16.05.1972
Sameinað þing: 71. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í D-deild Alþingistíðinda. (3758)

94. mál, leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaga

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mikið þessar umr. Hv. 1. þm: Vestf. fór mörgum orðum um það, hvað ég hefði talað lengi síðast. Ég hef einu sinni talað í þessu máli. Sjálfur er hann búinn að halda fimm ræður, og ég held nú, að hann ætti ekki að tala mikið um það. En það, sem verra er –(Gripið fram í.) Fimm ræður, herra forseti. (Forseti: Ég hélt, að það væru þrjár.) Fimm, herra forseti, en það, sem verra er, eftir allt þetta tal, er að við erum nú litlu nær um hans aðgerðir, hvað þessi till. á að þýða. Ég benti á það áður, að það væri mjög erfitt að gera sér grein fyrir merkingu þessarar þáltill.. Hæstv. félmrh. sagði það sama, og við vorum alveg sammála um það. Ég hef reynt að gera heiðarlega tilraun til þess að fá eitthvert vit úr þessari till. og notið þar góðrar aðstoðar hv. allshn. Það eru hvorki meira né minna en þrjár brtt., sem eru komnar við þessar fáu línur, sem þáltill. er. Það er til þess að fá vit í till., það var ekki hægt að fá vit í till. nema með þessum aðgerðum. Ef till. frá mér verður samþ., og þó að hún verði samþ. í því formi, sem allshn. leggur til, — ég hef ekkert við það að athuga, — þá verður um aðgerð að ræða til þess að efla húsbyggingar í landinu.

En það er alveg greinilegt, að það er ekki bolmagn til þess að gera slíkar aðgerðir hvarvetna í landinu. Þess vegna á að beina þessum aðgerðum að þeim stöðum, sem eiga í vök að verjast og þarf að aðstoða til þess að efla jafnvægi í byggð landsins. En ég vildi gera meira en að efla aðila til þess að byggja leiguíbúðir. Ég vildi efla einstaklinga á þessum stöðum einnig. Ég taldi rétt, að það ætti að hækka öll lán til íbúðabygginga til þessara staða, sem verið er að aðstoða sérstaklega til að viðhalda jafnvægi í byggð landsins. Það eigi að lána,einstaklingum, sem vilja byggja eigin íbúðir á þessum stöðum, 80% af kostnaðarverði, eins og verið er að tala um að verði lánað sveitarfélögum til þess að byggja leiguíbúðir. Ef þetta er ekki haft í huga, þá eru það tóm látalæti, þegar menn koma hér upp í þennan ræðustól og þykjast vera sérstakir forsvarsmenn þess, að það verði haldið við þá stefnu í byggingarmálunum. að fyrst og fremst búi menn í eigin íbúðum.

Þessa stefnu, sem ég lýsti í minni ræðu, kallaði hv. 1. þm. Vestf., hann afgreiddi þetta mál með hverju haldið þið? Hann sagði: „Þetta er gamla íhaldsstefnan.“ Hans stefna, eins og hún kemur fram í tillögugerðinni og hún liggur fyrir enn, er að takmarka aðgerðir í þessum málum, hverfa af þeirri braut, sem smám saman hefur orðið stefnan að fikra sig eftir, að veita öllum aðilum lán til að byggja leiguíbúðir, hverjum sem er. Þegar núgildandi húsnæðislöggjöf var fyrst lögfest, þá gilti þetta ekki. Þetta hef ég allt skýrt hér áður.

Hv. 1. þm. Vestf. lét orð falla á þá leið, að kjósendur okkar í Vestfjarðakjördæmi mundu frekar kunna að meta hans stefnu en gömlu „íhaldsstefnuna“, sem ég var að lýsa. Þetta á nú ekki beint erindi hingað, en ég vil aðeins segja við þennan hv. þm., að ég er reiðubúinn og skora á hann að mæta mér á Vestfjörðum og ræða þetta mál þar, og þá skulum við sjá, hvort menn hafa á móti því að fá 80% af kostnaðarverði íbúða lánuð, hvort sem um leiguíbúðir er að ræða eða eigin íhúðir.

Ég hirði ekki um að eltast við allt, sem hv. 1. þm. Vestf. sagði. Það er náttúrlega orðið nokkuð langsótt, sem hann segir varðandi 1. tölul. í till. sinni, sem er um að leita upplýsinga um þörfina fyrir leiguhúsnæði. Hann segist ekki hafa getað fengið þessar upplýsingar í húsnæðismálastjórn, og hann vildi kenna mér um þetta, því að ég hefði verið í húsnæðisstjórn fyrir tveim árum. Það hvarflaði ekki að honum að orða það, að þetta væri kannske sök hæstv. félmrh. Nei, það var mér að kenna. Þetta er atriði, sem þarf stöðugt að vaka yfir og þarf alltaf að fá nýjar upplýsingar um. Ég hirði ekki að víkja fleiri orðum að þessum fimm ræðum hv. 1. þm. Vestf.

Ég vík þá að hv. 7. landsk. þm. Hann ræddi aðeins um verkamannabústaðina í ræðu sinni hér áðan. Það mátti skilja það af hans orðum, að ég hefði verið að halda einhverja sérstaka hólræðu yfir þeim breytingum, sem gerðar voru á verkamannabústaðakerfinu árið 1970. Ég sagði ekkert um það þá. Ég sagði ekki einu sinni, að það hefði verið til bóta, en ég get sagt það núna, að ég hygg, að það hafi verið til bóta, en það á eftir að koma betri reynsla á það. Allt tal hv. 7. landsk. þm. um verkamannabústaðakerfið fannst mér mótast nokkuð af misskilningi. Hann fer að tala um Ólafsvík í þessu sambandi og telur, að hann geti fært einhver rök á móti mínum málflutningi með því að nefna Ólafsvík. Hv. þm. Alexander Stefánsson nefndi Ólafsvík hér fyrr í þessum umr. og sagði, að Ólafsvík gæti á fjögurra ára tímabili byggt sex íbúðir miðað við 400 kr. framlagshámark á íbúa. Ég sagði að gefnu tilefni, af því að það var búið að segja þetta, að ef þetta væri rétt, þá væru það eitthvað um 18 íbúðir, sem Ólafsvík gæti byggt eftir að lögunum hefði verið breytt á þessu þingi. Hv. þm. talar eins og það sé eitthvert árásarefni á þá, sem stóðu fyrir því, að ákvæðum laga um hámark framlags sveitarfélaga var breytt. Og hann talar í sömu andránni eins og það sé hægt að heimfæra allar byggingar undir verkamannabústaðakerfið.

Hann er búinn að gleyma því, að verkamannabústaðakerfið hefur frá upphafi verið byggt upp með það fyrir augum, að það hjálpi einungis þeim. sem verst eru settir, og hjálpi þeim betur en hin almennu lánakjör eru. Þetta er ekki hægt að gera nema takmarka þennan hóp, og þessi hópur hefur alltaf verið álitinn um 10—I5% húsbyggjenda. Þegar lögin um verkamannabústaðakerfið hafa verið endurskoðuð á undanförnum áratugum. og ég vil fullyrða það, að eins og lögin eru núna, þá fullnægja þau þessu. Það eru engin þau takmörk, að sveitarfélög, þó að lítil séu, geti ekki byggt sem svarar 10% af byggingum eftir þessu kerfi. En hv. þm. sagði: Sveitarfélögin hafa ekki efni á þessu. Þau hafa ekki efni á þessu. Það er mikið til í þessu, en menn verða að hafa í huga, að frá því að verkamannabústaðakerfið var sett á stofn 1931, hefur alltaf gilt sú regla, að sveitarfélögin greiði í kerfið jafnmikið og ríkissjóður. Það hefur verið helmingur frá hvorum aðila. Þetta er óbreytt enn. Þetta hefur getað gengið í 40 ár, en það eru ekki nema 10 mánuðir síðan núv. ríkisstj. tók við völdum, og þá ugga menn um það, að sveitarfélögin geti gert þetta. Þannig var farið með sveitarfélögin, þegar sett voru hin nýju lög um tekjustofna sveitarfélaga fyrr á þessu þingi. En þessi hv. þm., 7. landsk., ætti því að segja nokkur alvarleg orð um þetta efni við hæstv. félmrh.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta, en þá kem ég að hæstv. félmrh. Hann nefndi nokkur atriði í upphafi sinnar ræðu um þáltill., sem hér er til umr. Þó að ég hafi samúð með hæstv. ráðh. í því efni, að það er erfitt að skilja till., þá undrast ég það mjög, hve lítill hugur er í hæstv. ráðh. að gera átak í þessum efnum, því að það er nauðsynlegt að gera átak til þess að efla byggingu leiguíbúða á hinum smáu stöðum, sem í vök eiga að verjast víðs vegar á landinu. En hæstv. ráðh. sagði hér áður í þessum umr., þegar hann vék að þessu, að það væru ljón á veginum. Ég sagði í minni síðustu ræðu; það eru vissir erfiðleikar, en aðalljónið er hæstv. félmrh. sjálfur, meðan hann hefur ekki trú á því, að neitt sé hægt að gera í þessum efnum.

Hvers er þá að vænta undir hans stjórn? Ég ætla alveg að leiða hjá mér, hvort þessi afstaða hæstv. félmrh. sé í samræmi við stjórnarsáttmálann eða afstaða hv. 1. þm. Vestf. Hann hefur sagt hér áður í þessum umr., að hæstv. félmrh. væri að brjóta gegn stjórnarsáttmálanum. (Gripið fram í.) Hv. þm. sagði, að þetta væri í stjórnarsáttmálanum og afstaða ráðh. væri ekki í samræmi við stjórnarsáttmálann. Ég kalla það að brjóta stjórnarsáttmálann, en menn sjá, að efnislega er þetta sama og við erum að segja. En ef þetta er í stjórnarsáttmálanum, þá verð ég að harma það, að ef einhvern tíma fyrirfinnst eitthvað, sem nýtilegt er, þá skuli vera skotizt undan því að framkvæma það, eins og hv.1. þm. Vestf. hefur haldið fram gagnvart félmrh.

Það hefði verið mjög ánægjulegt að ræða við hæstv. félmrh. um ýmis þau atriði, sem ég vék að í ræðu minni áður. Hann leiddi algjörlega hjá sér að svara mörgum efnislegum atriðum, sem ég ræddi ítarlega varðandi þessi mál. Það var vegna þess, eins og hann sagði sjálfur, að honum var löngu runnin reiðin. Það er ágætt að láta sér renna reiðina. En finnst hv. þm., að þetta sé nægileg afsökun fyrir hæstv. ráðh. til að skjóta sér undan umr. um svona þýðingarmikil og alvarleg mál sem húsnæðismálin eru? Nei, ég veit, að það finnst engum.

Ég skal ekki fara að endurtaka það, sem ég sagði í minni fyrri ræðu um hin ýmsu efnisatriði þessa máls, en ég kem þá beint að því eina, sem hæstv. félmrh. vék að úr minni fyrri ræðu, og það voru ummæli hans um hina þingkjörnu fulltrúa í húsnæðismálastjórn. Hæstv. ráðh. sagði, að hann hefði ekki sagt neitt móðgandi eða meiðandi um menn. Hann sagði það bara um flokka. Þessum hæstv. ráðh. er fyrirmunað að skilja það, að flokkar samanstanda af mönnum. Það kann að vera, að þeir viti ekki í SF um neina flokksmenn, en við höfum nú ekki almennt þá skoðun á þessu máli. Auðvitað var hann að ærumeiða þessa menn. Það var rétt haft eftir mér, sem hæstv. ráðh. sagði og ég var ekki fyrr búinn að segja en hv. 3. landsk. greip fram í og sagði þetta vera hárrétt. (Gripið fram í.) Já, þetta er hárrétt, og hæstv. félmrh. gerði enga aths. við þetta þá. Hann getur ekki heldur komizt undan þessu. Ég ætla ekki hér að fara að lesa aftur upp aths. þá, sem húsnæðismálastjórnarmenn birtu í Morgunblaðinu á sinni tíð og ég las upp hér í minni síðustu ræðu. Ég vil aðeins endurtaka hér nokkur orð. Í þessari yfirlýsingu segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Undirritaðir fulltrúar Alþingis í húsnæðismálastjórn telja því framangreind ummæli félmrh. ákaflega ómakleg og næsta óskiljanlegt, hvað fyrir honum vakir með slíkum ásökunum og nafngiftum. Munu þess sem betur fer engin dæmi, að ráðh. hafi veitzt með hliðstæðum hætti að stjórnendum stofnunar, er undir hann heyrir. Ættu og önnur verkefni að standa ráðh. nær en að leitast við að rýra þannig tiltrú mikilvægrar félagsmálastofnunar, er heyrir undir ráðuneyti hans.“

Hæstv. félmrh. segir, að þetta sé bara þukl. Þukl getur verið margs konar. Gerir hæstv. félmrh. ekki greinarmun á pólitísku þukli og öðru þukli? Hvers vegna nefnir hann pólitískt þukl? Það eru hans eigin orð. Það er af því, að það er þukl sérstaks eðlis. Þetta liggur alveg ljóst fyrir. Nei, hæstv. ráðh. ætti að taka það ráð, sem ég gaf honum hér fyrr í umr., að koma hér upp í pontuna og biðjast afsökunar á þessum ummælum. Það er alltaf mannlegt að skjátlast, og þessi hæstv. ráðh. er ákaflega mannlegur, og ég tel honum það ekki til lasts, ég tel það bara kost. Hæstv. ráðh. ætti að gera þetta, en ég skal ekki fjölyrða um þetta.

Alvara málsins og sú mesta, hún er eftir. Ég spurði hæstv. ráðh. að því, hvað hann hyggðist fyrir í húsnæðismálunum. Hann hefur sjálfur lýst því yfir, að það vanti 500 millj. til þess að hægt sé að fullnægja þörfum ársins í ár. Mig grunar, að þetta sé of lágt, vegna þess að það sé ekki reiknað með hækkun á hinum almennu lánum húsnæðismálastjórnar, sem eiga að hækka samkv. löggjöfinni frá 1970 á þessu ári. Og mig grunar, að ýmis önnur atriði séu ekki upp talin, eins og ég gerði grein fyrir í minni fyrri ræðu. Hæstv. félmrh. víkur ekki einu orði að þessu. Hann segir bara: „Mér er runnin reiðin.“ Er þetta hægt? Er þetta hægt, Matthías? Ég held, að þetta sé ekki hægt. Þetta getur ekki ábyrgur ráðh. leyft sér að gera, og ég vil enn á ný skora á hæstv. ráðh., um leið og hann kemur hér upp til þess að biðja þingkjörna fulltrúa húsnæðismálastjórnar afsökunar, að gera okkur nokkra grein fyrir því, hvað hann hyggist fyrir í þessum alvarlegu málum, áður en þessari umr. lýkur.