14.02.1972
Neðri deild: 41. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í D-deild Alþingistíðinda. (3710)

146. mál, lágmarksmöskvastærð þorskfiskneta

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Sú þáltill., sem hér er fram borin, er um það efni að skora á ríkisstj. að ákveða með reglugerð, að lágmarksmöskvastærð þorskaneta skuli vera 7 þumlungar. Og í öðru lagi, að bannaðar skuli bolfiskveiðar í nót. Eins og kemur fram í grg. með þessari þáltill., þá hefur á undanförnum árum möskvastærð þorskaneta farið minnkandi, ekki einungis hér fyrir Suðvesturlandi, heldur annars staðar einnig. En þetta eru bara svo breytilegar aðstæður, t.d. hér á Faxaflóasvæðinu og aftur fyrir Norður— og Norðausturlandi. Síðan þessi till. kom fram, hafa ýmsir fiskimenn á Norðurlandi hringt í mig til þess að upplýsa mig um þetta mál og ég legg mikla áherzlu á það, að sú n., sem tekur þessa þáltill. til afgreiðslu, kynni sér hinar breytilegu aðstæður umhverfis landið í þessu tilliti, og þar sem Fiskiþing kemur saman núna um 20. þ.m., verði þessari þáltill. vísað þangað til umsagnar.

Í þessu sambandi finnst mér rétt, að það komi hér fram, að það er í vaxandi mæli t.d. við Eyjafjörð og a.m.k. sums staðar á Norðurlandi, að þilfarsbátar nota þorskanet, sérstaklega á haustmánuðunum frá því um miðjan sept. og fram í desemberbyrjun og svo aftur einnig á vorin. En það er alveg sama, hvaða veiðarfæri eru notuð á Norðurlandi. Það veiðist ekki í þau annað en sá fiskur, sem þar er. Það er svo blandaður fiskur og mikið af honum smár. Ég lét einmitt athuga það núna, hvernig þetta hefði komið út í tveimur verstöðvum, annars vegar í Grímsey, þar sem eru eingöngu notuð handfæri, og hins vegar á Árskógsströnd, þar sem á haustmánuðunum núna eru eingöngu notuð þorskanet og möskvastærðin mun hafa verið 51/2—6 tommur. Og þá kemur í ljós, að miðað við mat á saltfiski, en saltfiskur er flokkaður þannig, eins og hv. þm. vita sjálfsagt, að í fyrsta lagi er sá, sem er 20 tommur og þar yfir, sérstaklega flokkaður, síðan er stærðin 18—20 tommur, í þriðja lagi 16—18 tommur og svo í fjórða lagi stærðin 12—16 tommur, og handfiskur er fyrir neðan 12 tommur. En það kemur í ljós, að fiskur yfir 20 tommur í net á Árskógsströnd var 17.58%, en handfærafiskurinn í Grímsey var rúm 11%. Netafiskurinn á Árskógsströnd af stærðinni 18—20 tommur var 26% af aflanum, en sú stærð reyndist aftur í Grímsey vera 17.66%. Á Árskógsströnd voru svo af stærðinni 16—18 tommu fiskur um 40%, en sama stærð í Grímsey um 20%. En 12—16 tommu fiskurinn var á Árskógsströnd 15.33%, en 51% í Grímsey, þ.e. meira en helmingurinn af handfærafiskinum í Grímsey reyndist vera af stærðinni 12-16 tommur.

Þetta sýnir það eiginlega, að það er sama, hvaða veiðarfæri eru notuð á þessum stöðum. Það er bara um það að ræða í raun og veru, hvort á að veiða fiskinn eða ekki. Og mér er tjáð af þessum fiskimönnum þar norður frá, að ef bannað væri að nota möskvastærð minni en 7 tommur, þá væri þýðingarlaust að vera með net fyrir Norðurlandi, sérstaklega á haustmánuðunum, enda kemur það í ljós, að það mundi þá ekki verða einu sinni helmingurinn af aflanum miðað við reynslu þeirra, sem mundi fást í slík net.

En þá er bara spurningin: Hvernig stendur á þessu misræmi með snurpunót og troll í lögunum, að það megi vera 110 mm eða ekki nema 41/2 tomma? Er ekki ástæða til þess að athuga það þá einnig? En þessi stærð, sem flm. miðar hér við, er sama sem 175 mm eða 7 tommur.

Ég held sem sagt, að ef á að fara að athuga þetta, þá geti a.m.k. komið til álita, að aðrar reglur gildi á þessum stöðum en t.d. hér fyrir Suðvesturlandi, en í fyrsta lagi þarf að athuga slíka tillögugerð, áður en hún verður afgreidd hér á hv. Alþ. Ég held, að það þurfi að athuga þessi mál mjög gaumgæfilega. Það er mjög mikil spurning, hvort ekki á að reyna að friða bara alveg heil svæði. Ýmsir á Norðurlandi telja, að það væri eðlilegt að friða t.d. firðina fyrir öllum netum yfir sumartímann. Þetta er mál sem þarf að athuga og ræðast, og menn, sem hafa þekkingu, þurfa um það að fjalla og leggja þar til mála.

En það eru margar ástæður fyrir því, að menn hafa áhuga fyrir því að friða firðina. Bæði er þar mikið af smáum fiski, og enn fremur er nú verið að leggja fram hundruð þús. á ári hverju til þess að reyna að rækta upp árnar, en það er enginn vafi á því, að það er lagt fyrir silunginn á hans göngutíma og laxinn einmitt í þessum fjörðum, þannig að árangur af þessu ræktunarstarfi næst ekki einmitt vegna þessara netalagna í fjörðunum. Og það eru sjálfsagt fleiri rök, sem mættu koma fram fyrir því, að það þarf að athuga um slíkar friðanir.

Hv. flm. ræddi mjög um þá þróun, sem orðið hefur í sambandi við notkun þorskaneta, þá óheillaþróun, að hver bátur hefur fjölgað netunum undanfarin ár, og mikið af hans ræðutíma fór einmitt í að ræða þetta mál. Þetta er óheillaþróun, sem allir viðurkenna, en þó virðist ekki vera mikið gert af því að reyna að koma í veg fyrir slíkt. Niðurstaða hans var samt sú, að þrátt fyrir þetta, sem er sjálfsagt laukrétt, sé óhugsandi að banna veiðar með netum. En ég held, að ef þessi till. yrði samþ. óbreytt, þá mundi hún þýða það í sjálfu sér að banna netaveiðar eða þær væru varla framkvæmanlegar t.d. fyrir Norðurlandi.

Ég vil svo endurtaka þau tilmæli, að sú n., sem fær þessa þáltill. til meðferðar, sendi hana til Fiskiþings og að haft sé samband t.d. við fiskimenn fyrir norðan og austan um þessar aðgerðir, ef n. kemst að þeirri niðurstöðu, að það þurfi að hafa einhverja takmörkun á þessum möskvastærðum. En þarf þá ekki enn fremur að athuga um trollið og snurvoðina einnig, ef ástæða er til þess að setja svona harðar reglur í sambandi við þorskanetin?