09.05.1972
Sameinað þing: 65. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í D-deild Alþingistíðinda. (3811)

274. mál, vegáætlun 1972-1975

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður, en taka undir það, sem hæstv. forseti sagði. Forseti hefur gefið það á vald þm. sjálfra, hvort fundinum verður haldið áfram eftir matarhlé eða ekki, og þess vegna er ekkert óeðlilegt við þessa umr.

Það er aðeins fátt, sem ég hef ástæðu til að taka hér fram. Það hefur verið dálítið gaman að hlusta á þessar umr. Einn hv. þm. sagði hér áðan, að það væri gleðilegt, hvað framlög til þjóðbrauta og landsbrauta hækkuðu mikið. Framlag til landsbrauta og þjóðbrauta var samanlagt 1971 176.9 millj. kr. en 170.8 millj. í till. ríkisstj. fyrir árið 1972. Til brúa voru 1971 74.6 millj. en 61.5 millj. í till. En þess ber að geta, að það er gert ráð fyrir að skipta upp 74 millj. kr. þannig að þetta breytist. En frá þessu má draga í ár 9 millj. kr. verkstjórakostnað, sem færist á sérhvert verk, sem ekki hefur verið áður, og svo aukinn kostnað vegna hækkunar á vegagerðarkostnaði. Þegar þetta allt saman er tekið til greina, þá held ég, að það verði ekkert sérstaklega mikil hækkun. Mér skilst, að það sé um 16% hækkun á framlögum Vegasjóðs nú miðað við það, sem var á fyrra ári. En ég held, að það reikni allir með því, að kostnaðurinn við vegagerð hækki um 16% eða meira. Að vísu verða meiri lántökur vegna landsbrautaáætlana og annarra framkvæmda, og framkvæmdir kunna að aukast nokkuð vegna þess, en litið eða ekkert vegna aukins fjár í Vegasjóði. Þetta vildi ég aðeins minnast á.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. var að tala hér áðan um bifreiðafjöldann, og hann var að tala um framlög til hraðbrauta, það væri helmingurinn, sem færi í þessa 324 km af öllu vegafénu, skildist mér. En hraðbrautir eru nú nærri 400 km. eins og hæstv. samgrh, lýsti hér áðan, en ekki 324. Ég nenni ekki að vera að rökstyðja það, hvort þetta er rétt, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. sagði hér áðan í þessum samanburði, því að allir, sem lesa till., sjá, að það er ekki. En hitt er svo víst, að það eru 70% af bifreiðunum, sem aka meginhluta ársins yfir þessar hraðbrautir, og auðvitað fara þessi 70% bifreiða kannske einu sinni á ári eða svo, þó tæplega allar, norður í land eða vestur á land eins og norðlenzkar bifreiðar koma til Suðurlandsins. Svo er fyrir að þakka, að vegakerfið er þó ekki verra en svo, að menn aka sitt á hvað norður og suður, þótt þar standi allt til bóta.

Ég held nú satt að segja, að þó að ég hafi freistazt til þess að gera þennan samanburð í dag að nokkru, þó aðeins í fáum orðum, þá sé metingur í þessa átt raunverulega ekki hentugur, og fer ekki vel á því a.m.k. að eyða löngum tíma í hann.

Hæstv. samgrh. vildi ekki viðurkenna annað en að hallinn á vegáætluninni væri arfur frá fyrrv. ríkisstj. Við skulum lofa hæstv. ráðh. að kalla þetta arf. En spurningin er þá bara sú, hvort þetta sé eðlilegur eða óeðlilegur arfur. Það er aðeins halli frá árinu 1970, sem hér er um að ræða, en hallinn frá 1969 var greiddur með vegáætlun 1971. Og það, sem hefði þurft að gera nú, er að greiða upp hallann á árinu 1970, en eðlilegt, að hallinn frá 1971 bíði. Og það, sem hæstv. ráðh. var að tala um, að ætti að vinna upp á næstu tveimur árum, er í rauninni ekki gott, vegna þess að alveg eins má búast við, eins og fram hefur verið tekið, að það geti orðið halli á árinu 1972, enda þótt áætlun sé gerð eins nákvæmlega og samvizkusamlega og menn treysta sér til. Það má búast við þessu, sérstaklega af því að nú, eru verðbólgutímar.

Hæstv. ráðh. talaði um 60—80 millj. kr: tekjur, sem gætu orðið af hraðbrautum. Við vitum, að það eru um 18 millj. áætlaðar af hraðbrautinni á Reykjanesi. Það hefur verið gerð áætlun um hvað sams konar veggjald gæfi af Suðurlandsvegi, og það er gert ráð fyrir, að það sé um 10—11 millj. á ári. Það er nú ekki meira. Og það hefur verið gizkað á, en sú áætlun er ekki eins nákvæm, að af Vesturlandsveginum mætti fá 8—9 millj. Þannig er nú það, að þetta er ekki stór peningur tiltölulega.

Hæstv. samgrh. var að tala um það, að allir landsmenn stæðu undir lánsfjármagninu, sem tekið væri til hraðbrautanna. Þetta skulum við segja, að sé algerlega rétt. En skyldu ekki allir landsmenn standa undir þeim lánum, sem tekin eru til annarra framkvæmda, til landshlutaframkvæmda og annars slíks? Auðvitað. Allir landsmenn standa undir þessum lánum, standa undir kostnaði við vegagerðina, hvort sem það er í formi framlaga frá Vegasjóði eða hvort það eru lántökur. Það er ekki eðlilegt heldur að metast um þetta. Og þess ber að geta, að það eru nærri 2/3 þjóðarinnar í þeim héruðum, þar sem hraðbrautirnar eru.

Hæstv. ráðh. talaði um 50 millj. kr. fjáröflun sérstaklega og sagði, að fyrir henni yrði séð. Því trúi ég. Ef hæstv. ríkisstj. hefur komið sér saman um það að sjá fyrir því, þá þarf ekkert að efast um það. En hvort sem þessi lántaka verður innlend eða erlend, þá þarf hæstv. ríkisstj. að afla sér heimilda til þessara lána. Og það er það, sem ég var að vekja athygli á í dag, en ekki það, að mér fyndist nokkuð óeðlilegt við það, að þetta lán væri tekið. Og ég vil benda hæstv. ráðh. á það, að hvort sem þetta lán verður innlent eða erlent, þá þarf hann að útvega heimild fyrir lántökunni.

Hv. þm. Jón Skaftason viðhafði hérna nokkur orð um veggjaldið og um Reykjanesbrautina og hvernig það hefði komið til, að það væri óeðlilegt að hafa í lögum heimild til ráðh., úr hvaða flokki sem hann væri, til þess að leggja á veggjald. Þetta má vel vera. En ég vil benda á, að þegar veggjaldið var ákveðið, heimildin var ákveðin í vegalögum, þá lá það fyrir, að hún yrði notuð á Reykjanesbraut, og á meðan þetta veggjald hefur verið á brautinni, þá hefur alltaf verið þingmeirihluti fyrir því. Þess vegna er það nú, sem er tímabært að kanna það, hvort þingmeirihluti er fyrir því að halda þessu veggjaldi áfram eftir 1. jan. n.k. Það hefur alltaf verið þingmeirihluti fyrir því að taka þetta veggjald fram að þessu. Og um hv. þm. Jón Skaftason hafa sumir sagt, að hann hafi átt hugmyndina að því að taka upp veggjald á Reykjanesbraut, og hefur verið vitnað í ræðu, sem hann flutti 1960 um það efni, og tel ég, að hv. þm. þurfi ekki að bera neinn kinnroða fyrir það. Þá vil ég benda hv. þm. á það, að till. sú, sem hér er til meðferðar um það að afnema heimildina til að leggja vegskattinn á, er allt annað en það, hvort heimildin er notuð. Jafnvel þótt þessi heimild verði felld úr lögum, jafnvel þótt þessi till., sem flutt var í vetur, verði felld og heimildin verði látin standa í lögum, þá þarf það engin áhrif að hafa á það, þó að Alþ. samþykki það, að heimildin skuli ekki vera notuð. Út af fyrir sig skiptir það engu máli, hvort heimildin er til í lögunum. Það, sem skiptir máli, er það, að hún sé ekki notuð nema meiri hl. Alþ. sé með því hverju sinni.

Um reynsluna af veggjaldinu á Reykjanesbraut er náttúrlega ekki annað að segja en allt gott. Ástæðan til þess, að þetta var gert á sínum tíma, var, að þetta var eini góði vegurinn í landinu, eins og oft hefur verið sagt. Reyknesingar hafa notið þess í öll þessi ár að hafa eina góða veginn í landinu.

Það hefur verið spurt að því, hvers vegna ekki eigi þá að skattleggja veg nr. 2 og nr. 3, en rök hafa verið færð fyrir því, að það sé allt annars eðlis en meðan aðeins þessi eini vegur var, og hræddur er ég um það, að óeðlilega mikið færi í innheimtukostnað, óeðlilega stórt hlutfall, vetrarmánuðina hér á austurveginum, ef innheimtan ætti að standa allt árið, sem hún yrði að gera, ef á annað borð yrði byrjað á þessari skattlagningu.

Ég ætla svo ekki að tefja tímann meira að svo stöddu, það er þá tækifæri við síðari umr.