18.05.1972
Sameinað þing: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í D-deild Alþingistíðinda. (3819)

274. mál, vegáætlun 1972-1975

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Hér virðist vera ágreiningur aðeins um eitt atriði, veggjaldið. Nú stendur þannig á, að það hefur verið innheimt veggjald af Reykjanesbraut í nokkuð mörg ár, og ég held, að allir séu sammála um það, að þegar hliðstæðir vegir opnast í aðrar áttir út frá höfuðstaðnum, þá komi vart til mála að halda áfram gjaldheimtu á þessum eina vegi. En hitt greinir menn á um, hvort eigi þá að fella hana niður ellegar halda gjaldheimtu áfram og taka hana upp á öðrum vegum einnig. Ég held, að svo fremi sem það hafi verið á rökum reist á sínum tíma að taka gjaldið af Reykjanesbrautinni, þá eigi að færa gjaldheimtuna út nú, þegar fleiri vegir opnast hliðstæðir, sem raunverulega er hægt að taka gjald af. Ég er fylgjandi þessu af tveimur meginástæðum. Annars vegar þeirri augljósu ástæðu, að framkvæmdaþörfin og þar með fjárþörfin í vegamálunum er afskapleg. Það er okkur öllum ljóst. Hún er afskaplega mikil miðað við getu þjóðarinnar sem slíkrar. Og svo hitt, að það fer ekkert á milli mála, að vegir með sléttu yfirborði eins og Reykjanesbrautin og eins og austurvegurinn fer að verða eru feiknanlegur ávinningur fyrir þá, sem þá aka, svo að þar kemst í raun og veru enginn samanburður að. Ég ætla ekki að fara að vitna neitt í vegi í fjarska, í öðrum landshlutum. En ég minni bara á það ástand, sem var á austurveginum undir Ingólfsfjalli, í Ölfusinu og hér í Svínahrauninu og svo víða og víða á þeirri leið, sem var þannig, að vegurinn var nánast ókeyrandi með öllu. Þetta er svo mikill munur, að þarna kemst enginn samanburður að. Þess vegna finnst mér það ekki einasta forsvaranlegt, heldur eðlilegt, að reynt sé að afla nokkurs fjár til vegaframkvæmdanna með því að taka gjald af þessum nýju vegum. þegar þeir opnast til umferðar. Mér finnst það styðja að þessu einnig, þó að þessar séu tvær höfuðástæðurnar, að um þessar mundir fer mjög mikill hluti af vegafénu einmitt í það að byggja upp hraðbrautir á þessu svæði. Ég vil á engan hátt mælast undan því, að það sé gert, því að mér hefur verið það fyllilega ljóst, að það var algerlega óhjákvæmilegt. Vegirnir á þessum slóðum voru komnir með miklu meiri umferðarþunga en í nokkru landi er talið mögulegt að halda malarvegum færum með. Og þrátt fyrir það þó að þessari gjaldtöku verði haldið áfram og hún færð út, þá held ég, að það sé alveg útilokað að neita því, að það sé fjárhagslegur ávinningur að því til viðbótar við annan ávinning að fá vegina með sléttu yfirborði.

Ég vil líka benda á það í þessu sambandi, að það er auðvitað ekki verið að leggja þetta gjald eingöngu á fólkið, sem býr annars vegar við þessa vegi. Senn kemur hringvegur, og þá er ekki lengur hægt að tala um annars vegar við! En það gefur auga leið, að menn fara þessa vegi báðum megin frá, og annað hitt, að öll þjóðin á hér auðvitað leið um meira og minna, þó að þeir séu oftar á ferð, sem eru hér í nágrenninu. Ég er þess vegna algerlega andvígur því að fella niður innheimtu á veggjaldi nú og hlýt því að greiða atkv, á móti brtt. þeirri, sem hér er fram komin á þskj. 921 og lýst hefur verið, af þeim ástæðum, sem ég hef þegar drepið á.

Þá þykir mér einnig óeðlilegt og raunar ábyrgðarlítið að ætla að taka það fé, sem þannig fellur út af vegáætlun samkv, þessari brtt., einfaldlega með því að vísa á ríkissjóð á næstu árum. Mér finnst rétt að horfast í augu við tekjuöflunina á móti nú þegar, og ég vil leyfa mér að bera fram skrifl. brtt. við brtt. á þskj. 921 á þessa leið:

„1. Við tölulið 1. Í stað orðanna „Framlag úr ríkissjóði“ komi: „Af benzíngjaldi.

2. Við tölulið 2. Í stað orðanna „Framlag úr ríkissjóði“ komi: „Af benzíngjaldi.“

Í þessari till. felst aðeins þetta eitt, að í stað þess, að ríkissjóður taki við og fylli í það skarð, sem verður við það að hverfa frá innheimtu veggjaldsins, þá skuli þess aflað með benzíngjaldi og þá væntanlega með hækkun á benzíngjaldinu. Mér finnst það óeðlilegt, eins og ég sagði, að binda ríkissjóð þannig fram í tímann meira en gert er í till. eins og hún liggur hér fyrir frá n. Auðvitað er ríkissjóður bundinn fram í tímann með vissum hætti og vissum fjárhæðum. Og ég vil biðja hv. alþm. að íhuga það ögn nánar, hvort ekki er rétt að fara þá heldur þessa leið, ef það er vilji þingsins að fella niður gjaldheimtuna. Ég vil taka það fram, að með því er ég ekki að slá því föstu fyrir mína parta, að framlag ríkisins 1973, 1974 og 1975 skuli verða nákvæmlega það, sem hér segir í áætluninni. En mér finnst eðlilegt að bíða með það að binda ríkissjóði frekari bagga í þessu sambandi en gert er í vegáætluninni, eins og hún nú liggur fyrir í brtt. fjvn., bíða með það, þangað til þar að kemur, m.ö.o. í sambandi við afgreiðslu fjárlaga á þeim komandi árum.

Ég vil að lokum aðeins leggja áherzlu á það, að í minni brtt. felst þetta eitt, að fylla í skarðið, sem verður, ef samþykkt verður að fella niður veggjaldið á þennan hátt, fylla í það með benzíngjaldi, en ekki með því að vísa á ríkissjóðinn. Aðeins þetta eitt felst í mínum tillöguflutningi. Þess vegna er það, og það vil ég, að komi alveg skýrt fram, að þó að till. mín yrði samþ., þá hlyti ég í samræmi við það, sem ég hef nú þegar sagt, að vera á móti brtt. á þskj. 921. Ég teldi hana að vísu hafa batnað nokkuð við það, ef mín brtt. yrði samþ., en eigi að síður stæði eftir það aðalatriði í henni að hætta gjaldtökunni, og því er ég andvígur, eins og ég ætla, að fram hafi komið glöggt í þeim orðum, sem ég hef hér mælt.

Ég fjölyrði svo ekki frekar um þetta, en vegna þess að ekki hefur unnizt tími til að prenta brtt., þá vil ég afhenda hana hæstv. forseta og biðja hann að leita afbrigða fyrir henni.