16.05.1972
Sameinað þing: 71. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í D-deild Alþingistíðinda. (3759)

94. mál, leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaga

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

. Herra forseti. Ég er nú þakklátur hv. 4. þm. Sunnl. fyrir það, að hann rifjaði upp allar þær brtt., sem fram eru komnar við þessa upphaflegu till., eins og fyllilega er þörf, því að áreiðanlega hafa þm. ekki gert sér grein fyrir þeim að fullu. Mér finnst, að þegar á þær er litið ásamt till., þá sé búið að gera till. svo víðtæka, að hún nái til alls leiguhúsnæðis, ekki aðeins þess, sem byggt er og rekið á vegum sveitarfélaga, heldur einnig á vegum allra annarra aðila. Það þýðir, að til þess að framkvæma hana eins og hv. n. leggur til, þarf miklu meira fjármagn sveitarfélaga og annarra, sem byggja vilja leiguíbúðir. Það verður samkv. þessu sérstök fjáröflun til allra þeirra, sem byggja leiguíbúðir. Og þá spyr ég: Er það virkilega ætlun manna að skilja þá eftir eina, sem byggja eigin íbúðir yfir sjálfa sig? (Gripið fram í.) Svona er till. þýdd. Þú bara skilur hana ekki sjálfur. Það var leiðinlegt. Með þessu er verið að leggja til, að allir þeir, sem leiguíbúðir byggja, skuli fá sérstakt, ríflegt fjármagn til að byggja leiguíbúðir og reka þær.

Ég held, að vandkvæðið við þetta sé það, að það verði ekki metin rétt stefna í húsnæðismálum að láta eingöngu sitja á hakanum þá, sem ætla að byggja eigið húsnæði yfir sig, en greiða með sérstökum fjárveitingum fyrir öllum þeim, sem leiguhúsnæði ætla að byggja. Eins og till. er nú orðin, er eingöngu verið að gera upp á milli leiguhúsnæðis og eigin húsnæðis, og stefnan er þá sú, að láta eigið húsnæði sitja á hakanum með minni fjárveitingum en leiguhúsnæðið á að njóta: Nú sitja allir við sama borð, fá sömu lánsfjárupphæð, hvort sem þeir byggja yfir sig eigið húsnæði eða leiguhúsnæði, og þannig held ég, að það verði að vera, nema menn ætli að hverfa frá þeirri ráðandi og ríkjandi stefnu að stuðla að því, að sem flestir eignist þak yfir höfuðið sjálfir.

Mér var bent á það hér áðan af þm., að ég mætti vel við una. Það væri bæði búið að kalla mig hund og ljón í þessari umr. og læt ég alveg við það sitja. Það er ekki sem verst. En til hvers kom hv. 5. þm. Vestf. hér upp í ræðustólinn áðan? Kom hann hingað til að finna þeim orðum sínum stað, að ég hefði borið hina kjörnu fulltrúa húsnæðismálastjórnar hinum þyngstu sökum, og þá hverjum sökum? Ég bað hann um að segja mér frá því. Ég vitnaði í mín fyrri ummæli, las þau hér orði til orðs, og ég hygg, að enginn nærstaddur hv. þm. hafi heyrt í þeim nokkurt sviguryrði til húsnæðismálastjórnarmanna. Ég lýsti minni persónulegu skoðun. Í báðum tilfellunum byrjuðu setningarnar á því, að það væri mín persónulega skoðun, að kerfið væri svona, og síðan hugmyndir, persónulegar hugmyndir mínar um, hvernig ætti heldur að koma því fyrir í einni stofnun í staðinn fyrir tveimur. Og ekkert af þessu gat höggvið neitt nærri húsnæðismálastjórnarmönnum. Ég hef þannig ekkert til að biðja þá afsökunar á, en ég hefði haldið, að það væri ástæða til þess, að hv. 5. þm. Vestf. bæðist afsökunar, eftir að honum hafa verið lesnir þeir ræðukaflar, sem þarna var um að ræða og ekkert meiðandi fannst í þeim persónulega til nokkurs manns, hvorki húsnæðismálastjórnarmanna né annarra. Hann hefði átt að biðja afsökunar á því að hafa sagt, að ég hefði borið hina kjörnu fulltrúa þyngstu sökum. Síðan bætti hann við: „Auðvitað var hann að ærumeiða þessa menn.“ Þá eru það orðnar, ekki þyngstu sakir, heldur ærumeiðingar bókstaflega. Ég lýsi þessu sem algjörlega tilefnislausu.

Það er rétt, hv. þm. geisaði víða í sinni ræðu um daginn, og m.a. vék hann að fjárvöntun húsnæðismálakerfisins. Af hverju er húsnæðismálakerfið peningalaust í ár? Af því að það var búið að nota fyrir sig fram allar tekjur þessa árs, samkv. skýrslugjöf húsnæðismálastjórnar sjálfrar, nema 50.4 millj. kr. Það er þess vegna, sem þarf að útvega hundruð millj. kr. í húsnæðismálakerfið á þessu ári. Það er uppétið fyrir sig fram. Sú fjáröflun hefur verið í gangi að undanförnu, og eru nú nokkrar líkur til þess, að útvegaðar verði 200—250 millj. kr. til þess að bæta úr þessu og 60 millj. kr. frá atvinnuleysistryggingunum að auki, þannig að ég geri mér vonir um, að takast megi að útvega a.m.k. 300 millj. kr., sem kæmu þá til notkunar áður en næst þarf á úthlutunar fé að halda, sem ég hygg, að muni vera núna í júnímánuði. Hingað til hafa allar löglegar umsóknir um húsnæðislán verið afgreiddar. Það vantaði 6 millj. kr. upp á, að hægt væri að afgreiða síðustu lán, og það var útvegað hjá Seðlabankanum sem bráðabirgðalán. Hingað til hefur þannig ekkert staðið upp á húsnæðismálastjórn, og ég læt hv. þm. alveg um það að spá í framtíðina. Það er ekkert enn þá, sem stendur upp á húsnæðismálastjórn, nema þá vegna þess, sem var búið að eyða fyrir fram af fyrrv. stjórn. Og ég held, að það verði bezt að láta mig hafa áhyggjurnar af því og að hv. þm. bogni ekkert í baki undan þeim áhyggjum. Ég hugsa, að það verði ekki hann, sem útvegi það fé.