18.05.1972
Sameinað þing: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í D-deild Alþingistíðinda. (3822)

274. mál, vegáætlun 1972-1975

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég skal vera mjög stuttorður. Ég vildi aðeins lýsa skoðun minni á þessu margumrædda veggjaldi. Ég hef víst gert það áður, en ætla aðeins að ítreka það.

Í stuttu máli sagt finnst mér, að þetta veggjald sé einhver allra vitlausasti skattur, sem upp hefur verið fundinn hér á landi, og mig furðar satt að segja á því, að allur þingheimur skuli hafa staðið að þessari ákvörðun. En í því felst kannske skýringin á því, að skatturinn hefur verið tekinn upp. Það má færa mörg rök fyrir þessari skoðun minni. Í fyrsta lagi er hér verið að mismuna bifreiðaeigendum eftir því, hvar á landinu þeir búa. Það er að vísu ekki í fyrsta skipti, sem mönnum er mismunað í skattlagningu. Það minnir mig t.d. á eitt ákvæði í nýlega samþykktum skattalögum. þar sem mönnum er mismunað eftir búsetu í skattlagningu hlunninda. Það má vel segja, að þarna sé um hliðstætt atriði að ræða.

Í öðru lagi hafa bifreiðaeigendur greitt í sköttum af bifreiðum og rekstrarvörum þeirra þúsundir milljóna á undanförnum árum umfram það, sem hefur farið til veganna á Íslandi. Þess vegna er ekki óeðlilegt, þó að ríkissjóður endurgreiði einhvern hluta af þessu, eins og gert er ráð fyrir í þessari till., sem hér liggur fyrir, þ.e. brtt. Ég held, að það megi líka segja, að þetta sé alveg sérstakt fyrirbrigði hér á landi, að einn vegur og það ríkisvegur sé með slíkum vegskatti. Mér er að vísu kunnugt um, að það þekkist í öðrum löndum, að ríkisvegir séu með slíkum veggjöldum, en það er mjög fátítt. Yfirleitt eru þetta einkavegir eða vegir, sem eru í eigu fyrirtækja eða stofnana. Þannig er þetta t.d. á Ítalíu, að flestar hraðbrautirnar, þar sem menn verða að greiða veggjöld, eru í eigu Vatíkansins, en ekki í eigu ítalska ríkisins.

Ég hef orðið var við það, að þm. utan úr dreifbýlinu eru fremur hlynntir því, að veggjald sé innheimt, og þá held ég, að þeir líti nú fullmikið til þess, að það er einkum hér í kringum Reykjavík, sem hraðbrautir eru, og þannig mun það verða á næstu árum. Ef einhver þm. Reykv. greiðir því atkv., að veggjald sé áfram innheimt, ekki bara hér á Suðurnesjaveginum, heldur líka á veginum austur fyrir fjall og væntanlega bráðlega á veginum vestur á land og norður, þá skil ég að vísu ekki þá pólitík. Mér sýnist, að þeir séu annaðhvort annarsvegar að. leggja átthagafjötra á sína kjósendur og hins vegar að stuðla að því, að þeir, sem vilja nú koma í heimsókn til Reykjavíkur, verða að greiða einhvern ákveðinn skatt til þess að fá að komast inn í borgina. Þetta finnst mér ekki raunhæft. Ég held, að menn verði að gera sér grein fyrir því og menn hljóta að gera sér grein fyrir því, að það er ekki hægt að leggja alla vegi í landinu slitlagi í einu. En það réttlætir það alls ekki, að þeir, sem njóta þessara góðu vega fyrst, þurfi að greiða eitthvað sérstaklega fyrir það. Það er komið skipulag á þessi mái. og vegirnir fá á sig slitlag eftir umferðarþunga. Þess vegna er það eðlilegt, að vegirnir hér í mesta þéttbýlinu fái fyrst slitlag.

Ég vil benda mönnum á, að það væri rétt, að menn athuguðu afleiðingarnar af því, ef allir vegir hér í nágrenni Reykjavíkur verða svona skattaðir. Hvað haldið þið, að það þýði t.d. í vöruverði? Hugsið ykkur alla flutninga hingað til Reykjavíkur og héðan frá Reykjavík. Við skulum taka alla mjólkurflutningana austan að, og við skulum taka fiskflutninga hér um Reykjanesbraut. Við getum líka tekið dæmi um þá miklu flutninga, sem eiga sér stað á byggingarefni hingað til borgarinnar. Þannig hefur þetta ófyrirsjáanlegar afleiðingar. ef ekki verður hægt að komast inn í borgina eða út úr henni öðruvísi en að greiða stórfé fyrir.

Þá er eitt enn, sem ég vil leggja sérstaka áherzlu á, og það er. hversu dýr innheimta þessa skatts er. Þar held ég, að öll met séu slegin. Samkv. skýrslu samgrh. um framkvæmd vegáætlunar er gert ráð fyrir, að innheimta 1971, ég veit ekki, hvað hún hefur orðið, en í áætluninni eru það 4 millj. kr., þ.e. um 20% innheimtukostnaður af þessum skatti. Auðvitað verður innheimtukostnaðurinn sá sami við austurveginn, þó að tekjurnar af honum verði miklu minni, sem þýðir prósentuvís miklu hærri innheimtukostnaður. Eftir skamman tíma hlýtur þá að koma skattur líka á Vesturlandsveginn, eins og ég sagði. Þar er umferðin enn þá minni. Innheimtukostnaður á þessum þremur stöðum verður þá væntanlega um 12 millj. kr. á ári miðað við verðlag 1971. Það hlýtur hver maður að sjá, hvers konar endemis vitleysa er hér á ferðinni. Það má að vísu fjölga ríkisstarfsmönnum með því að koma upp slíkum gjaldskýlum sem allra víðast á landinu. Þetta hlýtur þá að koma fljótlega á Akureyri, ef menn ætla að hafa samræmi í vitleysunni. Þess yrði kannske ekki langt að bíða, að þetta kæmi einnig nálægt Egilsstöðum, og svo mætti lengi telja. Ég vona, að menn athugi þessi mál gaumgæfilega og komist að þeirri niðurstöðu, að till. á þskj. 921 sé sú eina skynsamlega.