16.05.1972
Sameinað þing: 71. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í D-deild Alþingistíðinda. (3755)

94. mál, leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaga

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það er svo langt síðan þessi till. var til umr. síðast, að ég er ekki viss um, að hv. þdm. sé í fersku minni, um hvað hún er, og enn þá síður, hvernig mál stóðu, þegar horfið var síðast frá því að ræða hana.

Till. er um það, að brýna nauðsyn beri til að bæta úr þeim alvarlega skorti, sem sé á leiguhúsnæði í flestum þorpum og kaupstöðum landsins. Og í því skyni að bæta úr þessu verði látin fara fram könnun á þörf fyrir leiguhúsnæði í sveitarfélögum um allt land. Ég skal taka það strax fram, að ég tel alveg sjálfsagt að verða við þessum þætti till. og láta slíka könnun fara fram. En það er víst, að ef á að fylgja því fram, sem kemur svo í síðari hluta till., þ.e. að leggja fyrir Alþ. frv. til l. um útvegun fjármagns og útlán þess til sveitarfélaga, þannig að þeim sé gert fjárhagslega kleift að byggja og reka leiguhúsnæði, þar sem þess gerist þörf, þá held ég, að það verði ekki smáupphæðir, sem til greina koma, ef þarna á að bæta úr þessari brýnu, víðtæku þörf í flestum þorpum og kaupstöðum landsins. Vitanlega fer þó þetta fjármagn eftir niðurstöðum þessarar könnunar, sem ég geri alveg ráð fyrir, að fram fari. En hér er ekki aðeins um það að ræða, að útvega eigi fjármagn til þess að gera sveitarfélögum kleift að byggja leiguhúsnæði, heldur á einnig að hjálpa sveitarfélögunum með fjárframlögum að reka leiguhúsnæði. Þá gæti ég nú ímyndað mér, að tæki í hnúkana.

Ég veit ekki um það, hvort tillögumenn hafa gert sér það ljóst, þegar þeir fluttu till., að í húsnæðismálalöggjöfinni, eins og hún er nú, er gert ráð fyrir byggingu leiguhúsnæðis á vegum sveitarfélaga og sveitarfélögin styrkt til þess með sams konar lánveitingum og einstaklingar eru styrktir til þess að byggja yfir sig eigið húsnæði. Spurningin er sú, hvort það er gerlegt, framkvæmanlegt, hvort það er æskilegt að styrkja sveitarfélög til þess með meira fjárframlagi að koma upp leiguhúsnæði heldur en einstaklingana til að byggja eigið húsnæði yfir sig. Mér skilst á till., að fram á það sé farið, að lagt verði fyrir næsta Alþ. frv. til l. um útvegun fjármagns sérstaklega í þessu skyni, að gera sveitarfélögum kleift að koma upp leiguhúsnæði og að reka það. Ákvæðin, sem núna gilda um leiguhúsnæði, er að finna í 8. gr. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Húsnæðismálastjórn getur enn fremur veitt lán til byggingar leiguhúsnæðis í kaupstöðum og kauptúnum og á öðrum skipulagsbundnum stöðum. Heimilt er að veita slík lán meðan á byggingartíma stendur, sbr. 2. málsgr. Ráðherra setur, að fengnum tillögum húsnæðismálastjórnar, með reglugerð nánari ákvæði um slíkar leiguíbúðir.“

Nú, hvað segir svo í 2. málsgr. þessarar sömu greinar, sem þarna er vitnað til? Þar segir: „Húsnæðismálastjórn er heimilt, meðan á byggingartíma stendur, að veita framkvæmdalán til byggingarsamvinnufélaga, byggingarmeistara og byggingarfyrirtækja sveitarfélaga og annarra byggingaraðila, sem byggja íbúðir, er seldar verði fullgerðar til einstaklinga, sem fullnægja lánareglum húsnæðismálastjórnar. Lán þessi skiptast síðan milli væntanlegra íbúðarkaupenda. Það er skilyrði fyrir slíkum lánum, að íbúðir verði eigi seldar, nema húsnæðismálastjórn samþykki söluverð þeirra fullgerðra.“

Mér fyndist það nú vera afar ankannalegt, ef sett yrði sérstök löggjöf við hliðina á hinni almennu húsnæðismálalöggjöf um sérstakt fjármagn umfram það, sem heimilt er í húsnæðismálalöggjöfinni til leiguhúsnæðis og til reksturs þess. Mér fyndist líka lítt fært að taka sveitarfélögin þarna út úr þessari jafnréttisröð, sem þau eru þarna í, í löggjöfinni, en þar skal ganga eitt yfir byggingarsamvinnufélög, byggingarmeistara og byggingarfyrirtæki sveitarfélaga. Ef þarna ætti svo að veita með alveg sérstökum fjárveitingum mikilsverða hjálp í stórum stíl til eins af þessum aðilum, sem allir eru þarna jafnt settir og allir settir við sama borð og einstaklingarnir, sem eru að reyna að koma húsnæði yfir sig, veit ég ekki, hvort það væri framkvæmanlegt.

Þörfin kann að vera mikil, en þörfin er almennt mikil að koma upp íbúðarhúsnæði. Ég sé það á grg. till., að flm. telja, að það þurfi ekkert smáræði til. Þeir segja, að ljóst sé, að með fjármagni því, sem nú rennur til húsnæðismála, verði ekki staðið undir þeirri viðbótarfjárþörf, sem nauðsynleg verður í þessu skyni. Því sé nauðsynlegt að leita annarra leiða, og megi vekja athygli á Atvinnuleysistryggingasjóði, enda verkefni náskyld. Að lokum er lögð á það áherzla, að lán þau, sem hér um ræðir, þ.e. þau umframlán, sem veita skal, verði að vera mjög rífleg, þannig að sveitarfélögunum verði kleift að byggja hinar umræddu leiguíbúðir án þess að stofna sveitarfélaginu í alvarlega fjárhagsörðugleika. Einnig, að sjálfsagt sé, að slík lán verði háð því skilyrði, að íbúðirnar verði ekki seldar, — það ákvæði er í lögunum núna, — heldur verði áfram í eign sveitarfélagsins og leigðar fyrst og fremst í þeim tilgangi að fullnægja húsnæðis þörf þeirra, sem til viðkomandi staða flytjast eða hefja þar búskap og þátttöku í atvinnulífi.

Þetta síðasta atriði held ég líka, að verði mjög torvelt í framkvæmd vegna þess, að ef sveitarfélagið er búið að fá mjög ríflega umframaðstoð til þess að byggja leiguhúsnæði, má það eingöngu nota það til þess að greiða fyrir ungu aðkomufólki að fá húsnæði, komast inn í húsnæði. Það má ekki veita því til unga fólksins á staðnum. Það á að veita meiri aðstoð til ungs aðkomufólks. Ég held, að þetta yrði ákaflega erfitt fyrir sveitarstjórnir í framkvæmd.

Þetta eru vandkvæði, sem ég bendi á í sambandi við þetta, auk þess mikla fjármagns, sem til þess mundi þurfa, ef á að bæta úr þessari þörf með sérstöku fjármagni í öllum kauptúnum eða nálega öllum kauptúnum og kaupstöðum landsins. En ég held, að með því að fullnægja þessu vel og rækilega mundi skapast misrétti milli byggingaraðila í landinu, og við það yrði tæpast unað. Spurningin er því, hvort maður gæti bætt hag allra þeirra, sem eru að byggja yfir sig, þeirra, sem eru með byggingarframkvæmdir, þ.e. byggingarmeistarar, byggingarsamvinnufélög o.s.frv., og rétt allra hlut. Að taka einn aðilann út úr, held ég, að verði afar erfitt.

Við fyrri umr. talaði hv. 5. landsk. þm., Stefán Gunnlaugsson, og hann skýrði frá reynslu síns sveitarfélags, Hafnarfjarðarkaupstaðar, af byggingu leiguhúsnæðis. Niðurstaðan þar er, að það vill bindast fljótlega og ekki er hægt að koma því fólki út úr þessu húsnæði, sem hefur komið aðflutt og fengið þannig leyst sinn húsnæðisvanda og kemst þannig í ódýrt húsnæði. Úr þessu húsnæði vill það fólk ekki fara, og þá er vandinn ekki leystur fremur en með eignarhúsnæði væri. Sama reynsla er frá sveitarfélagi, sem ég þekki til, Ísafjarðarkaupstað. Þar voru byggðar fyrir nokkuð mörgum árum leiguíbúðir, og fólk, sem sérstaklega þurfti á hjálp bæjarfélagsins að halda til að komast í húsnæði, var sett í þetta hús. Nú er komið svo, að sumt af þessu fólki er ágætlega fært um það efnahagslega, ekki síður en aðrir borgarar í bænum, að sjá sér fyrir eigin húsnæði. Sumir íbúarnir eru embættismenn bæjarins, sem voru fengnir að og vantaði húsnæði, skólastjórar meira að segja og menn í háum embættum eru í þessu leiguhúsnæði. Það er ekki eins þjált í meðförum að skipa þessum málum og tillögumenn vafalaust halda. Þörfina skal ég fyllilega viðurkenna, en spurningin er, hvort eigi að leysa hana með þessu móti og sérfjárveitingum. Ég held, að það verði afar erfitt.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um till. sjálfa. Ég held, að það sé alveg ljóst, að efasemdir mínar um það, að hún leysi mikinn vanda, hljóti nú að vera öllum hv. þm. skiljanlegar.

Þá var það síðast þegar málið var hér til umr., að hv. 5. þm. Vestf.. Þorv. Garðar Kristjánsson, ræddi húsnæðismál æðimikið á víð og dreif og komst í mikinn ham og greiddi mér, að hann hélt áreiðanlega, þung högg og stór. Hygg ég, að ég hefði eitthvað káklað í hann á móti, ef ekki væri svo langt um liðið, að manni með mína skapsmuni er löngu runnin reiðin, og mun hann því áreiðanlega að langmestu leyti sleppa við það, að ég fari að svara hinum einstöku árásaratriðum ræðu hans; utan einu. Hann sagði, að ég hefði borið hina kjörnu fulltrúa húsnæðismálastjórnar þyngstu sökum. En hann kom ekki með það, hverjar þær voru. Ég spyr: Hverjar eru þær þungu sakir, sem ég hef borið fulltrúa húsnæðismálastjórnar? Ég heimta það, ég krefst þess, að hv. þm. finni þessum orðum sínum stað: Ef hann hefur átt við þau ummæli, sem ég viðhafði í framsöguræðu um frv. til l. um breyt. á Húsnæðismálastofnuninni, þá skal ég nú rifja upp, hvað þar var sagt samkv. handriti þingsins. Ég vék að þessu, hvernig Húsnæðismálastofnunin væri byggð upp á flokkspólitísku kerfi, sem mér hugnaðist ekki, og vék að því á tveim stöðum í minni ræðu. Og nú bið ég hv. þm. að hlusta eftir því vel og gaumgæfilega, hvaða sakir ég ber með þeim orðum á hina kjörnu fulltrúa húsnæðismálastjórnar. Með leyfi hæstv. forseta fórust mér orð á þessa leið í fyrra skiptið, sem ég vék að þessum málum:

„Enn þá er það mark á húsnæðismálalöggjöfinni, að hún hvílir mjög á flokkspólitískum grundvelli, sem ég verð að lýsa yfir sem minni persónulegu skoðun, að sé mjög til hins verra og hv. Alþ. ætti að reyna að komast úr þeim farvegi með þessa löggjöf. T.d. er yfir Húsnæðismálastofnuninni mjög fjölmenn stjórn. Vafalaust er það gert til þess, að flokkarnir fái allir aðstöðu til þess að hafa fulltrúa í stjórninni til þess að fara höndum um allar umsóknir um húsnæðismál hvaðanæva af landinu og þukla þessar umsóknir auðvitað út frá pólitískum sjónarmiðum. Ég álít, að þetta eigi ekkert erindi inn í húsnæðismálalöggjöfina og við þurfum sem fyrst að hafa samstöðu um að komast hjá þessu formi í þessum þýðingarmikla málaflokki almennings. En enn þá hjákátlegri er þó kannske endurskipulagningin á verkamannabústöðunum. Þar eiga að vera í hverju héraði sjö menn í stjórn, þ.e. sjö aðalmenn og sjö til vara. Það á sem sé að tilnefna í stjórn verkamannabústaða í hverju smákauptúni á Íslandi 14 menn, og það hefur sums staðar orðið allmikil leit að þessum 14 fjölskyldufeðrum.“

Þetta sagði ég, og ef þarna er blakað við nokkru eða nokkrum, þá er það við flokkunum, sem hafa sett þetta kerfi upp, en ekki við einum eða neinum manni. Húsnæðismálastjórnarmenn er ekki um annað að saka en að þeir hafa tekið við þessu hlutverki, sem flokkarnir ætla þeim. Það er enginn þeirra nefndur og enginn þuklari nefndur einu sinni. En þeir birtu mótmæli í blöðunum og sögðu, að ég hefði nefnt þá pólitíska þuklara. Það er þeirra en ekki mitt. Ég sagði, að flokkarnir ætluðust vafalaust til þess, að þeir færu slíkum höndum um hverja umsókn, og það vita allir, að það er tilætlun flokkanna.

Nú kynni að vera, að hin persónulegu meiðyrði og hinar fimm þungu sakir, sem ég á að hafa borið á húsnæðismálastjórnarmenn, felist í þeim kafla, þegar ég vék aftur að þessu. Hann skal ég því lesa líka, hann er örstuttur, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir:

„Ég er persónulega þeirrar skoðunar, að við ættum sem allra mest að færa afgreiðslu húsnæðismálalána inn fyrir ramma veðdeildar Landsbankans, og ef mögulegt væri að koma því við, að afgreiðslan á lánunum gæti sem mest átt sér stað í bankaútibúum úti um landið. Og mundi þá jafnvel stefnt að því, að Húsnæðismálastofnun ríkisins væri lögð niður sem slík, en hins vegar væri teiknistofa hennar rekin í álíka tengslum við veðdeildina og Búnaðarbanki Íslands hefur teiknistofu fyrir landbúnaðinn. Okkur hættir allt of mikið til þess að hafa tvær stofnanir sums staðar, þar sem ekki þarf nema eina. Og í þessu tilfelli held ég, að langheppilegast væri, ef fyrir fjárþörfinni er séð á annað borð, að upp væri tekin hrein og bein hankaleg afgreiðsla og allt flokkspólitískt þukl á umsóknum fjarlægt.“

Hvar eru meiðyrði gagnvart húsnæðismálastjórnarmönnum í þessum kafla? Ég held, að enginn geti haldið því fram. Ég hef talað þarna um kerfið og sagt mínar persónulegu skoðanir í báðum tilfellunum og þannig að hverjir sem eru mega gera athugasemdir við mínar skoðanir og lýsa sig ósamþykka þeim, en það meiðir engan mann, þó að ég hafi persónulegar skoðanir og láti þær uppi. Ég tel því algjörlega tilefnislausa þessa ásökun hv. 5. þm. Vestf., Þorv. Garðars Kristjánssonar, þar sem hann fullyrti, að ég hefði borið hina kjörnu fulltrúa í húsnæðismálastjórn þyngstu sökum. Þetta atriði hef ég aðeins dregið inn í þessa umr., af því að þetta var dregið inn í umr. um þessa till. Hefði verið miklu eðlilegra að, að þessu hefði verið vikið í sambandi við framhaldsumræður um húsnæðismálalöggjöfina, sem ekki er þó enn þá komin úr n., því miður. Að sjálfsögðu beygi ég mig fyrir því, ef Alþ. samþykkir það, að afgreidd skuli sérstök löggjöf, sem leggi fram sérstakt fjármagn til að koma upp leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaga, en ég held sem sé, að það verði mjög erfitt í framkvæmdinni og ákaflega hæpinn grundvöllur fyrir því að gera upp á milli þeirra, sem byggja yfir sig eigið húsnæði, framkvæmdaaðila, sem hafa notið framkvæmdalána, annarra en sveitarfélaganna, sem eru nú í gildandi löggjöf taldir upp allir hlið við hlið og njóta sama réttar, fá sömu aðstoð.

Fleiri orð tel ég ekki ástæðu til að hafa um málið að sinni.