24.02.1972
Sameinað þing: 41. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í D-deild Alþingistíðinda. (3738)

94. mál, leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaga

Halldór S. Magnússon:

Herra forseti. Það hafa orðið hér allmiklar umr. um þetta mál., sem sýna kannske glögglega, hversu þýðingarmikið mál þetta er fyrir hina ýmsu staði úti um landið. Menn hafa að vísu deilt um túlkun á þessari þáltill., og ég ætla ekki að blanda mér í þær deilur, en ég er fullviss um það, að víða er svo, að þörf er á því, að byggt verði leiguhúsnæði, einkum og sér í lagi fyrir ungt fólk, sem er að hefja búskap og getur ekki strax á fyrstu búskaparárunum komið upp yfir sig húsnæði sjálft. Það er alveg nauðsynlegt að tryggja það, að fólk almennt í landinu geti búið þar sem það vill búa.

En það var ekki fyrst og fremst um þetta, sem ég vildi ræða, heldur vildi ég aðeins drepa á húsnæðisvandræði, sem stafa ekki af húsnæðisskorti í viðkomandi byggðarlögum. heldur af öðrum ástæðum. Og það var nú kannske fyrst og fremst út af ræðu hv. 1. þm. Austf., hæstv. forseta, þar sem hann sagði, að það væri einungis hér á Reykjavíkursvæðinu, sem nægilegt framboð væri á leiguhúsnæði. Mig langar í því sambandi að minnast sérstaklega á það, að á Suðurnesjum, einkum og sér í lagi Keflavík og Njarðvíkum, er geysimikill húsnæðisskortur, og þau húsnæðisvandræði, sem þar eru, stafa ekki af því, að það sé of lítið húsnæði í þeim bæjum. ekki ef það húsnæði væri einungis nýtt af Íslendingum. Það stafar af því, að fjöldi íbúða á þessum stöðum er leigður mönnum í varnarliðinu, sem dvelur á Keflavíkurflugvelli, og sú leiga skapar það aftur hins vegar, að ungt fólk, sem vill hefja búskap í þessum sveitarfélögum, fær ekki húsnæði til þess að setjast að í. Menn kunna að segja, að auðvitað geti fólk keppt við varnarliðsmennina um að leigja húsnæðið, en ef menn heyrðu þær tölur, sem þessir varnarliðsmenn greiða fyrir húsnæði, þá er ég sannfærður um, að allir mundu sannfærast um það, að ungt fólk, sem er að hefja búskap á Íslandi, getur ekki keppt við þá um húsnæði.

Í tilefni af þessu vil ég segja frá því hér, að væntanleg er í þinginu næstu daga þáltill. í sambandi við þetta mál, þar sem lagt verður til að ríkisstj. verði falið að gera könnun á því, hversu mikil brögð séu að því, að varnarliðsmenn leigi húsnæði á þessum stöðum, og ef svo reynist vera, sem mér býður í grun, að þar sé um verulegt magn húsnæðis að ræða, þá verði gerðar ráðstafanir til þess að setja hömlur við þeirri leigu. Ég vil leyfa mér að vona það, að ríkisstj. taki þetta mál föstum tökum, og beini því einkum og sér í lagi til utanrrh„ og ætla svo ekki að hafa þessi orð fleiri, en vildi aðeins benda á, að það eru til húsnæðisvandræði hér á Íslandi, sem stafa ekki af því, að húsnæðisskortur sé á viðkomandi stöðum, heldur öðrum ástæðum.