagt að haga þeim svo, að ekki geti talizt, að um rányrkju sé að ræða. Og er sú til. sem hér er flutt, einn þátturinn í að koma í veg fyrir slíkt.

Varðandi 2. lið till., þar sem lagt er til, að bannaðar verði bolfiskveiðar með nót, vil ég geta þess, að einnig þetta atriði var ítarlega rætt á umræddum fundi Landssambands Ísl. Útvegsmanna, og samþykkti fundurinn með atkvæðum alls þorra fundarmanna að skora á hæstv. sjútvrh. að hlutast til um, að bannaðar yrðu með öllu bolfiskveiðar í nót. Bolfiskveiðar í nót eru, eins og kunnugt er, aðallega stundaðar á tveimur stöðum hér við land, fyrir Norðausturlandi að sumrinu og haustinu til og við suðurströndina að vetri til, aðallega um háhrygningartímann. Þó er það svo, að bolfiskveiðar í nót að vetri til geta ekki á nokkurn hátt talizt árvissar veiðar, eins og t.d. veiðar á línu, í net eða togveiðar, þ.e. það virðist frekar heyra undantekningu til að skilyrði séu fyrir hendi til nótaveiða. Ef ég man rétt, var það árið 1964, sem þessar veiðar gáfu nokkurt aflamagn hér, og var þar bæði um þorsk— og ýsuveiðar að ræða. Ég held, að flestum, sem fylgdust með þessum veiðum þá, séu þær nokkuð minnisstæðar, kannske helzt vegna þess, að menn sáu greinilega, að um beina rányrkju getur verið að ræða, ef þessu veiðarfæri er beitt á þann hátt, sem hér er gert. Lágmarksmöskvastærð ýsu— og þorsknóta er aðeins 110 mm eða nokkru minni en leyfileg möskvastærð við togveiðar, en þó má nota þetta veiðarfæri hvar sem er, hvort heldur er á grunnu vatni eða djúpu. Nótinni var í þessu tilfelli, þ.e. árið 1964, beitt á þann veg, að henni var kastað ekki einasta ofan í hrygningarsvæði þorsksins, heldur einnig og í enn ríkara mæli í tiltekin síldarhrygningarsvæði norður af Vestmannaeyjum og þar ausið upp svo að þúsundum tonna skipti smáýsu, sem þar hélt sig og var ekki stærri en svo, að hún var vart talin vinnsluhæf, enda fór nokkurt magn af henni beint í gúanó, eins og það er kallað. Það, sem þá gerðist, sýndi bæði sjómönnum og öðrum, að um beina rányrkju getur verið að ræða, ef þessu veiðarfæri er beitt eins og þá var gert, og er talið, að síld hafi ekki hrygnt á þessum stað, sem ég gat um áðan, síðan. Og reynslan hefur sýnt, að þetta veiðarfæri getur aldrei orðið nein uppistaða í veiðum á vetrarvertíð, sem treystandi er á. Verður að telja, að ókostir þess séu meiri en kostir, og því eðlilegt, að rannsakað sé til hlítar, hvort ekki sé hagkvæmt fyrir alla aðila, að þær séu bannaðar.

Ég vil í þessu sambandi benda á, að samkv. skýrslu Fiskifélags Íslands er hluti nótaveiða í heildaraflamagninu sáralítill eða aðeins frá rúmlega 1% til rúmlega 2% undanfarin þrjú eða fjögur ár. En þá kemur að sjálfsögðu einnig til athugunar, hvernig eigi að fara með þær nætur, sem ýmsir útgerðarmenn hafa komið sér upp og nokkurt verðmæti liggur í, ef banna á veiðarnar. Um þetta atriði er til ákveðið fordæmi, en það er sú leið, sem farin var, þegar dragnótaveiðarnar voru bannaðar á sínum tíma. Þá voru þau dragnótarveiðarfæri, sem fyrir hendi voru, metin til peningaverðs af opinberum aðilum og þau bætt úr ríkissjóði í samræmi við það. Þetta var þá talið eðlilegt og sjálfsagt, og er í samræmi við þetta lagt til í till., að eigendum þessara veiðarfæra verði þau bætt samkv. mati, ef horfið verður að því ráði að banna notkun þeirra.

Ég legg svo til herra forseti, að umr. um till. verði frestað og henni vísað til sjútvn. að umr. lokinni.