16.05.1972
Sameinað þing: 71. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í D-deild Alþingistíðinda. (3756)

94. mál, leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaga

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að segja nokkur orð og grípa þannig inn í þennan nánast þingmálafund þeirra Vestfirðinganna um húsnæðismál almennt. Ég held, að það væri þá bezt að pússa rykið bæði af þáltill., sem borin var fram í öndverðu um byggingu leiguhúsnæðis á vegum sveitarfélaga, og jafnframt að minnast á þær brtt., sem fram hafa komið á þessari löngu leið málsins, og umr. um það. Og ég vil, með leyfi forseta, lesa upp till., sem fyrst var fram borin, og hún er á þessa leið:

.,Alþingi ályktar, að gera beri hið fyrsta ráðstafanir til þess að bæta úr þeim alvarlega skorti á leiguhúsnæði, sem ríkjandi er í flestum þorpum og kaupstöðum landsins, og felur í því skyni ríkisstj.:

1.Að láta fram fara könnun á þörf fyrir leiguhúsnæði í sveitarfélögum um land allt.

2. Að leggja fyrir Alþ. frv. til l. um útvegun fjármagns og útlán þess til sveitarfélaga, þannig að þeim sé gert fjárhagslega kleift að byggja og reka leiguhúsnæði, þar sem þess er þörf.“

Þessi till. fór síðan til allshn. Sþ., og allshn. tók till. til íhugunar og fékk umsagnir þ.á.m. húsnæðismálastjórnarinnar. Sú umsögn, sem þaðan fékkst, var mjög jákvæð, og Húsnæðismálastofnun lagði til, að þessi till. yrði samþykkt. Nefndin gerði eina breytingu á till., og það er breytingin við 2. tölulið, þannig:

„Skal þess gætt, að þessi sérstaka fjármagnsútvegun dragi ekki úr öflun lánsfjár til byggingar eigin íbúðarhúsnæðis.“

Um þessa till. voru menn samdóma í allshn.

Síðan kemur fram brtt. frá þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni og Eggert G. Þorsteinssyni, og hún er við 2. tölulið, að á eftir orðinu „sveitarfélaga“ komi: „..og annarra þeirra aðila, sem byggja vilja leiguíbúðir.“

Skömmu eftir að þessi till. hafði komið fram og verið nokkuð rædd, var hún fengin til meðferðar allshn, að beiðni hæstv. forseta Sþ. Allshn. hefur tekið þessa brtt. til athugunar og fallizt á hana og sett hana inn í eigin till., þ.e. till. frá allshn., sem er á þskj. 722. Með leyfi forseta ætla ég að lesa hana upp:

„Á eftir orðinu „sveitarfélaga“ komi: Svo og til annarra þeirra aðila, sem byggja vilja leiguíbúðir, enda komi þá samþykki sveitarstjórnar til, þannig að þessum aðilum sé gert fjárhagslega kleift að byggja og reka leiguhúsnæði, þar sem þess er þörf.“

Nm. féllust á þessa till. fyrir þá sök, að það er margs konar félagsskapur víða úti í sveitarfélögum, eins og samvinnufélög af ýmsu tagi og jafnvel aðrir aðilar, sem reka atvinnurekstur í sveitarfélagi, sem væri þannig séð ekki aðeins rétt, heldur líka skylt að byggja slíkar íbúðir yfir fleira eða færra af sínu starfsfólki. En allshn. þóttist slá nokkuð sæmilegan varnagla, þar sem segir í till., að sveitarstjórn þurfi að samþykkja, þegar slíkir aðilar ætla sér að byggja leiguhúsnæði.

Nefndin var sammála um það, að undirstaðan að þessari till. og brtt. við hana sé sú, að með henni sé reynt að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Ekki er vafi á því, að þegar t.d. skuttogararnir eru allir komnir hver á sinn stað víðs vegar um land, þá kalla þeir til sín töluvert af starfsliði, sem ekki var áður til staðar. Það er alveg gefið mál, enda er það meiningin með togarakaupunum m.a. að útvega atvinnu og hafa hana sæmilega stöðuga sem mestan hluta árs.

Ég ætla nú ekki að orðlengja þetta. Það er búið að tala svo mikið í þessu máli, að kjarni málsins er farinn að hyljast nokkuð skuggum. Hæstv. ráðh. telur, að þegar séu í löggjöf ákvæði, sem séu til þess ætluð að stuðla að byggingu leiguhúsnæðis á vegum sveitarfélaga og einkaaðila. (Gripið fram í: Með sömu kjörum og einkaaðilar.) Já, í 8. gr. húsnæðismálalaga, en í þessari till. er gert ráð fyrir því, að útvegað sé, þegar til kemur, fjármagn í þessu skyni, og sleginn varnagli við því, að slíkt fjármagn þröngvi kosti þeirra einstaklinga, sem annars eiga að fá eða hljóta að fá íbúðarhúsnæðislán. Hitt má vel vera, að það mundi reynast erfitt að útvega slíkt fjármagn. Það þarf mikillar könnunar við, en fyrst og fremst, og það er annað höfuðatriði málsins, er nauðsynlegt, að fari fram könnun á þörf fyrir leiguhúsnæði víðs vegar úti um land. Sannarlega er það mikið og stórt verkefni fyrir þá, sem það eiga að framkvæma, en það er undirstaða þess, að við getum haldið áfram.

Í 2. tölul. segir svo, „að leggja fyrir Alþ.“ Það er ekki endilega næsta Alþ„ og ég persónulega hygg, að það sé ekki nokkur leið að gera það, þannig að það verði síðar að koma fyrir Alþ. til úrslita.

Þá held ég, að ég hafi gert, eftir því sem ég hef getað, grein fyrir þeim till., sem hér liggja fyrir, og ég vil vænta þess og mæli fyrir hönd allshn., að atkv. megi sem fyrst ganga um þessa till. og að málinu verði gerð góð skil með slíkri afgreiðslu.