24.02.1972
Sameinað þing: 41. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í D-deild Alþingistíðinda. (3734)

94. mál, leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaga

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Húsnæðismál eru að sjálfsögðu jafnan stórmál og ekki sízt hér í þessu landi. Hvað fjármögnun húsnæðismála varðar, þá má segja, að um fjóra meginþætti sé að ræða. Það er í fyrsta lagi eigið húsnæði, í öðru lagi leiguhúsnæði, þá útrýming heilsuspillandi húsnæðis og viðhald húsnæðis. Það er gleðilegt að heyra, að hér hafa nálega allir, sem talað hafa, lagt mikla áherzlu á stuðning við byggingu eigin húsnæðis. Hins vegar langaði mig til að vekja athygli á því, að varðandi leiguhúsnæði hefur í mörg ár verið heimild fyrir Húsnæðismálastofnunina til þess að lána bæjar— og sveitarfélögum út á byggingu leiguhúsnæðis. Fyrrv. ríkisstj. var það atriði ljóst, sem mikið hefur verið rætt um hér, að nauðsynlegt væri að geta byggt leiguhúsnæði úti um landið, þar sem atvinna væri fyrir hendi, en skortur á húsnæði. Og þess vegna voru þau ákvæði sett inn í lögin, að heimilt skyldi að lána bæjar— og sveitarfélögum og reyndar Öryrkjabandalagi Íslands einnig lán, veita þeim lán til byggingar á leiguhúsnæði. Og þessi lán mega nema að mig minnir allt að 75% af kostnaðarverði íbúðanna. En húsnæðismálastjórn hefur hins vegar skilið þetta þannig, að hún lánaði aldrei nema hámarkslán til einstaklinga. Þetta hefur verið notfært af ýmsum aðilum, en þó hefur mér á undanförnum árum fundizt það mjög einkennilegt, hve fá sveitarfélög hafa notfært sér þessa merku heimild. Að vísu má segja, að eftir sé að útvega lán til hluta af andvirðinu, en ekki verður annað sagt en þarna sé um mjög stórvægilega aðstoð að ræða, og einmitt þetta atriði, sem hv. 2. þm: Vestf. stakk upp á nú áðan, að bæjarfélögin og sveitarfélögin byggðu leiguíbúðir í samvinnu við atvinnufyrirtæki þar, það ætti að geta leyst hluta af þeim vanda, sem eftir er, eftir að húsnæðismálastjórnarlán hefur fengizt. Þetta fannst mér svo mikið atriði, að mér fannst ástæða til þess að vekja athygli á þessu hér.

Enn fremur vil ég benda á það, að einmitt úti um landið tel ég, að sé mikill grundvöllur til að kanna bæði útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis og einnig þörfina fyrir endurbætur hjá efnaminna fólki, til þess að það geti búið í sæmilegum íbúðum. Einmitt með það í huga lagði ég fram brtt. við húsnæðismálastjórnarlögin nú snemma á þinginu. Sú till. liggur í n. enn þá, en hún gerir ráð fyrir heimild til þess að lána út á endurbót lélegra íbúða í eigu efnalítils fólks, og þetta tel ég vera mjög mikið mál, vegna þess að það mundi einnig draga úr þörfinni fyrir nýbyggingar.

Ég held, að ef tekjustofnum sveitarfélaga verður haldið í sæmilegu horfi, þá mundi vera full ástæða til að ætla, að með góðum vilja, þar sem þörfin er mikil, væri nú hægt að gera verulegt átak í því að byggja upp leiguíbúðir á þeim stöðum, sem eiga fyrirsjáanlega mikla framtíð sem góðir atvinnustaðir.