09.05.1972
Sameinað þing: 65. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í D-deild Alþingistíðinda. (3797)

274. mál, vegáætlun 1972-1975

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Vegáætlun fyrir árin 1972—1975 er nú tekin til umr., og skal það játað, að hún er síðbúnari en æskilegt hefði verið. Um hana væri hægt að tala langt mál, en ég mun þó reyna að stytta mál mitt eftir föngum og freista þess að takmarka mál mitt við þau atriði ein, sem sérstakra útskýringa þurfa með eða eru með allt öðrum hætti fram sett nú en verið hefur í fyrri vegáætlunum.

Með lögum nr. 23 1971 um breytingu á vegalögum frá 1970 var sú breyting gerð á l0. gr. vegalaga, sem fjallar um vegáætlanir, að í stað vegáætlunar til fjögurra ára í senn skyldi við endurskoðun vegáætlunar annað hvert ár samin ný áætlun fyrir næstu fjögur ár, þannig að ávallt væri fyrir hendi gildandi áætlun fyrir a.m.k. tvö ár. Samkv. bráðabirgðaákvæði sömu lagabreytingar var síðan samþ. á Alþ. 5. apríl 1971 vegáætlun fyrir árið 1971 og bráðabirgðavegáætlun fyrir árið 1972. Í sömu ákvæðum til bráðabirgða er einnig gert ráð fyrir því, að vegáætlun fyrir tímabilið 1972—1975 verði lögð fyrir Alþ. það, sem nú situr. Samkv. þessum lagaákvæðum. sem rakin hafa verið, hefur vegáætlun sú, sem hér er til umr., verið samin og lögð fram. Vil ég þá fara nokkrum orðum um tekjuhlið áætlunarinnar og form hennar.

Till. um vegáætlun fyrir árin 1972—1975 er í mjög breyttu formi frá fyrri vegáætlunum. Fyrri áætlanir hafa sýnt fastar tekjur Vegasjóðs samkv. IX. kafla vegalaga, en þó ekki t.d. umferðargjald og auk þess skiptingu útgjalda vegna framkvæmda. Hins vegar hefur þar ekki komið fram fjáröflun né lánsfé né heldur ráðstöfun á slíku fé og ekki heldur árlegur kostnaður vegna vaxta og afborgana lána né sérstakar samgönguáætlanir landshluta, enda þótt jafnan hafi verið reynt að skýra þessi atriði að nokkru í aths. og árlegum skýrslum samgrh. um framkvæmd vegáætlana. Afleiðingin af þessu hefur verið sú, að torvelt hefur verið að gera sér fyllilega grein fyrir öllu, sem er að gerast í vegamálum landsmanna. Hér er sú meginbreyting á gerð, að teknar eru í áætlunina allar framkvæmdir í vegamálum. þ.á.m. landshlutaáætlanir fyrir Austurland og Norðurland, vegagerð um Skeiðarársand, sem fjarmögnuð er, eins og öllum er ljóst, með happdrættislánsfé, hraðbrautalán öll og kostnaður við öll þau lán, sem tekin hafa verið eða tekin verða á áætlunartímabilinu til vegaframkvæmda. Þetta gefur að minni hyggju gleggra heildaryfirlit um þessi mál en vegáætlanir í fyrra formi gerðu, og vænti ég þess, að þetta verði af flestum talið heldur til bóta.

Á tekjuhlið áætlunarinnar, svo að ég víki nú þessu næst að henni, eru fyrst greindar undir lið II hinar föstu tekjur Vegasjóðs, en það eru benzín gjaldið, þungaskatturinn og gúmmígjaldið, og svo er þar einnig greint frá beinu framlagi ríkisins til vegaframkvæmdanna. Tekjustofnarnir, sem vegáætlunin hvílir á, eru þessir fjórir, sem ég nú nefndi: Benzín gjald, þungaskattur, gúmmígjald og framlög ríkissjóðs. Benzín gjald, þungaskattur og gúmmígjald eru í samræmi við áætlanir um sölu benzíns og fjölda bifreiða, og áætlunin er byggð á nákvæmlega sömu reglum og aðferðum og áður. Af ríkisframlaginu er annars vegar um að ræða 100 millj. kr. framlag samkv. fjárlögum 1972, og er gert ráð fyrir því framlagi óbreyttu út áætlunartímabilið, 100 millj. hvert árið um sig. Hins vegar bætist nú við hluti af tekjum vegna innflutningsgjalds af bifreiðum, sem ákveðið var með reglugerð nr. 69 frá 1972. Þetta framlag er áætlað 100 millj. kr. árið 1972, en þá er gjaldið aðeins innheimt tæpa þrjá ársfjórðunga. Síðan er gert ráð fyrir hækkunum síðari þrjú árin af áætlunartímanum, en þá er gjaldið innheimt allt árið, og einnig er tekið tillit til áætlana um aukinn innflutning bifreiða á þessum árum. En það er vitanlega áætlun.

Þannig er þetta framlag ríkisins núna uppbyggt, þessar 200 millj. kr., sem þar er um að ræða. Endurgreiðslur benzín gjalds og þungaskatts eru skýrðar í kafla 1.1.5 á bls. 19 í áætluninni. Ef nettótala í lið 1.1 árið 1972 í þessari áætlun er borin saman við nettótölu tekjuáætlunar bráðabirgðavegáætlunar fyrir árið 1972, sést, að hækkunin nemur 173.7 millj. kr. Þar af er hækkun á ríkisframlaginu 153 millj. kr. Við útreikning hækkunar á ríkisframlaginu í heild verður einnig að taka tillit til þess kostnaðarauka, sem ríkissjóður hefur af yfirtöku lána, sem lagt er til, að hann taki nú við og rakin eru í lið 1.2. Þetta er á bls. 1 í áætluninni. Samtals nemur kostnaður vegna þessara lána 163.1 millj. kr. á árinu 1972. Þar af 61.2 millj. kr., sem Vegasjóður hefði annars staðið undir, en áður var ákveðið, að ríkissjóður stæði undir þeim lánum, sem talin eru í lið 1.2.2, út árið 1972, en heldur ekki lengur. Miðað við heildarupphæð á lið 1.2.1 á bls. 1 og nettóupphæð liða 1.2.2 og 1.2.8 nemur sá kostnaður, sem ríkissjóður hefur af yfirtöku lánanna, alls 162.1 millj. kr. á árinu 1972, eins og áður var sagt, 167.3 millj. kr. 1973, 191.9 millj. 1974 og 223.5 millj. árið 1975. Þessir lánaútreikningar eru of margþættir til þess að skýra þá í aths. eða framsögu, en fjvn., sem væntanlega fær till. þessar til athugunar, hefur að sjálfsögðu allan aðgang að nákvæmlega sundurliðuðum upplýsingum um einstök lán, eftir því sem n. kann að óska eftir því.

Við gerð vegáætlunar nú var byggt á grunni bráðabirgðavegáætlunarinnar frá því í fyrra að því er til ársins 1972 tekur, þ.e. það er gert ráð fyrir fjáröflun til allra þeirra framkvæmda, sem þar eru, ásamt með verðhækkunum, sem síðar hafa orðið.

Undanfarin ár hefur safnazt saman vaxandi greiðsluhalli hjá Vegasjóði, og vegáætlun 1971 var afgreidd frá Alþ. með 29.8 millj. kr. greiðsluhalla. Þessum arfi fyrrv. stjórnar, sem alls nemur 137 millj. kr., varð að ráðstafa, og þótti ekki unnt að gera það nema að litlu leyti á þessu ári, en gert ráð fyrir, að hallanum verði endanlega eytt á árunum 1973 og 1974. Af þessari heildarupphæð, 137 millj. kr., eru núna teknar inn á þetta ár 17 millj. og síðan 60 millj. hvort hinna áranna, þannig 137 millj. alls á þremur árum.

Þrátt fyrir stóraukin framlög til vegamála, er ljóst, að mjög lítið svigrúm hefði verið fyrir Alþ. til að koma nýjum framkvæmdum í vegáætlun ársins 1972, ef ekki hefði komið til sérstök fjáröflun fyrir það ár. Því er gert ráð fyrir 50 millj. kr. lántöku árið 1972, sbr. liðinn 1.2.3, og nemur það fé, sem er til ráðstöfunar í nýjar framkvæmdir árið 1972, því alls 74.1 millj. kr. Þetta er þó að sjálfsögðu ekki endanleg ákvörðun, og kemur til kasta Alþ. að marka stefnu í því máli nú, þegar vegáætlunin er þar til meðferðar. Það er skoðun ríkisstj., að halda beri áfram hraðbrautaframkvæmdum og þegar þeim verkum, sem nú er unnið að, er lokið, sé rétt að leita eftir hagstæðum lánum t.d. hjá Alþjóðabankanum, svo sem gert var áður, og miðað væri við, að sú lántaka næði til 40—50% kostnaðar. Um aðra þætti tekjuáætlunarinnar þykir nægja að vísa til aths. og skýringanna, sem eru á bls. 20 í þskj.

Í sambandi við liðinn 1.2.8, sem er greiðsla af lánum vegna Reykjanesbrautar, þykir mér rétt að geta þess, að enda þótt í áætluninni séu ekki sýndar tekjur af umferðargjaldi af öðrum hraðbrautum en Reykjanesbraut, þýðir það engan veginn, að ekki sé ráðgert að leggja umferðargjald á annars staðar, þegar hliðstæð tilvik skapast.

Þessu næst þykir mér hlýða að fara nokkrum orðum um ýmis atriði varðandi kafla II á bls. 2, en hann fjallar um skiptingu útgjalda, og um kafla III um flokkun vega. Ég býst við, að menn hafi áætlunina við hendina, því að ella er erfitt að fylgjast með í þessu talnamoði, en ég minnist þarna fyrst á kaflann 2.1.1, sem fjallar um launagreiðslur, á bls. 2. Á áætlunartímabilinu er nú gert ráð fyrir að fastráða um 20 nýja starfsmenn hjá Vegagerð ríkisins, en 12 þessara starfsmanna hafa þó starfað sem lausráðnir um lengri eða skemmri tíma, og er því aukningin aðeins átta starfsmenn á áætlunartímabilinu. Þessi aukning fastra starfsmanna byggist annars vegar á því, að fé til vegaframkvæmda í þessari áætlun er verulega meira en í síðustu vegáætlun, eins og áður hefur verið rakið, og það leiðir eðlilega af sér nokkra aukningu við stjórn og undirbúning framkvæmdanna, sem verða væntanlega nokkru meiri. Hins vegar er nú stefnt að því, að umdæmisverkfræðingar Vegagerðarinnar ásamt nauðsynlegu aðstoðarfólki, tæknifræðingum og mælingamönnum. verði á áætlunartímabilinu fluttir út í umdæmin, eftir því sem aðstæður varðandi húsnæði og annað leyfa. Þetta verður ekki gert í einni skyndingu, aðstaðan verður fyrst að vera fyrir hendi, en þessi breyting verður gerð á tímabilinu. Að þessu er augljós hagræðing, þegar á heildina er litið. Á þessu var nokkuð byrjað á s.l. ári, en þá var staðsettur verkfræðingur og mælingamaður með búsetu á Egilsstöðum fyrir Austfjarðaumdæmið, og einnig var settur tæknifræðingur á Akureyri. Þetta þykir hafa gefizt vel og verður haldið áfram með þetta og umdæmisverkfræðingar settir út um landsbyggðina auðvitað með nauðsynlegu aðstoðarfólki. Af þessu leiðir einhvern kostnað, einkanlega af því að dreifa svona framkvæmdakerfinu.

Þá var við uppsetningu launaliðarins tekin upp sú nýbreytni, að laun verkstjóra og vegaeftirlitsmanna verða hér eftir færð á viðkomandi framkvæmdaliði, og það er gert til þess að fá betri yfirsýn um raunverulegan kostnað einstakra framkvæmdaliða til samanburðar við útboð á framkvæmdum, sem farið hafa vaxandi, mjög vaxandi á síðari árum. Þetta var um launaliðinn. Þessi atriði, sem ég nefndi, sjást auðvitað ekki, þó að maður lesi þarna tölurnar, en þessar skýringar liggja á bak við nokkra hækkun launaliðar.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um liðinn 2.1.2 á sömu bls., eftirlaunagreiðslur. Hér er tekin upp sú nýbreytni, að ætlað er nokkurt fé til eftirlaunagreiðslna fyrrv. verkamanna, sem komnir eru yfir sjötugt og unnið hafa hjá Vegagerð ríkisins áratugum saman, en hafa ekki getað hætt störfum af efnahagsástæðum, þar sem þeir hafa ekki notið annarra eftirlauna en ellilífeyris almannatrygginganna. Þetta verður samt ekki nein svimhá upphæð og verður vafalaust ekki gagnrýnd. Áður hafa eftirlaunagreiðslur á þessum lið aðeins verðið bundnar við verkstjórana, þá verkstjóra, sem ekki hafa haft aðgang að neinum lífeyrissjóði.

Næsti liður, 2.1.3 fjallar um skrifstofukostnaðinn. Einnig þar þarf að vinda bráðan hug að því að bæta aðstöðu. Skrifstofuaðstaða Vegamálaskrifstofunnar í Reykjavík er næsta bágborin. Nú er skrifstofan til húsa á þrem stöðum í borginni, í Borgartúni 1, Borgartúni 5 og Borgartúni 7. Að þessu er augljóst óhagræði og aukakostnaður, en þó hefur ekki verið tekin nein sérstök fjárveiting upp í þessa áætlun til þess að bæta úr þessu, en á því þótti þó rétt að vekja athygli.

Næsti liður er 2.1.4 um verkfræðilegan undirbúning framkvæmda. Um það vil ég aðeins segja þetta. Á yfirstandandi ári er aðeins óveruleg hækkun á þessum lið á bráðabirgðavegáætlun 1972, en fjárveitingin var tvöfölduð fyrir árin 1973—1975, enda hefur þessi liður jafnan verið mjög vanáætlaður. Gerð fjögurra ára vegáætlunar, sem á að endurskoða á tveggja ára fresti samkv. vegalögum, leiðir óhjákvæmilega af sér aukinn kostnað við undirbúning framkvæmda og við áætlunargerð.

Þá vík ég næst að liðnum 2.1.5, sem er um umferðartalningu og vegaeftirlit. Þessi starfsemi er í meginatriðum þríþætt, þ.e. miðlun upplýsinga til almennings um færð á vegum, stjórnun á snjómokstri og þess háttar, aðstoð við lögregluyfirvöld við að fylgja fram reglum um hámarksþunga bifreiða, og hefur Vegagerðin orðið að leggja fram allan tæknikostnað í því sambandi. Í þriðja lagi heyra undir þennan lið umferðartalningar á vegum. Þeim er nú haldið uppi allt árið eftir að tekizt hefur að afla hentugra tækja í því sambandi. Umferðartalningarnar eru mjög veigamikil upplýsingasöfnun við alla áætlunargerð samkv. vegalögum.

Í liðnum 2.2.1 er komið að viðhaldi þjóðvega. Áætluð hækkun á vísitölu viðhaldskostnaðar frá því í marz 1971, þegar vegáætlun var endurskoðuð, og þar til í júní 1972 nemur 11.4%. Miðað við beina hækkun á fjárveitingu til vegaviðhalds í bráðabirgðavegáætlun fyrir árið 1972, í samræmi við verðhækkun, hefði fjárveiting á þessum lið átt að nema um 290 millj. kr„ og eru þá taldar með greiðslur vegna tryggingagjalda og orlofs, sem nú eru felldar inn í fjárveitinguna, en ekki talinn sjálfstæður gjaldaliður. Hækkun fjárveitingar á þessum lið nemur því 65 millj. kr. eða um 22% fyrir árið 1972. Ég hygg, að engum, sem þekkir til ástands vegakerfisins, muni blandast hugur um. að full nauðsyn er á þessari hækkun til vegaviðhalds, þar sem fjárveitingar á þessum lið hafa ekki haldizt í horfinu við sívaxandi umferð og vaxandi þunga flutningabifreiða. Ráð er fyrir því gert, að fjárveiting á þessum lið hækki um 20 millj. kr. til viðbótar á árinu 1973 og aftur um 20 millj. á árunum 1974 og 1975. Með þessari hækkun á vegaviðhaldinu ætti að vera hægt að bæta það nokkuð. Þó mun þessi fjárveiting ekki hrökkva nema að sáralitlu leyti til nauðsynlegrar styrkingar á þeim hluta vegakerfisins, sem elztur er og því vanbúnastur til þess að taka við hinni miklu þungaumferð, sem nú fer fram á vegum okkar í sívaxandi mæli. En þarna eru þó nokkrar umbætur gerðar hvað snertir fjárveitingar til vegaviðhalds, og er það vitanlega ánægjuefni og þó vitað, að það er hvergi nærri nóg. Nokkuð bætir það úr, að tiltölulega litið hefur farið af viðhaldsfé í snjómokstur á liðnum vetri, og bætir það e.t.v. nokkuð aðstöðuna til að halda vegum sæmilega við á þessu komanda sumri.

Liðurinn 2.2.2, vegamerkingar samkv. umferðarlögum, þarf nú lítilla skýringa við, en um hann vil ég þó segja þetta. Hér er gert ráð fyrir verulegri hækkun á fjárveitingu, sem annars vegar fer til þess að halda áfram uppsetningu nýrra umferðarmerkja samkv. gildandi ákvæði umferðarlaga um það, en hins vegar til þess að koma upp nýju númerakerfi á alla þjóðvegi landsins og nýjum vegvísum í því sambandi, eins og nánar er greint frá í kafla III um flokkun vega. Hér er verið að fara inn á kerfi, sem er alþjóðlegt, að setja vegina í ákveðna númeraröð, þannig að þó að vegfarandinn þekki ekkert til örnefna, sem vísað er til samkv. gamla kerfinu, þá veit hann, hvar hann er á vegi staddur, þegar hann hefur tölusetningu vegarins. Þetta kostar samt mikið fé, en sjálfsagt virðist að taka þetta nýja alþjóðlega kerfi hér upp. Það er líklegt , að hringvegurinn um landið verði þá vegur nr. 1 og síðan raðað eftir ákveðnu kerfi vegunum, þar til allir hafa verið felldir inn í það.

Þá fer ég nokkrum orðum um hina nýju þjóðvegi og byrja þá á hraðbrautunum. Í bráðabirgðavegáætlun var fjárveiting til hraðbrauta fyrir árið 1972 195.5 millj. kr. Til þess að ljúka þeim áfanga við lagningu hraðbrauta, sem stefnt var að með lántöku hjá Alþjóðabankanum á árinu 1970, þ.e. lagningu Vesturlandsvegar frá Reykjavík upp í Kollafjörð og Suðurlandsvegar frá Reykjavík að Selfossi, vantar alls 72.6 millj. kr. og af þeirri upphæð eru 30.3 millj. kr. vegna framkvæmda á árinu 1971, en 42.3 millj. kr., sem vantar vegna framkvæmda á yfirstandandi ári. Þessi aukna fjárþörf stafar sumpart af verðhækkunum, en einnig er hún vegna magnaukningar á verksamningum, en þessar framkvæmdir eru allar unnar af verktökum og samkv. útboði. Í byrjun síðasta vegáætlunartímabils, þ.e. 1. jan. 1969, voru fullgerðar hraðbrautir taldar vera 37.5 km. Hinn 1. jan. s.l. voru fullgerðar hraðbrautir orðnar 71.8 km, og á yfirstandandi ári mun bætast við 31 km miðað við þá áfanga, sem þegar hefur verið samið um. Verða þær því í árslok þessa árs, 1972, alls um 102.8 km eða liðlega 1/4 hluti allra þeirra þjóðvega, sem nú flokkast sem hraðbrautir samkv. ákvæðum vegalaga, en þeir voru hinn 1. jan. s.l. 398.7 km. og er það lenging um 64.3 km frá fyrri vegáætlun. Á árunum 1973—1975 er gert ráð fyrir fjárveitingu til hraðbrauta að upphæð 650 millj. kr. Má gera ráð fyrir, að ólagðar hraðbrautir í lok þessa árs verði um 274 km, þegar tekið er tillit til þeirra styttinga, sem til greina koma við lagningu vegar um Hvalfjörð og Borgarfjörð, og samkv. lauslegri áætlun yrði meðalkostnaður við lagningu þessara vega um 10 millj. á km. Nemur því sú fjárveiting, sem í vegáætlun er, um 23% af áætluðum kostnaði við lagningu þessara vega allra. Yrði nú horfið að lántöku til hraðbrautaframkvæmda á árunum 1973-1975, sem næmi um 300 millj. kr.,— og það er nú mjög í athugun hjá ríkisstj., þó að endanleg ákvörðun hafi ekki verið tekin, — yrði á áætlunartímabilinu unnt að ljúka við lagningu sem svarar 1/3 ólagðra hraðbrauta við lok yfirstandandi árs. Ætti með því móti að verða unnt að ljúka lagningu þeirra hraðbrauta, sem nú eru skráðar, á næstu þrem áætlunartímabilum, en að sjálfsögðu munu nýjar hraðbrautir bætast við, við aukningu umferðarinnar, svo að endanlegu marki er auðvitað ekki náð með þessu á neinn hátt með því að miða við þær tölur, sem nú er miðað við varðandi hraðbrautir. Á vegáætlun fyrir árin 1969—1972 og endurskoðun á þeirri áætlun fyrir árin 1971og 1972 voru alls veittar til hraðbrautaframkvæmda 492.6 millj. kr. Í þeirri áætlun, sem nú liggur fyrir, verða beinar fjárveitingar til hraðbrautaframkvæmda á tímabilinu 895.8 millj. kr., og er þá meðtalin hækkun á bráðabirgðavegáætlun fyrir árið 1972 úr 195.5 millj. í 245.8 millj. kr. Bein hækkun til hraðbrautaframkvæmda nemur því 403.2 millj. kr. eða um 82%.

Liðurinn 2.3.2—7 fjallar um þjóðbrautir, landsbrautir, girðingar og uppgræðslur. Um það vil ég aðeins fara örfáum orðum. Í bráðabirgðavegáætlun fyrir árið 1972 voru fjárveitingar á þessum liðum alls 187.3 millj. kr., en hækka á þessu ári í 215.5 millj. kr. Á síðasta ári áætlunarinnar hækka fjárveitingar á þessum lið í 288.9 millj. kr. eða um 54% frá fjárveitingu í bráðabirgðavegáætlun 1972. Alls eru beinar fjárveitingar í vegáætlun á þessum framkvæmdaliðum 982.3 millj. kr. á áætlunartímabilinu. Til viðbótar beinum fjárveitingum til þessara vegaflokka koma svo framkvæmdir fyrir lánsfé til Skeiðarársands, Austurlandsáætlunar og Norðurlandsáætlunar að upphæð alls 1.579.7 millj. kr. Verður því ekki annað sagt en að hér sé um mjög verulega aukningu framkvæmda að ræða miðað við fyrri vegáætlun, þó að tekið sé fullt tillit til verðlagshækkana, eins og sjálfsagt er.

Ég held, að það sé ekki bein ástæða til að fara miklu fleiri orðum um þetta frv., sem hér liggur fyrir, að vegáætlun fyrir árin 1972—1975, og væri þó hægt að tala um það langt mál, en þetta tel ég vera meginatriði, sem ástæða var til að skýra, og legg ég til, herra forseti, að till. verði, þegar þessari umr. lýkur, vísað til hv. fjvn.