07.12.1971
Sameinað þing: 21. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í D-deild Alþingistíðinda. (3723)

94. mál, leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaga

Flm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt fjórum öðrum hv. þm. að leggja fram till. til þál. á þskj. 107, og fjallar hún um byggingu leiguhúsnæðis á vegum sveitarfélaga. Þar segir svo:

„Alþingi ályktar, að gera beri hið fyrsta ráðstafanir til að bæta úr þeim alvarlega skorti á leiguhúsnæði, sem ríkjandi er í flestum þorpum og kaupstöðum landsins, og felur í því skyni ríkisstj.:

1. Að láta fara fram könnun á þörf fyrir leiguhúsnæði í sveitarfélögum um land allt.

2. Að leggja fyrir Alþ. frv. til l. um útvegun fjármagns og útlán þess til sveitarfélaga, þannig að þeim sé gert fjárhagslega kleift að byggja og reka leiguhúsnæði, þar sem þess er þörf.“

Með till. fylgir nokkuð ítarleg grg., og þarf ég ekki að hafa mörg orð fyrir till. þess vegna. Það er reyndar einnig vel kunnugt, að lengi hefur verið landlægur, ekki sízt í sjávarþorpum, mikill skortur á leiguhúsnæði. Þessu var áður fyrr bjargað með svonefndum verbúðum, en þær þykja nú ekki lengur, eins og vitað er, hæfar til íbúðar. Af þessum ástæðum hafa oft verið mikil vandræði í sjávarþorpum. Þegar sjávarútvegurinn hefur verið í uppgangi, hefur iðulega verið framboð af fólki, sem erfitt hefur verið að hýsa, einkanlega á hinum smærri stöðum. Þetta hefur verið afar áberandi upp á síðkastið, ekki sízt þar sem sjávarútvegurinn hefur eflzt töluvert og vaxið. Nú standa fyrir dyrum verulegar endurbætur í sjávarútvegi, sem eflaust mun leiða til stækkunar hinna ýmsu fyrirtækja og meiri þarfar fyrir starfsfólk. Ég hygg, að langsamlega víðast um landið sé ástandið hins vegar þannig, að þessu fólki verður illa komið fyrir í því húsnæði, sem nú er fyrir hendi, og getur það valdið mjög miklum erfiðleikum, ekki eingöngu fyrir fyrirtækin sem slík, heldur fyrir byggðarlagið allt og staðið í vegi fyrir eðlilegum vexti viðkomandi byggðarlags.

Því miður eru í núgildandi lögum um húsnæðislán ekki viðhlítandi ákvæði um lán frá húsnæðismálastjórn eða hinu opinbera á annan máta til byggingar leiguhúsnæðis á vegum sveitarfélaga. Till. stefnir að því, að úr þessu verði bætt. Eins og kunnugt er, þá er húsnæðismálalöggjöfin öll í endurskoðun. Flm. töldu rétt að leggja áherzlu á, að þessi mjög mikilvægi þáttur verði tekinn með í þá endurskoðun laga, sem nú stendur fyrir dyrum.

Eins og ég sagði áðan, þá sé ég ekki ástæðu til að hafa um þetta langa framsögu og læt því máli mínu lokið, en leyfi mér að vænta þess, að till. verði vísað til allshn.