28.04.1972
Sameinað þing: 62. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í D-deild Alþingistíðinda. (3748)

94. mál, leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaga

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég átti satt að segja ekki von á því, að þessi þáltill. leiddi til þeirra almennu umræðna um húsnæðismál, sem hér eru nú orðnar, og sé satt að segja ekki, hvað þessar umræður, sem hér hafa farið fram hátt á annan tíma í ræðu hv. síðasta ræðumanns, koma þessu máli við, og ég hefði heldur kosið, að hann hefði látið vera að lesa þessar yfirlýsingar úr Morgunblaðinu. A.m.k. vil ég leyfa mér að treysta því og vona, að hæstv. félmrh. fari nú ekki líka að lesa úr Morgunblaðinu sínar yfirlýsingar. (Félmrh.: Ég get lesið Tímann.) Já, kannske, það væri strax nokkuð meiri fjölbreytni í því, en ég skal þó reyna að halda mig við efni þessa dagskrárliðar.

Það er, eins og kom fram hjá síðasta ræðumanni, nokkuð orðið um liðið síðan till. kom frá n. Þá urðu töluverðar umræður um þetta mál. N. skilaði till. með ágætri, jákvæðri afgreiðslu, og flestir tóku á sama máta undir till. nema hæstv. félmrh„ sem fann henni töluvert til foráttu, og nú hefur annar hv. þm. bætzt í hópinn og finnur einnig margt að till. Ég vil þó leyfa mér að vona, að þetta sé af nokkuð ólíkum toga spunnið hjá þessum tveimur hv. þm. Ég vil leyfa mér að vona, að hjá hæstv. félmrh. sé þetta meira og minna misskilningur, en hjá hv. 5. þm. Vestf. þykist ég vita, að þar sé gamla íhaldssemin.

Ég ætla að reyna í þessum orðum mínum hér fáum að leiðrétta þann misskilning, sem mér virtist koma fram hjá hæstv. félmrh. Mér sýnist það nauðsynlegt, þar sem ég geri mér vonir um, að þessari till. verði vísað til hæstv. ríkisstj., og kemur hún þá að sjálfsögðu til meðferðar í hans rn. Þó vil ég áður fara örfáum orðum um nokkur þau atriði, sem komu fram hjá hv. síðasta ræðumanni. Ræðumaðurinn lýsti undrun sinni á fyrsta þætti till., að láta fara fram könnun á þörf fyrir leiguhúsnæði í sveitarfélögum um land allt. Ég get upplýst hv. 5. þm. Vestf. um það, að ég gerði nokkra athugun á þessu, þegar till. var í undirbúningi. Þá leitaði ég m.a. til Húsnæðismálastofnunar ríkisins og spurðist fyrir um það, hvort hún gæti gefið mér upplýsingar um fjölda leiguíbúða í landinu, og mér var svarað, að stofnunin hefði engar upplýsingar um slíkt. En ég vil nú ekki eins og hann kenna hæstv. félmrh. um það. Mig grunar, að hv. þm. hafi langtum lengur komið nálægt málefnum Húsnæðismálastofnunarinnar en hæstv. ráðh. Hv. þm. sat í stjórn þessarar stofnunar í mjög langan tíma, og ef hann skilur grein um verkefni stofnunarinnar svo, að hún hefði átt að afla þessara upplýsinga, sem ég get verið honum vel sammála um, þá hefði hann átt að beita sér fyrir því, að svo yrði gert. En ég get einnig upplýst það, að ég talaði sömuleiðis við hagfræðinga hjá Framkvæmdastofnun ríkisins, og þeir upplýstu, að leiguhúsnæði í landinu mundi vera á milli 15 og 20% af öllu húsnæði landsmanna og það væri að langsamlega mestu leiti í Reykjavík. Hagstofan upplýsti, að þessi tala mundi vera á milli 15 og 20% Hv. þm. segir, að mjög sé óljóst í 2. lið till., við hvað sé átt. Ég er anzi hræddur um, að ýmsir umbjóðendur hv. þm. á Vestfjörðum gætu upplýst hann um tilgang till. Ég get a.m.k. sagt honum það, að nýlega hafa átt sér stað umræður þar í sveitarstjórn a.m.k. einni, sem ég þekki, einmitt um þetta mál og þar virtist ríkja fullkominn skilningur á þörfinni fyrir leiguíbúðir með sérstaklega góðum kjörum í því sveitarfélagi. Auk þess sýnist mér, að grg. ætti að geta skýrt þetta fyrir hverjum sæmilega gefnum manni.

Þm. talar um, að ég hafi spurt um reglugerðina í sambandi við íbúðarhúsnæði. Það er rétt, ég spurði um það, ég vildi fá fram frá þeim mönnum, sem um þessi mál fjalla eða hafa fjallað, á hvern máta það ákvæði laganna, sem er réttilega í 8. gr. a-lið, er framkvæmt. Þm. upplýsti um 8. gr. a-lið, en hann gat ekki um 8. gr. b-lið, þar sem kemur fram, að heimilt sé að lána 600 þús. kr. til slíkra íbúða, og það er einmitt þetta, sem við flm. þessarar till. teljum alls ekki ná sínum tilgangi hjá litlum sveitarfélögum, einmitt þeim, þar sem leiguíbúða skorturinn er einna mestur. Reglugerðin, 4. kafli hennar, fjallar hins vegar um framkvæmd þessara mála, fjallar um ýmis skilyrði, sem fyrir slíkum leiguíbúðum eru sett, og ætla ég ekki að fara inn á það. Það kemur þessu máli ekki nema tiltölulega lítið við.

Þm. telur, að hér sé um spor aftur á bak að ræða. Með þessari þáltill. er alls ekki til þess ætlazt, að hróflað verði við þessum ágætu ákvæðum, sem nefnd eru svo, í lögunum um húsnæðismál. Þau gilda eftir sem áður. Hvernig gæti þetta þá verið spor aftur á bak? Hvernig gæti það verið spor aftur á bak, þó að til þess sé ætlazt, að þar sem rannsókn leiðir í ljós, að þörfin sé brýn og augljós hjá litlum sveitarfélögum t.d., verði þeim veitt sérstök aðstaða umfram það, sem lögin gera ráð fyrir? Ég fæ ekki séð, hvernig það getur talizt spor aftur á bak.

Hv. þm. lýsir undrun sinni, að mér skildist, á því, að ég skyldi ekki í framsöguræðu minni hafa rætt jafnvægi í byggð landsins. Þetta kæmi ekki fram í þessari þáltill. Í grg. segir í fyrstu setningu: Víða í þorpum og kaupstöðum landsins, ekki sízt þar sem atvinnulífið byggist fyrst og fremst á útgerð og fiskiðnaði, hefur skortur á hentugu leiguhúsnæði staðið eðlilegri þróun mjög fyrir þrifum. Hæg ættu að vera heimatökin hjá hv. þm. Honum hefði átt að skiljast, að hér er t.d. mjög svo átt við þau litlu þorp í okkar umdæmi, sem þannig er einmitt svo mjög ástatt um, og ætti ekki að þurfa að stafa það hér út. Ég sagði það einnig í mínum ræðum, að það væri fyrst og fremst á slíkum smáum stöðum. sem skórinn kreppir að, að þessu leyti, stöðum, sem eru nálægt því að verða verbúðir í dag, vegna þess að leiguíbúðir eru ekki fyrir hendi. Unga fólkið er að flýja brott, það kemur ekki yfir sig húsnæði, og það verður að flytja aðkomufólk þar að.

Ég vil svo láta lokið því, sem mér sýndist ástæða til að svara í mjög langri ræðu hv. þm. Ég mun koma síðar að brtt., mun ljúka mínu máli með því að fara örfáum orðum um hana. Mig langar hins vegar að leitast við að leiðrétta það, sem ég vil leyfa mér að vona, að sé byggt á misskilningi hjá hæstv. félmrh. Félmrh. lýsti því áliti sínu á till., að hér hlyti að vera átt við verbúðir. Þetta hefur þegar verið leiðrétt, m.a. ágætlega af hv. 1. þm. Austf., og þarf ég ekki að endurtaka það. Ég vil aðeins ítreka þetta og bendi enn á þá setningu í þáltill., þar sem einmitt er rætt um tilgang till., að fá leiguhúsnæði fyrir það unga fólk, sem vill flytjast til ákveðins byggðarlags, og sjá þar allir, að ekki er um flutning í verbúðir að ræða. Þetta hefur verið ítarlega rætt, og vil ég aðeins ítreka það. Ég hef að sjálfsögðu ekkert á móti því, ef slík íbúð stæði auð, að hún yrði notuð í þeim tilgangi, en mig grunar, að svo verði aldrei. Mig grunar; að slíkar íhúðir, ef þær fást byggðar, muni óðar fyllast af ungu fólki úr viðkomandi byggðarlagi, fólki um tvítugt, 22—23 ára, sem er að hefja búskap og hefur alls ekki bolmagn til að koma yfir sig eigin íbúð og mundi þá kjósa að taka slíka íbúð á leigu frekar en að neyðast til að flytjast á brott.

Það hefur verið rætt um það af allmörgum aðilum, að till. sem þessi eða framkvæmd slíkrar till. gæti leitt til þess, að minna yrði úr byggingu eigin húsnæðis. Ég er þessu algerlega ósammála. Það er sannfæring mín einmitt, að þetta gæti orðið spor í þá átt, að meira yrði byggt af eigin húsnæði úti í dreifbýli landsins, ef fólkið fær fyrst að setjast að þar í leiguhúsnæði, sem því hentar. Þessu hefur einnig verið svarað. En ég vil taka undir það, sem hefur komið fram, að bygging eigin húsnæðis á áfram eins og hingað til að vera meginstefnan í húsnæðismálum okkar lands.

Það var um það rætt, að óeðlilegt væri að veita sérstök lán, hagstæðari lán til byggingar íbúðarhúsnæðis en almennt gerist í lánakerfi því, sem lög um Húsnæðismálastofnun ríkisins gera ráð fyrir. Það var í sambandi við umræður um þennan þátt, sem komið var nokkuð inn á jafnvægið í byggð landsins, og ég get undirstrikað það, sem kom fram hjá hv. 5. þm. Vestf., að vitanlega er allt tal um jafnvægi í byggð landsins lítið nema orðin tóm, ef ekki kemur til greina að veita sérstök lán, m.a. til byggingar leiguíbúða eða húsnæðismála í þeim byggðarlögum, þar sem ástandið er slíkt, að þess getur verið mikil þörf einmitt af jafnvægisástæðum.

Það hefur verið rætt um framkvæmd slíkra mála, hvernig þessar íbúðir yrðu leigðar. Það var minnzt á það hér í umræðunum, að fólk mundi sitja í þessum íbúðum endalaust, eins lengi og því væri bókstaflega kleift, því að húsaleigan yrði svo lág. Slíkt kemur hvergi fram í þessari þáltill., og er ósköp eðlilegt, að íbúðirnar verði leigðar með eðlilegu gjaldi, en alls ekki um einhverja nánast því gjöf að ræða, eins og mér virtist, að skilja mætti á hæstv. félmrh.

Ég hef einnig aflað mér nokkurra upplýsinga um fjölda leiguíbúða í ýmsum byggðarlögum. Það kemur í ljós eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið hér hjá Reykjavíkurborg, að leiguíbúðir í Reykjavík, sem eru í eigu borgarinnar, eru 640, þ.e. um átta íbúðir a hverja þúsund íbúa. Á Akureyri eru 60— 70 leiguíbúðir í eigu Akureyrarbæjar, en flest eru það íbúðir, sem eru mjög gamlar og lélegar, og flestar hefur bærinn eignazt þannig, að orðið hefur að kaupa upp hús vegna breytinga, vegna gatnagerðar, sem væntanleg er, og þess háttar, og mjög mikið af þessu á að rífa á næstunni. Svarið, sem ég fékk þar við þörfinni, var það, að þörfin væri augljós og gífurlega mikil, en hins vegar hefði bæjarfélagið ekki bolmagn til að byggja leiguíbúðir með þeim kjörum. sem nú eru boðin.

Á Ísafirði minnir mig, að séu sjö sæmilegar eða viðunandi leiguíbúðir, sem eru í eigu Ísafjarðar, og eru þær allar nokkuð komnar til ára sinna. Mig minnir, að það séu um 20 ár, síðan þær voru byggðar. Þar hafa einnig átt sér stað umræður um leiguhúsnæðismál og mjög verið lögð á það áherzla, að bærinn þurfi að byggja þar leiguíbúðir og það fyrr en síðar. Þar er þörfin afar ljós. Víða annars staðar hef ég aflað mér upplýsinga, og nánast alls staðar er svarið það, að engar leiguíbúðir séu í eigu bæjarfélagsins eða sveitarfélagsins.

Það er því aðeins á örfáum stöðum, allra stærstu stöðunum, sem þetta ástand getur talizt kannske viðunandi, og þó er ég alls ekki viss um það. E.t.v. er það, að því er ég bezt fæ séð, aðeins í Reykjavík. Þó má vera, að svo sé einnig hér í nærliggjandi sveitarfélögum, t.d. í Kópavogi og Hafnarfirði, enda má segja, að þetta svæði sé meira og minna eitt.

En spurningin er hins vegar blátt áfram sú, hvar eiga 39.300 Íslendingar, sem nú eru tvítugir, að stofna til heimilis? Eiga þeir allir að flytjast á þetta svæði, sem hér er? Þetta er vandinn, sem við okkur blasir. Á ungt fólk af þessum litlu stöðum, þar sem bókstaflega engar leiguíbúðir eru til, að neyðast til þess að flytja hingað til höfuðborgarsvæðisins til þess að fá yfir sig húsaskjól? Svona er ástandið mjög víða. Ástandið er mjög víða þannig, og það virðist alls staðar þannig, þegar rætt er við fólk á þessum stöðum, að það er bókstaflega neytt til að flytja brott, m.a. af þeirri ástæðu, að það fær ekki viðunandi húsnæði yfir sitt höfuð. Það er úr þessu, sem þarf að bæta, og það er sannfæring mín, að sú athugun, sem hér er gert ráð fyrir, að gerð verði, e.t.v. af Húsnæðismálastofnun ríkisins, — henni ber, að því er mér skilst, skylda til þess, fyrrv. húsnæðismálastjórnarmaður upplýsti það, — það er sannfæring mín, að sú athugun muni leiða í ljós, að ástandið sé svona eins og ég hef lýst og aðrir flm. þessarar tillögu.

Ég vil að lokum aðeins geta þess, að aðdragandi þessarar till. er nokkur. Það var skoðun okkar margra, þegar fjallað var um lögin um Framkvæmdastofnun ríkisins, að eðlilegt væri að setja ákvæði inn í kaflann um Byggðasjóð, sem heimilaði Byggðasjóði að hlaupa undir bagga með sérstaka lánveitingu til sveitarfélaga, þar sem þessi þörf væri augljós. Þetta fékkst ekki tekið inn í lögin, og töldu þeir, sem því voru andsnúnir, eðlilegra að halda því innan laganna um Húsnæðismálastofnun ríkisins. Okkar hugmynd, sem þetta studdum, var hins vegar sú, að þetta ætti eins heima hjá Byggðasjóði og e.t.v. eðlilegra, að Byggðasjóður annaðist sérstakar lánveitingar með sérstökum kjörum umfram það, sem er í hinni almennu húsnæðismálalöggjöf, fremur en að setja það þar inn. Það var eftir að þessu var hafnað, að við töldum nauðsynlegt að vekja athygli á þessari miklu og brýnu nauðsyn með þeirri þáltill., sem hér er til umr.

Nú gætu sumir spurt: Má skilja ummæli hæstv. ráðh. og andstöðu við þetta mál svo, að þetta sé gegn málefnasamningi hæstv. ríkisstj.? En það er ekki við nánari athugun. Á 7. bls. þess ágæta skjals segir svo m.a. í næst síðustu mgr. með leyfi hæstv. forseta:

„Að hafa forgöngu um. að byggt verði leiguhúsnæði, er lúti félagslegri stjórn og sé einkum í þágu frumbýlinga og aldraðs fólks.“

Eða m.ö.o., það sem við erum að gera, er að ítreka þetta ákvæði málefnasamningsins, svo að það komi sem fyrst til framkvæmda. Og mér er kunnugt um það, og ég veit, að það vitum við allir, sem hér sitjum, að hæstv. félmrh. hefur átt mjög mikinn þátt í að semja þennan málefnasamning og ég vænti ekki sízt þennan kafla samningsins, sem fjallar um félags- og menningarmál.

Hér liggur fyrir brtt. frá tveimur hv. þm., sem síðasti ræðumaður lýsti, þess efnis, að aftan við 2. lið þáltill. komi: „Og annarra þeirra aðila, sem byggja vilja leiguíbúðir.“ Hér er breytt allmjög út frá þeirri stefnu, sem mörkuð er í þáltill. Skoðun okkar flm. var sú, að svo sérstakt lán, þ.e. 80% lán og með jafnvel sérstökum kjörum, yrði fyrst og fremst að binda við sveitarfélög eða a.m.k. að íbúðir, sem þannig væru byggðar, væru undir félagslegri stjórn. Ég hef út af fyrir sig ekkert á móti því, að einstaklingar byggi leiguíbúðir. En um leiguíbúðir, sem væru byggðar í þeim tilgangi, sem þáltill. gerir ráð fyrir, verða að gilda mjög strangar og sérstæðar reglur. Það virðist t.d. ljóst, að þessar íbúðir má alls ekki selja nema alveg undir sérstökum kringumstæðum, og notkun þeirra verður að vera ýmsum takmörkunum háð. Ég fyrir mitt leyti tel því eðlilegra, að slík fyrirgreiðsla sé bundin því, sem segir m.a. í málefnasamningi hæstv. ríkisstj., að íbúðirnar séu undir félagslegri stjórn. Ég get fyrir mitt leyti fallizt á, að það megi víkka þetta eitthvað út, þannig að það sé ekki bundið eingöngu við sveitarfélög. En til allra aðila tel ég vafasamt að láta þessa fyrirgreiðslu ná.

Með tilliti til þess, að hér er um að ræða æði veigamikla breytingu á fyrirliggjandi till. til þál., breytingu, sem hv. allshn., sem fjallaði um till., fékk ekki tækifæri til að ræða, vil ég leyfa mér að leggja til, að þessari brtt. ásamt þáltill. verði vísað að nýju til hv. allshn.