16.05.1972
Sameinað þing: 71. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í D-deild Alþingistíðinda. (3754)

94. mál, leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaga

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er nokkuð um liðið nú síðan þetta mál var hér til umr. í Sþ. En þegar það var rætt hér fyrir rúmum hálfum mánuði, flutti hv. 5. þm. Vestf. alllanga og stundum nokkuð hvassyrta ræðu, sem fjallaði nokkuð almennt um húsnæðismálalöggjöf þá, sem við nú búum við í landinu. Það, sem kom mér til að kveðja mér hljóðs, var sá kafli ræðu hv. 5. þm. Vestf., sem fjallaði um lög um verkamannabústaði. Ég skildi ræðu þessa hv. þm. svo, að hann teldi, að breyting sú, sem gerð var á téðum lögum árið 1970 í tíð viðreisnarstjórnarinnar, hefði verið jákvæð og aukið mjög gildi þessara laga. Þetta er að mínu áliti hinn mesti misskilningur hjá þessum hv. þm. Meginbreytingin, sem gerð var á lögunum, var sú að leggja niður hin frjálsu byggingarfélög verkamanna og setja allt ákvörðunarvald undir sveitarstjórnir. Og svo hitt, sem var miklu neikvæðara. Það er sú breyting að skylda sveitarstjórnir til að gera fjögurra ára áætlun um byggingarframkvæmdir.

Hv. þm. nefndi sem dæmi Ólafsvík, sem er um 1.000 manna bær. Samkv. breytingu viðreisnarstjórnarinnar hefði Ólafsvík, svo að við höldum okkur við þann stað, getað byggt tæplega eina íbúð á ári miðað við það, að notuð hefði verið hámarksgreiðsla á hvern íbúa. Hv. þm. sagði, að eftir þá breytingu, sem gerð var á lögunum nú nýverið og hann stóð að, þar sem hámarksgreiðsla á íbúa var hækkuð í 1.200 kr., gætu Ólafsvíkingar byggt 18 íbúðir á þessu fjögurra ára tímabili. Ekki veit ég nú, hvernig hv. þm. hefur fengið þessa tölu, því að mér sýnist, að það yrði nú ekki mikið yfir 12 íbúðir, sem þarna væri hægt að byggja, eða um þrjár íbúðir á ári. Og sér er nú hver ofrausnin, þrjár íbúðir á ári í 1.000 manna bæ. En hvað um það, gallinn er bara sá, að hin smærri sveitarfélög úti um landið hafa ekki bolmagn til þess að leggja fram þessa hámarksgreiðslu á hvern íbúa. Það er útilokað, að þau fjármagni slíkt. Það mætti því ætla, að langsamlega flest sveitarfélög úti um land mundu ekki verða með hærri greiðslu en helming þess hámarks, sem leyft er, eða um 600 kr. á íbúa, sem þýddi þá, að staður eins og Ólafsvík, svo að við höldum okkur við hann, gæti byggt sem svaraði 11/2 íbúð á ári.

Ég vil því benda þessum hv. þm. á það, að sú breyting, sem gerð var af viðreisnarstjórninni á lögum um verkamannabústaði, var ekki gerð til hagsbóta fyrir dreifbýlið, síður en svo. Það er því brýn nauðsyn að mínu áliti að breyta sem allra fyrst þessum ákvæðum í lögum um verkamannabústaði og taka upp þá stefnu, að það sé þörfin á hverjum tíma, sem ræður framkvæmdum, en ekki einhver fyrirframgerð forskrift, sem í reynd hefur einungis verið pappírsgagn. Það er því ástæðulaust að lofa þennan þátt þeirrar löggjafar, sem við nú búum við í húsnæðismálum. Sá þáttur var miklu betri áður en viðreisnarstimpillinn var á hann settur.

Hitt vil ég taka undir með hv. 5. þm. Vestf., sem hann sagði varðandi byggingarframkvæmdir í Breiðholti. Það nær ekki nokkurri átt að mínu viti að skapa Reykjavík þá séraðstöðu, sem hún hefur notið í gegnum Breiðholtsáætlun á kostnað landsbyggðarinnar. Það væri hægt að nefna mörg dæmi þess, að fjölskyldur, sem orðið hafa að hrökklast utan af landsbyggðinni vegna húsnæðisskorts, hafi komizt í Breiðholtsíbúð með því að borga aðeins örlítið brot af kostnaðarverði og eftirstöðvar í hagstæðum lánum til langs tíma.

Ég treysti því, að eitt af verkum hæstv. núv. félmrh. verði að leiðrétta þessa mismunun. Ég vil bæta því við, að ef núv. stjórnvöld treysta sér ekki til þess frekar en fyrrv. stjórnvöld að veita hliðstæða fyrirgreiðslu úti á landsbyggðinni eins og Reykjavík hefur notið gegnum Breiðholtsáætlun, eigi að stöðva þær framkvæmdir a.m.k. í eitt ár og veita öllu því fjármagni, sem þannig kæmi, út á landsbyggðina til þess að leiðrétta þá mismunun, sem þarna hefur átt sér stað, því að forréttindi eru þetta, sem þarna hafa skapazt.