24.02.1972
Sameinað þing: 41. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í D-deild Alþingistíðinda. (3736)

94. mál, leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaga

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það var sérstaklega hv. 1. þm. Austf., sem taldi, að það væri alrangur skilningur á þessari till., sem ég hefði lýst hér, að till. væri ætlað að bæta úr þeim sérstaka húsnæðisskorti, sem væri í þeim kauptúnum, sem byggðu á útgerð og vantaði vinnuafl einhverja hluta árs. En ég held því enn fram, að ég hafi fulla ástæðu til þess að ætla, að þetta hafi vakað fyrir tillögumönnum. Í upphafi tillgr. segir, að hún sé flutt til þess að bæta úr þeim alvarlega skorti á leiguhúsnæði, sem ríkjandi sé í flestum þorpum og kaupstöðum landsins. Nú og þá hverjum? Það kemur raunar fram í grg.: „Þar sem atvinnulífið byggist fyrst og fremst á útgerð og fiskiðnaði.“ Og væntanlega þarf ekki að veita sérstakar lagaheimildir til þess að hjálpa fólki sérstaklega til að byggja fyrir sig í þeim kauptúnum og þorpum og bæjum, þar sem atvinnulífið er að staðaldri blómlegast. Hvaða vit væri í því? Nei, það, sem fyrir tillögumönnunum vakir, er að hlaupa undir bagga með úrbætur á húsnæðisskorti, þegar sérstaklega þarf að fá inn í plássin aukið vinnuafl í viðbót við það, sem fyrir er, eða menn segja bara allt annað í grg. till. en þeir meina, og það skýrir sízt mál á Alþingi. (EystJ: Það er hvergi talað um verbúðir.) Verbúðabyggingar hafa verið, Eysteinn Jónsson, byggðar til þess að tryggja aðkomufólki forsvaranlegt húsnæði, og veit ég fleiri en eitt dæmi þess, og það var gert, meðan heimildin var í hafnalögunum.

Í grg. segir enn fremur, að engin ákvæði séu í lögum, sem heimili það ríflegar lánveitingar til sveitarfélaga, að þeim sé yfirleitt gert kleift að byggja og eiga leiguhúsnæði. Það fer ekki á milli mála, að þarna er verið að fara fram á sérstakar, auknar fjárveitingar eða hagkvæmari lán fyrir þessa staði. Vafalaust ekki þá, sem eru að jafnaði með blómlegt atvinnulíf, heldur hina, sem fá blóma í sitt atvinnulíf með köflum. Þetta held ég, að skýri það fyllilega, að fyrir tillögumönnunum vakti það að bæta úr þessum húsnæðisskorti, tímabundna húsnæðisskorti á ýmsum stöðum.

Öll framsöguræða hv. frsm. n. var líka um þessa breytilegu þörf, sem þyrfti að bæta úr, og þar þyrfti að koma til aukið fjármagn. Hann komst að þeirri réttu niðurstöðu, að húsnæðislánakerfið hefði ekki nægilegt fjármagn til þess að sinna þessu viðbótar hlutverki sérstaklega. Sama var að heyra á ræðu hv. þm. Alexanders Stefánssonar. Hann var að tala um þessa sérstöku þörf í Ólafsvík. Í seinni ræðu sinni sagði hann: Hér er um að ræða staði, sem hafa mikla atvinnuuppbyggingu og þörf fyrir fólk, þ.e. sérstaka þörf fyrir fólk.

Í grg. till. segir líka, að hér sé um að ræða að bæta fyrir því fólki, sem hefur í huga að flytjast til viðkomandi staða. Meina menn nokkuð með þessu í grg:? Það er ekki fólkið á stöðunum. Það er fólk, sem hefur í huga að flytjast til ákveðinna staða, sem á að hjálpa með sérstaklega hagkvæmum lánum, sem sveitarstjórnirnar taki. Ég get ekki álitið, að það sé nokkur grundvöllur fyrir menn að halda því fram. að hér sé ekki um þessa sérstöku þörf að ræða. Mönnum kann að finnast óheppilegt að kalla þetta verbúðir, af því að verbúðir í gömlum skilningi voru tæplega forsvaranlegir mannabústaðir. En till. er um það að fá lagaákvæði um sérstaka aðstoð til þess að greiða fyrir húsnæðisþörf þessa fólks, sem hefur í huga að festa byggð á aðkomustöðum, þar sem atvinnulíf er blómlegt í augnablikinu, en það er ekki búið að ákveða sig.

Svo segja menn hér: Jú, við erum alveg inni á því, að húsnæði eigi fyrst og fremst að vera í einkaeign, sem er ríkjandi stefna. Svo skulum við athuga það, ef við tökum upp þá stefnu að bæta úr húsnæðisskorti í kauptúnum og kaupstöðum landsins með því að gera sveitarfélögunum auðvelt að koma upp leiguhúsnæði með hagkvæmari lánakjörum, t.d. 90% lánum. eins og einhver sagði hér áðan. Svo kemur fjölskylda í þessa íbúð, sem sveitarfélagið byggði, flytur á staðinn, fær þarna húsnæði með vildarkjörum. Ætli sá, sem fær þessa hagkvæmu húsaleigu, fari fljótt úr þessari íhúð? Ætli hann fari að brjótast í að byggja sjálfur? Nei, hann situr í þessu húsnæði, og þar með búið. Það leysir ekki úr meiri þörf. Það er þarna gert val á milli stefnunnar eigið húsnæði og leiguhúsnæði. Og ef þessi löggjöf leiðir til þess, að menn fá betur leyst sín húsnæðismál með mjög hátt styrktum leiguíbúðum. þá verður farið inn á þá braut auðvitað. Ég get ekki ímyndað mér, að jafnglöggur fjármálamaður og hv. 1. þm. Vestf. óefað er, ef hann ætti kost á húsnæði sem sveitarfélagið byggði með 90% lánum og hagkvæmum lánakjörum að öðru leyti, hann færi að baksa í því að byggja sér eigið íbúðarhús. Hann léti það vera. Og það mundu fleiri hafa þann snefil af fjármálamennsku, að þeir gerðu það ekki.

En hvað vantar þá í gildandi löggjöf, til þess að menn geti fengið þá aðstöðu, að þeir geti sjálfir byggt, þar sem blómlegt atvinnulíf er og fólk er að hugsa um að flytjast til staðarins? Jú, það hefur verið imprað á því, að það sé nú eitthvað um þetta í gildandi löggjöf. Og ég sé nú ekki betur, en að í gildandi húsnæðismálalöggjöf sé meginefni þeirrar þáltill., sem hér er til umr., og hefur verið lítið notað. Með leyfi hæstv. forseta, er greinin í húsnæðismálalöggjöfinni svona:

„Húsnæðismálastjórn getur enn fremur veitt lán til byggingar leiguhúsnæðis í kaupstöðum og kauptúnum og á öðrum skipulagsbundnum stöðum, [meira að segja úti í sveitum]. Heimilt er að veita slíkt lán, meðan á byggingartímanum stendur, sbr. 2. mgr. Ráðh. setur, að fengnum tilmælum húsnæðismálastjórnar, með reglugerð, nánari ákvæði um slíkar leiguíbúðir.“

Þetta er í lögunum. Hvað vantar á þetta? Ég spyr hv. flm. till., hvað vantar á það, að till. þeirra sé fullnægt, ef sveitarfélögin vilja notfæra sér þessa lagalegu heimild? Þá þarf enga sérstaka lagasetningu um þetta, en það væri gott að heyra frá þeim, hvaða viðbót þyrfti við þessa grein húsnæðismálalaganna, til þess að þeim tilgangi væri náð, sem fyrir þeim vakir. Og ég vænti þess, að þeir verði svo elskulegir að láta það í ljós, svo að hægt verði að taka tillit til þess við endurskoðun húsnæðismálalöggjafarinnar, sem, eins og sagt hefur verið hér, stendur fyrir dyrum.