09.05.1972
Sameinað þing: 65. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í D-deild Alþingistíðinda. (3799)

274. mál, vegáætlun 1972-1975

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Í skýrslu, sem hæstv. fjmrh. flutti hér fyrir nokkrum dögum um framkvæmda— og fjáröflunaráætlun ríkisins, er á það bent, að óskir og kröfur þjóðarinnar um opinberar framkvæmdir taki sífelldum breytingum, ekki sízt með tilliti til breytilegs og þá venjulega batnandi efnahags. Ég hygg, að það sé hv. þm. öllum ljóst, að þjóðin hefur á undanförnum árum gert sívaxandi kröfur til vegakerfisins og þá um leið til gatnakerfis í þéttbýli og muni vera leit að framkvæmdaflokki, sem hefur flutzt eins ört upp eftir óskalista þjóðarinnar. Mér finnst því ástæða til þess, þegar rætt er um vegáætlun fyrir árin 1972—1975, að byrjað sé á að gera sér grein fyrir því, hvernig þessum veigamikla þætti opinberra framkvæmda hefur verið sinnt af hálfu hæstv. ríkisstj. í samanburði við það, sem gert hefur verið á öðrum sviðum og í samanburði við heildaraukningu á t.d. framkvæmda— og fjáröflunaráætlun, þar sem flestir framkvæmdaflokkar eru taldir og þar sem fjár er aflað til þeirra.

Í þessari yfirlitsskýrslu fjmrh. kemur í ljós, að heildarfjárhæð framkvæmda– og fjáröflunaráætlunar hefur hækkað um 160% frá árinu 1971 til ársins 1972. Í þessari sömu skýrslu fjmrh. er í stuttum kafla um framkvæmdir við vegi og brýr sagt, að fjárframlög til þeirra hækki um 16% frá 1971—1972. Það er því ljóst, að heildarfjárhæð, sem aflað er til framkvæmda og skýrt hefur verið frá opinberlega hér á Alþ., hefur hækkað tíu sinnum meira á framkvæmda— og fjáröflunaráætluninni í heild en á þessum eina lið, sem að vísu er ekki á þeirri áætlun. Annars vegar er aukning um 160%, — á vegáætlun aðeins um 16%.

Mér finnst þetta gefa til kynna, að vegaframkvæmdir hafi ekki verið eins hátt skrifaðar hjá ríkisstj. í heild og allur þorri annarra framkvæmda, og mér finnst þetta benda eindregið til þess, að það hafi ekki verið staðið í ístaðinu nógu vel fyrir hönd vegaframkvæmdanna, þegar hæstv. ríkisstj. hefur gert það upp við sig, hvernig hún ætlaði að raða verkefnum, á hvað hún ætlaði að leggja áherzlu og hvað e.t.v. kynni að þurfa að bíða að einhverju leyti. Með tilliti til þess, að ég tel það tvímælalaust ósk og kröfu þjóðarinnar, að lögð verði stórfelld áherzla á vega— og brúarframkvæmdir, tel ég, að ríkisstj. hafi að verulegu leyti brugðizt því að auka framkvæmdir í vegamálum a.m.k. eitthvað í áttina til þess, sem heildaraukning er á öllum þeim framkvæmdaflokkum, sem eru á framkvæmda— og fjáröflunaráætluninni.

Þegar litið er á áætlun sem þessa, kemur fyrst til hugar, að erfitt sé að gera slíka áætlun, vegna þess að við vitum í raun og veru ekkert, hvernig verðlagsmálum verður háttað á þessu árabili. Það hefur þegar komið fram í umr., að allar líkur séu til þess, að vegavísitalan hækki stórkostlega þegar á þessu ári, og kann að vera, að allar þær tölur, sem við ræðum um, verði þegar orðnar úreltar eftir nokkrar vikur. Um þetta er að sjálfsögðu ekki hægt að sakast, hvorki við hæstv. ráðh. samgöngumála né þá, sem gert hafa áætlunina. Þegar kemur að þessu atriði, verður að ræða við ríkisstj. í heild um efnahagsstefnu hennar og hina miklu verðbólgu, sem er í landinu. En það er ljóst, að svo erfitt sem það er að jafnaði að gera áætlanir á Íslandi, vegna þess hve verðbólga hefur verið hér mikil, að meðaltali 11% á ári síðan 1950, þá hefur sjaldan á síðustu 25 árum verið eins erfitt að gera slíkar áætlanir og nú vegna þess, hvernig horfur eru í dýrtíðarmálunum.

Ef litið er til framkvæmda þeirra, sem síðasta ríkisstj. gekkst fyrir í vegamálum, tel ég tvímælalaust merkilegasta þá stefnu, sem hægt er að kalla hraðbrautastefnuna. Í lok stjórnartímabils síns fór síðasta ríkisstj. inn á þá braut að útvega stórfé til að gera framkvæmdir, sem tryggja okkur í fyrsta skipti hraðbrautir, sem hægt er að kalla því nafni, ef undanskilinn er Keflavíkurvegurinn. Þetta var tímabær stefnubreyting, og það var farið mjög myndarlega af stað. Fyrstu framkvæmdirnar hafa allar verið hér í kringum Reykjavík og út frá höfuðborginni. Ýmsir íbúar annarra landshluta hafa séð nokkrum ofsjónum yfir þessu og gagnrýnt það, en ég tel, að hafið sé yfir allan efa, að það var óhjákvæmilegt að byrja þessar framkvæmdir hér í nágrenni Reykjavíkur og láta þá vegi ganga fyrir, sem nú er verið að ljúka við eða verður lokið við á næstu tveimur misserum eða svo.

Þegar litið er á þá vegáætlun, sem hér liggur fyrir, verður ekki annað séð en að núv. ríkisstj. ætli að hverfa frá þessari stefnu. Það fé, sem veitt er til hraðbrauta samkv. þessari þál., á þegar á næsta ári, 1973, að lækka um 45.8 millj. frá því, sem áætlað er frá árinu í ár, síðan að vera óbreytt 1974 og fyrst árið 1975 á sú upphæð að komast aftur upp í það, sem hún væntanlega verður á þessu ári.

Hæstv. samgrh. hefur að vísu sagt, að ríkisstj. sé að rannsaka þessi mál, hún hafi ýmis áform, hún kunni að taka lán til að hraðbrautarframkvæmdum verði haldið áfram. En við alþm. verðum að taka þál. eins og hún liggur fyrir, og mér er spurn, hvers vegna er ekki hægt að gera áætlun um lántöku til hraðbrauta árin 1973, 1974 og 1975 alveg eins og hægt er að gera áætlun um stórfellda lántöku til einstakra framkvæmda, svo sem Skeiðarársands? Ef ríkisstj. væri alvara, átti hún auðvitað ekki að láta þetta plagg fara frá sér til Alþ. án þess að gera ráð fyrir einhverjum lántökum, og er þá vandalaust að skýra fyrir Alþ., að þessi lán hafi ekki fengizt, það sé ekki byrjað að vinna að öflun þeirra. Þetta er aðeins áætlun og yrði viljayfirlýsing um, að þau lán verði tekin.

Ég vil benda sérstaklega á það, að næstu hraðbrautarframkvæmdir verða alllangt frá Reykjavík. Ég vil benda hæstv. ráðh. á það sérstaklega, að nú eru komnir í hraðbrautatölu vegir fyrir austan Selfoss, vegir til Grindavíkur og fleiri staða á Reykjanesi, vegurinn frá Kollafirði, þar sem núverandi hraðbrautarframkvæmdir eiga að enda, alla leið fyrir Hvalfjörð, um Borgarfjörð og upp í Norðurárdal. Þessi vegur liggur ekki aðeins til Vesturlands, heldur til Vestfjarða, Norðurlands og Austurlands. Ég vil minna á það, að vegir í kringum Akureyri eru komnir í hraðbrautatölu og meira að segja einn vegarspotti hjá Ísafirði, frá Ísafirði út í Hnífsdal. Hygg ég, að sá bútur sé væntanlega hjarta ráðh. nærri, eins og ýmissa fleiri þm.

Ég vil því benda á, að framhald hraðbrautaframkvæmdanna verður allt annars eðlis og á allt öðru svæði en sú byrjun, sem óhjákvæmilega var gerð hér í kringum Reykjavík. Og einmitt vegna þess, að það eru nú önnur byggðarlög, sem hljóta að fá framkvæmdir á næstu árum, vil ég harma það, að samkv. áætluninni skuli vera dregið úr hraðbrautaframkvæmdum á sama tíma sem aðrar vegaframkvæmdir fá allmikla aukningu fjárveitinga. Stefnubreytingin er augljós, eins og hún kemur fram í þál. Hraðbrautirnar lækka og ná aftur tölunni frá 1972 eftir þrjú ár; þjóðbrautirnar hækka úr 94 millj. upp í 120 á tímabilinu, landsbrautirnar úr 76 millj. upp í 153. Þetta er greinileg stefnubreyting, ef marka má það plagg, sem hér liggur fyrir, en ég vil láta í ljós alveg eindregna von um það, að þessum áætlunaratriðum verði hreinlega breytt, meðan þál. er til athugunar, og hæstv. ráðh. láti áætlunartölur um lántökur til hraðbrautaframkvæmda inn í þessa áætlun.

Hæstv. ráðh. gerði ráð fyrir því, að ef ýtrustu vonir hans rættust um lántökur, yrði hægt að leggja á næsta áætlunartímabili með varanlegu slitlagi 1/3 af þeim vegum, sem nú eru komnir í hraðbrautatölu, þannig að núverandi hraðbrautir yrðu allar lagðar á næstu þrem tímabilum eða 12 árum. (Gripið fram í.) Átti ráðh. við tveggja ára tímabil? Jæja, það er strax skárra. Ég tók það svo, að átt væri við fjögurra ára tímabil, eins og þessa áætlun. Þó er heldur dauft að þurfa að segja fólki, að það sé engin von um suma af þessum vegum í næstu sex ár, jafnvel þó að ýtrustu vonir ráðh. rættust. Ég tel því, að það hefði átt að auka enn meira átakið í þessum efnum, og ég vil benda á, að þeir vegir, sem eru orðnir að hraðbrautum og verða það á næstu árum, eru slagæðar samgöngukerfisins um landshlutana miðja, sem íbúar þeirra allir og landsins alls njóta í meira eða minna mæli og koma atvinnulífinu að óviðjafnanlegum notum.

Í þessa áætlun eru teknar upp ýmsar framkvæmdir sérstaks eðlis, sem hingað til hafa ekki verið í vegáætlunum, og vil ég taka undir það, sem hér hefur komið fram, að ég tel það til bóta, að þetta skuli allt vera talið saman og menn geti fengið í þessari áætlun allt að því tæmandi yfirlit yfir þær vegaframkvæmdir, sem fyrirhugað er að vinna á næstu 2—4 árum.

Hér er framkvæmdaliður einn, sem hefur vakið sérstaka athygli mína, en það er Skeiðarársandur, hringvegurinn. Hæstv. ráðh. sagði lítið um þessa framkvæmd. Það segir í grg. mjög lítið um hana, og af einhverjum ástæðum höfum við aðeins tölurnar, sem eru í áætluninni, við að styðjast. Ég sé ekki betur en að miðað við framkvæmd vegarins á fjórum árum, eða a.m.k. greiðslur á fjórum árum, sé kostnaðurinn kominn upp í 640 millj. kr. eftir þessari áætlun og getur þá með hækkandi verðlagi sjálfsagt orðið töluvert meiri. Þetta kemur mér mjög á óvart, þó að hér sé um að ræða málefni, sem sjálfsagt nýtur fylgis alls þingsins og við teljum öll, að sé brýn nauðsyn fyrir þjóðina að hrinda í framkvæmd. Er óhjákvæmilegt, að menn staðnæmist, þegar það kemur í ljós, að verk, sem var áætlað rúmlega 200 millj., er allt í einu komið upp í 640 millj. í áætluninni, sem verður töluvert meira í hækkandi verðlagi. Þegar Jónas Pétursson fyrrv. alþm. flutti Skeiðarármálið á síðasta þingi, gerði hann ráð fyrir lántökum. 200 millj. kr., sem dreift væri á fimm ár. Og hann sagði í grg., að áætlunartölur væru ekki til um kostnað við þessar framkvæmdir, og væri því e.t.v. um ágizkunartölur að ræða. En víst er, að happdrættisfé mundi draga langt, að hringvegurinn opnaðist. Það er sýnilegt, að Jónas hefur trúað því — og við, sem þekkjum hann, vitum, að hann fer ekki með fleipur og segir ekki annað en það, sem hann veit sannast og bezt,—að þessi vegur mundi kosta um 200 millj. kr. Fjhn. hefur fjallað um frv. og mælti með samþykkt þess, án þess að gera nokkra aths. um kostnaðinn, svo að það verður að gera ráð fyrir því, að n. hafi ekki séð ástæðu til þess að rengja hugmyndir flm. um það.

Ég vil nú óska eftir því, að hæstv. ráðh. gefi þinginu nánari skýringar á þessu máli. Er það rétt, að núverandi áætlun sé upp á 640 millj. kr.? Ef svo er, finnst mér, að vinnubrögð okkar á Alþ. séu orðin losaraleg, ef við samþykkjum að vori framkvæmd í þeirri góðu trú, að hún muni kosta um 200 millj., en innan eins árs kemur í ljós, að hún kostar 640 millj., sem á eftir að hækka með hækkandi verðbólgu. Það er verkefni með slíkri áætlunargerð sem hér um ræðir að raða framkvæmdum eftir fjárhagslegri getu, og það má vel vera, að Austfirðingar hefðu viljað fá 640 millj. til einhverra annarra framkvæmda og láta þetta bíða í nokkur ár. Ef það er eftir sem áður einróma vilji þings að ráðast í þessa framkvæmd fyrir 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar, sem getur vel verið, þá verður sú ákvörðun a.m.k. að byggjast á réttum upplýsingum um það, hvað við erum að samþykkja. Ég vænti þess, að við fáum nánari skýringar. Ég segi þetta ekki af því, að ég hafi minni vonir og óskir um það, að þessi framkvæmd verði gerð og við fáum hringveginn, en hér er um mjög háar upphæðir að ræða, upphæðir, sem ekki er hægt að ganga fram hjá og nefna ekki, eins og gert er með hinni prentuðu grg. og eins og gert var í framsögu ráðherra.

Þá eru komnir inn á vegáætlun tveir nýir liðir, annar um vegaframkvæmdir samkv. Austurlandsáætlun og hinn um vegaframkvæmdir samkv. Norðurlandsáætlun. Það er í sjálfu sér mjög gott, að þessar áætlanir skuli vera settar inn í vegáætlun og hafðar þar. Það er óeðlilegt, að aðrir aðilar veiti fé til vegaframkvæmda og setji þær í gang við hliðina á sjálfu vegakerfinu. Þessar áætlanir eiga að vera hér. Því get ég út af fyrir sig fagnað.

En samkv. þáltill. um vegáætlun, sem hér liggur fyrir, virðist hæstv. ríkisstj. gera ráð fyrir, að á árunum 1972—1975 verði lagðar 300 millj. sérstaklega í vegi á Austurlandi samkv. Austurlandsáætlun og 600 millj. sérstaklega í vegi á Norðurlandi samkv. Norðurlandsáætlun. Það er ekki gert ráð fyrir vegaframkvæmdum samkv. öðrum landshlutaáætlunum, ekki á þessu plaggi.

Nú hefur Alþ. undanfarin ár rætt mikið um landshlutaáætlanir. Fyrir einum þremur árum var afgreidd á mjög jákvæðan hátt till., sem laut að Vesturlandsáætlun. Ég hygg, að þetta þing muni, áður en því lýkur, afgreiða tvær, ef ekki þrjár till. til viðbótar, sem sýna vilja og óskir þingsins um aðrar landshlutaáætlanir en þessar tvær. Og loks hefur mér skilizt á þingmönnum Vestfirðinga, að samgönguáætlun, sem er hluti af Vestfjarðaáætlun, sé alls ekki lokið og þar sé um að ræða framkvæmdir, sem þarf að ljúka. Þær eru hér ekki heldur. Nú er nýbúið að setja upp allmikla framkvæmda— og áætlunarstofnun, sem á að vinna að þessum málum, en henni hefur ekki á 3—4 mánuðum. sem hún hefur starfað, gefizt tækifæri til að láta verulega til sín taka. En það hlýtur að verða fyrsta verk hennar að rannsaka landið allt og gera sér á einhvern hátt grein fyrir því, eftir hverju eigi að fara, þegar við ákveðum, hvaða landshluti hefur þörf fyrir sérstakt framkvæmdaátak samkv. áætlun. Það má ekki vera háð pólitískum tilviljunum og ýmsu öðru í framtíðinni, hvernig þessu verður raðað. Nú vil ég ekki á nokkurn hátt draga úr nauðsyn þess, að Austfirðingar og Norðlendingar fái þær framkvæmdir, sem hér er um að ræða. En ég get ekki sætt mig við það, að Alþ. samþykki með vegáætlun, að verja eigi 300 millj. til Austfjarða og 600 millj. til Norðurlands, en ekki einum eyri í sambærilegar vegaframkvæmdir samkv. landshlutaáætlunum til neins annars hluta landsins. Þetta þykja mér vera með öllu ófær vinnubrögð, því að þetta jafngildir yfirlýsingu um, að í a.m.k. tvö ár, þangað til endurskoðun verður gerð, komi ekki fleiri verkefni til greina en þarna er um að ræða. Mér er það ljóst, að það er engan veginn auðvelt á þessu stigi að setja inn ákveðnar tölur um aðra landshluta. En ég held, að það væri þá hyggilegra að hafa heildarupphæð, eins háa og hægt er, til framkvæmda samkv. landshlutaáætlunum. Síðan yrði það að ákvarðast jafnóðum og málin lægju skýrar fyrir, hvernig því fé yrði skipt, þangað til sá tími kemur, sem vonandi verður innan skamms, að fyrir liggja áætlanir um allt landið og þá upplýsingar, sem gera okkur kleift að raða þessum áætlunum, athuga hvaða landshlutar þurfa mest á þeim að halda. Mundi ég telja, að atvinnuleysi væri mælikvarði, sem ætti að vega ákaflega þungt. Það ætti að taka út úr þau svæði, sem sýnilega eiga erfiðara í baráttunni gegn atvinnuleysinu en önnur, og ýmislegt annað þarf að taka til greina, þegar lagt er mat á það, hvernig á að raða þessum framkvæmdum. Ég vil benda á þetta, því að ég tel, að þm. annarra kjördæma, þar sem áhugi fyrir landshlutaáætlunum hefur verið mikill og sannanleg þörf er mikil, geti ekki við það unað, að framhjá öllu þessu sé gengið í áætlun, sem hljóðar upp á fjögur ár, jafnvel þó að hún verði endurskoðuð eftir tvö ár.

Herra forseti. Ég hef aðeins gert að umtalsefni nokkur attiði, sem má segja, að varði heildarsvip þessarar vegáætlunar. Þegar fjvn. hefur fjallað um áætlunina og leggur fram till. sínar, þá mun að sjálfsögðu gefast á ný tækifæri til þess að ræða nánar ýmis mál, einstaka vegi og einstaka landshluta. Ég mun því ekki gera það á þessu stigi, en vil vænta þess að lokum, að hæstv. ráðh. og n. sem fær þetta mál til athugunar, íhugi þau atriði, sem ég hef hér sérstaklega bent á.