24.02.1972
Sameinað þing: 41. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í D-deild Alþingistíðinda. (3737)

94. mál, leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaga

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Það er eflaust rétt, sem hv. 1. þm. Austf. sagði áðan, að það ætti ekki að þurfa að ræða þetta mál mikið hér á þingi, svo augljóst ætti það að vera. En því miður virðist það nú ekki vera svo, og raunar má segja, að hv. Alþ. hafi varið tíma sínum til ýmissa mála, sem eru ekki eins mikilvæg og þetta. Það hygg ég, að okkur öllum geti borið saman um.

Ég verð að taka undir það, sem kom fram hér áðan hjá einum hv. ræðumanni, að sérstaklega eru það okkur vonbrigði, hve neikvæðar undirtektir þessi till. fær hjá hæstv. félmrh., og ég vil nú biðja hæstv. félmrh. um að leyfa mér að túlka mín eigin orð í þessu sambandi, í sambandi við hreyfanlegt vinnuafl eða verstöðvar. Ég hef út af fyrir sig aldrei lagzt gegn því, að slíkt leiguhúsnæði gæti orðið að einhverju liði í því sambandi. En ég hef ávallt og hvað eftir annað í mínum ræðum um þetta mál lagt áherzlu á það, að við værum fyrst og fremst að hugsa um að koma sveitarfélögunum yfir þann þröskuld, sem verður gjarnan á þeirra vegi, þegar þau vaxa.

Það er þannig á Hólmavík nú, eins og ég nefndi áðan, að þar er vaxandi atvinnulíf, þar er ekki verbúðaástand. Þar vilja koma inn hvorki meira né minna en 10 fjölskyldur. Þær hafa ekkert húsnæði í að fara. Það er þessi þröskuldur, sem ávallt verður í vegi slíkra sveitarfélaga, og ég er sannfærður um það, að hæstv. ráðh., ef hann skoðar sína löngu reynslu og þekkingu af vestfirzkum þorpum, mun finna fjölmörg dæmi hins sama þar víðast eða alls staðar.

Hann las raunar upp úr grg. það, sem hefði átt að fyrirbyggja allan misskilning, þar sem segir: „Hins vegar er eðlilegt, að ungu fólki hrjósi hugur við að þurfa strax að hefja byggingu eigin húsnæðis, ekki sízt því, sem hefur í huga að flytjast til viðkomandi staðar.“ Ég held, að hver einasti maður, sem skilur mælt íslenzkt mál, hljóti að skilja „að flytjast til viðkomandi staðar“ svo, að þar sé um meira en aðeins verbúðaflutning að ræða. Þar er um búsetuflutning að ræða, vitanlega. Sú staðreynd, að lögð er áherzla á það að flytjast til viðkomandi staðar, tekur að mínu viti af allar efasemdir, ef svo er, að ég í framsöguræðum mínum hafi ekki verið nógu ljós í þessu máli.

Ég vona, að ég þurfi ekki að fara fleiri orðum um þetta. Við höfum tveir flm. þessarar till. lagt ríka áherzlu á þetta atriði, og vona ég, að þingheimi sé þetta að öllu leyti ljóst nú.

Ég vil sérstaklega minnast á það, sem hæstv. ráðh. nefndi sérstaklega hagstæð kjör. Það er alveg rétt, að í till. er lögð áherzla á, að sveitarfélögum þurfi að lána slíkt fjármagn, þannig að þeim sé gert fjárhagslega kleift að byggja og reka leiguhúsnæði, þar sem þess er þörf. Og þetta má vitanlega túlka svo, að hér sé um sérstaklega hagstæð kjör að ræða. En ef við erum að tala um jafnvægi í byggð landsins, er það þá einhver goðgá að ætla að veita þeim, sem sérstaklega þurfa á aðstoð að halda, sérstaklega hagstæð kjör? Ef ekki má veita þeim byggðarlögum víða um landið, sem þurfa sérstaklega á slíkri aðstoð að halda, sérstaklega hagstæð kjör, þá er hér um tómt mál að tala. Það er kjarni málsins. Það eru ýmis byggðarlög, sem þurfa á sérstaklega hagstæðum kjörum að halda. Fyrir þessu skulum við gera okkur glögga grein. Ef það má ekki, þá getum við lagt niður allt okkar tal um jafnvægi í byggð landsins. Ég álít það því alls enga goðgá, að um sérstaklega hagstæð kjör til byggingar leiguhúsnæðis geti verið að ræða fyrir þau sveitarfélög, sem þurfa á þessu að halda vegna sinnar þróunar og uppbyggingar og vegna jafnvægis í byggð landsins.

Ég vil biðja hæstv. félmrh. að láta mig um að dæma, hvort ég mundi byggja mitt eigið húsnæði eða búa í leiguhúsnæði, og um fjármálavit mitt. Við þekkjum allir hans búsýslu og hans fjármálavit, og held ég, að við ættum ekki að vera að taka það inn í þessar umr.

Hér hefur verið drepið á ýmislegt annað, sem e.t.v. er von. Það hefur verið rætt mikið um Framkvæmdastofnun ríkisins og Byggðasjóð. Ég veit ekki, hvort rétt er að blanda þeim málum um of inn í þessar umr. Við flm. höfum vakið athygli á Atvinnuleysistryggingasjóði. Að sjálfsögðu kemur ýmislegt annað þarna til greina, og ég held satt að segja, að við hv. 2. þm. Vestf. hlytum að leysa vandamál Framkvæmdastofnunar á skemmri tíma en einum aldarfjórðungi, jafnvel þótt þetta bætist við. En hitt er alveg rétt, að þangað er vísað ótrúlega mörgum málefnum. Hennar verkefni á hins vegar fyrst og fremst að vera að gera áætlanir um framkvæmdir í landinu, meiri og ítarlegri en áður hefur verið gert, og ég sé enga goðgá í því, þótt þetta stóra og margþætta mál sem tengist e.t.v. öllum öðrum áætlunum um byggðajafnvægi í landinu, sé þar tekið með í reikninginn. Það er ekkert sagt um það hér, hver eigi að gera þessa úttekt. En ég treysti mér fyllilega til þess að lofa því, að áætlanadeild Framkvæmdastofnunarinnar gæti auðveldlega tekið það að sér.

Það er rétt. að í till. leggjum við til, að sveitarfélögum sé lánað þetta fjármagn til byggingar leiguhúsnæðis, og þó að víða geti háttað þannig til, að atvinnurekendur væru eðlilegir aðilar til að leysa slíkt mál og þeir hafa sums staðar gert það, þá sýnist mér a.m.k. eðlilegra, þegar um svo sérstök lán er að ræða, að sveitarfélögin séu þar lánsaðili. Raunar hygg ég, að í flestum tilfellum sé það heppilegra, að opinber aðili, t.d. sveitarfélagið, hafi umráðarétt yfir því eina leiguhúsnæði, sem e.t.v. er fáanlegt. Ummæli hv. 2. þm. Vestf. um þetta efni hafa því alls ekki breytt minni afstöðu að því leyti.

Það hefur einnig verið rætt um fjölmarga aðra þætti húsnæðismála. Í tillögunni er aðeins um einn þátt að ræða. Það er rætt mikið um verkamannabústaði. Við höfum ekki hreyft því máli í þessari till., því að við treystum því fyllilega, að í ágætum höndum hæstv. félmrh. og þeirri endurskoðun, sem nú fer fram, verði gerð mjög róttæk breyting á lögum um verkamannabústaði, breyting, sem geri hinum minni sveitarfélögum kleift að færa sér í nyt þá löggjöf. En eins og hér hefur verið rakið sérstaklega af hv. 1. þm. Vesturl., er víða svo um búið, að þau beinlínis geta ekki notað sér ákvæði þeirra laga.

Það er annað og stórt mál og ljóst, að þar verður einnig að koma til mikið fjármagn og jafnvel einhver sérstök aðstoð, og ég legg áherzlu á sérstaka aðstoð fyrir þau byggðarlög, sem höllustum fæti standa að þessu leyti.

Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðh., að í 8. gr. laganna er heimild fyrir húsnæðismálastjórn til þess að veita lán til byggingar leiguhúsnæðis o.s.frv., eins og hæstv. ráðh. las, en sú spurning vaknar þá, hvar reglugerðin sé um þessa framkvæmd. Það segir í greininni, að þetta skuli ákveðið nánar með reglugerð. Og hvar er fjármagnið, sem hefur verið veitt til framkvæmda samkv. þessari gr. laganna? Þetta eru spurningar, sem ég held. að hljóti að vakna.

Ég held, að sú till., sem hér er lögð fram, spilli á engan veg framkvæmd þessa ákvæðis þessarar greinar, ef vilji væri þar fyrir hendi. Við leggjum sérstaka áherzlu á, að í þeirri endurskoðun, sem nú fer fram, verði þetta mál tekið með, og mér þykir satt að segja furðulegt, ef einhver hefur við það nokkuð að athuga. Ég er einnig sannfærður um það, að eftir þá athugun, sem lögð er til í fyrsta þætti till., mun koma í ljós, að við höfum lög að mæla, og ég er sannfærður um það, að allir hv. þm. verða þá sammála um nauðsyn þess að veita sérstakt fjármagn til byggingar leiguhúsnæðis á vegum sveitarfélaga.