13.04.1972
Sameinað þing: 56. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í D-deild Alþingistíðinda. (3768)

213. mál, orlof og þjónusta staðgöngumanna í landbúnaði

Flm. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Á þskj. 420 hef ég leyft mér að flytja till. til þál. ásamt þremur öðrum þm. Sjálfstfl. um orlof og þjónustu staðgöngumanna í landbúnaði. Till. þessi var flutt hinn 9. marz s.l. og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela landbrh. að skipa nefnd til þess að semja frv. til l. um orlof sveitafólks og þjónustu staðgöngumanna í landbúnaði. Nefndin skal skipuð í samráði við Stéttarsamband bænda og Búnaðarfélag Íslands. Niðurstöður skulu lagðar fyrir Alþingi svo fljótt sem verða má.“

Það er skoðun okkar flm., að ekki megi lengur dragast að hefja undirbúning löggjafar um orlof sveitafólks. Orsakirnar, sem liggja að baki þessari skoðun, er að finna hvort tveggja í þeirri þróun, sem á undanförnum árum hefur orðið í landbúnaðinum sjálfum, sem og meðal annarra atvinnugreina. Jafnhliða þeim miklu umskiptum. sem orðið hafa í landbúnaðinum og byggzt hafa öðru fremur á stóraukinni ræktun og tæknibúnaði, hefur því fólki, sem að landbúnaði starfar, farið sífækkandi, svo að aðkeypt vinnuafl er orðið hverfandi í búrekstrinum. Um leið og sífellt er krafizt meiri þekkingar, aukinna afkasta og framleiðni, hefur bóndinn ásamt fjölskyldu sinni orðið rígbundinn við bústörfin svo að segja alla daga ársins jafnt, vegna þess að hann hefur ekki öðrum á að skipa til verka. Á sama tíma hefur svo vinnutími flestra annarra stétta orðið æ styttri og orlofið lengra. Ö11um er ljóst, að eftir lagasetningu Alþingis í des. s.l. um lengingu orlofs í 24 virka daga og styttingu vinnuvikunnar í 40 stundir, sem í raun þýðir 37 stundir og 5 mín., er misræmið orðið geigvænlegt milli bændastéttarinnar og t.d. þeirra stétta, sem kjör bænda eru miðuð við.

Þegar þannig er komið, að einstök stétt er orðin svo áberandi afskipt um félagsleg réttindi, er hætta á ferðinni. Eðlileg afleiðing af fjölgun frídaga og styttingu vinnutímans er sú, að fólk leggur mikið upp úr því að eiga kost þessara réttinda. Vissa er fyrir því, að unga fólkið, sem nú er að velja sér lífsstarf, hikar við að ganga inn í þær atvinnugreinar, sem þarna eru afskiptar. Verði hlutur landbúnaðarins ekki réttur í þessum efnum, má búast við mikilli tregðu í endurnýjun bændastéttarinnar, sem hlýtur að þýða hægfara eyðingu hennar eða að hún verði í auknum mæli skipuð mönnum, sem lítilla kosta eiga völ annars staðar.

Í gær var verið að ræða hér í hv. Nd. um frv. til l. um Framleiðsluráð landbúnaðarins. Þar bar á góma þau mál, er varða kjör bænda. Í þessum umr. um hin hagrænu efni, sem beint varða tekjur bændastéttarinnar var á það bent í einstökum ræðum, að þörf kynni að vera á því að eiga í handraðanum ráð til þess að skattleggja bændur með sérstökum hætti til þess að vinna gegn of mikilli framleiðslu.

Ég skal ekki ræða þetta frv. hér, enda er það ekki á dagskrá, en ef svo fer, að bændastéttin verður í vaxandi mæli, svo sem gerzt hefur nú á síðustu mánuðum, afskipt um ýmis réttindi í þjóðfélaginu, lít ég svo á, að vissa sé fyrir því, að það þurfi ekki að skattleggja hana með sérstökum hætti til þess að vinna gegn framleiðslu landbúnaðarvara. Það er sem sé að mínu áliti ekki síður ástæða til þess að gefa því gaum, að landbúnaðinum og þar með þjóðinni í heild er það mikilsvert, að sú stétt verði ekki afskipt á öðrum sviðum en í kjaramálum.

Það má öllum ljóst vera, að nokkur tæknileg og fjárhagsleg atriði þarf að leysa, svo að orlof sveitafólks geti orðið að veruleika. Á það hefur þegar verið bent, að þörfin er engu minni í þessari atvinnugrein en ýmsum öðrum fyrir orlof og frítíma. Rétturinn ætti einnig að vera hinn sami, og ber að stefna að því, að orlof geti orðið allt að 24 virkir dagar, eins og hjá launafólki. Óvíst er þó, hvort slíku marki yrði náð í einum áfanga eða þegar í stað. Orlofsrétturinn þarf einnig að ná bæði til bónda og húsfreyju og a.m.k. þeirra af börnum þeirra, sem að staðaldri vinna að bústörfum. Rétt er að minna á í þessu sambandi, að húsfreyjur í sveitum munu oft og einatt vinna lengri vinnudag, en flestir aðrir þegnar þjóðfélagsins, og er því þýðingarmikið, að reglur þær, sem settar verða um orlof í landbúnaði, séu þannig úr garði gerðar, að fullt tillit sé tekið til þess og hlutur húsfreyjunnar verði ekki fyrir borð borinn í þeim efnum.

Í þáltill. er vikið að þjónustu staðgöngumanna í landbúnaði. Augljóst er, að rétturinn til þess að taka sér orlof er lítils virði og verður ekki nýttur nema kostur sé á fullnægjandi vinnuafli til þess að annast bústörfin, meðan á orlofi stendur.

Áður er að því vikið, hvert fámenni er nú yfirleitt á sveitaheimilum. Þar er yfirleitt ekki fólk til skipta, og þó að bóndi og húsfreyja geti í einstökum tilvikum bætt á sig nokkrum störfum á víxl um takmarkaðan tíma, verður að telja æskilegt, að hjónin geti bæði tekið sér orlof samtímis. Það er því eitt af hinum þýðingarmeiri atriðum í tæknilegri hlið þessa máls, hvernig unnt er að skipuleggja vinnuafl, sem leyst geti bændur og annað sveitafólk af hólmi, meðan á orlofi stendur. Þetta er hér nefnt þjónusta staðgöngumanna, og er mikils um vert, að sá þáttur sé ekki undanskilinn, þegar löggjöf um orlof sveitafólks er undirbúin. Að vísu munu bændur í sumum tilvikum geta leyst þennan vanda sjálfir, t.d. í samvinnu við nágranna og aðra aðila, en jafnvíst er, að eins oft mun þurfa aðstoð annarra aðila við skipulagningu þessara mála og útvegun staðgöngumanna, svo að þeir verði nýttir með hagkvæmum hætti.

Orlof og þjónusta staðgöngumanna mun hafa í för með sér aukna fjármagnsþörf fyrir landbúnaðinn. Hér er ekki vikið að ákveðnu formi þeirrar fjármögnunar, sem er eitt af þeim atriðum, sem taka þarf til gaumgæfilegrar athugunar við undirbúning löggjafar um þetta efni. Það er þó ljóst, að ekki verður með sanngirni til þess ætlazt, að landbúnaðurinn leggi þetta fjármagn til nema að takmörkuðu leyti eða þá með öðru móti en því, að til hans verði varið sérstöku fjármagni í þessu skyni. Hugsanlegar leiðir í þessu efni til fjármögnunar eru auk beins fjárframlags úr ríkissjóði, að hluti af þessu fjármagni komi sem sérstakt álag á verðlagið. Á það er þó rétt að benda, að slíkt álag á verðlag hefur vissuleg sína ókosti bæði fyrir neytendur og framleiðendur. Alla möguleika, sem til greina koma í þessu efni, þarf að skoða miklu nánar en hér hefur verið hugleitt. Í þessu sambandi má þó minna á það, að landbúnaðurinn á inni hjá þjóðfélaginu vegna lengingar orlofs samkv. lögunum frá því í des. s.l. En sú lenging orlofsins var ekki tekin inn í ákvörðun um búvöruverðið, sem gildi tók hinn 1. marz s.l.

Hinn 7: júní s.l. afgreiddi norska Stórþingið lög um orlof sveitafólks, og er það eina löggjöfin um þetta efni á Norðurlöndum. Þar hafa einnig verið settar reglur um þjónustu staðgöngumanna í landbúnaði. Norðmenn hafa því gengið á undan öðrum Norðurlandaþjóðum í þessu efni. Í norska kerfinu er fjármögnun í stórum dráttum þannig háttað: Fjár til orlofsgreiðslnanna er aflað með árlegu framlagi á fjárlögum að upphæð 80 millj. norskra kr. Helmingur þess fjár kemur af fé því, sem rennur til landbúnaðarins samkv. gildandi samkomulagi, sem ríkið annars vegar og samtök landbúnaðarins hins vegar hafa gert með sér. Hinn hlutinn, 40 millj. norskra kr., veitist beint af fjárlögum. Fjárveitingin til orlofskerfisins rennur í sjóð, sem nefnist Orlofssjóður landbúnaðarins, og er honum stjórnað af fulltrúum ríkisins og landbúnaðarsamtakanna. Sjóðurinn innir af hendi orlofsgreiðslur, og því fé, sem eftir verður í sjóðnum, þegar orlofsgreiðslur hafa verið inntar af hendi og rekstrarkostnaður sjóðsins verið greiddur, skal verja til þess að bæta aðstöðu til orlofs, þannig að sem flestum bændum verði gert kleift að nýta sér þau réttindi.

Stjórn þessa sjóðs er skipuð tveimur fulltrúum frá bændasamtökunum og einum frá ríkinu, og er sá formaður.

Það eru fjölmörg atriði í hinu norska kerfi, sem mætti víkja að til viðbótar, t.d. í sambandi við fjármál. Það er gert ráð fyrir því í fyrstu lotu, að hámarksgreiðslur á hvert býli á ári séu 2 200 norskar krónur. Það hefur verið gert ráð fyrir því, að fyrstu fjögur árin frá setningu þessara norsku laga verði skoðuð sem reynslutími til þess að sjá, hvernig lögin reynast í framkvæmd, þannig að unnt verði að kynnast því, hvaða vankantar séu á þeim, og þau verði að þeim tíma loknum tekin til endurskoðunar með hliðsjón af þeirri reynslu, sem fengizt hefur.

Ég tel fulla ástæðu til þess, að þetta norska kerfi verði tekið til vandlegrar skoðunar í sambandi við undirbúning þeirrar löggjafar, sem hér er lagt til. að samið verði frv. að. Mörg þeirra atriða, sem þar koma fram, eru vafalaust með þeim hætti vegna ólíkra staðhátta, að þau eiga ekki við hjá okkur, en væntanlega eru einnig fjölmörg önnur, sem færa mætti að íslenzkum staðháttum. Þau atriði mættu því verða meðal verka þeirrar nefndar, sem eftir þessari till. er ætlazt til að skipuð verði.

Við flm. höfum lagt áherzlu á það, að bændasamtökin eigi aðild að samningu þess frv. sem hér er lagt til að samið verði. Það er sjálfsagt, að svo verði, bæði vegna þess hve hér er um þýðingarmikil hagsmunamál landbúnaðarins að ræða, og eins vegna þess, að þegar hafa nokkrar umræður um þetta mál átt sér stað innan bændasamtakanna. Hvort tveggja er, að nokkrum sinnum á undanförnum árum hefur verið hreyft till. í þá átt að koma á sérstöku skipulagi, sem jaðrar við þá staðgöngumannaþjónustu, sem hér er nefnd, en það er skipulag á svo kallaðri aðstoð í veikindum og öðrum vandræðatilfellum til sveita. Þetta atriði m.a. og þær athuganir, sem fram hafa farið í því sambandi, gæti orðið nokkur grunnur að skipulagningu þess staðgöngumannakerfis, sem hér er lagt til, að tekið sé til athugunar. Jafnhliða er mér kunnugt um það, að forustumenn Stéttarsambands bænda hafa áhuga fyrir því, að komið verði fram löggjöf um það efni, sem hér er fjallað um. Þess vegna er það sjálfsagt og þýðingar mikið, að þeir menn, sem gerst þekkja til í þessum efnum. verði til kvaddir að fjalla um þennan undirbúning.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessi orð mín að sinni. Ég lít á það sem fullkomið réttlætismál, að bændur og annað sveitafólk njóti sambærilegra réttinda og aðrir þegnar þjóðfélagsins bæði á því sviði, sem hér hefur verið um rætt, og einnig á öðrum sviðum. Og það er óskorað hagsmunamál landbúnaðarins og þjóðfélagsins í heild, að svo sé búið að bændastéttinni, að það hamli ekki því, að í hennar raðir gangi hér eftir sem hingað til dugmiklir menn, sem alls staðar eiga möguleika og hvarvetna geta fundið vettvang fyrir hæfileika sína og starfsorku. Ef landbúnaðurinn á áfram, svo sem verið hefur hingað til kost slíkra manna í sínum röðum til jafns við aðrar atvinnugreinar, munum við ekki þurfa að óttast um reisn íslenzkrar bændastéttar í framtíðinni.