18.12.1971
Efri deild: 34. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

126. mál, almannatryggingar

Tómas Karlsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af þeirri brtt., sem hv. 1. landsk. þm., Eggert G. Þorsteinsson, hefur flutt við þetta frv., sem hér er til umr.

Út af fyrir sig eru þessar tillögur góðra gjalda verðar, en ég veit það, að hv. flm. á ekki upphafið að þessum tillögum. Hér mun vera um góðmennsku hans að ræða og tillitssemi við formann Alþfl., sem flutti þessar sömu tillögur í hv. Nd. En ég vil aðeins, áður en þessar brtt. hv. 1. landsk. þm. koma til afgreiðslu hér í hv. d., minna Alþfl. á vissar staðreyndir, minna á þær staðreyndir, að Alþfl. hefur farið með menntamál í 15 undanfarin ár og tryggingamál í 13 ár. Þessar brtt. eru einmitt fluttar af hæstv. fyrrv. menntmrh. í Nd. og hæstv. fyrrv. trmrh. hér í hv. d. Þessa góðu hluti, sem eru í þessum brtt., létu þeir undir höfuð leggjast að framkvæma í öll þessi ár, og mér finnst satt að segja, að þessar tillögur hafi á sér það yfirbragð, að það sé eins og þessir hæstv. fyrrv. ráðh. séu að naga sig í handarbökin yfir því að hafa ekki gert þá góðu hluti, sem stefnuskrá Alþfl. segir, að hugur standi til, en þessi fyrri till. á þskj. 241 fjallar um það að veita námsfólki á aldrinum 16–21 árs styrk, sem nemur upphæð fjölskyldubóta, að óbreyttu því kerfi, sem búið hefur verið við í skattamálum. Hæstv. núv. ríkisstj. hefur ákveðið að fella niður nefskatta. Það svarar til þess, ef búið hefði verið áfram við óbreytt það kerfi, sem Alþfl. ásamt Sjálfstfl. mótaði á ríkisstjórnarárum þessara flokka í þrjú kjörtímabil, að nú sé greiddur 13 þús. kr. styrkur til alls þessa fólks og ekki aðeins námsfólks á aldrinum 16–21 árs, heldur einnig til þeirra, sem eru í æðra námi. Þessi styrkur nemur að óbreyttu kerfi, sem búið var við áður, 13 þús. kr. á hvern námsmann, því að nefskattarnir verða niður felldir.

Þetta vildi ég aðeins, að fram kæmi hér, vegna þess að ég tel, að Alþfl. megi ekki gleyma þessu og hann verði að hafa þetta í huga, þegar greidd verða atkv. um þessar brtt.

Að öðru leyti vil ég segja það um síðari till., að kerfið um fjölskyldubætur er hugsað upphaflega þannig, að fjölskyldubætur verði til tekjujöfnunar í þjóðfélaginu. Ég tel, að það kerfi sé þannig nú, að það leiði ekki til þeirrar tekjujöfnunar, sem það gæti gert, ef á því væru gerðar breytingar, og sú nefnd, sem hæstv. trmrh. hefur skipað til að endurskoða í heild tryggingalöggjöfina, hefur þetta verkefni með höndum, að kanna, hvaða breytingar sé skynsamlegt að gera á kerfi fjölskyldubóta, og það er eðlilegt, að sú nefnd fái starfsfrið til þess að kanna það mál betur, og hún mun síðar koma með till. sínar fyrir hv. Alþ., þegar hún hefur lokið störfum; og þær till. munu væntanlega verða lagðar fyrir hv. Alþ. á næsta þingi.