28.04.1972
Sameinað þing: 62. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í D-deild Alþingistíðinda. (3747)

94. mál, leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaga

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það er nú nokkuð langt um liðið, síðan ég kvaddi mér hljóðs, það eru nokkrar vikur, ég held ég megi kannske segja margar vikur síðan. Ég man það ekki glöggt, og ég man nú ekki allt, sem ég mundi vilja hafa sagt, ef mér hefði gefizt tækifæri til að taka til máls fyrir svona löngum tíma. En mér þykir rétt að fara nokkrum orðum um þessa till. á þskj. 107.

Þessi till. er í tveim liðum. Fyrri liðurinn er á þá leið, að látin verði fara fram könnun á þörf fyrir leiguhúsnæði í sveitarfélögum um land allt. Ég verð að lýsa nokkurri undrun minni á því, að það skuli vera borin fram till. um slíkt sem þetta af fimm stuðningsmönnum ríkisstj. og hæstv. félmrh., því að hér er um svo sjálfsagðan hlut að ræða, að maður hefði mátt ætla, að ekki þyrfti til þess að koma. Í lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins er svo kveðið á í 3. gr., að þetta er eitt af þeim verkefnum, sem húsnæðismálastjórn á stöðugt að vaka yfir og vinna að. Og það mætti spyrja, hvernig stendur á því, að það þarf að koma með slíkt og þvílíkt sem þetta í þál.? Er það vegna þess, að hæstv. félmrh. sé andvígur því, að þetta sé gert? Ég þykist vita, að flm. till. hafi aðgang að félmrh. og þá get ég skilið þetta einungis, ef þeir hafa fundið, að þeir yrðu að ýta við ráðh. með þessum hætti.

Seinni liður till. er um, að lagt sé fyrir Alþ. frv. til l. um útvegun fjármagns og útlán þess til sveitarfélaga, þannig að þeim sé gert fjárhagslega kleift að byggja og reka leiguhúsnæði, þar sem þess er þörf. Það verður enginn mikils vísari, þó að hann lesi þessa grein. Það er algerlega óljóst, við hvað hv. flm. eiga. Og mig furðar ekkert á því, að hæstv. félmrh. spurði að því og lagði áherzlu á það, ég held ítrekað, í þeim umr., sem áður hafa farið fram um þessa till., hvað flm. ætlist fyrir. Hvað er það, sem þeir vilja, sem ekki er í núgildandi lögum? En það segir í 3. mgr. a-liðar 8. gr. laga um Húsnæðismálastofnun ríkisins:

„Húsnæðismálastjórn getur enn fremur veitt lán til byggingar leiguhúsnæðis í kauptúnum og kaupstöðum og öðrum skipulagsbundnum stöðum.“

Hér er almennt ákvæði um lán til leiguhúsnæðis. En þetta ákvæði á sér nokkra sögu. Þegar lög um húsnæðismálastjórn voru sett 1955, voru engin ákvæði um það, að leyfilegt væri að veita lán til byggingar leiguhúsnæðis. Það var ekki hægt, og það var svo í mörg ár, að engin lán voru veitt til þess að byggja leiguíbúðir. En menn sáu, að þetta var ekki gott ástand og það þurfti að breyta til. Og fyrir nokkrum árum var gerð sú breyting á þessari löggjöf, að það var ákveðið, að þar væri heimilað að veita sveitarfélögum og Öryrkjabandalagi Íslands lán til byggingar leiguhúsnæðis. Þetta var framför frá því, sem áður var, en menn sáu og fundu, að það var ekki nóg að gert. Einu til tveim árum síðar var þessu ákvæði breytt enn á ný, og þá var tekið inn í lögin, að einnig væri heimilt að veita lán til leiguíbúða vegna elliheimila. En þrátt fyrir þetta var ekki um almennt ákvæði að ræða. En þegar lögin voru endurskoðuð árið 1970, þá fyrst var skrefið stigið til fulls og sett almennt ákvæði, sem heimilar veitingu íbúðarlána til byggingar leiguhúsnæðis hvaða aðila sem er. Það eru engin takmörk á því. Þetta er það ákvæði, sem nú er í 8. gr. laganna.

Þetta ákvæði hefur komið í góðar þarfir, en það var helzt að skilja svo á hv. 1. flm. þessarar þáltill., að honum væri alls kostar ókunnugt um það. Hann spurði m.a.: Hvar er reglugerðin um þessi lán? Reglugerðin var þegar gerð og liggur fyrir, og ef hv. þm. er í vandræðum með að útvega sér þessa reglugerð, get ég þegar í stað afhent honum hana. Þetta ákvæði er ekkert málamyndaákvæði. Þetta er ákvæði, sem hefur verið notað. En hvers vegna er ég að rekja þessa sögu hér? Það er vegna þess, að þáltill. táknar spor aftur á bak, því að samkv. þáltill. er gert ráð fyrir, að þær ráðstafanir, sem á að gera, hverjar svo sem þær verða nú, skuli bundnar einungis við sveitarfélögin. Þetta er spor aftur á bak. Það er ákaflega þýðingarmikið, að þetta skref sé ekki stigið. Það er ekki aðalatriðið, hvaða aðilar það eru, sem byggja leiguíbúðirnar. Aðalatriðið er að sjálfsögðu að fá leiguíbúðirnar byggðar. Og það er ekki víst, að sveitarfélögin í litlum byggðarlögum hafi sérstakan áhuga á því að leggja í þann fjárfestingarkostnað, sem hlýtur að fylgja því að byggja leiguíbúðir, ef sveitarfélögin geta komizt hjá því og það eru kannske aðrir aðilar, sem hafa áhuga og vilja að leggja í þennan kostnað.

Það getur því beinlínis verið bjarnargreiði við hin litlu sveitarfélög úti á landi að takmarka möguleika annarra aðila en sveitarfélaganna sjálfra til þess að byggja leiguíbúðir, en ætlast til þess, að sveitarfélögin geri það. Og ég spyr: Hvaða ástæða er til þess að veita ekki kaupfélagi eða hraðfrystihúsi sömu fyrirgreiðslu til þess að byggja leiguíbúðir eins og sveitarfélagi, þegar þannig stendur á, að það eru brýnir hagsmunir kaupfélagsins eða frystihússins að byggja leiguíbúðir til þess að skapa möguleika á því að fá vinnuafl til fyrirtækjanna, til þess að þau geti starfað með eðlilegum hætti? Auðvitað er engin ástæða til þess að gera þetta. Og hvað sem líður þessari þáltill., þá er það svo, að mér finnst ekki koma til greina að samþykkja hana óbreytta. Ég hef því leyft mér ásamt hv. 1. landsk. þm. að bera fram brtt. á þskj. 644 á þá leið, að þál. eigi ekki einungis við sveitarfélög, heldur og aðra þá aðila, sem byggja vilja leiguíbúðir. Þegar búið er að samþykkja þessa brtt., þá mundi till. þeirra fimmmenninganna vera í miklu skynsamlegra formi en hún er núna.

Ég var að tala áðan um það, að sveitarfélögunum gæti komið eins vel að einhverjir aðrir byggðu leiguíbúðir en þau sjálf. Það er ekki að ófyrirsynju, sem ég segi þetta, því að það eru vissar skyldur lagðar á sveitarfélögin í húsnæðismálunum. Og það hefur komið í ljós, að sveitarfélögin eiga fullt í fangi, þó að maður segi nú ekki meira, með að gegna því hlutverki. Samkv. lögum eiga sveitarfélögin að leggja fram fjármuni til jafns við ríkið til útrýmingar heilsuspillandi húsnæði. Nokkurt átak er það fyrir smá sveitarfélög. Samkv. lögum eiga sveitarfélög að leggja fram fjármagn til jafns við ríkið til Byggingarsjóðs verkamanna. Þetta er ærið verkefni. Og það hefur komið fram í þessum umr., að sveitarfélögin ættu í miklum erfiðleikum við þetta.

Það hefur ýmislegt fleira verið rætt um verkamannabústaðina. Það hefur verið rætt um þá breytingu, sem varð á skipulagi verkamannabústaðakerfisins við setningu laganna frá 1970. Og það hefur verið talað um. að sveitarfélögum hefðu ekki verið gefnar nægilega frjálsar hendur til þess að gegna hlutverki sínu samkv. þessum lögum. Hér í umr. nefndi einn ræðumaður, Alexander Stefánsson, að þetta væri til trafala fyrir sveitarfélögin. Hans sveitarfélag gæti ekki byggt á fjórum árum nema sex verkamannabústaði. Þessi hv. þm. hafði ekki gert sér grein fyrir því, að einmitt á þessu þingi hafði ákvæði, sem takmarkaði aðgerðir sveitarfélaganna í þessum efnum, verið rýmkað, þannig að eftir breytinguna gæti Ólafsvik, sem um var að ræða, byggt 18 íbúðir eða nálægt því, en ekki sex íbúðir. Ég mundi ætla, að það væru lítil takmörk fyrir því, hvað sveitarfélögin geta gert í þessu efni, ef þau hafa fjármagn. Ég segi lítil takmörk, þegar höfð eru í huga þau takmörk, sem liggja til grundvallar verkamannabústaðakerfinu. En hvaða takmörk eru það? Það eru takmörk, sem alltaf hafa fylgt því frá því 1931, að stofnað var til þessa byggingarkerfis, að það er miðað við þá, sem lægstar tekjur hafa í þjóðfélaginu. Og það hefur á undanförnum árum, þegar þessum málum hefur verið hreyft til endurskoðunar á löggjöfinni, verið talað um, að það ætti að miðast við að svara þörfum 10—15% þjóðarinnar eða 10—15% húsbyggjenda. Miðað við þetta er ekkert í löggjöfinni, sem hindrar, að þetta sé hægt að gera. Og þegar menn eru að tala um, að það þurfi að gera stóra hluti til þess að efla verkamannabústaðakerfið, þá verða menn að hafa í huga, hvort þeir ætla að halda því á sama grundvelli og það hefur verið frá upphafi, til þess að aðstoða þá þegna þjóðfélagsins, sem verst eru settir, eða hvort þeir hugsi sér það sem almennt útlánakerfi.

En það eru ein takmörk, sem sveitarfélögin hafa við að glíma. Og það er þeirra eiginn fjárhagur, þeirra eigin tekjumöguleikar. Í umr. í hv. Ed. um frv. um tekjustofna sveitarfélaga lagði ég áherzlu á það, að ekki væri nægilega vel búið að sveitarfélögunum, og nefndi ýmis verkefni, sem þyrfti að hafa í huga og ekki mætti skerða hjá sveitarfélögunum. m.a. verkamannabústaði. Þessu var mótmælt þá af hæstv. félmrh. og öðrum málsvörum hæstv. ríkisstj. En í umr. í hv. Nd. fyrir nokkrum dögum. þá lýsir sami ráðh., hæstv. félmrh., því yfir, að hann óttist það, að sveitarfélögin hafi ekki bolmagn til þess að gegna skyldum sínum samkv. lögum um verkamannabústaði. Það er virðingarvert, að hæstv. ráðh. skuli viðurkenna þetta. En hvers vegna sá hann þetta ekki, áður en lögin voru sett? Hvers vegna neitar hann þessu í hv. Ed., þegar frv. til þessara laga er til umr., en viðurkennir það í Nd., þegar lögin hafa verið sett?

Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta. En ég kemst ekki hjá því að víkja að atriði, sem mjög kom inn í umr. um þessa þáltill. Það var jafnvægi í byggð landsins. Það mætti segja, að umr. um þetta mál hafi að nokkru leyti verið snúið upp í herferð fyrir jafnvægi í byggð landsins. Um það er ekkert nema gott að segja, og það er meira en það, því að það er eitt af hinum veigamestu atriðum til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, að gerðar séu aðgerðir til þess að auðvelda byggingu leiguhúsnæðis. Það voru ýmsir hv. þm., sem lýstu þessari skoðun, og kannske enginn ákveðnar en hæstv. forseti. Ég tek undir allt þetta tal. En í þessari þáltill., sem hér liggur fyrir, er ekki að finna mikið um þetta atriði. Í þáltill. er ekkert um þetta atriði, og í framsöguræðu með þessari till. sagði 1. flm. ekkert um þetta atriði. Og í annarri ræðu sinni um málið talaði hann eins og hér væri ekki stefnt að því með þessum aðgerðum að efla jafnvægi í byggð landsins. En í lokaræðu sinni var hann kominn inn á það, að það væri hægt að finna þennan tilgang í tillögunni.

Inn í þessar umr. kemur svo hæstv. félmrh. Hann er ekki á þeirri skoðun, að það skipti ýkjamiklu máli að auðvelda byggingu leiguíbúða. Hann vildi snúa þessu upp í tal um það að byggja verbúðir. Ég held, að bygging verbúða, eins og raunar hefur áður verið bent á í þessum umr., sé allt annað mál en að byggja leiguíbúðir. Og það er furðulegt, að hæstv. ráðh. skuli ekki gera sér grein fyrir þessu.

En það, sem er ennþá furðulegra, er það, að það kom fram hjá honum, að það ætti ekki að mismuna neinum byggðarlögum í þessu efni, það ætti ekki að gera neitt á einum stað fram yfir það, sem gert er annars staðar. Það ættu að gilda sömu reglur, því að ef það væri ekki, þá sagðist hann sjá ljón hvarvetna á veginum. Hér er um mjög athyglisverða yfirlýsingu að ræða af hæstv. félmrh. Hvað er hæstv. félmrh. að segja með þessu? Hann er að segja það, að það sé ekki hægt að beita neinum aðgerðum í húsnæðismálunum til jafnvægis í byggð landsins. Það er ekki hægt að gera meira fyrir þau byggðarlög, sem höllum fæti standa og þarf að styðja og efla, ef byggðin á ekki e.t.v. gersamlega að líða þar undir lok. Það er ekki hægt að gera þar meira. Það er ekki hægt að gera þar betur en þar sem ástandið er bezt í landinu og þarf engar ráðstafanir að gera til jafnvægis í byggð landsins. Þetta leyfði þessi hæstv. ráðh. sér að segja, á sama tíma sem hann er yfirmaður og framkvæmir skipulag, þar sem beitt er mismunandi aðgerðum eftir því hvar er í landinu, en ekki til hags þeim byggðarlögum. sem verst eru sett, heldur til hags því byggðarlagi, sem bezt er sett. Það er stórkostlegur munur, hvað gert er fyrir Reykjavík og næsta nágrenni í þessum efnum og hvað gert er fyrir landsbyggðina. Það, sem ég á hér við, eru Breiðholtsíbúðirnar, Breiðholtsíbúðirnar, sem eru á vegum framkvæmdanefndarinnar, sem sér um byggingaráætlun ríkisins og Reykjavíkur í Breiðholtinu, eru byggingar, sem hvergi annars staðar eiga sér hliðstæðu á landinu. Það eru hvergi hliðstæð kjör við það, sem þar gerist. Það er þannig, að lánin til þessara íbúða nema 80% af byggingarkostnaði og þau eru ekki til 25 ára eins og hin almennu lán. Þau eru til 33 ára, og þau eru afborgunarlaus fyrstu þrjú árin. Og sveitarfélagið hér, Reykjavík, þarf ekki að greiða helming á móti ríkinu í þessu sambandi. Það eru engin skilyrði um það. Þarna er um að ræða beint lán úr Byggingarsjóði ríkisins. Reykjavík greiðir ekkert. Ég vil taka það fram til skýringar, að það er um 1.200 íbúðir að ræða samkvæmt Breiðholtsáætluninni, en af þessum 1.200 hefur Reykjavík á sínum vegum 250, en nýtur, hvað þær íbúðir snertir, sömu kjara og aðrir húsbyggjendur hvar sem er á landinu. Það eru 950 íbúðir með þessum sérkjörum. Þetta er gert undir stjórn þessa hæstv. ráðh., sem segir, að það megi ekkert sérstakt gera fyrir þau byggðarlög, sem verst eru sett. (Félmrh.: Þetta er allt saman hugarburður, hv. þm. Ég hef aldrei sagt þetta.) Hæstv. ráðh. segist aldrei hafa sagt þetta. Hann skýrir mál sitt hér á eftir. Ég vænti þess að fá tækifæri til þess að svara honum. Það þýðir ekki að kasta svona fullyrðingu fram.

En hver eru svo úrræði hæstv. ráðh., sem hann drap á í þessum málum? Jú, hann var meðmæltur því, að þessi könnun samkvæmt þáltill. færi fram á ástandinu, sem hann hefði auðvitað átt að vera búinn að láta fara fram. Og svo lagði hann til, að það yrði athugað að taka aftur upp í hafnalög ákvæði um að byggja verbúðir. En sjálfur var hann búinn að lýsa því, að slíkt ákvæði hefði verið áður í hafnalögum og hefði algerlega brugðizt eftir hans eigin sögn. Þetta eru hans úrræði í þessum málum nú.

Þetta var þáttur umræðnanna um jafnvægi í byggð landsins. En það var annar þáttur, sem var mjög athyglisverður líka, og það var almennur lofsöngur allra, sem töluðu áður í þessum umræðum, um mikilvægi þess að draga ekki úr byggingu eigin íbúða. Allir, sem töluðu, eða nær allir lögðu sérstaka áherzlu á þetta atriði. Og hæstv. félmrh. hélt því fram. að ef gert væri meira fyrir þá aðila, sem byggðu leiguíbúðir, en hina, sem byggðu eigið húsnæði, þá hlyti það að hafa þær afleiðingar, að það drægi úr byggingu eigin húsnæðis. Undir þetta get ég tekið með hæstv. ráðh.

Hv. 1. flm. till. lagði mikla áherzlu á það, að ekki yrði dregið úr því, að menn gætu byggt eigin íbúðir. En hvað þýðir þetta? Ef menn meina, að það sé ekki dregið úr byggingu eigin húsnæðis, þá eiga þeir að leggja til og vera með því, að báðum sé gert jafnt undir höfði, þeim, sem byggja leiguíbúðir, og þeim. sem byggja eigin íbúðir. Það er eina leiðin. En ef við ætlum að gera verulegt átak í þessum efnum, t.d. að hækka lánin, hafa þau hliðstæð því, sem gildir um Breiðholtsíbúðirnar hér í Reykjavik, að þau nemi 80% af kostnaðarverði, þá er það greinilegt, að hér er um geysilegt átak að ræða, og til þess að vera raunhæfir skulum við ekki láta okkur detta í hug, að það sé hægt að gera það almennt fyrir allt landið. En ef við höldum okkur við þá niðurstöðu, sem ég ætla, að hv. 1. flm. till. aðhyllist, að aðgerðirnar eigi að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, þá leiðir af því, að þetta á ekki að verða almenn regla, heldur einungis að beita henni, þar sem verst er ástatt úti á landsbyggðinni. Og ef menn vilja gera þetta og ef menn eru trúir hugsjón sinni um eigið húsnæði, þá er aðeins eitt að gera á þessum smástöðum. Það er að veita sömu kjör á þessum stöðum, hvort sem það eru leiguíbúðir eða eigið húsnæði. Og er nokkur goðgá að leggja það til og ætlast til þess, að það verði ekki lakari kjör en gilda hér um Breiðholtsíbúðirnar í Reykjavík? Hvað meina menn þá með jafnvægi í byggð landsins, ef þeir geta ekki verið með slíkum aðgerðum? En hér eru ýmis ljón á veginum, ekki ljónið, sem hæstv. félmrh. sá. Eitt ljónið er andstaða félmrh. við raunhæfar aðgerðir í þessum málum, eins og afstaða hans hefur komið fram í umr. hingað til. En það eru líka ýmsir aðrir erfiðleikar, og hæstv. félmrh. hefur gert grein fyrir þeim, og ég get tekið undir þá erfiðleika.

Hæstv. félmrh. sagði, að það vantaði 500 millj. kr., til þess að hægt væri að fullnægja útlánsþörfum Byggingarsjóðs ríkisins á þessu ári, 500 millj. Ég hefði viljað fá nokkru nánari upplýsingar um þessa tölu. Ég hefði viljað spyrja hæstv. ráðh.: Er innifalin í þessari tölu hækkun á lánum húsnæðismálastjórnar, hinum almennu lánum. sem nú eru 600 þús.? Það var ákveðið 1970, að lánið skyldi vera 600 þús. En í lögunum stendur, að það skuli endurskoðast á tveggja ára fresti, og sá tími er kominn. Ég hefði gaman af að spyrja hæstv. ráðh.: Tók hann tillit til þess í þessum upplýsingum, að það kemur árlega stöðugt minna og minna fé til ráðstöfunar í veðlánakerfinu gegnum skyldusparnaðinn? Þetta er vegna þess, að skyldusparnaðarkerfið leitar smám saman jafnvægis á þá leið, að það kemur jafnmikið inn í kerfið í skyldusparnaði eins og greitt er út úr kerfinu, þegar menn fara af skyldusparnaðaraldri, nema sem nemur fólksfjölgun. Þannig er nú að koma sá tími, að þetta kerfi hefur ekki lengur verulega þýðingu við tekjuöflun til þess að auka útlánsfé. Hins vegar hefur það geysilega þýðingu, af því að það bindur það fé, sem skyldusparnaðinum nemur, í kerfinu, en það eykur það ekki frá ári til árs, svo að verulegu nemi. Ég hefði gaman af að spyrja hæstv. ráðh., hvort reiknað hefði verið með fjármagnsþörf verkamannabústaðakerfisins í þessu og hvað það næmi miklu. Og hver er þörfin til útrýmingar heilsuspillandi húsnæði?

Aðalspurningin er: Hverjar eru fyrirætlanir ríkisstj. og hæstv. félmrh. til þess að fá veðlánakerfinu meira fjármagn? Nú hefur það skeð, meðan ég var að bíða eftir orðinu, að ríkisstj. hefur lagt fram frv. til l um breytingar á lögum um Húsnæðismalastofnun ríkisins. Maður hefði ætlað, að þá væru komin svör við þessu, sem ég var að spyrja um, en svo er nú ekki, eins og hv. þm. vita. Það er ekkert svar við þessari spurningu. Það er ekkert, sem gefur til kynna, hvernig hæstv. ráðh. ætlar að ráða fram úr þeim vanda, sem við er að glíma.

En hæstv. ráðh. hefur uppi tilburði um önnur efni. Hann er allur að hugsa um, hvernig húsnæðismálastjórn á að vera skipuð, og þar er hæstv. ráðh. í essinu sínu, og um það er hægt að tala af reynslu. Hæstv. ráðh. hefur áður komið í ríkisstj., og hann var ekki búinn að vera nema nokkra daga í ríkisstj. 1956, þegar hann hljóp upp til handa og fóta að breyta skipun húsnæðismálastjórnar. Og það lá svo mikið á, að hann þurfti að gefa út brbl. um það. Þegar ráðh. tók við völdum, var fimm manna húsnæðismálastjórn. En hann sagði: Það er of fámenn stjórn, það er svo mikið starf fyrir húsnæðismálastjórn vegna þess líka sérstaklega, að það vantar svo mikið fjármagn, til þess að húsnæðismálastjórn geti fullnægt þörfum fyrir íbúðalán. Og hvað gerði hæstv. ráðh.? Hann ákvað, að það skyldu verða sjö menn í húsnæðismálastjórn, en jafnframt var ákveðið, að þrír menn skyldu vinna öll störfin. Það voru áður fimm menn og allir unnu störfin. Þeir urðu sjö, en það var ákveðið, að bara þrír mættu vinna störfin. Þetta var nú nokkuð furðulegt. Þessi brbl. voru staðfest í jan. 1957, en í marz ber hæstv. ráðh. fram frv. um Húsnæðismálastofnun ríkisins. Þá þarf hann aftur að breyta stjórninni. Þá ákveður hann, að það skuli vera fimm menn í stjórninni. En hann gerði meira. Það var ákveðið í þessari löggjöf, að fulltrúi veðdeildar Landsbankans, sem hafði sína bankaþekkingu. mætti ekki taka þátt í útlánastarfseminni. Það var bannað með lögum. að fulltrúi Landsbankans mætti gera þetta.

Þetta er kannske dálitið erfitt fyrir þá, sem ekki fylgdust með þessu, þegar þessir hlutir voru að gerast. Hvað var hæstv, félmrh. að fara með þessu? Það vissu allir þá, sem fylgdust með, og hann var heldur ekkert myrkur í máli. Hann var að gera þetta til þess að hafa áhrif á skipun stjórnarinnar og tryggja, að þeir, sem væru af sama stjórnmálaflokki og stjórnmálaskoðun og hann sjálfur, hefðu öll raunveruleg ráð í húsnæðismálastjórn, en ýta hinum til hliðar. Og hann hrósaði sér af því í umr. í þinginu, að það hefði aldrei verið meiningin hjá honum að láta íhaldsmenn ráða eða framkvæma nokkuð í húsnæðismálastjórn undir sinni stjórn. Þegar við höfum þetta í huga, þá undrar mann ekkert, þótt nú komi og beri hæst, að hæstv. félmrh., þessi sami maður, vilji breyta enn á ný í húsnæðismálastjórn. Og enn er það af sömu ástæðum. til að koma að, skáka fram pólitískum hagsmunum. pólitískum sjónarmiðum. Þetta sama gerist í sambandi við stjórn verkamannabústaðanna. Hann hleypur þar líka upp til handa og fóta og leggur til, að þar verði breytt um skipan frá því, sem ákveðið var 1970. Til hvers? Til þess að hann geti sjálfur skipað m.a. formann í stjórn verkamannabústaða um allt land. Til þess að beita sínum pólitísku áhrifum. Enginn maður í nokkurri ríkisstj. hefur gerzt berari að því, en þessi hæstv. ráðh., að beita pólitískum brögðum til þess að beita húsnæðismálastjórn pólitískt fyrir sig, ef hann hefur getað.

En hvað skeður nú? Nú er það þessi maður, sem gerist siðapostuli í þessum efnum og segist nú ekki vilja hafa neina pólitík og ber sína undirmenn og kjörna fulltrúa Alþingis í húsnæðismálastjórn hinum þyngstu sökum. Hann ber þessa menn þeim sökum. að þeir séu að beita áhrifavaldi sínu til þess að þjóna pólitískum markmiðum og hefur stór orð um þetta, svo sem pólitískt þukl o.fl. o.fl. (BGuðn: Þetta er rétt.) Þetta segir hæstv. félmrh. Hv. 3. landsk. segir, að þetta sé rétt. Hæstv. félmrh. segir: Og lýgur ekki miklu. En sjálfur segir hann í sínum daglegu greinum í hinu ágæta blaði Morgunblaðinu, að hann hafi ekki meint þetta. Það skyldi þó ekki vera svo, að hv. 3. landsk. og hæstv. félmrh. greini á í þessum efnum eins og öðrum. Ég held, að ég taki ekki mikið mark á þessum fram í köllum. En víkjum nánar að efni málsins.

Þessir menn, sem hér er um að ræða og Alþ. ber ábyrgð á, hafa birt yfirlýsingu um þetta og vil ég lesa upp hér kafla af því, sem þeir segja. Það á erindi hér á þennan stað. Með leyfi hæstv. forseta stendur þar m.a.:

„Ekki fer á milli mála, að félmrh. er hér að veitast að kjörnum fulltrúum Alþingis í húsnæðismálastjórn og gefur í skyn, að þeir stundi stjórnmálalega rannsóknarstarfsemi á lánsumsækjendum. Ekki reyndi þó ráðh. að rökstyðja þessa ásökun sína, enda mundi það reynast torvelt. Ásökun ráðh. er allt í senn, ósönn, ósmekkleg og órökstudd. Húsnæðismálastjórn starfar samkv. lögum frá Alþ., og nánar eru starfshættir hennar ákveðnir í reglugerðum, sem félmrn. hefur staðfest. Mjög mikilvæg atriði þessara laga og reglugerða eru óbreytt frá fyrri félagsmálaráðherratíð Hannibals Valdimarssonar og mötuð undir forustu hans. Umsóknir um lán eru úrskurðaðar og lán afgreidd í samræmi við gildandi lög og reglugerðir. Allir, sem um lán sækja og falla undir gildandi reglur, njóta sama réttar um lánveitingar miðað við komutíma umsókna og fokheldi íbúða. Í þeim efnum hafa skapazt fastar reglur, sem ekki er frá vikið við lánveitingar, og eru þúsundir manna um allt land vitnis bærir um þá starfshætti.

Undirritaðir fulltrúar Alþingis í húsnæðismálastjórn telja því framangreind ummæli félmrh. ákaflega ómakleg og næsta óskiljanlegt, hvað fyrir honum vakir með slíkum ásökunum og nafngiftum. Munu þess sem betur fer engin dæmi, að ráðh. hafi veitzt með hliðstæðum hætti að stjórnendum stofnunar, er undir hann heyrir. Ættu og önnur verkefni að standa ráðh. nær, en að leitast við að rýra þannig tiltrú mikilvægrar félagsmálastofnunar, er heyrir undir rn. hans.

Þess skal að lokum getið, að engar kvartanir hafa borizt til húsnæðismálastjórnar frá félmrh. um starfrækslu Húsnæðismálastofnunarinnar eða starfshætti stjórnarinnar þann tíma, sem hann hefur nú farið með yfirstjórn húsnæðismála.“

Þetta segir í aths. hinna þingkjörnu fulltrúa í húsnæðismálastjórn. Og ég leyfi mér að segja, að það eru allt valin kunnir menn. Og ég get auk þess hætt því við, að ég starfaði í mörg ár með tveim þessara manna, Guðmundi Vigfússyni og Hannesi Pálssyni, og get borið það, að þeir unnu störf sín af samvizkusemi og kostgæfni. (Félmrh.: Þá er því lokið.) Hæstv. félmrh. segir: Þá er þessu lokið. Nei, því er ekki lokið. Ég veit, að hann vill losna við þessa tölu. En hann á eitt ráð til þess að losna. Og það er það að vera sá maður að standa hér upp og biðjast afsökunar á sínum ummælum. Það er það, sem hæstv. félmrh. ber að gera.

Það eru ekki nema nokkrir dagar síðan þessi sami ráðh. vék hörðum orðum að einum ungum þm. hér, sem hafði deilt á embættisfærslu einhverra manna. Hvað sagði þessi hæstv. ráðh.? Hann heimtaði það, að þessi þm. stæði upp og bæðist afsökunar. Var þó ólíku saman að jafna og hér er um að ræða. Vill hæstv. ráðh. meina, að það gildi eitthvert annað siðalögmál fyrir hann en óbreytta þm.?

En þetta mál er meira. Hæstv. ráðh. hefur sagt það í umr. um frv. á þskj. 255, að hann vilji leggja húsnæðismálastjórn niður. Hann hefur sagt í yfirlýsingum sínum í Morgunblaðinu, að hann hafi ekki meint, að hann vildi leggja niður störfin, þau ættu að fara til veðdeildar Landsbankans. Hér er um nokkuð veigamiklar yfirlýsingar að ræða, sem ekki er hægt að láta fara fram hjá sér án þess að ræða þær nokkuð. Það er fleira verkefni húsnæðismálastjórnar en að úthluta lánum. Mörg fleiri verkefni og veigamikil verkefni. Verkefni húsnæðismálastjórnar eiga að vera eins og segir í 2. og 3. gr. laga um Húsnæðismálastofnun ríkisins. Í 2. gr. segir:

„Hlutverk Húsnæðismálastofnunar ríkisins er að hafa á hendi stjórn Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna og yfirumsjón lánsfjáröflunar og lánveitinga til íbúðabygginga í landinu.“

Húsnæðismálastjórn er stjórn tveggja byggingarsjóða. En hún á einnig samkv. lögum að hafa yfirumsjón með lánsfjáröflun. Þegar hæstv. ráðh. vantar 500 millj., þá á samkv. lögum húsnæðismálastjórn að koma við sögu um það, hvernig á að leysa það mál. Húsnæðismálastjórn á að hafa yfirstjórn af hálfu ríkisins á skyldusparnaðinum, á útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis, o.fl. o.fl. mætti nefna.

Ég skal ekki gerast of langorður um þetta, en ég sagði, að verkefnin væru líka tiltekin í 3. gr., og það verður ekki komizt hjá því að ræða það. Þar segir, að Húsnæðismálastofnun ríkisins skuli vinna að umbótum í byggingarmálum og lækkun á byggingarkostnaði, og það eru tiltekin ýmis atriði, sem húsnæðismálastjórn á að vinna að. Húsnæðismálastjórn á t.d. að gera grein fyrir raunverulegri þörf landsmanna fyrir íbúðabyggingar á hverjum tíma, láta gera till. og áætlun um, hvernig þeirri þörf verði fullnægt á sem hagkvæmastan hátt og með sem minnstum tilkostnaði. Húsnæðismálastjórn á að fylgjast með byggingarkostnaðinum í landinu í því skyni að finna, hverjir byggi ódýrust hús, hvaða gerðir íbúðarhúsnæðis reynist beztar og hagkvæmastar og með hvaða hætti þeim verði komið upp með sem minnstum tilkostnaði. Húsnæðismálastjórn á að starfrækja teiknistofu, er láti í té hagkvæmar teikningar og annist leiðbeiningar um hvers konar umbætur og vinnutækni við byggingu íbúðarhúsa. Og húsnæðismálastjórn á að setja reglur um það, að byggðar séu hagkvæmar íbúðir og heppilegar stærðir og hvað eina. Enn á húsnæðismálastjórn að annast leiðbeiningastarfsemi til þess að lækka byggingarkostnaðinn og veita almenna fræðslu um byggingarmálefni. Húsnæðismálastjórn á samkv. l. að leggja áherzlu á stöðlun (standardiseringu) sem flestra hluta til íbúðarbygginga, fjöldaframleiðslu slíkra hluta og leiðbeiningar til húsbyggjenda um notkun þeirra. Þetta er ekkert smáræðis verkefni, sem hér er um að ræða. Í samvinnu við Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og Iðnaðarmálastofnun Íslands skal stofnunin gangast fyrir tæknirannsóknum og kynningu nýjunga í byggingariðnaði, tilraunum og sýningum, námskeiðum, útgáfu rita, heimsóknum erlendra sérfræðinga, náms— og kynnisferðum íslenzkra byggingarmanna erlendis. Enn fremur skal að sama marki stefnt með byggingu tilraunahúsa, þar sem reyndar verða nýjungar í húsagerð. Og húsnæðismálastjórn á að beita sér fyrir því, að úthlutun lóða tefji ekki fyrir því, að byggingar geti hafizt, o.fl. o.fl. má nefna. Ég ætla ekki að tefja mál mitt með því að telja allt upp. Þetta ætlar hæstv. félmrh. að láta veðdeildina annast. Hann ætlar að láta veðdeildina annast þetta. Ja, fyrr má nú vera. Maður heyrði hér fyrr á árum, að það var talað um Landsbankavald. En hvern óraði fyrir því, að það ætti að leggja einn meginþátt félagslegra framfara í landinu undir Landsbankann? Ég hef aldrei verið hræddur við Landsbankavaldið, en ég hef aldrei látið mér koma til hugar, að hann ætti að gegna hlutverki húsnæðismálastjórnar og þá væntanlega húsnæðismálaráðuneytis. Ég hygg, að hæstv. félmrh. yrði bezt kominn þá í veðdeild Landsbankans, ef hann ætlar að beita sér í þessum málum.

En það væri ekki alvarlegasta afleiðingin, ef það væri tekið mark á þessu lýðskrumi, sem liggur að baki þessara fullyrðinga hæstv. ráðh. Þetta er það, sem hæstv. félmrh. segir, en það væri hægt að tiltaka margt fleira. Ég vil aðeins segja það að lokum, að þetta mál varðar fleiri í ríkisstj. en hæstv. félmrh. Ég sé ekki betur en það, sem ég hef verið hér að ræða um, varði ríkisstj. í heild. Taka ráðherrar almennt undir ásakanir félmrh. á fulltrúa Alþingis í húsnæðismálastjórn? Ætla þeir að samþykkja ásakanir hæstv. félmrh. með þögn? Það er fróðlegt að sjá, hvað skeður í þeim efnum. Ætla þeir að gera það að sinni stefnu í sambandi við jafnvægi í byggð landsins, að það megi ekki beita neinum aðgerðum á sviði húsnæðismálanna til þess að efla þau byggðarlög, sem verst eru sett? Það er fróðlegt að vita, hvað ríkisstj. segir um þetta. Og að lokum: Er það stefna hæstv. ríkisstj. að leggja húsnæðismálastjórn niður og fela veðdeild Landsbankans það starf, sem hún hefur með höndum núna samkv. lögum? Ég vildi vænta þess, að þessum umr. lyki ekki svo, að við yrðum ekki einhvers vísari um þessi efni.