28.04.1972
Sameinað þing: 62. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í D-deild Alþingistíðinda. (3749)

94. mál, leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaga

Stefán Gunnlaugsson:

Herra forseti. Sú till., sem hér er til umr., miðar að því, að gerðar verði hið fyrsta ráðstafanir til að bæta úr þeim alvarlega skorti á leiguhúsnæði, sem ríkjandi er í flestum þorpum og kaupstöðum landsins. Ég stend að því með öðrum nm. allshn. að mæla með því, að till. verði samþ., þó með þeirri breytingu, að væntanleg útvegun fjármagns í því skyni, sem till. fjallar um, skerði ekki það lánsfé eða öflun lánsfjár til byggingar eigin íbúðarhúsnæðis, og að þeirri breytingu standa einnig allir nm.

Ég vil í upphafi máls míns taka það skýrt fram, að vissulega er það æskilegt mjög að mínum dómi, að gerðar verði frekari ráðstafanir á vegum ríkisins en til þessa til að gera sveitarfélögum kleift að auka framboð á leiguhúsnæði í kaupstöðum og þorpum landsins. Það liggur ljóst fyrir, að skortur er á slíku húsnæði í ýmsum byggðarlögum. Þess vegna er vissuleg þörf aðgerða í þessum efnum. Það verður að gera ráðstafanir til að útvega sveitarfélögum fjármagn til byggingar leiguhúsnæðis, þar sem þess er þörf. En það væri að fara úr öskunni í eldinn, ef það yrði gert á þann hátt að færa hluta af því fjármagni til ráðstöfunar til byggingar leiguíbúða, sem að öðrum kosti mundi varið til byggingar eigin íbúðarhúsnæðis. Slíkt má alls ekki ske að mínum dómi. Það er brýn þörf á að verja auknu fjármagni í lánsfé til hvors tveggja, byggingar eigin íbúðarhúsnæðis og byggingar leiguhúsnæðis. Vonandi leiðir samþykkt þessarar till., sem hér er til umr., til þess, að hæstv. ríkisstj. láti þessi mál til sín taka á þann veg, að verulegt gagn verði að, enda þótt hæstv. félmrh. virðist vera vantrúaður á gagnsemi þeirra hugmynda, sem fram koma í tillögunni.

Þó verður að segja það eins og það er, að hæstv. félmrh. sagði hér ýmislegt um daginn um þetta mál, sem að mínum dómi er athyglisvert og kemur mjög heim við þá reynslu, sem ég hef haft sem sveitarstjórnarmaður í þessum málum. Til þess að tryggja, að þau markmið náist, sem flm. till. segjast vilja stefna að með flutningi hennar, er nauðsynlegt, að ýmis þau atriði, sem hæstv. félmrh. nefndi, séu höfð í huga við framkvæmd þessara mála og við samningu frv. um þetta efni, og að það verði reynt að búa þannig um hnútana, að sá vandi verði leystur, sem að er stefnt. Það atriði, sem ég hef sérstaklega í huga í þessu sambandi, er: Hvernig hugsa flm. þessarar þáltill. sér að tryggja það að slíkt leiguhúsnæði, sem hér um ræðir, sé leigt fyrst og fremst í þeim tilgangi að fullnægja heimilisþörf þeirra, sem til viðkomandi staðar flytjast eða hefja þar búskap og þátttöku í atvinnulífi, eins og segir í grg. með þáltill.? Ég fullyrði af þeirri reynslu, sem ég hef í þessum málum, að það sé hægara sagt en gert í ýmsum sveitarfélögum. Það liggur auðvitað í augum uppi, að í ýmsum vaxandi sveitarfélögum. þar sem atvinnulíf er blómlegt og aðstreymi fólks mikið, er skortur á húsnæði og verðlag á leiguhúsnæði hátt og hækkandi. Það leiðir til þess, að efna minna fólk og barnmargar fjölskyldur verða að hrekjast úr leiguíbúðum. af því að fyrirvinnan, e.t.v. borinn og barnfæddur í byggðarlaginu, getur ekki boðið jafnháa leigu og hinn ungi og nýkvænti og barnlausi aðkomumaður, svo að tekið sé dæmi, því að húseigandinn vill leigja hæstbjóðanda og hikar e.t.v. ekki við að hrekja þau, sem fyrir eru í íbúðinni, út á götuna, ef þau geta ekki greitt hækkaða húsaleigu, eins og við þekkjum dæmi til um. Hvað getur fjölskyldufaðirinn gert undir slíkum kringumstæðum? Húsaleigan hefur hækkað í byggðarlaginu vegna hinnar auknu eftirspurnar eftir leiguhúsnæði og kannske svo mjög, að hans fjárráð leyfa alls ekki, að hann greiði þá hækkuðu húsaleigu, sem krafizt er af húseigendum yfirleitt í sveitarfélaginu vegna mikillar eftirspurnar frá aðfluttu fólki, sem brýn þörf er á, að komi til byggðarlagsins til þátttöku í uppbyggingu, sem þar á sér stað. Hann sér enga aðra leið en að snúa sér til sveitarfélagsins með þetta vandamál sitt. Þannig knýja hinar erfiðu kringumstæður fjölskylduföðurinn til að leita til yfirvalda sveitarfélagsins um fyrirgreiðslu og aðstoð til að fá húsnæði.

Við vitum. að sum hinna stærri sveitarfélaga hafa orðið að eignast leiguhúsnæði til að geta greitt úr slíkum vanda, sem hér hefur verið gerður að umtalsefni. Sú leiga, sem sveitarfélög hafa tekið fyrir slíkt húsnæði, hefur verið lægri, en greidd hefur verið fyrir leiguhúsnæði á vegum einstaklinga í viðkomandi byggðarlögum af ástæðum, sem liggja í augum uppi af því, sem ég hef hér rakið. Reynslan er sú, þar sem ég þekki bezt til, að slíkt leiguhúsnæði á vegum sveitarfélagsins er yfirleitt og oftast bundið í leigu um lengri tíma, jafnvel svo að árum skiptir. Og þótt eðlilegt sé og hagkvæmast, að því sé ráðstafað til stutts tíma í einu og það notað til þess að leysa vanda um stundarsakir, á meðan viðkomandi fjölskylda er að leita sér að húsnæði meira til frambúðar, þá hefur þetta reynzt ákaflega erfitt í framkvæmd að koma málum þannig fyrir. Sveitarfélög hafa eignazt húsnæði til að leigja út á þennan hátt. En ég hygg, að það sé reynsla sumra þeirra a.m.k. svo að ekki sé meira sagt, að ekki hafi tekizt að koma málum þannig fyrir, að tryggt yrði, að hver leigjandi byggi í húsnæðinu um stuttan tíma í senn. Það er ekki unnt að reka leigjendur á vegum sveitarfélaga úr húsnæði með valdboði. Sveitarstjórnarmenn þekkja dæmi þess, að bæjarfélög hafa keypt íbúðarhúsnæði af skipulagsástæðum til niðurrifs og tímaáætlun hafi síðan verið gerð um framkvæmdir. Algert neyðarástand fjölskyldna í húsnæðisvandræðum hefur svo gert það nauðsynlegt að setja slíkt fólk, sem hefur verið í húsnæðisvandræðum, í slíkt húsnæði um stundarsakir, og mikill skortur á leiguhúsnæði getur svo leitt til þess, að alls ekki reynist unnt í lengri tíma að finna annað húsnæði fyrir fjölskyldurnar. Hafa þannig fyrirætlanir um að rífa niður húseignir, sem ég hef hér gert að umtalsefni, og koma skipulagsbreytingum í framkvæmd, farið út um þúfur um lengri tíma, jafnvel svo að árum skiptir. Um það þekki ég dæmi. Sveitarstjórnarmenn þekkja einnig dæmi þess, að fjölskyldum, sem hafa staðið húsnæðislausar á götunni, ef svo mætti segja, hefur verið komið fyrir í verbúðum um stundarsakir og svo ekki tekizt að rýma þær fyrir vertíð. Sem betur fer er slíkt ekki algengt, eftir því sem ég bezt þekki til, en þess eru þó dæmi.

Ég hef farið nokkrum orðum um þau vandamál sem ýmis sveitarfélög eiga við að glíma í sambandi við útleigu á leiguíbúðum á þeirra vegum. Enginn skilji þó orð mín svo, að ég sé með þessum málflutningi að draga úr því, að ríkisvaldið auki fyrirgreiðslu sína til sveitarfélaga til aukinnar byggingar leiguíbúða. Fyrir mér vakir hið gagnstæða. Á því er vissuleg brýn nauðsyn, að ríkisvaldið tryggi sveitarfélögum stóraukið fjármagn til byggingar leiguíbúða. Sá vandi sveitarfélaga í þessum efnum, sem ég hef hér gert að umtalsefni, verður helzt leystur með því að auðvelda þeim að leysa það verkefni, sem á þeim hvílir í þessum efnum, þ.e. að aðstoða fólk, sem ekki getur leyst sín húsnæðisvandamál án fyrirgreiðslu sveitarstjórna. Útvegun fjármagns og útlán þess til sveitarfélaga, svo að þeim sé gert mögulegt að byggja og reka leiguhúsnæði, þar sem þess er þörf í ríkara mæli en hingað til, er vissulega aðkallandi og bráðnauðsynlegt. En að halda því fram, eins og gert hefur verið í þessum umr., að unnt sé að reka slíkt leiguhúsnæði eins og um gistihús eða hótel væri að ræða, þar sem fólk búi um stuttan tíma, meðan viðkomandi er að athuga um útvegun annars húsnæðis til frambúðar, tel ég hæpið, svo að ekki sé meira sagt, eins og ég hef reynt að sýna fram á. Sé aftur á móti unnt að búa svo um hnútana, að það reynist framkvæmanlegt, þá er vel.

Ég hygg, að lausn vandamálsins liggi fyrst og fremst í því, að leitazt verði við til hins ýtrasta á hverjum tíma, að jafnvægi geti verið á milli framboðs og eftirspurnar á hvoru tveggja, leiguhúsnæði og eigin íbúðum.

Víða skortir talsvert á hér á landi, að slíkt jafnvægi sé fyrir hendi. En að því ber að stefna til hins ýtrasta, að svo geti verið á hverjum tíma.